Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 932/2000

14.1.2000

Vsk - fjármögnunarleiga - kaupleiga - viðskipti innanlands - aðkeypt þjónusta erlendis frá - fyrirsvarsmenn erlendra fyrirtækja           

14. janúar 2000
G-Ákv. 00-932

Að undanförnu hafa embætti ríkisskattstjóra borist nokkrar fyrirspurnir um útleigu og/eða endursölu erlendra aðila á tölvubúnaði á Íslandi. Hinir erlendur aðilar hafa ekki starfsstöð hér á landi, en kaupa tölvur hérlendis og leigja þær út almennri leigu eða fjármögnunarleigu ellegar selja þær kaupleigu hér á landi. Erlendu fyrirtækin hafa í flestum eða öllum tilvikum samstarfssamning við íslensku tölvusalana um þjónustu við leigutaka eða endanlega kaupendur. Þau álitaefni sem fram hafa komið í þessu sambandi eru í fyrsta lagi hvort sala tölvanna til erlendu fyrirtækjanna beri virðisaukaskatt eða hvort um sölu úr landi sé að ræða. Í öðru lagi hvort leggja eigi virðisaukaskatt á viðskipti erlendu fyrirtækjanna við leigjendur eða endanlega kaupendur tölvanna og í þriðja lagi hvort hinir erlendu aðilar eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.

Af þessu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:

Í fyrsta lagi:

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar er ákveðið í lögunum. Skv. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna telst þó ekki til skattskyldrar veltu skráðs aðila vara sem seld er úr landi. Til sönnunar á því að sala sé undanþegin skattskyldri veltu skal seljandi varðveita útflutningsskýrslur eða sambærileg gögn með viðkomandi sölureikningum, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Í tilvikum þeim sem hér um ræðir selja íslensku tölvusalarnir erlendu fyrirtækjunum umræddar tölvur án þess að þær séu fluttur úr landi og því ekki um útflutning að ræða. Salan telst því til skattskyldrar veltu seljanda, sbr. 1. og 11. gr. laganna. Íslensku seljendunum ber því að innheimta virðisaukaskatt af umræddum viðskiptum við hin erlendu fyrirtæki.

Í öðru lagi:

Leiga (þ.m.t. fjármögnunarleiga) eða sala (þ.m.t. kaupleiga) erlendu fyrirtækjanna til viðskiptamanna á Íslandi á að vera með virðisaukaskatti, enda verður eins og málum er háttað að líta svo á að fyrirtækin stundi skattskylda starfsemi hér á landi, sbr. 1.-3. gr. laganna.

Hafi viðkomandi erlendur aðili ekki starfsstöð eða búsetu hér á landi hvílir skattskyldan í þessu efni á umboðsmanni og öðrum sem eru í fyrirsvari fyrir hann, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þessi regla er áréttuð hvað þjónustu (þ.m.t. leigu) varðar í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá.

Sé hinn íslenski tölvusali fyrirsvarsmaður í skilningi 6. tölul. 3. gr. laganna ber honum að tilkynna starfsemina til skráningar skv. 5. gr. laganna, innheimta virðisaukaskatt af viðskiptum viðkomandi erlends fyrirtækis hér á landi og skila honum í ríkissjóð. Líta verður svo á að tölvusali sem kemur fram fyrir hönd leigusala/seljanda gagnvart leigutaka/kaupanda við gerð eða efndir samnings sé fyrirsvarsmaður í þessu sambandi. Hvað skuldaábyrgð varðar er litið svo á að báðir aðilar séu ábyrgir fyrir greiðslu skattsins í ríkissjóð, sbr. bls. 10 í leiðbeiningum um virðisaukaskatt (RSK 11.19, 5. útg. 1998). Hafi hinn erlendi aðili ekki umboðsmann eða annan fyrirsvarsmann hér á landi og vanræki hann að tilkynna skattstjóra um starfsemi sína þá gildir þó sú sérregla þegar um þjónustu er að ræða að kaupandi þjónustunnar ber ábyrgð á virðisaukaskattsskilum hins erlenda aðila vegna þeirrar þjónustu sem hann er kaupandi að, sbr. 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 194/1990. Um skattskil í slíku tilviki færi eftir 4. og 6. gr. umræddrar reglugerðar.

Varðandi tekjuskráningu og virðisaukaskattsskil fyrirsvarsmanna erlendra fyrirtækja skal tekið fram að ríkisskattstjóri hefur litið svo á að virðisaukaskattsskil fyrirsvarsmannsins f.h. hins erlenda aðila skuli fara fram á sérstöku virðisaukaskattsnúmeri fyrirsvarsmannsins. Jafnframt hefur ríkisskattstjóri litið svo á að auk lögbundinna  upplýsinga sem fram skulu koma á reikningi um reikningsútgefandann (fyrirsvarsmanninn) sé eðlilegt að geta jafnframt um nafn hins erlenda fyrirtækis. 

Í þriðja lagi:

Endurgreiðsla virðisaukaskatts skv. reglugerð nr. 288/1995 kemur ekki til álita í umræddum tilvikum, sbr. 1. tölul. 2. gr., sbr. og 3. gr., umræddrar reglugerðar. Kaup erlendu fyrirtækjanna á tölvum hérlendis mætti hins vegar telja til innskatts hjá þeim eftir almennum reglum þar um.

Með vísan til framanritaðs, sbr. og bréf ríkisskattstjóra dags. 23. desember 1992 (tilv. 435/1992), er þeim tilmælum beint til yðar, hr./fr. skattstjóri, að þér kannið viðskiptahætti í umræddum málaflokki í umdæmi yðar og leiðréttið virðisaukaskattsskil til samræmis við framangreindar reglur.  

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum