Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 994/2001

12.12.2001

Virðisaukaskattur - skattaleg meðferð leigutekna af vörumerkjum og lénum

12. desember 2001
G-Ákv. 01-994

Ríkisskattstjóra barst þann 26. október 2001 bréf yðar þar sem þér óskið leiðbeininga um skattalega meðferð leigutekna af vörumerkjum og lénum. Í bréfinu segir meðal annars:

 "Umbjóðendur mínir eiga vörumerki og lén persónulega, þeir starfa hins vegar ekki við málefni tengd leigu slíkra réttinda heldur reka þeir eigin fyrirtæki þar sem þeir stunda fullt starf. Vörumerki þessi og lén ætla þeir að leigja til eins fyrirtækis. Fyrir það greiðir fyrirtækið 7% af árlegri veltu. Sameignarfélag, sem er ósjálfstæður skattaðili, sér um að leigja vörumerkin til fyrirtækisins og miðla greiðslunum til eigendanna."

Til svars við fyrirspurn yðar, að því leyti sem hún varðar virðisaukaskatt, skulu eftirfarandi meginatriði tekin fram:

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær skattskyldusvið virðisaukaskatts til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og einnig til allrar vinnu og þjónustu hverju nafni sem nefnist að því undanskyldu sem talið er upp í 3. mgr. sömu greinar. Leiga á vörumerkjum og lénum er ekki tilgreind í 3. mgr. 2. gr. og fellur því undir skattskyldusviðið. Í fyrirspurn yðar segir að sameignarfélag, sem ekki er sjálfstæður skattaðili, muni sjá um útleiguna og að miðla greiðslum til eigenda. Í 3. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um það hverjir eru virðisaukaskattsskyldir, þ.e. skyldir til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Í 1. tölul. 1. mgr. greinarinnar kemur fram sú meginregla að skattskylda hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vörur eða verðmæti, ellegar innir af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Reglan er nánar útfærð í 1. málsl. 5. mgr. 5. gr. laganna og í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Skattskyldan tekur jafnt til manna og lögpersóna, þ.m.t. sameignarfélaga og það óháð því með hvaða hætti tekjur og eignir sameignarfélaga eru skattlagðar skv. lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Undanþegnir skattskyldu skv. 3. gr. laga nr. 50/1988 eru þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 220.000 kr. á ári, sbr. 3. tölul. 4. gr. sömu laga. Virðisaukaskattsskyldir aðilar skulu ótilkvaddir tilkynna starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra eigi síðar en átta dögum áður en hún hefst, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988 og 1. gr. reglugerðar nr. 515/1996.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum