Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 977/2001

18.6.2001

Virðisaukaskattur - viðskipti með fiskafurðir.

18. júní 2001
G-Ákv. 01-977

Ríkisskattstjóri hefur orðið þess áskynja að ekki leggi allir fiskverkendur og fiskútflytjendur sama skilning í ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og reglugerða settra á grundvelli þeirra, að því er varðar skyldur þeirra í viðskiptum með fiskafurðir.  Af því tilefni, og með það fyrir augum að upplýsa um gildandi rétt, er bréf þetta ritað.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 kemur fram sú meginregla að til virðisaukaskattskyldrar veltu skráðs aðila teljist öll sala eða afhending vöru og verðmæta gegn greiðslu.  Þar með talin er afhending umboðs- eða umsýsluveitanda á vöru til umboðs- eða umsýslumanns eins og ljóst er af samanburði við ákvæði 4. mgr. 13. gr. sömu laga.  13. gr. fjallar um uppgjör skattsskyldrar veltu og í 4. mgr. hennar er kveðið á um að vörur sem afhentar eru til umsýslu- eða umboðssölu megi annað hvort telja til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili þegar afhending fer fram eða til veltu þess tímabils þegar gert er upp við umsýslu- eða umboðsmann.  Í 2. mgr. 11. gr. er sérstaklega tekið fram að til skattskyldrar veltu teljist sala eða afhending á vöru sem seld er í umsýslu- eða umboðssölu.  Almennt ber því bæði að innheimta virðisaukaskatt við afhendingu frá seljanda vöru til umsýslu- eða umboðsmanns og við afhendingu umsýslu- eða umboðsmanns til kaupanda vörunnar.  Lögin um virðisaukaskatt gera í þessu sambandi ekki greinarmun á umsýslu- og umboðsviðskiptum.  Að því er virðisaukaskatt varðar skiptir því ekki máli hvort milligöngumaður um viðskiptin kemur fram í eigin nafni en fyrir reikning eiganda vöru (umsýslumaður) eða í nafni eigandans og fyrir hans reikning (umboðsmaður).  Í báðum tilvikum er meginreglan sú að með virðisaukaskatt skal fara eins og ef um sölu og endursölu væri að ræða, þ.e. seljandi á hvoru stigi viðskiptanna seldi fyrir eigin reikning (á eigin fjárhagslega áhættu).

Frá framangreindri meginreglu um virðisaukaskattsskyldu við afhendingu frá umsýslu- eða umboðsveitanda til umsýslu- eða umboðsmanns er að finna undantekningu í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 563/1989, um uppgjör og skil fiskvinnslufyrirtækja.  Þar er kveðið á um að afhending fiskafurða til aðila, sem tekur afurðirnar í umsýslu- eða umboðssölu úr landi, teljist undanþegin virðisaukaskatti að þeim skilyrðum uppfylltum að:

  • Afurðir séu fluttar beint frá vinnslustöð um borð í millilandafar eða þeim skipað um borð í millilandafar í framhaldi af flutningi frá vinnslustöð.
  • Umboðs- eða umsýslumaður gefi út móttökukvittun vegna afurðanna þar sem því er lýst yfir að þær séu teknar til sölu úr landi og verði ekki seldar á innanlandsmarkaði.  Skjöl þessi skal varðveita í bókhaldi vinnslustöðvar.  Þá skal umsýslu- eða umboðsmaður gefa út afreikning við uppgjör viðskiptanna þar sem m.a. komi fram tilvísun í móttökukvittunina.

Ákvæði þetta felur í sér að ákvæði 1. tl. 1. mgr. 12. gr. laganna nr. 50/1988, er kveður á um að vörusala úr landi teljist ekki til skattskyldrar veltu, er látið taka til umræddrar skýrt afmarkaðrar afhendingar innanlands.  Reglugerðarákvæðið ber sem undantekningu frá meginreglu að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðisins beinlínis gefur tilefni til.  Það tekur aðeins til afhendingar fiskverkanda á fiskafurðum til umsýslu- eða umboðsmanns sem tekur að sér sem slíkur að selja afurðirnar úr landi, fyrir reikning fiskverkandans.  Ákvæðið tekur ekki undir nokkrum kringumstæðum til sölu fiskverkandans til endurseljanda, þ.e. til aðila sem kaupir afurðirnar með það fyrir augum að selja þær aftur fyrir eigin reikning.  Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er sérstaklega áréttað að ef skilyrði 1. mgr. eru ekki uppfyllt skuli fiskvinnslufyrirtæki innheimta virðisaukaskatt við afhendingu til umsýslu- eða umboðsmanns.

Í 2. gr. reglugerðarinnar nr. 563/1989 er kveðið á um að umsýslu- eða umboðsmaður skuli við uppgjör viðskipta sem falla undir 1. mgr. 1. gr. reikna virðisaukaskatt af þóknun sinni vegna viðskiptanna þegar hann gerir upp við fiskvinnslufyrirtækið.

Til að skilyrði undanþáguákvæðisins séu uppfyllt þarf umsýslu- eða umboðsmaður að gefa út til fiskverkanda þrjú skjöl vegna viðskiptanna.

  • Móttökukvittun, þar sem því er lýst yfir að tilteknar fiskafurðir (tegund og magn) hafi verið mótteknar til sölu úr landi og verði ekki seldar á innanlandsmarkaði.  Móttökukvittun ber að gefa út þegar móttaka afurðanna á sér stað.
  • Afreikning, þar sem m.a. er tilgreint söluverð afurðanna.  Afreikningur þarf að uppfylla öll form og efnisskilyrði sölureikninga eftir því sem við á, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 50/1988 og 6. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.  Afreikning skal gefa út við uppgjör viðskiptanna.
  • Sölureikning, vegna söluþóknunar.  Sölureikning skal gefa út við uppgjör viðskiptanna.

Fullgildur afreikningur frá umsýslu- eða umboðsmanni kemur í þessu sambandi í stað sölureiknings frá fiskverkanda vegna afhendingar fiskafurðanna til umsýslu- eða umboðsmanns.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum