Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 951/2000

29.6.2000

Virðisaukaskattur - kostun - námskeið - auglýsingar – ráðgjöf

29. júní 2000
G-Ákv. 00-951

Vísað er til tölvupósts yðar, dags. þann 15. nóvember 1999, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvernig háttað skuli reikningsgerð vegna námstefnu sem haldin var á vegum yðar.

Í fyrirspurn yðar kemur fram að starfsemi yðar felist m.a. í því að halda námskeið og námstefnur fyrir stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja og stofnana. Vegna stærri viðburða þurfið þér að leita eftir samstarfi við stærri fyrirtæki sem leggja þá verkefninu til umtalsverðar fjárhæðir. Sem dæmi nefnið þér ráðstefnu þar sem námstefnugjaldið var kr. 34.900 og lögðu þrír samstarfsaðilar yðar til kr. 350.000 hver um sig. Þess í stað fengu þeir 10 sæti á námstefnunni, heimsókn frá fyrirlesaranum og kynningu sem samstarfsaðilar með því að fá lógóin sín birt í auglýsingum og kynningarefni vegna námstefnunnar.

Í fyrirspurn yðar beinið þér þremur spurningum til ríkisskattstjóra varðandi meðferð virðisaukaskatts vegna ofangreindra samstarfsaðila:

  1. Hvort senda eigi þessum aðilum reikning fyrir námstefnugjöldum (10 sæti x 34.900) og þá án virðisaukaskatts?
  2. Hvort senda eigi þeim reikning fyrir kostun og þá með virðisaukaskatti?
  3. Hvort skipta eigi fjárhæðinni (t.d. í tvennt) og líta svo á að helmingur fjárhæðarinnar sé fyrir námstefnugjöldum og hinn helmingurinn sé kostunarhlið verkefnisins?

Rökin fyrir seinustu spurningunni séu þau að þér greiðið virðisaukaskatt af aðkeyptum kostnaði. Að lokum spyrjið þér hvort færa megi rök fyrir því að hluti verkefnisins sé þekkingarlegs eðlis og að hluti sé kynningarlegs?

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

I. Námskeið:

Samkvæmt 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er rekstur skóla og menntastofnana undanþeginn virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að með orðalaginu ,,rekstur skóla og menntastofnana" sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi sem hefur unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Falli starfsemi skóla eða menntastofnunar undir undanþáguákvæðið eru skóla- og námskeiðsgjöld undanþegin virðisaukaskatti. Undanþágan tekur til námskeiðsgjalda sem varið er til að standa straum af beinum kostnaði við kennsluna sjálfa og endurgjalds fyrir umsjón og stjórn námskeiðahalds. Undanþágan nær ekki til annarra aðfanga vegna námskeiðsins, s.s. tækjaleigu, efniskaupa og þess háttar, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Af fyrirspurn yðar verður ekki ráðið hvort námstefnur á vegum yðar falli hér undir og tekur ríkisskattstjóri því ekki afstöðu til virðisaukaskattsskyldu yðar vegna umrædds námskeiðshalds, en hjálagt fylgir afrit umfjöllunar um umræddan 3. tölul. í “Handbók um virðisaukaskatt” frá 1998 og “Leiðbeiningar um virðisaukaskatt af námskeiðum og kennslustarfsemi” frá 1993.

Eins og áður segir tekur ríkisskattstjóri ekki afstöðu til þess hér hvort umræddar námsstefnur teljast til starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti. Ef þær teljast undanþegin starfsemi, þá gildir sú meginregla að aðili sem hefur blandaða starfsemi með höndum, þ.e. stundar bæði undanþegna og virðisaukaskattskylda starfsemi, verður í bókhaldi sínu og í sölureikningum að aðgreina með skýrum hætti þær tekjur sem hann hefur vegna hvorrar starfsemi um sig. Sé sú aðgreining ekki gerð ber að innheimta virðisaukaskatt af allri starfseminni.

II. Auglýsingar og ráðgjöf

Meginregla laga um virðisaukaskatt er að öll vörusala er skattskyld, sbr. 1. mgr. 2. gr. Sama gildir um alla þjónustu nema viðkomandi þjónusta sé sérstaklega undanþegin, sbr. 2. mgr. 2. gr. Hvers konar auglýsinga- og kynningarþjónusta er því skattskyld samkvæmt meginreglum laganna og hið sama gildir um flesta ráðgjafarþjónustu, þ.á.m. um fyrirtækjaráðgjöf.

III. Kostun

Skattskyldan skv. virðisaukaskattslögum tekur m.a. til svonefndra styrkja- eða kostunarsamninga þar sem fyrirtæki (kostunaraðili) lætur fé renna til aðila (kostunarþega) sem aftur á móti lætur af hendi endurgjald í formi skattskyldrar vöru eða þjónustu af einhverju tagi, oft í formi auglýsingar eða kynningar á kostunaraðila eða söluvöru hans. Samkvæmt þessu er kostunarþega aðeins skylt að greiða virðisaukaskatt af mótteknu kostunarfé ef hann lætur af hendi endurgjald af einhverju tagi. Sé ekki um neitt endurgjald að ræða á sér ekki stað skattskyld afhending á vöru eða þjónustu, sbr. bréf ríkisskattstjóra nr. 196/91, 456/93 og 528/93. Þeir þrír samstarfsaðilar sem þér nefnið í dæmi yðar fengu endurgjald í formi auglýsinga o.fl. og því er það mat ríkisskattstjóra að greiðslur þeirra falli undir framangreindar reglur um kostun, að hluta í það minnsta.

Eins og málavöxtum er lýst í fyrirspurn yðar skiptist endurgjald yðar skv. kostunarsamningunum í þrjá meginþætti, þ.e. auglýsinga- og kynningarþjónustu (lógó birt í auglýsingum og kynningarefni), fyrirtækjaráðgjöf (heimsókn fyrirlesara) og námskeiðshald (10 sæti á námsstefnu). Ljóst virðist að tveir fyrst töldu þættirnir eru virðisaukaskattsskyldir, en framkomnar upplýsingar eru ónægar til að kveða á um skattskyldu eða undanþágu síðast talda þáttarins. Sé námskeiðshaldið undanþegið verður sem fyrr segir að halda því aðgreindu í bókhaldi og á sölureikningum. Þá verður að skilgreina þær tekjur sem komu til vegna hvors þáttarins um sig, þ.e.a.s. hins skattskylda og hins undanþegna. Af fyrirspurn yðar verður ekki ráðið hvort sú aðgreining sé fyrir hendi eða yfirhöfuð möguleg, en við mat á tekjuþáttum yrði að áliti ríkisskattstjóra að taka mið af almennu gangverði á markaðnum á viðkomandi þjónustutegund.

IV. Niðurstaða

Ljóst er að nokkuð skortir á að nægjanlegar upplýsingar hafi fylgt fyrirspurn yðar til að hægt sé  að svara henni á tæmandi hátt. Raktar hafa verið þær reglur sem almennt gilda á þessu sviði. Upphæð styrksins eða kostunarinnar er föst fjárhæð sem greinilega er erfitt að sundurliða í einstaka endurgjaldsliði, ekki síst þar sem upphæð hvers aðila um sig (kr. 350.000) stendur ekki undir því endurgjaldi sem þeir fá í staðinn. Tíu sæti á námsstefnunni kosta fullu verði kr. 349.000, þannig að þá standa ekki eftir nema kr. 1.000 fyrir annað endurgjald (auglýsingar og ráðgjöf) sem ekki fær staðist miðað við almennt gangverð.

Eins og málum er háttað telur ríkisskattstjóri því það rétt að telja umrædda kostun eða styrkveitingu í heild til virðisaukaskattskyldrar veltu.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum