Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 969/2001

12.2.2001

Virðisaukaskattur - vinna við skip - sjósetningarbúnaður björgunarbáta - undanþegin velta

12. febrúar 2001
G-Ákv. 01-969

Vísað er til erindis V ehf. þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra varðandi virðisaukaskatt af sölu fyrirtækisins á sjósetningarbúnaði björgunarbáta í skip.

Fram kemur í bréfi V, dags. 18. október 2000, að V hafi með höndum sölu á sjósetningarbúnaði og skylt sé að hafa búnað sem þennan um borð í skipum 12 metra löngum og lengri. Búnaðurinn teljist þá fastur útbúnaður skips sbr. ákvæði 7. liðs 12. gr. laga um virðisaukaskatt. Sjósetningarbúnaðurinn samanstandi af nokkrum hlutum sem V kaupi með virðisaukaskatti og selji síðan útgerðum búnaðinn án virðisaukaskatts samkvæmt framangreindu lagaákvæði.

Samkvæmt upplýsingum símleiðis 29. desember 2000 og 17. janúar 2001 er um að ræða sjálfvirkan sleppibúnað til að sjósetja björgunarbáta. Fram kom að V sjái um að koma sjósetningarbúnaðinum fyrir um borð í skipum en útgerðarmenn (kaupendur) annist í sumum tilvikum sjálfir hluta af niðursetningunni, þ.e. að setja niður sleða undir hann. Lokafrágangur og allt eftirlit sé í höndum V. Verk taki á að giska 6-8 klukkustundir, þar af niðursetning sleða um 1-2 klukkustundir.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Í fyrirspurn er vísað til 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt því ákvæði telst ekki til virðisaukaskattsskyldrar veltu skipasmíði og viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og fastan útbúnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi við þá vinnu. Undanþága þessi nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd og skemmtibáta. Í greinargerð með frumvarpi að lögunum er hugtakið fastur útbúnaður skýrt svo að aðallega sé átt við útbúnað sem er fastur (nagl- eða skrúfufastur) við skip, en þó nái ákvæðið einnig til björgunarbáta og annars öryggisútbúnaðar.

Umrædd undanþága nær fyrst og fremst til vinnuþáttar við skip, þ.e. smíði skipa og vinna við viðhald þeirra og fasts útbúnaðar þeirra, en jafnframt þó til vara er sá lætur af hendi er verkið vinnur. Þannig er undanþágan talin taka til nýs tækjabúnaðar þegar seljandi setur hann sjálfur niður um borð í skipi, enda verði hann talinn fastur útbúnaður skipsins sbr. um það hugtak að framan.

Undanþáguákvæðið á ekki við þegar fyrirtæki selur tæki, búnað eða varahlut í skip án þess að annast sjálft viðgerð eða niðursetningu. Þá á undanþágan aðeins við um sölu til útgerðar skipsins. Þannig tekur undanþágan t.d. ekki til þess þegar undirverktaki selur skipasmíðastöð þjónustu sína.

Þeir sem selja þjónustu og vörur án virðisaukaskatts samkvæmt þessari undanþágu skulu geta þess á sölureikningi við hvaða skip var unnið og skal útgerðarmaður eða yfirmaður skips staðfesta með yfirlýsingu og áritun á afrit reiknings að þjónustan varði skip hans.

Af fyrirspurn verður ráðið að sjósetningarbúnaður sá fyrir björgunarbáta sem V selur geti talist fastur útbúnaður skips í skilningi 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Þá verður ráðið af henni að fyrirtækið selji þjónustu af þeim toga er undanþáguákvæðið tekur til. Eins og að framan greinir tekur undanþágan, með tilgreindum fyrirvörum, einnig til vara sem látnar eru í té samfara þjónustunni.

Á hitt er að líta að fram er komið af hálfu V að kaupandi (útgerðarmaður) sjái endrum og eins um hluta þjónustunnar (niðursetningu sleða). Fyrir liggur að hinn seldi sjósetningarbúnaður samanstendur af nokkrum hlutum, m.a. sleða. Í þessu sambandi þykir verða að líta á búnaðinn sem eina vöruheild. Þá þykir liggja fyrir að V hefur heildarverkið með höndum, þ.e. annast niðursetningu að mestu og hefur með höndum lokafrágang og eftirlit. Ríkisskattstjóri telur að undanþágan taki til hinnar seldu vöru í heild enda þótt kaupandi (útgerðarmaður eða starfsmaður hans) leggi að óverulegu leyti lið sitt við heildarverkið.

Þrátt fyrir að ekki skuli innheimtur virðisaukaskattur við sölu af þeim toga er um ræðir, er um að ræða þjónustu og vörur er falla undir skattskyldusvið virðisaukaskatts. Til staðar er því réttur til að færa sem innskatt virðisaukaskatt af aðkeyptum aðföngum, sbr. 16. gr. laga 50/1988 og reglugerð nr. 192/1993, um innskatt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum