Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 868/1998

28.7.1998

Tónleika- eða dansleikjahald

28. júlí 1998
G-Ákv. 98-868

Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. júlí 1998 sem framsent var frá fjármálaráðuneyti og móttekið hjá ríkisskattstjóra 22. júlí sl., þar sem óskað er eftir því að hljómsveitin A fái formlega niðurfellingu virðisaukaskatts af samkomum sínum sem haldnar verða á næstu vikum.

  1. Almennt

    Til svars bréfi yðar skal fyrst tekið fram að ríkisskattstjóri hefur enga lagaheimild til að fella niður virðisaukaskatt sem lögum samkvæmt ber að innheimta af skattskyldri sölu á vöru eða þjónustu.

    Í bréfi yðar er lítið minnst á hvernig væntanlegum samkomum hljómsveitarinnar A mun verða háttað. Þó er eftirfarandi tekið fram:

    “Hljómsveitin vinnur nú að skipulagningu aldamótahátíðar í Laugardalshöll 31. janúar 1999, auk þess sem óskað hefur verið eftir því að hljómsveitin komi fram ásamt B á fyrirhuguðum tónleikum í Sundahöfn nk. haust.

    Um þessar mundir vinnur hljómsveitin að útgáfu nýrrar hljómplötu sem ætlunin er að kynna í öllum landsfjórðungum á næstu vikum.”

    Þá er vísað til þess að í síðustu ferð A hafi verið leikið í mörgum af helstu tónleikahúsum, íþróttahúsum, veitingahúsum og kvikmyndahúsum landsins.

  2. Undanþegin menningarstarfsemi

    Eftir breytingu með lögum nr. 119/1989 er eftirtalin starfsemi undanþegin virðisauka­skatti skv. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt: 

    “Starfsemi safna, svo sem bókasafna, listasafna og náttúrugripasafna, og hliðstæð menningarstarfsemi. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi.

    Starfsemi, sem ákvæðið tekur til, fellur í tvo flokka; annars vegar starfsemi safna og hliðstæða menningarstarfsemi, hins vegar sýningar og samkomuhald af því tagi sem lagagreinin tilgreinir

  3. Álitamál varðandi undanþegna tónleika og skattskylt dansleikjahald

    Undanþága skv. 2. málsl. 4. tölul. nær aðeins til aðgangseyris af sýningum, samkom­um og öðrum skemmtunum sem sérstaklega eru taldar upp í lagaákvæðinu. Greiða skal virðisaukaskatt af aðgangseyri að öðrum skemmtunum og samkomum enda sé um atvinnustarfsemi að ræða. Til dæmis eru dansleikir skattskyld skemmtan og skiptir þá ekki máli þótt samkomuhaldari velji skemmtuninni annað heiti, en á slíku hefur borið. Útisamkomur, t.d. um verslunarmannahelgi, eru annað dæmi um virðis­aukaskatts­­skylda samkomu, enda fer þar saman tónleikar, dansleikir, veitinga­starfsemi o.fl.

    Ýmis álitamál hafa risið m.a. um hvað teljist vera tónleikar í skilningi ákvæðisins. Í þessu sambandi miðast framkvæmd við eftirfarandi sjónarmið:

    Tónleikar. Með tónleikum er átt við lifandi tónlistarflutning fyrir áheyrendur þar sem ekki fer fram dans. Undanþáguákvæðið tekur til tónleika óháð því hvort þar er flutt sígild tónlist, jazz, blues, popp eða önnur tegund tónlistar og án tillits til þess hvers lensk tónlistin er.

    Aðstandendur dansleikjahalds hafa stundum haldið því fram að til samkomu sé stofnað með tónleikahald í huga en áheyrendur hafi skyndilega fyllst óviðráðanlegri þörf til að tjá tilfinningar sínar og hrifningu á tónlistarflutningnum með því að dansa hver við annan. Fyrirsláttur af þessu tagi hefur í fæstum tilvikum borið tilætlaðan árangur enda er yfirleitt augljóst hvort gert er ráð fyrir dansi á samkomu eða ekki.

    Skilyrði fyrir undanþágu skv. 2. málsl. 4. tölul. er að samkoma sé ekki í neinum tengslum við annað samkomuhald eða veitingastarfsemi.

    Annað samkomuhald. Heildarandvirði aðgöngumiða er virðisaukaskattsskylt ef skemmtun eða önnur samkoma, sem ekki fellur undir undanþáguákvæðið, er auglýst eða kynnt á annan hátt samhliða undanþeginni samkomu og hún haldin samhliða, á undan eða á eftir undanþeginni samkomu, þannig að í raun sé um samfellda samkomu að ræða. Skiptir þá almennt ekki máli hvort aðgangur er seldur sérstaklega að hinni undanþegnu samkomu eða sami aðgöngumiði gildi. Þegar aðgangur er seldur samhliða að samkomu sem fellur undir undanþáguákvæðið og samkomu sem ekki nýtur undanþágu er heildarandvirði aðgöngumiða skattskylt með sama hætti.

    Samkvæmt framansögðu skal innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarandvirði aðgöngumiða ef skemmtun samanstendur t.d. af leiksýningu og dansleik. Einnig ef tónleikar eru haldnir í tengslum við útihátíð. Ekki er talið að skilyrðið sé rofið ef samkoma samanstendur af margs konar undanþegnum samkomum, t.d. tónleikum og leiksýningu.

    Veitingastarfsemi. Annars undanþegin samkoma fellur ekki undir undanþágu­ákvæð­ið ef veitingar eru seldar eða framreiddar á meðan dagskrá samkomu stendur, þ.e. meðan t.d. tónlistarflutningur eða sýning íslenskrar kvikmyndar fer fram. Sala heitra máltíða, áfengra drykkja og hressingar (kaffi, gosdrykkir) telst m.a. veitingasala í þessu sambandi. Veitingasala utan þess salar, þar sem tónleikar eru haldnir, kvikmynd sýnd o.s.frv., hefur hins vegar ekki áhrif á undanþáguna. Miðað er við að jafnan skuli innheimta og skila virðisaukaskatti fari samkoma fram í veitingahúsi með reglulega starfsemi en í öðrum tilvikum verður að meta þátt veitinga í heildaryfirbragði samkomunnar. Ef selt er inn á sýningu og veitingar eru innifaldar í aðgangseyri þá ber að innheimta virðisaukaskatt af heildarverði aðgöngumiða.

  4. Lokaorð

    Af framangreindu má vera ljóst að um skattskyldu samkomuhalda hljómsveitarinnar A fer eftir eðli skemmtunar hverju sinni.

    Haldi A tónleika, sem ekki hafa yfirbragð almenns dansleikjahalds og uppfylla framangreind skilyrði undanþágu­ákvæðis­ins, þá ber þeim ekki að innheimta virðisaukaskatt af aðgangseyri. Aðgangs­eyrir að dansleik eða öðru samkomuhaldi, sem ekki uppfyllir framangreind undan­þágu­skilyrði, er aftur á móti skattskyldur.

    Jafnframt er bent á að samkomuhaldara, t.d. eiganda veitingastaðar, getur verið skylt að innheimta virðisaukaskatt af aðgangseyri að skemmtun svo sem á við um dansleikjahald í hans nafni, enda þótt hljómsveit beri ekki að innheimta virðisauka­skatt af þóknun sem hún fær frá samkomuhaldaranum fyrir að spila fyrir dansi sbr.  12. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Sama gildir að sjálf­sögðu um þóknun frá tónleikahaldara eins og t.d. gæti átt við ef A spilar á vænt­an­­legum tónleikum B.

    Að lokum skal tekið fram að reglugerð nr. 58/1991, um innheimtu virðisaukaskatts af dansleikjum og öðrum skemmtanaskattsskyldum samkomum, stendur óhögguð þrátt fyrir að lög nr. 58/1970, um skemmtanaskatt, hafi verið felld niður, enda fjallar hún efnislega um bráðabirgðainnheimtu virðisaukaskatts.

 Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum