Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 876/1998

31.8.1998

Fjarskiptaþjónusta milli landa

31. ágúst 1998
G-Ákv. 98-876

Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. ágúst sl, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort og þá hver eigi að skila virðisaukaskatti af ýmis konar fjarskiptaþjónustu milli landa.

Í bréfi yðar eru sett fram tilvik þar sem seljandi er annað hvort skráður erlendis eða hérlendis. Síðan er mismunandi hvort kaupendur þjónustunnar eru erlendir eða innlendir aðilar eða hvort þjónustan er veitt hér á landi eða erlendis.

Áður en svarað verður einstökum liðum í fyrirspurn yðar skal tekið fram að fjarskiptaþjónusta er þess eðlis að erfitt er að skera úr um afhendingarstað með hefðbundnum hætti, enda má segja að afhending hefjist á einum stað og ljúki á öðrum oft í öðru landi. Þess vegna er eðlilegt að líta fremur til þess hvar starfsstöð seljanda er til ákvörðunar um afhendingarstað. Verður fyrirspurn yðar svarað með tilliti til þessa.

Í ákvæði 10. töluliðar 1. mgr. 12. gr. laganna er fjallað um sölu á vissri þjónustu til erlendra aðila sem er undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu. Annars vegar er um að ræða þjónustu sem er að öllu leyti nýtt erlendis og hins vegar sölu á þjónustu til erlendra aðila þó að hún sé ekki nýtt að öllu leyti erlendis ef kaupandi gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts. Í ákvæðinu er síðan talin upp sú þjónusta sem fellur undir ákvæðið og er fjarskiptaþjónusta tilgreind í i.-lið.

Í bréfi yðar er gert ráð fyrir að seljandi sé fyrirtæki sem skráð sé hér á landi og selji símakort, þ.e. fyrirframgreiðslu á talsímaþjónustu 

  • annars vegar til einstaklinga og fyrirtækja erlendis til að greiða fyrir símtöl innanlands og til útlanda
  • hins vegar til innlendra sem erlendra aðila einungis til nota erlendis.

Ljóst er með vísan til sem að framan greinir að þjónustan telst veitt hér á landi og skiptir því einungis máli gagnvart hinum erlendu kaupendum hvort þeir gætu, væri starfsemi þeirra skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts því þá telst salan undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Í annan stað skal tekið fram talsímaþjónusta telst ávallt vera veitt hér á landi ef kaupandi hefur annað hvort búsetu eða starfsstöð hér á landi, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  

Þriðja tilvikið sem þér nefnið í bréfi yðar er á þann veg að spurt er hvort fyrirtæki sem skráð er erlendis beri að innheimta virðisaukaskatt af sölu símakorta til Íslendinga til notkunar hvar sem er í heiminum. Það er álit ríkisskattstjóra að hér sé ekki um að ræða þjónustu sem veitt er hér á landi og ber því hinum erlenda seljanda í þessu tilviki ekki að innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri sölu hér á landi. Aftur á móti þykir ljóst að innlendum aðilum sem kaupa slíka þjónustu erlendis frá ber að greiða virðisaukaskatt vegna kaupanna enda gætu þeir ekki talið virðisaukaskatt vegna slíkra innkaupa til innskatts, sbr. 35. gr. virðisaukaskattslaga.

Fjórða tilviki bréfs yðar er lýst þannig:

“Fyrirtæki, sem skráð er erlendis, selur þjónustu til íslenskra aðila, einstaklinga og fyrirtækja. Þjónustan, sem seld er á Internetinu og innheimt með skuldfærslu á greiðslukort, felst í því að símtöl til útlanda eru flutt yfir Internetið. ………….hefst símtal á því að hringt er í gegnum innanlands símkerfi. Úr því færist svo símtalið í gegnum gátt og yfir Internetið inn á gátt í öðru landi. Þaðan færist svo sama símtal inn á innanlands símkerfi í landinu sem hringt var til.” 

Síðan er spurt hvort hinu erlenda fyrirtæki beri að innheimta og skila virðisaukaskatti hér á landi af þessari sölu eða hvernig fari að öðru leyti með virðisaukaskatt af þjónustunni. 

Með vísan til þess sem að framan greinir þá ber ekki fyrirtækinu að innheimta og skila virðisaukaskatti af þjónustunni heldur hinum innlenda kaupenda enda gæti hann ekki talið virðisaukaskatt vegna slíkra innkaupa til innskatts, sbr. 35. gr. virðisaukaskattslaga.

Fimmta og síðasta tilviki bréfs yðar er lýst þannig:

“Fyrirtæki, sem skráð er erlendis, selur þjónustu yfir Internetið til Íslendinga og útlendinga. Þjónustan felst í því að viðskiptavinir hafa m.a. aðgang að sérstakri spjallrás, þar sem þeir geta átt rauntíma samskipti yfir Internetið. Kaupendur þjónustunnar, ef þeir eru staddir hér á landi, tengjast Internetinu í gegnum íslenskan internetþjónustuaðila samkvæmt sérstökum þjónustusamningi, t.d. við N. eða S., og greiða virðisaukaskatt af þeirri þjónustu. Öll gagnavinnsla vegna þjónustu hins erlenda fyrirtækis fer fram með tölvu sem staðsett er erlendis.”

Síðan er spurt hvernig fari með virðisaukaskatt af þjónustunni.

Ljóst er að hér er um að ræða sölu á fjarskiptaþjónustu eins og hún er skilgreind í lögum nr. 143/1996, um fjarskipti. Jafnframt er ljóst að afhending er erlendis þannig að innlendum aðilum ber að greiða virðisaukaskatt af kaupum þeirrar þjónustu erlendis frá, sbr. 35. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Að lokum skal tekið fram að kaupandi skattskyldrar fjarskiptaþjónustu erlendis frá skal ótilkvaddur gera grein fyrir kaupunum á sérstakri skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skila henni til viðkomandi innheimtumanns ásamt greiðslu eigi síðar en á gjalddaga. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum