Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 914/1999

5.7.1999

Virðisaukaskattur - aðgangseyrir að sýningu um sögu og örlög Titanic.

5. júlí 1999
G-Ákv. 99-914

Vísað er til bréfs yðar, sem dagsett er 23. júní 1999 en barst embætti ríkisskattstjóra 2. júlí sl., þar sem leitað er álits embættisins á því hvort aðgangseyrir að fyrirhugaðri sýningu um sögu og örlög skipsins Titanic sé undanþeginn virðisaukaskatti. 

Í bréfinu er frá því greint að sýningin verði sett upp í Hafnarfirði í samvinnu við Ulster Folk & Transport Museum á Norður Írlandi, Hafnarfjarðarbæ (menningar og ferðamálafulltrúa) og Slysavarnarfélag Íslands.  Saga skipsins verði rakin í máli og myndum.  Sýndir verði m.a. munir sem tengjast skipinu, búningar og skartgripir sem notaðir voru í kvikmynd um skipið (Titanic - love story) og sýndar stækkaðar myndir af síðum íslenskra blaða þar sem fjallað er um skipsskaðann.  Þá verði sýndar myndir úr undirdjúpum af skipsflakinu og sýningargestum gefinn kostur á að skoða umhverfi þess með hjálp tölvuforrita.

Í 4. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með síðari breytingum, er kveðið á um að undanþegin virðisaukaskatti sé starfsemi safna, svo sem bókasafna, listasafna og náttúrugripasafna, og hliðstæð menningarstarfsemi.  Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að starfsemi minjasafna falli undir safnastarfsemi í skilningi ákvæðisins og styðst sú framkvæmd við athugasemdir með frumvarpi því er varða að lögum nr. 50/1988.  Það er álit ríkisskattstjóra að sú sýning sem hér um ræðir sé menningarstarfsemi hliðstæð við rekstur minjasafns og falli því utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts.  Í því felst að ekki ber að innheimta virðisaukaskatt af aðgangseyri að sýningunni, hins vegar skal sýningarhaldari bera allan virðisaukaskatt af aðföngum varðandi sýninguna.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum