Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1009/2002

29.5.2002

Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði - lögbýli - sumarhúsnæði.

29. maí 2002
G-Ákv. 02-1009

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 30. nóvember og 4. desember 2001, þar sem þér óskið eftir nánari túlkun ríkisskattstjóra á 2. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, þ.e. hvort endurgreiða skuli 60% virðisaukaskatt vegna vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað vegna húsnæðis á lögbýli þegar búskapur hefur verið lagður af.  

Í bréfum yðar kemur fram að það sé orðið algengt að einstaklingar kaupi jarðir sem komnar eru í eyði og leggi í endurbætur á þeim húsakosti sem fyrir er eða byggi sér ný hús. Þar sem nýju/endurbættu húsin eru í flestum tilvikum mjög vönduð þá er ekki loku fyrir það skotið að menn geti átt þar fasta búsetu allt árið um kring. Þá spyrjið þér hvort það feli ekki í sér mismunun að heimila einstaklingum endurgreiðslu vegna húsnæðis á lögbýlum þegar þeir nota slík húsnæði eingöngu sem sumarhúsnæði en synja öðrum um endurgreiðslu vegna sumarhúsnæðis innan skipulags sumarbúststaðarlands. Í þessu sambandi takið þér fram að þér teljið það ekki vera sambærilegt þegar félagasamtök eiga íbúðarhúsnæði í þéttbýli, þó svo að enginn búi í því að staðaldri og enginn eigi þar lögheimili, og þegar einstaklingar kaupa sér lögbýli í dreifbýli til að nota sem sumardvalarstað. Að lokum takið þér það fram að þó búskapur sé ekki lengur stundaður á lögbýlum þá heldur jörðin áfram að vera skráð lögbýli í skrám Fasteignamats ríkisins, þó svo að byggingarfulltrúi hafi aðeins veitt leyfi til bygginga á sumarbústað.

Til svars við fyrirspurn yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram: 

Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, skal endurgreiða 60% virðisaukaskatts sem annars vegar byggjendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt vegna vinnu á byggingarstað og hins vegar sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis.

Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvernig landareign, þar sem fasteign stendur, er skráð. Þó að jörð sé skráð lögbýli þá gefur slík skráning ekki sjálfkrafa rétt til endurgreiðslu. Til að endurgreiðsla komi til greina verður á landareign að vera fasteign og sú fasteign verður að teljast íbúðarhúsnæði í skilningi 2. mgr. 42. gr. laganna, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 449/1990.

Skilgreiningu á hugtakinu íbúðarhúsnæði er hvorki að finna í lögum nr. 50/1988 né reglugerð nr. 449/1990. Í skattframkvæmd hefur hér verið miðað við að til íbúðarhúsnæðis teljist heilsársíbúð í eftirgreindum skilningi: Húsnæði sem sé byggt samkvæmt skipulagi sem íbúðarhúsnæði, þ.e. við byggingu ætlað til samfelldrar notkunar á öllum tímum árs (sjá bréf ríkisskattstjóra ákv. 242/1991, 262/1991, 287/1991 og 386/1992), það sé skráð sem íbúðarhúsnæði í skrám Fasteignamats ríkisins (sjá bréf ríkisskattstjóra ákv. 858/1998 og alm. 16/1998) og gæti gengið kaupum og sölum sem slíkt (sjá bréf ríkisskattstjóra ákv. 737/96). Skiptir hér ekki máli þótt húsnæði sé ekki í reynd notað til samfelldrar notkunar, þ.e. húsnæði sem telst íbúðarhúsnæði í skilningi laganna og reglugerðarinnar telst áfram íbúðarhúsnæði þó að það sé aðeins notað sem sumardvalarstaður.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 449/1990 kemur fram að endurgreiðslan tekur m.a. hvorki til orlofshúsa né sumarbústaða. Þannig er ekki endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu við hefðbundna sumarbústaði í dreifbýli (bústaði sem skipulagðir eru og byggðir í því skyni að dveljast þar hluta úr ári) eða orlofsbyggðir félagasamtaka í dreifbýli. Ákvæði 2. gr. kemur þó ekki í veg fyrir að menn fái endurgreiðslu vegna heilsársíbúða, sbr. skilgreininguna að ofan, sem þeir kunna að eiga umfram það húsnæði þar sem þeir eiga lögheimili sitt. Þá geta t.a.m. félagasamtök fengið endurgreiðslu vegna heilsársíbúða í þeirra eigu.

Ríkisskattstjóri telur ákvæði 2. gr. ekki fela í sér mismunun enda er ekki hægt að leggja íbúðarhúsnæði og sumarhúsnæði að jöfnu. Í fyrsta lagi er í byggingarreglugerð nr. 441/1998 gerðar meiri kröfur til íbúðarhúsnæðis en sumarhúsnæðis, sérstaklega hvað varðar innra skipulag. Í öðru lagi er gjaldtaka sveitarfélaga og ríkissjóðs, sem og skylda þeirra til að veita tiltekna þjónustu, mismunandi eftir því hvort um íbúðarhúsnæði eða sumarhúsnæði er að ræða. Sem dæmi þá er stofn til álagningar fasteignaskatts ekki sá sami fyrir íbúðarhúsnæði og sumarhús, sbr. lög nr. 30/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Að sama skapi er ríkisvaldinu skylt að leggja vegi að íbúðarhúsnæði þar sem búið er allt árið (sk. safnvegi) en ekki að sumarhúsum (sk. einkavegir), sbr. vegalög nr. 45/1994. Ef húsnæði telst íbúðarhúsnæði í skilningi virðisaukaskattslaganna og reglugerðar nr. 449/1990 þá verður, með tilliti til jafnræðissjónarmiða, að heimila endurgreiðslu óháð því hvort húsnæðið er staðsett í þéttbýli eða dreifbýli. Sem dæmi þá eiga einstaklingar því jafnan rétt á endurgreiðslu vegna íbúðarhúsnæðis sem þeir eiga í þéttbýli sem og í dreifbýli.

Fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins byggir á upplýsingum frá byggingarnefndum sveitarfélaganna. Áður en hafist er handa við að byggja nýtt hús eða gera verulegar endurbætur á húsnæði þá þarf byggingarleyfi, sbr. 36. og 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þegar byggingarnefnd veitir heimild til byggingar og endurbóta íbúðarhúsnæðis eða sumarhúsnæðis þá ber henni að tilkynna um slíkt til Fasteignamats ríkisins, sbr. lög nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna. Að sama skapi ber nefndinni að tilkynna um breytingar á heiti fasteignar. Ef byggingarnefndir vanrækja þetta tilkynningarhlutverk sitt þá getur það leitt til þess að fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins byggir á úreltum upplýsingum.

Ef, við afgreiðslu á endurgreiðslubeiðni skv. reglugerð nr. 449/1990 vegna nýbyggingar eða verulegra endurbóta, leikur grunur á því að skráning fasteignar hjá Fasteignamati ríkisins byggi á úreltum upplýsingum þá er rétt að fara fram á það við endurgreiðslubeiðanda að hann leggi fram afrit af byggingarleyfi. Komi þá í ljós að byggingarleyfið mælir fyrir um byggingu annarrar tegundar húsnæðis en skráð er hjá Fasteignamati ríkisins þá ræðst endurgreiðslurétturinn skv. reglugerð nr. 449/1990 á efni byggingarleyfisins. Það athugist að hér er einungis átt við um þau tilvik þegar húsnæði er skráð íbúðarhúsnæði hjá Fasteignamati ríkisins en byggingarleyfi, sem gefið er út eftir síðustu skráningu hjá Fasteignamatinu, sýnir annað. Í þeim tilvikum þegar framkvæmdar eru minniháttar endurbætur á húsnæði, sem ekki þarf byggingarleyfi fyrir, þá ætti ekki að þurfa að leika neinn vafi á skráningu húsnæðisins hjá Fasteignamatinu.

Vert þykir að taka það fram að þegar húsnæði er ekki skráð íbúðarhúsnæði hjá Fasteignamatinu þá er endurgreiðslu synjað án frekari rannsóknar, enda er skv. framansögðu, ein af forsendum endurgreiðslu skv. reglugerð nr. 449/1990 að húsnæði sé skráð íbúðarhúsnæði hjá Fasteignamati ríkisins.

Að lokum er í bréfum yðar óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvernig afgreiða eigi endurgreiðslubeiðni tiltekins aðila. Skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1994 er einstaklingum heimilt að kæra afgreiðslu skattstjóra, á málum sem eiga undir reglugerð nr. 449/1990, til ríkisskattstjóra. Af þeim sökum telur ríkisskattstjóri sér ekki fært að taka afstöðu til þessa máls á meðan það er til afgreiðslu hjá skattstjóra.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum