Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 928/1999

23.12.1999

Virðisaukaskattur - tónleikar - listdanssýning - aðgangseyrir.

23. desember 1999
G-Ákv. 99-928

Vísað er til bréfs yðar, dags. 14. desember sl., þar sem óskað er eftir skriflegu svari ríkisskattstjóra við því hvort aðgangseyrir að tónleikum og danssýningu A sé undanþeginn virðisaukaskatti. 

Í bréfi yðar kemur fram að hópur erlendra skemmtikrafta (A) ætlar að halda tónleika og danssýningar í H dagana 4.-9. júlí nk. (alls 8 sinnum).  Á samkomunni munu skemmtikraftarnir framleiða hljóð, áslátt (á dósir, tunnur o.þ.h.) og dans, allt í bland.  Áhorfendur taka engan þátt í viðburðinum öðru vísi en að horfa og hlusta á.  Í símtali við yður líktuð þér A við svokallaðan River Dance hóp. Öll veitingasala verður í höndum rekstraraðila H.

Samkvæmt 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er aðgangseyrir m.a. að tónleikum og listdanssýningum undanþeginn virðisaukaskatti enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi.

Ýmis álitamál hafa risið m.a. um hvað teljist vera tónleikar í skilningi ákvæðisins.  Í þessu sambandi miðast framkvæmd við eftirfarandi sjónarmið:

Með tónleikum er átt við lifandi tónlistarflutning fyrir áheyrendur þar sem ekki fer fram dans.  Undanþáguákvæðið tekur til tónleika óháð því hvaða tegund tónlistar er flutt og hvers lensk tónlistin er. Að áliti ríkisskattstjóra skiptir heldur ekki máli hvaða hljóðfæri eru notuð til að koma tónlistinni á framfæri. 

Aðstandendur dansleikjahalds hafa stundum haldið því fram að til samkomu sé stofnað með tónleikahald í huga en áheyrendur hafi skyndilega fyllst óviðráðanlegri þörf til að tjá tilfinningar sínar og hrifningu á tónlistarflutningnum með því að dansa hver við annan.  Fyrirsláttur af þessu tagi hefur í fæstum tilvikum borið tilætlaðan árangur enda er yfirleitt augljóst hvort gert er ráð fyrir dansi á samkomu eða ekki.

Skilyrði fyrir undanþágu skv. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. er að tónleikar og/eða listdanssýningar séu ekki í neinum tengslum við annað samkomuhald eða veitingastarfsemi.

Varðandi annað samkomuhald skal tekið fram að ekki hefur verið talið að skilyrði undanþágu sé rofið ef samkoma samanstendur af margs konar undanþegnum samkomum, t.d. tónleikum og listdanssýningu.

Hvað veitingastarfsemina varðar er það að segja að tónleikar og listdanssýningar falla ekki undir undanþáguákvæðið ef veitingar eru seldar eða framreiddar á meðan dagskrá samkomu stendur, þ.e. meðan t.d. tónlistarflutningur eða listdanssýning fer fram.  Sala heitra máltíða, áfengra drykkja og hressingar (kaffi, gosdrykkir) telst m.a. veitingasala í þessu sambandi.  Veitingasala utan þess salar, þar sem tónleikar eru haldnir eða listdanssýning sýnd hefur hins vegar ekki áhrif á undanþáguna.  Miðað er við að jafnan skuli innheimta og skila virðisaukaskatti fari samkoma fram í veitingahúsi með reglulega starfsemi en í öðrum tilvikum verður að meta þátt veitinga í heildaryfirbragði samkomunnar.  Ef selt er inn á sýningu og veitingar eru innifaldar í aðgangseyri þá ber að innheimta virðisaukaskatt af heildarverði aðgöngumiða.

Það er álit ríkisskattstjóra að aðgangseyrir að tónleikunum og danssýningunni sé  undanþeginn virðisaukaskatti ef veitingasalan fer fram utan þess salar, þar sem tónleikarnir eru haldnir.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum