Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1013/2002

20.6.2002

Hönnunarsamkeppni - verðlaun - virðisaukaskattur.

20. júní 2002
G-Ákv. 02-1013

Ríkisskattstjóri hefur móttekið fyrirspurnarbréf yðar, dagsett 16. apríl 2002 og ítrekun dagsetta 5. júní 2002, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort leggja skuli virðisaukaskatt á verðlaunafé í almennum og opnum hönnunarsamkeppnum sem efnt er til í samvinnu við A Í bréfi yðar er sérstök áhersla lögð á eftirfarandi:

  1. Verðlaunaðar tillögur sem útbjóðendur eignast að samkeppni lokinni hafa ekki hagnýtt gildi fyrir útbjóðendur sem slíkar. Samkeppnisformið er öllu fremur aðferð fyrir útbjóðendur til þess að velja sér góða hönnuði. Dregið er í efa að verðlaunaðar tillögur geti talist raunverulegt endurgjald.
  2. Verðlaun í almennum samkeppnum (á einnig við um blandaðar og tveggja þrepa keppnir) eru fyrst og fremst viðurkenning fyrir góða tillögu höfunda. Verðlaun eru ekki laun fyrir ákveðið vinnuframlag. Verðlaunafjárhæðin hefur engin áhrif á þóknun sem fæst fyrir að vinna verkið og verðlaun teljast aldrei vera hluti af endurgjaldi vegna hönnunar.
  3. Sambærilegar samkeppnir eru haldnar meðal annarra listamanna s.s. myndlistarmanna og fleiri. Verðlaun þeirra bera ekki virðisaukaskatt skv. upplýsingum frá B. A er eitt af aðildarfélögum B og því er spurt af hverju arkitektar sitji ekki við sama borð og aðrir í B hvað virðisaukaskatt á verðlaun í almennum og opnum samkeppnum varðar.
  4. Þátttakendur í almennum og opnum samkeppnum sem haldnar eru á vegum A eru að hluta til aðilar sem ekki eru með virðisaukaskattsskylda starfsemi hér á landi, s.s. námsmenn, launþegar og erlendir þátttakendur.

Í tilefni af skrifum yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vöru eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988.

Í 2. gr. samkeppnisreglna A, sem hefur að geyma reglur varðandi tegund og tilhögun samkeppni, segir að tegund samkeppni sé tvenns konar. Annars vegar framkvæmdakeppni, þar sem útbjóðandi leitar eftir höfundi og tillögu til útfærslu, og hins vegar hugmyndakeppni, þar sem útbjóðandi er fyrst og fremst að lýsa eftir grundvallarhugmyndum til lausnar ákveðins viðfangsefnis, en útfærsla þarf ekki nauðsynlega að vera fyrirhuguð í framhaldi af keppni. Tilhögun samkeppni getur verið með fernum hætti: 1) almenn keppni, sem opin er öllum þeim, er uppfylla skilyrði keppnislýsingar; 2) boðskeppni, þar sem einungis keppa boðnir þátttakendur, sem nafngreindir eru í keppnislýsingu. Keppendur skulu valdir í opnu forvali; 3) blönduð keppni, þar sem almenn keppni og boðskeppni eru fléttaðar saman með því að bjóða nokkrum þátttakendum, en heimila jafnframt almenna þátttöku; 4) tveggja þrepa keppni, þar sem seinna þrepið er framhaldskeppni valinna tillagna úr fyrra þrepi.

Í 15. gr. samkeppnisreglna A, sem hefur að geyma reglur um eignarétt, höfundarétt og afnotarétt, segir að útbjóðandi eignist verðlaunaðar og keyptar tillögur. Þátttakendur halda höfundarrétti að hugmyndum sínum. Þeim sem falin er framhaldsvinna eftir samkeppni, er því aðeins heimilt að nýta sér hugmyndir úr verðlaunuðum og keyptum tillögum, að hann sé sjálfur höfundur slíkrar tillögu. Til þess að nota verðlaunaða tillögu í heild eða að verulegu leyti, þarf samþykki viðkomandi höfunda. Öllum öðrum tillögum skal skila höfundum strax að lokinni sýningu.

Í bréfi yðar takið þér m.a. fram, undir liðum 1 og 2, að verðlaunaðar tillögur hafi ekki hagnýtt gildi fyrir útbjóðendur sem slíkar og dragið í efa að verðlaunaðar tillögur geti talist raunverulegt endurgjald. Verðlaunin séu ekki laun fyrir ákveðið vinnuframlag heldur fyrst og fremst viðurkenning fyrir góða tillögu. Vegna þessa vill ríkisskattstjóri taka fram að almennt er litið svo á að ekki beri að innheimta virðisaukaskatt af styrkjum, gjöfum og/eða verðlaunum þegar þau eru veitt án sérstaks endurgjalds. Í ljósi samkeppnisreglna A er ljóst að hvort sem um framkvæmda- eða hugmyndakeppni er að ræða, og hvort sem um almenna, blandaða, tveggja þrepa eða boðskeppni er að ræða, eignast útbjóðandi verðlaunaðar tillögur. Eins og þér bendið á í bréfi yðar efna útbjóðendur einatt til samkeppni í þeim tilgangi að velja sér góða hönnuði. Fyrir tillögur sem berast og eru útbjóðendum að skapi greiða þeir tiltekna fjárupphæð og eignast aftur á móti tillöguna, þ.e. allar teikningar og líkön. Meginatriðið er að höfundur fær tiltekna fjárhæð gegn því að útbjóðandi eignast tillöguna. Það er álit ríkisskattstjóra að þegar útbjóðandi eignast verðlaunaðar tillögur, teikningar og líkön af tillögum verðlaunahafa, beri hönnuðinum að telja endurgjaldið/verðlaunin til skattskyldrar veltu sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988.

Vegna ummæla yðar í 3. lið vill ríkisskattstjóri taka fram að samkvæmt 12. tl 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Undanþáguákvæði þetta hefur þá þýðingu að sala rithöfundar á útgáfurétti ritverks og sala tónskálds á útgáfurétti eða flutningsrétti tónverks er undanþegin virðisaukaskatti. Þá er sala listamanna á eigin listaverkum, sem falla undir tiltekin tollskrárnúmer, undanþegin virðisaukaskatti sbr. 2. tl. 4. gr. laga nr. 50/1988 og sala þeirra á birtingarrétti eða notkunarrétti þessara listaverka er undanþegin skv. 12. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Sala arkitekta á arkitektaþjónustu þ.m.t. af þóknun fyrir rétt til að nota teikningar, verklýsingar og aðrar forsagnir um mannvirkjagerð og sala þeirra á uppdráttum og/eða líkönum til notkunar í húsagerð fellur hvorki undir 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. né 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988.

Vegna ummæla yðar í 4. lið vill ríkisskattstjóri taka fram að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988 skal hver sá sem skattskyldur er skv. 3. gr. ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem hann er heimilisfastur. Þeir aðilar sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 220.000 kr. á ári eru þó undanþegnir skattskyldu sbr. 4. gr. sömu laga.  Varðandi erlenda aðila sem selja hér á landi vöru eða skattskylda þjónustu, þá eru þeir skráningarskyldir skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, líkt og íslenskir aðilar. Hafi hinn erlendi aðili ekki starfsstöð hér á landi, hvílir skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð á umboðsmönnum og öðrum sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Hafi hinn erlendi aðili ekki umboðsmann eða fyrirsvarsmann hér á landi og vanrækir að tilkynna til skattstjóra um starfsemi sína ber kaupandi þjónustunnar ábyrgð á virðisaukaskattsskilum hins erlenda aðila vegna þeirrar þjónustu sem hann er kaupandi að, sbr. 3. mgr. 8. gr. nefndrar reglugerðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum