Ákvarðandi bréf nr. 981/2001
Virðisaukaskattur - viðskipti með æðardún.
7. ágúst 2001
G-Ákv. 01-981
Ríkisskattstjóri hefur orðið þess áskynja að ekki leggja allir æðarbændur og útflytjendur æðardúns sama skilning í ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og reglugerða settra á grundvelli þeirra, að því er varðar skyldur þeirra í viðskiptum með dún. Af því tilefni, og með það fyrir augum að upplýsa um gildandi rétt, er bréf þetta ritað og sent Æ, æðarbændum og dúnútflytjendum.
Viðskipti innanlands.
Grunnregla virðisaukaskatts, sem fram kemur í upphafsákvæði laganna nr. 50/1988 um virðisaukaskatt (vsk-laga), er að greiða skal í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum þeirra. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, skv. 1. mgr. 2. gr. vsk-laga. Skylda til að innheimta skattinn og skila honum í ríkissjóð hvílir m.a. á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Á þeim, sem virðisaukaskattsskyldir eru, hvílir jafnframt skylda til að tilkynna skattstjóra um starfsemi sína til skráningar, sbr. 5. gr. laganna.
Í 1. mgr. 11. gr. vsk-laga kemur fram sú meginregla að til virðisaukaskattsskyldrar veltu skráðs aðila telst öll sala eða afhending vöru og verðmæta gegn greiðslu. Þar með talin er afhending umsýslu- eða umboðsveitanda á vöru til umsýslu- eða umboðsmanns eins og ljóst er af samanburði við ákvæði 4. mgr. 13. gr. sömu laga. 13. gr. fjallar um uppgjör skattskyldrar veltu og í 4. mgr. hennar er kveðið á um að vörur sem afhentar eru til umsýslu- eða umboðssölu megi annað hvort telja til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili þegar afhending fer fram eða til veltu þess tímabils þegar gert er upp við umsýslu- eða umboðsmann. Í 2. mgr. 11. gr. er sérstaklega tekið fram að til skattskyldrar veltu teljist sala eða afhending á vöru sem seld er í umsýslu- eða umboðssölu. Almennt ber því bæði að innheimta virðisaukaskatt við afhendingu frá seljanda vöru til umsýslu- eða umboðsmanns og við afhendingu umsýslu- eða umboðsmanns til kaupanda vörunnar. Lögin um virðisaukaskatt gera í þessu sambandi ekki greinarmun á umsýslu- og umboðsviðskiptum. Að því er virðisaukaskatt varðar skiptir því ekki máli hvort milligöngumaður um viðskiptin kemur fram í eigin nafni en fyrir reikning eiganda vöru (umsýslumaður) eða í nafni eigandans og fyrir hans reikning (umboðsmaður). Í báðum tilvikum er meginreglan sú að með virðisaukaskatt skal fara eins og ef um sölu og endursölu væri að ræða, þ.e. seljandi á hvoru stigi viðskiptanna seldi fyrir eigin reikning (á eigin fjárhagslega áhættu).
Frá framangreindri meginreglu um virðisaukaskattsskyldu við afhendingu frá umsýslu- eða umboðsveitanda til umsýslu- eða umboðsmanns er ein undantekning. Hana er að finna í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 563/1989, um uppgjör og skil fiskvinnslufyrirtækja. Þar er kveðið á um að afhending fiskafurða til aðila, sem tekur afurðirnar í umsýslu- eða umboðssölu úr landi, teljist undanþegin virðisaukaskatti að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þá undantekningu ber sem slíka að skýra þröngt og ekki rýmri túlkun en orðalag ákvæðisins beinlínis gefur tilefni til. Undantekningin tekur því ekki undir nokkrum kringumstæðum til viðskipta með æðardún.
Af framanrituðu má ljóst vera að seljendum æðardúns í atvinnuskyni ber að innheimta virðisaukaskatt við sérhverja sölu eða afhendingu innanlands og standa skil á þeim skatti í ríkissjóð.
Umsýslu- eða umboðsmanni ber að innheimta virðisaukaskatt af þóknun sem hann krefur umsýslu- eða umboðsveitanda um vegna þjónustu sinnar.
Útflutningur.
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. vsk-laga telst vörusala úr landi ekki til virðisaukaskattsskyldrar veltu. Á það jafnt við um sölu fyrir eigin reikning og sölu umsýslu- eða umboðsmanns. Með vörusölu úr landi er átt við að seljandi sendi vöruna til viðtakanda utan íslenskrar lögsögu, óháð þjóðerni viðtakandans. Ákvæðið tekur ekki til afhendingar vöru hér á landi þó svo að sá er við tekur, kaupandi, umsýslu- eða umboðsmaður, flytji vöruna úr landi.
Til sönnunar því að vara hafi verið seld úr landi skal seljandi varðveita í bókhaldi sínu, með sölureikningi, útflutningsskýrslu eða önnur sambærileg gögn, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 50/1993 um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
Tekjuskráning og uppgjör.
Samkvæmt 20. gr. vsk-laga og 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993 er það meginregla að seljandi vöru skal við sérhverja sölu eða afhendingu gefa út sölureikning. Reikningarnir skulu uppfylla tiltekin form- og efnisskilyrði sem ekki þykir ástæða til að rekja hér.
Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. vsk-laga og 6. gr. reglugerðarinnar nr. 50/1993 skulu þeir sem taka framleiðslu annarra til vinnslu eða endursölu gefa út afreikninga (innleggsnótur). Á þetta m.a. við um þá sem taka við framleiðsluvörum bænda. Til afreikninga, eru eftir því sem við á, gerðar sömu form- og efniskröfur og til sölureikninga.
Fullgildur afreikningur getur komið í stað sölureiknings, skv. 3. mgr. 21. gr. vsk-laga. Æðarbóndi, sem fær fullgildan afreikning í hendur frá útflytjanda vegna afhendingar á dúni, getur því lagt afreikninginn til grundvallar tekjufærslu í bókhaldi sínu og þarf þá ekki að gefa út sölureikning vegna viðskiptanna.
Almennt stofnast virðisaukaskattsskylda við afhendingu vöru og ber að gera skattinn upp miðað við það tímamark. Eins og áður er vikið að er frá þeirri meginreglu frávik að því er varðar afhendingu á vöru til umsýslu- eða umboðssölu, sbr. 4. mgr. 13. gr. vsk-laga. Valkvætt er hvort slík viðskipti eru talin til virðisaukaskattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili þegar afhending á sér stað eða á því uppgjörstímabili þegar umsýslu- eða umboðsveitandi og umsýslu- eða umboðsmaður gera viðskiptin upp sín í milli. Sé síðarnefndi kosturinn valinn má hvorki gefa út sölureikning né afreikning vegna viðskiptanna fyrr en uppgjörið fer fram. Þá má ekki tilgreina virðisaukaskatt á afgreiðsluseðli eða móttökukvittun, sem kann að vera gefinn út vegna afhendingarinnar.
Virðisaukaskattur sá, sem æðarbóndi krefur útflytjanda réttilega um vegna sölu eða afhendingar á dúni, myndar innskatt hjá útflytjandanum við uppgjör hans á virðisaukaskatti, sbr. 15. og 16. gr. vsk-laga, enda liggi til grundvallar fullnægjandi sölu- eða afreikningur.
Ríkisskattstjóri