Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 993/2001

6.12.2001

Virðisaukaskattur - sala á fjarskiptaþjónustu gegnum gervitunglakerfi

6. desember 2001
G-Ákv. 01-993

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 20. febrúar 2001, þar sem óskað er eftir túlkun ríkisskattstjóra á því hvort og þá hvernig A skuli leggja virðisaukaskatt á fjarskiptaþjónustu sem veitt er í gegnum Inmarsat gervitunglakerfið.

Í bréfi yðar kemur fram að Inmarsatkerfið var upphaflega þróað til nota fyrir sjófarendur. Sendingar gegnum Inmarsatkerfið verða alltaf að fara í gegnum eitt af gervitunglum Inmarsat. Sendingar frá skipi á hafi úti fara beint frá Inmarsattæki skips upp í eitthvert Inmarsatgervitungl og þaðan niður í jarðstöð og svo eftir venjulegum leiðum til viðtakanda í landi. Sendingar frá landi fara eftir sömu leiðum en í gagnstæða átt. Einnig kemur fram að mismunandi fyrirkomulag er á innheimtu A á þessari þjónustu eftir því um hvaða jarðstöð þjónustan fer. Þau sambönd sem fara í gegnum jarðstöðina Eik í Noregi  eru verðlögð af A í dollurum og svo er Eik greitt fyrir sinn hlut. Þegar um aðrar jarðstöðvar er að ræða er fær A reikning frá viðkomandi jarðstöð, leggur á 15% innheimtuþóknun og rukkar hina íslensku viðskiptavini. Loks segir í bréfi yðar að ekki hafi verið lagður virðisaukaskattur á þennan hluta þjónustu A en hins vegar hafi verið lagður virðisaukaskattur á Inmarsatþjónustu sem á upphaf sitt í hinu almenna símkerfi til Inmarsatstöðva. Í símtali við B, starfsmann A, fengust þær upplýsingar að fyrirspurnin varðar eingöngu sölu á Inmarsatþjónustu til aðila sem hafa búsetu eða starfsstöð á Íslandi.

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum. Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. sömu laga. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vöru eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988.

Fjarskiptaþjónusta er þess eðlis að erfitt er að skera úr um afhendingarstað með hefðbundnum hætti, enda má segja að afhending hefjist á einum stað og ljúki á öðrum oft í öðru landi. Í 12. gr. laga nr. 50/1988 er talin upp vara og þjónusta sem ekki telst til skattskyldrar veltu. Þar segir í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. að þjónusta sem veitt er erlendis teljist ekki til skattskyldrar veltu. Í sama ákvæði er sérstaklega tekið fram að fjarskiptaþjónusta teljist ekki vera veitt erlendis ef kaupandi hefur annaðhvort búsetu eða starfsstöð hér á landi. Sala A á fjarskiptaþjónustu til aðila sem hafa annaðhvort búsetu eða starfsstöð á Íslandi er því ávallt virðisaukaskattskyld.

Rétt er að geta þess að skv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988 skal sá sem kaupir skattskylda fjarskiptaþjónustu frá öðrum ríkjum ótilkvaddur gera grein fyrir þeim kaupum á sérstakri skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skila henni ásamt greiðslu til innheimtumanns. Þetta gildir þó ekki um þá aðila sem geta fært kaupin að fullu til innskatts, sbr. 2. mgr. 35.gr.  Ef erlent fjarskiptaþjónustufyrirtæki innheimtir virðisaukaskatt af þjónustu sem það selur til aðila með búsetu eða starfsstöð á Íslandi þá byggir sú innheimta á þeim lögum sem gilda í heimalandi hins erlenda fyrirtækis.  Hugsanlega ætti þá íslenski aðilinn rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts, en um það fer eftir lögum viðkomandi ríkis.

Samkvæmt ofanrituðu er sala yðar á fjarskiptaþjónustu, sem veitt er í gegnum Inmarsat gervitunglakerfið, virðisaukaskattsskyld svo fremi kaupandi þjónustunnar er annaðhvort með búsetu eða starfsstöð hér á landi.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum