Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 929/1999

30.12.1999

Virðisaukaskattur - börn og unglingar - meðferð – vímuvarnir – sálfræðingar – námskeiðshald – ráðgjöf

30. desember 1999
G-Ákv. 99-929

Í bréfi yðar dags. 6. maí 1997 setjið þér fram væntingar þess efnis að viðurkennt verði að meðferðarþjónusta yðar við börn og unglinga falli undir undanþáguákvæði 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Vísið þér í því sambandi til álits ríkisskattstjóra nr. 689/95 varðandi sálfræðinga og nr. 187/90 varðandi meðferðarstöð, svo og þeirrar meginreglu um jafnrétti sem þér teljið felast í lokamgr. 3. gr. laganna.  Bréf yðar barst í kjölfar svars ríkisskattstjóra dags. 8. apríl 1997 (alm. 18/97) við fyrirspurn yðar dags. 14. mars 1996 um sama efni.  Í svari ríkisskattstjóra kemur fram að ef þér hafið ekki leyfi til að kalla yður sérfræðing skv. reglugerð nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, þá verði að telja störf yðar virðisauka­skattsskyld.

Í bréfi yðar dags. 14. mars 1996 kemur fram að þér hafið fengið verkefni fyrir Barnaverndarstofu og Meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga við handleiðslu til sérfræðinga og starfsfólks stofnunarinnar.  Einnig hafið þér í huga að bjóða upp á handleiðslu fyrir einstaklinga og hópa í framtíðinni.  Með bréfinu fylgdu upplýsingar um menntun yðar, en ekki kom fram hvort þér hefðuð leyfi til að kalla yður sérfræðing skv. reglugerð nr. 158/1990.  Í bréfi yðar dags. 6. maí 1997 kemur fram að þér hafið ekki sérfræðileyfi sálfræðinga, sbr. reglugerð nr. 158/1990, en þó sé menntun yðar og starf á sama vettvangi, þ.e. meðferð einstaklinga sem eiga við vímuefna- og áfengisvandamál og ýmis geðræn vandamál að stríða.  Þá felist í starfi yðar námskeiðshald á þessu sviði.

Í kjölfar bréfs yðar dags. 6. maí 1997 leitaði ríkisskattstjóri eftir áliti heilbrigðis­yfirvalda á því hvort starfsemi yðar væri viðurkennd sem heilbrigðisþjónusta.  Í bréfi dags. 8. apríl sl. lét landlæknir í ljós það álit sitt að sú meðferðarþjónusta sem þér veitið geti ekki fallið undir viðurkennda heilbrigðisþjónustu.  Heilbrigðis- og trygg­inga­málaráðuneytið féllst fyrir sitt leyti á þá umsögn landlæknis í bréfi dagsettu 1. júlí 1999.

Til svar við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

I.

Skv. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingar­stofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, undanþegin virðisaukaskatti.

Við afmörkun á hugtakinu "önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta" er í skattframkvæmd miðað við að starfsemi þurfi að uppfylla tvö skilyrði;  1) að um sé að ræða þjónustu sem falli undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál og 2) að þjónusta þessara aðila felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.

Jafnframt hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að starfsemi sálfræðinga sem hafa leyfi til að kalla sig sérfræðinga skv. reglugerð nr. 158/1990 og starfa á heilbrigðis­sviði sé ekki virðisaukaskattsskyld skv. 1. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, svo og umræddir sérfræðingar sem starfa á sviði félagslegrar þjónustu í skilningi 2. tl. sömu málsgreinar.

Fyrir liggur að þér hafið ekki sérfræðileyfi sálfræðinga.  Jafnframt er ljóst að heilbrigðisyfirvöld líta svo á að meðferðarþjónusta yðar geti ekki fallið undir viðurkennda heilbrigðisþjónustu.

Með vísan til framanritaðs getur ríkisskattstjóri ekki fallist á að starfsemi yðar sé undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli umræddra ákvæða 1. og 2. tl. 3. mgr. 2. gr. Tekið skal fram að eigi verður séð að tilvísun yðar til bréfs nr. 187/90 og 3. mgr. 3. gr. laganna breyti nokkru þar um.

II.

Í bréfi yðar kemur fram að þér standið fyrir námskeiðum.  Undanþáguákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna tekur til reksturs skóla og menntastofnana, svo og til ökukennslu, flugkennslu og danskennslu.

Í athugasemdum með frumvarpi til virðisaukaskattslaga kemur fram að til "reksturs skóla og menntastofnana" teljist öll venjuleg skóla- og háskólakennsla, fagleg menntun, endurmenntun og önnur kennslu- og menntastarfsemi.  Til undanþeginnar starfsemi samkvæmt þessu, auk hefðbundinnar skóla- og menntastarfsemi, teljist t.d. starfsemi málaskóla, tónlistarkennsla og námskeið eða kennsla í skrifstofu- og stjórnunarfræðum.  Jafnframt kemur fram í athugasemdunum að við mat á því hvort nám teljist skattfrjálst sé eðlilegt að hafa hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki.  Hafi námsgrein t.d. unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi beri samkvæmt framansögðu að líta svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu undanþegin virðisaukaskatti.  Ekki nægi þó í þessu sambandi að boðið sé upp á námsgreinina eða námsbrautina í einstökum skólum heldur verður námið að hafa unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu.

Einnig er fagleg endurmenntun, sem miðar að því að viðhalda eða auka þekkingu nemenda eingöngu vegna atvinnu þeirra, undanþegin jafnvel þótt námsgreinin hafi unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu.

Í bréfum yðar er námskeiðshaldi yðar ekki skýrlega lýst þannig að ekki er hægt að segja til um hvort þau falla undir umrætt undanþáguákvæði eða ekki, en ef framangreind skilyrði eiga við um námskeiðin þá ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af námskeiðsgjöldum jafnframt því sem frádráttarréttur vegna virðisaukaskatts af aðföngum til námskeiðshaldsins er ekki fyrir hendi.

Það athugist að gera verður skýran greinarmun á undanþeginni kennslustarfsemi og skattskyldri meðferð eða ráðgjöf gagnvart einstakl­ingum eða fyrirtækjum.

Að lokum skal tekið fram að samanstandi starfsemi yðar bæði úr skattskyldri þjónustu yðar og undanþegnum námskeiðum yðar þá er um svokallaða blandaða starfsemi að ræða, sbr. II. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara erindi yðar

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum