Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 987/2001

12.11.2001

Virðisaukaskattur við sölu á uppboði - reikningseyðublöð - skattverð.

12. nóvember 2001
G-Ákv. 01-987

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 23. febrúar 2001, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á nokkrum atriðum er varða meðferð virðisaukaskatts við sölu á uppboði. Í grófum dráttum má flokka fyrirspurn yðar í tvennt þ.e. í fyrsta lagi er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvernig "kvittanaeyðublöð" sýslumanna, vegna sölu á uppboði, skuli líta út. Í öðru lagi eru í bréfi yðar sett fram dæmi um mismunandi ákvörðun skattverðs virðisaukaskatts og óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvaða aðferð sé rétt í þeim efnum.

Söluskráning.

Í 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er kveðið á um hverjir eru virðisaukaskattsskyldir, þ.e. skyldir til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Í 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. er sérstaklega tiltekið að slík skylda hvíli á uppboðshöldurum. Í 20. og 21. gr. sömu laga og í II. kafla reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, er kveðið á um skyldur virðisaukaskattsskyldra aðila varðandi tekjuskráningu. Í 1. mgr. 20. gr. laganna og 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram sú meginregla að við sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu skuli seljandi gefa út sölureikning. Kveðið er á um form slíkra reikninga í 2. mgr. 20. gr. laganna og í 4. gr. reglugerðarinnar. Lögákveðnar aðferðir við söluskráningu, sem víkja frá meginreglunni, eru skráning í sjóðvél, notkun gíróseðla og útgáfa afreikninga. Fyrirspurnin sem hér er til meðferðar gefur ekki tilefni til umfjöllunar um þær aðferðir.

Sölureikning skal gefa út í síðasta lagi við afhendingu vöru eða þjónustu. Ekkert er því til fyrirstöðu að sölureikningur sé gefinn út fyrr. Ef söluverð er greitt að fullu eða að hluta fyrir afhendingu, án þess að sölureikningur sé gefinn út samhliða, skal móttakandi greiðslu gefa út kvittun til greiðanda, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna og 7. gr. reglugerðarinnar. Útgáfa slíkrar kvittunar leysir seljanda ekki undan skyldu til útgáfu sölureiknings í síðasta lagi þegar afhending hins selda fer fram. Þá er vert að geta þess að kvittun í framangreindum skilningi telst ekki fullnægjandi til sönnunar innskatti, sbr. 4. mgr. 15. gr. laganna nr. 50/1988 og 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar nr. 50/1993.

Framangreindar reglur taka jafnt til uppboðshaldara sem annarra virðisaukaskattsskyldra. Skyldan til útgáfu sölureiknings er óháð því hvort seljandinn er eigandi söluvöru eða ekki. Þannig ber t.d. umboðs- eða umsýslumanni að gefa út í eigin nafni sölureikning við afhendingu vöru, þrátt fyrir að varan sé ekki í hans eigu heldur umboðs- eða umsýsluveitanda, enda telst sala eða afhending á vöru sem seld er í umsýslu- eða umboðssölu til skattskyldrar veltu umboðs- eða umsýslumanns, skv. 2. mgr. 11. gr. sbr. 4. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988

Skattverð.

Í bréfi yðar eru sett fram dæmi um ákvörðun skattverðs í virðisaukaskatti vegna sölu á uppboði. Fram kemur m.a. að þeirri reglu sé fylgt við embætti yðar að ef heildarkaupverð vegna sölu er t.d. kr. 800.000 þá séu fyrst dregin frá sölulaun kr. 40.000 og síðan kostnaður við uppboðið sem t.d. gæti verið kr. 16.000. Eftir standa þá kr. 744.000 sem greiðast út og innskattur kaupanda myndi þá verða kr. 146.419. Síðan segir að ástæðan fyrir þessari reglu hjá embætti yðar sé ekki síst sú að talið sé óeðlilegt að kaupendur fái greiddan innskatt af kostnaði embættisins við að halda uppboð og innskatt af greiddum sölulaunum til ríkissjóðs.

Yður hefur áður verið sent bréf ríkisskattstjóra, dags. 7. febrúar 1990 (tilv. 14/90), þar sem fjallað er um virðisaukaskatt við sölu á uppboði. Þar kemur fram sú regla að skattverð við sölu á uppboði skuli vera uppboðsverðið að meðtöldum sölulaunum eða innheimtulaunum og öllum öðrum kostnaði sem kaupandi kann að verða krafinn um vegna sölunnar. Er sú aðferð við ákvörðun skattverðs í samræmi við ákvæði 7. gr. laga nr. 50/1988. Í bréfi, dags. 12. febrúar sl. (tilv. 970/01), gerði ríkisskattstjóri yður grein fyrir því að þær skattverðsreglur ættu enn við að öllu leyti nema því að virðisaukaskattur reiknaðist ekki 24,5% til viðbótar söluverði á uppboði heldur 19,68% af söluverðinu. Sú breyting væri í ljósi auglýsingar nr. 42/1992, um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum o.fl. M.ö.o. eftir gildistöku auglýsingarinnar er ljóst að virðisaukaskattur bætist ekki við uppboðsandvirðið heldur er hann reiknaður af heildarsöluvirði að meðtöldum sölulaunum og öllum kostnaði sbr. 7. gr. laga nr. 50/1988. Virðisaukaskattur er því 19,68 % af heildarsöluverði muna sem seldir eru á uppboði.

Með hliðsjón af framangreindu getur ríkisskattstjóri ekki fallist á þá reikniaðferð sem embætti yðar viðhefur við útreikning á virðisaukaskatti við sölu á uppboði.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum