Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 933/2000

19.1.2000

VSK - símaþjónusta milli landa

19. janúar 2000
G-Ákv. 00-933

Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. nóvember sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á eftirfarandi:

i)   Erlent símaþjónustufyrirtæki kaupir aðgang að símtæknibúnaði íslensks símaþjónustufyrirtækis svo að viðskiptavinir þess fyrrnefnda geti hringt til Íslands.  Þarf íslenska fyrirtækið að innheimta virðisaukaskatt af þessari þjónustu ?

ii)  Íslenskt símaþjónustufyrirtæki býður símnotendum ódýrari símtöl til útlanda.  Til þess að geta það þarf það að kaupa aðgang að símtæknibúnaði erlends símaþjónustufyrirtækis.  Þarf íslenska fyrirtækið að greiða virðisaukaskatt af þessari þjónustu ?

Í bréfi yðar kemur fram að þegar viðskiptavinir íslenska símaþjónustufyrirtækisins hringja frá Íslandi þarf íslenska fyrirtækið að greiða erlenda símaþjónustufyrirtækinu fyrir hverja mínútu sem samtalið varir.  Sömuleiðis greiðir erlenda símaþjónustufyrirtækið íslenska símaþjónustufyrirtækinu tiltekna upphæð fyrir hverja mínútu þegar viðskiptavinir þess fyrrnefnda hringja í einhvern hér á Íslandi. Við uppgjör milli fyrirtækjanna tveggja er kröfum hvors um sig jafnað á móti kröfu gagnaðilans og mismunur greiddur á hvorn veginn sem er.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Um fyrri hluta fyrirspurnarinnar - þjónusta veitt hérlendis til erlends símafyrirtækis:

Fjarskiptaþjónusta er þess eðlis að erfitt er að skera úr um afhendingarstað með hefðbundnum hætti, enda má segja að afhending hefjist í einu landi og ljúki í öðru.  Þess vegna er eðlilegt að líta til þess hvar starfsstöð seljanda er við ákvörðun afhendingarstaðar. Þjónustan telst því vera nýtt á þeim stað sem hún er veitt.

Í ákvæði 10. töluliðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er fjallað um sölu á vissri þjónustu til erlendra aðila, þ.e.a.s. til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi, og er hún undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum.  Til að halda þjónustusölu utan skattskyldrar veltu skv. ákvæðinu verður þjónustan í fyrsta lagi að vera að öllu leyti nýtt erlendis eða, ef svo er ekki, að kaupandinn gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts skv. 15. og 16. gr. laganna. Í öðru lagi verður viðkomandi þjónusta að vera talin upp í ákvæðinu, en svo er um fjarskiptaþjónustu, sbr. i-lið.

Fjarskiptaþjónusta íslenska símaþjónustufyrirtækisins er veitt hérlendis og þar með nýtt hér, sbr. að framan.  Hún telst því ekki verið nýtt að öllu leyti erlendis.  Fjarskiptaþjónustan er því aðeins undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu íslenska símþjónustufyrirtækisins ef kaupandinn gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna þjónustukaupanna til innskatts skv. íslenskum reglum. Til frekari skýringa skal tekið fram að fjarskiptaþjónusta til t.d. erlends fólksflutningafyrirtækis fellur ekki undir 10. tölulið 1. mgr. 12. gr. þar sem slík starfsemi er ekki skráningarskyld hér á landi.

Um seinni hluta fyrirspurnarinnar - þjónusta veitt erlendis til íslensks símafyrirtækis:

Sá sem kaupir þjónustu, sem talin er upp í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna, erlendis frá til nota að hluta eða öllu leyti hér á landi skal greiða virðisaukaskatt af andvirði hennar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laganna.  Eins og fram kom hér að framan telst fjarskiptaþjónusta nýtt á þeim stað sem hún er veitt, þ.e. á starfsstöð seljanda.  Íslenska símaþjónustufyrirtækið kaupir fjarskiptaþjónustu af erlendu símaþjónustufyrirtæki, þ.e.a.s. sem ekki hefur búsetu eða starfsstöð hér á landi, og telst sú þjónusta nýtt erlendis.  Þessi kaup falla því utan íslenskrar lögsögu.  Ef erlenda símaþjónustufyrirtækið innheimtir virðisaukaskatt fyrir þjónustu sína þá byggir sú innheimta á þeim lögum sem gilda í heimalandi hans.  Hugsanlega ætti þá íslenski símaþjónustuaðilinn rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts, en um það fer eftir rétti viðkomandi ríkis.

Á það skal bent að skv. 1. mgr. 20. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila,  ber seljanda að gefa út sölureikning við sérhverja sölu eða afhendingu á vöru eða skattskyldri þjónustu.  Þrátt fyrir þetta er þjónustusölum, öðrum en þeim sem falla undir 8. gr. reglugerðarinnar, heimilt að gefa út sölureikning í lok hvers mánaðar vegna þeirrar þjónustu sem innt var af hendi frá upphafi til loka þess mánaðar.   Íslenska símaþjónustufyrirtækið verður því að gefa út sölureikninga fyrir allri þeirri þjónustu sem hann selur erlenda símaþjónustufyrirtækinu í samræmi við framangreint.  Íslenska fyrirtækinu er óheimilt að skuldajafna sölu við kaup og gefa aðeins út reikning fyrir mismuninum.  Því er sömuleiðis óheimilt að láta hjá líða að gefa út sölureikning af þeirri ástæðu að sala þess á þjónustu til erlenda fyrirtækisins nemur lægri fjárhæð en kaup þess á þjónustu frá sama aðila.

Að lokum skal tekið fram að sala fyrirtækja, sem starfrækt eru hér á landi, á fjarskiptaþjónustu til innlendra aðila er ávallt skattskyld, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Sjá bréf ríkisskattstjóra nr. alm 40/97, sem fylgir hjálagt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum