Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 924/1999

22.11.1999

Vsk - bifreiðar - akstursíþróttir - rallý - keppnisbifreið/auglýsingabifreið

22. nóvember 1999
G-Ákv. 99-924

Vísað er til bréfs yðar dags. 9. september sl., sem barst ríkisskattstjóra frá skattstjóranum í Reykjavík 5. október sl.  Í bréfi yðar segir m.a.:

„Á næstu dögum fæ ég bíl til landsins sem ég ætla að gera út sem rallýbíl til þátttöku í Íslandsmótinu í rallakstri.  Bifreið þessi uppfyllir öll skilyrði til þess að vera virðisaukaskattsbíll þ.e. að vera á rauðum númerum og því hef ég hug á að gera hann út sem slíkan og þannig innskatta allan rekstur bílsins ásamt kaupverði.

Ég mun selja auglýsingar á bílinn og skila þannig útskatti af þeim og geri ég ráð fyrir að þær tekjur muni nægja til að greiða allan rekstur bílsins. Bílinn mun aðeins vera notaður í keppnum og á skipulögðum æfingum fyrir keppnir.  Ég mun reka bílinn á mínu nafni og sækja um virðisaukaskattsnúmer á mína kennitölu

Það væri gott að fá skrifleg svör við því hvort þessi rekstur samræmist lögum um virðisaukaskatt.

Um síðustu áramót tóku gildi reglugerðir varðandi innflutning og skráningu á keppnisökutækjum.  Samkvæmt þeim er heimilt að flytja inn keppnisbíla án þess að þurfa að greiða af þeim vörugjöld til tolls og eru þeir þá skráðir sem keppnisbílar og settir á grænar númeraplötur (utanvegaplötur).  Hefur þessi skráning einhver áhrif á möguleika á virðisaukaskattsrekstri eða innsköttun á kaupverði bílsins ?“ 

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

I.

Auglýsingastarfsemi er virðisaukaskattsskyld starfsemi, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda sé um atvinnustarfsemi að ræða sbr. 3. og 5. gr. laganna. Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er íþróttastarfsemi hins vegar undanþegin virðisaukaskatti.

Með hliðsjón af úrskurðum yfirskattanefndar nr. 775/1994 og 558/1995 þá er öll íþróttastarfsemi undanþegin samkvæmt ákvæðinu óháð því hverjir reka hana. Þannig skiptir ekki máli hvort starfsemin fer fram á vegum íþróttafélaga eða atvinnu­fyrir­tækja, þ.á.m. einstaklingsfyrirtækja. Með íþrótt er að mati ríkisskattstjóra átt við hvers konar líkamlega þjálfun með iðkun íþróttagreinar sem almennt er stunduð innan aðildar­félaga Í, hvort heldur sem tilgangur þjálfunar­innar er keppni og afrek eða stefnt er aðallega að heilsurækt og dægradvöl.  Starfsemi innan S og B  fellur hér undir. Í. viður­kenndi akstursíþróttir sem íþrótt árið 1992 og akstursíþróttir eru einnig viðurkenndar sem íþrótt innan A.  Í lögum Í. grein 1.2. er íþrótt skil­greind sem ástundun líkamlegrar þjálfunar til keppni og heilsuræktar og að mati Í. falla akstursíþróttir undir þessa skilgreiningu.

Það er því álit ríkisskattstjóra að rallý sem akstursíþrótt sé íþrótta­starfsemi undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.

II.

Réttur til færslu innskatts af aðföngum er háður virðisaukaskattsskyldu. Þó leyfist t.d. enginn innskattur af öflun, leigu eða rekstri fólksbifreiða, jafnvel þótt þær séu notaðar við skattskylda starfsemi, sbr. 6. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Jafnframt er innskattsréttur yfirleitt háður umfangi skattskyldu eða skatt­skyldra nota, sbr. t.d. reglur um innskatt af rekstri svokallaðra virðisauka­skatts­­bifreiða. Þó gilda sérreglur t.d. um innskatt af öflun og leigu virðisauka­skattsbifreiða. Sjá 9. gr. reglugerðar um innskatt, en þar eru sett bæði tiltekin formskilyrði (um gerð og búnað) og tiltekin efnisskilyrði (um not) fyrir frádrætti. Efnis­skilyrðin eru svo mis­jöfn eftir því hvort um öflun eða leigu er að ræða annars vegar eða rekstur hins vegar.

III.

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar um innskatt er óheimilt að telja til innskatts virðis­auka­skatt af öflun (kaupum) eða leigu þar til greindra ökutækja, þ.á.m. lítilla sendibifreiða[1], nema þau séu eingöngu notuð vegna sölu skattaðila á vörum eða skattskyldri þjónustu. Að auki er það skilyrði þess að telja megi til innskatts virðisaukaskatt af öflun m.a. lítillar sendibifreiðar að hún sé auðkennd rauðhvítum skráningar­merkjum.

Af bréfi yðar má ráða að umrædd bifreið uppfyllir formskilyrði 9. gr. reglugerðar um innskatt fyrir því að teljast virðisaukaskattsbifreið, að því er virðist sem lítil sendibifreið.

Af bréfi yðar þykir einnig mega ráða að umrædd sendibifreið verði að vera á sérstök­um utanvegaplötum, þ.e. að vera auðkennd grænum skráningarmerkjum. Þegar af þeirri ástæðu er innskattur af öflun hennar óheimill, sbr. 2. mgr. 9. gr. tilvitnaðrar reglu­gerðar varðandi rauðhvít skráningarmerki. Jafnvel þótt bifreiðin gæti verið og væri auðkennd rauðhvítum skráningarmerkjum þá væri innskattur af öflun samt sem áður óheimill þar sem efnisskilyrði fyrir innskatti eru ekki uppfyllt.

Af bréfi yðar er ljóst að umrædd bifreið verður annars vegar notuð við æfinga- og keppnisstarfsemi (sem aksturstæki/keppnisbifreið) og hins vegar við auglýsinga­starfsemi (sem auglýsingastaður/auglýsingabifreið). Þannig verður bifreiðin bæði notuð í undanþeginni íþrótta­starfsemi og í skattskyldri auglýsingastarf­semi. Þar sem bifreiðin verður ekki eingöngu notuð í virðisaukaskattsskyldri starfsemi eru ekki uppfyllt efnis­skilyrði 9. gr. reglugerðar um innskatt.

Í samræmi við framanritað eru yður óheimilt að telja til innskatt virðisaukaskatt af kaupum umræddrar bifreiðar.

IV.

Varðandi útreikning innskatts af rekstri bifreiðarinnar þá eru formskilyrði 9. gr. reglugerðar um innskatt uppfyllt, sbr. umfjöllun um það að framan.

Hvað varðar efniskröfur á þessu sviði þá fara þær saman við almennar reglur, sbr. lokamálsgrein 9. gr. reglugerðarinnar þar sem kemur fram að ákvæði 2.-6. gr. gildi um útreikning innskatts af rekstri umræddra ökutækja.

Í þessu sambandi skal bent á 3.-5. gr. sem fjalla um innskatt í blandaðri starfsemi, þ.e.a.s. í starfsemi sem er að hluta til virðisaukaskattsskyld og að hluta til undanþegin skv. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. 

Aðila í blandaðri starfsemi er heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem eingöngu er keypt til nota við hinn skattskylda hluta starfseminnar, sbr. 1. mgr. 4. gr., en er óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem eingöngu varðar hinn skattfrjálsa hluta starfseminnar, sbr. 2. mgr. 4. gr.

Af bréfi yðar má ljóst vera að notkun bifreiðarinnar sem vélknúins ökutækis verður bundin við æfingar og keppni. Það fellur því enginn viðbótaraksturskostnaður til vegna auglýsingastarfseminnar. Af þessu leiðir að kostnaður við rekstur bifreiðarinnar varðar eingöngu íþróttastarfsemi yðar og er yður því óheimilt að telja virðisaukaskatt vegna venjulegs rekstrarkostnaðar bifreiðarinnar til innskatts, þ.m.t. bensín­kostnaður, viðgerðarkostnaður, viðhaldskostnaður o.fl., sbr. 1. mgr. 4. gr.

Á hinn bóginn er ljóst að yfirborð bifreiðarinnar verður, a.m.k. að hluta til, notað sem auglýsingastaður. Þar sem auglýsingarbirting á bifreið er virðisaukaskattsskyld auglýsingastarfsemi er yður heimilt að telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem þér greiðið vegna ásetningar auglýsinga og annars sérkostnaðar vegna auglýsinga­sölunnar, þ.m.t. viðgerðir á lakkskemmdum sem beinlínis stafa af álímdum aug­lýs­ingum, sbr. 2. mgr. 4. gr.

Ríkisskattstjóri


[1] þ.e. sem eru með leyfða heild­ar­­þyngd 5000 kg eða minna, vissa flutningsgetu og visst farmrými, sbr. 1. tölul. 1.mgr.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum