Hlutverk Skattsins og framkvæmd eftirlits með peningaþvætti

Áhættumiðað eftirlit

Áhættumiðað eftirlit byggist á peningaþvættistilskipun ESB nr en þar segir:

10. By 26 June 2017, the ESAs shall issue guidelines addressed to competent authorities in accordance with Article 16 of Regulations (EU) No 1093/2010, (EU) No 1094/2010 and (EU) No 1095/2010 on the characteristics of a risk- based approach to supervision and the steps to be taken when conducting supervision on a risk-based basis. Specific account shall be taken of the nature and size of the business, and, where appropriate and proportionate, specific measures shall be laid down.“
Grein 48 (10) í 4. peningaþvættistilskipun ESB nr. 2015/849

Samkvæmt framangreindu felst áhættumiðað eftirlit í að eftirlitsaðilum ber að áhættumeta þá tilkynningarskyldu aðila sem þeir hafa eftirlit með, bæði fjármálamarkaðinn í heild og starfsemi einstakra aðila, m.a. hvað varðar einstakar vörur og þjónustu sem þeir bjóða upp á. Einnig ber þeim að greina hvar meiri hætta er til staðar og hvar hún er minni og leggja áherslu á eftirlit með þeirri starfsemi og viðskiptum þar sem meiri hætta er á peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og fjármögnun gereyðingarvopna.

Evrópsku eftirlitsstofnanirnar hafa gefið út viðmiðunarreglur um áhættumiðað eftirlit (e. The Risk based Supervision Guidelines RBS). Samkvæmt reglunum skiptist áhættumiðað eftirlit í fernt. Í fyrsta lagi að skilgreina áhættuþætti, í öðru lagi að meta áhættu, í þriðja lagi áhættumiðað eftirlit og í fjórða lagi í endurskoðun og eftirfylgni. Áhersla er lögð á að eftirlit sé endalaus hringrás, en í því felst annars vegar að áhættuþættir og áhætta sé reglulega endurmetin og hins vegar að eftirlit, endurskoðun og eftirfylgni sé viðvarandi í starfsemi aðila. Við eftirlit skal tekið tillit til stærðar þess aðila sem metinn er hvað varðar upplýsingagjöf aðila, tíðni og umfang eftirlits. Þrátt fyrir það skulu eftirlitsaðilar hafa í huga að smærri lögaðilar geta falið í sér meiri áhættu en stærri lögaðilar.

Aðilar sem falla undir eftirlit ríkisskattstjóra

  • Endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi.
  • Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í eftirfarandi tilvikum:
  1. þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,
  2. þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,
  3. þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,
  4. þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,
  5. þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,
  6. þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.
  • Fasteignasölur, bifreiðaumboð, fasteigna-, fyrirtækja- og skipa- og bifreiðasalar og fasteignafélög hvort sem starfsemi snýst um beina leigu eða sölu þessara félaga á fasteignum.
  • Leigumiðlarar þegar mánaðarlegar leigugreiðslur nema 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
  • Listmunasalar eða listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
  • Skartgripa- og gullsalar, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
  • Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. skilgreiningu í 3. gr. en þar segir:
  • Einstaklingur eða lögaðili sem veitir eftirfarandi þjónustu gegn gjaldi:
  1. aðstoðar við stofnun fyrirtækja eða annarra lögaðila,
  2. gegnir eða útvegar annan aðila til að gegna stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra fyrirtækis, stöðu meðeiganda í félagi eða sambærilegri stöðu hjá annarri tegund lögaðila,
  3. útvegar lögheimili eða annað skráð heimilisfang sem á svipaðan hátt er notað til að hafa samband við fyrirtækið eða aðra tengda þjónustu,
  4. starfar sem eða útvegar annan einstakling til að starfa sem fjárvörsluaðili sjóðs eða annars sambærilegs aðila,
  5. starfar sem eða fær annan einstakling til að starfa sem tilnefndur hluthafi fyrir annan aðila en fyrirtæki sem skráð er á skipulegum markaði.
  • Einstaklingar og lögaðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
  • Einstaklingar eða lögaðilar sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnanna og happdrætta á grundvelli sérlaga.

Væntingar eftirlitsaðila til tilkynningarskyldra aðila

Ríkisskattstjóri viðhefur áhættumiðað eftirlit með aðilum sem falla undir l–u-lið 1. mgr. 2. gr. pþl. Við framkvæmd eftirlits kallar ríkisskattstjóri ýmist eftir gögnum og/eða framkvæmir vettvangsathugun á starfsstöð tilkynningarskylda aðilans.

Við framkvæmd eftirlits getur ríkisskattstjóri meðal annars kannað hvort áhættumat og viðeigandi ferlar og stýringar séu til staðar hjá tilkynningarskylda aðilanum og hvort starfað sé samkvæmt þeim. Þá getur ríkisskattstjóri kannað hvort áreiðanleikakannanir viðskiptamanna séu framkvæmdar með fullnægjandi hætti, m.t.t. gagnaöflunar og varðveislu gagna. Auk þess getur farið fram athugun á fræðslu og þjálfun starfsmanna og störf ábyrgðarmanns séu með fullnægjandi hætti.

Samhliða framangreindu framkvæmir ríkisskattstjóri athugun á hlítni tilkynningarskylda aðilans við lög nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna.

Nánari umfjöllun um skyldur tilkynningarskyldra aðila samkvæmt lögum nr. 68/2023

Dagsektir

Ríkisskattstjóri getur lagt dagsektir á tilkynningarskyldan aðila og aðila skv. 3. mgr. 38. gr. pþl. og/eða 4. mgr. 26. gr. þfl. veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan frests. Dagsektir leggjast á þangað til farið hefur verið að kröfum eftirlitsaðila. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1.000.000 kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.

Stjórnvaldssektir

Ríkisskattstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 140/2018 og laga nr. 68/2023, reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á tilkynningarskylda aðila sem falla undir eftirlit ríkisskattstjóra geta numið frá 500.000 kr. til 500.000.000 kr. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á starfsmenn tilkynningarskyldra aðila sem falla undir eftirlit ríkisskattstjóra geta numið frá 100.000 kr. til 125.000.000 kr.

Ef einstaklingur eða lögaðili hefur hlotið fjárhagslegan ávinning af broti er heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem nemur allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur hins brotlega nam. Þegar brot á lögum þessum er framið í starfsemi lögaðila, og í þágu hans, má leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðila. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann ef brotið var í þágu hans. Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

Samkvæmt 53. gr. pþl. og 36. gr. þfl. er meginreglan að ríkisskattstjóri skuli birta upplýsingar um allar stjórnvaldssektir sem ákveðnar eru samkvæmt lögunum. Að lágmarki skal upplýsa um tegund og eðli brots og hver ber ábyrgð á brotinu. 

Reglur 33/2025 um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018 og nr. 68/2023

Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um opinbera birtingu viðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018 og nr. 68/2023

Sátt

Ríkisskattstjóra er heimilt að ljúka máli með sátt, með samþykki málsaðila, hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga nr. 140/2018 og/eða laga nr. 68/2023, reglugerðir eða reglur sem settar eru á grundvelli þeirra eða ákvarðanir eftirlitsaðila sem á þeim byggjast. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.

Reglur 33/2025 um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018 og nr. 68/2023

Samkvæmt 53. gr. pþl. og 36. gr. þfl. er meginreglan að ríkisskattstjóri skuli birta upplýsingar um allar sáttir sem ákveðnar eru samkvæmt lögunum. Að lágmarki skal upplýsa um tegund og eðli brots og hver ber ábyrgð á brotinu.

Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um opinbera birtingu viðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018 og nr. 68/2023

Birtar ákvarðanir ríkisskattstjóra

Brottvikning stjórnar og framkvæmdastjóra

Ríkisskattstjóri getur vikið stjórn tilkynningarskylds aðila frá í heild eða hluta, sem og framkvæmdastjóra, hafi verið brotið alvarlegum, ítrekuðum eða kerfisbundnum hætti gegn ákvæðum laga nr. 140/2018, reglugerða eða reglna sem settar eru á grundvelli þeirra. Viðkomandi er óheimilt að taka sæti í stjórn eða framkvæmdastjórn tilkynningarskylds aðila, sem fellur undir gildissvið laga þessara, næstu fimm ár eftir brottvikningu.

Samkvæmt 53. gr. pþl. og 36. gr. þfl. er meginreglan að ríkisskattstjóri skuli birta upplýsingar um allar ákvarðanir um brottvikningu stjórnar og framkvæmdastjóra sem ákveðnar eru samkvæmt lögunum. Að lágmarki skal upplýsa um tegund og eðli brots og hver ber ábyrgð á brotinu.

Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um opinbera birtingu viðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018 og nr. 68/2023

Birtar ákvarðanir ríkisskattstjóra

Ítarefni

Skammstafanir

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 (pþl.)
Financial action task force (FATF)
Tilkynningarskyldir aðilar (TA)
Skrifstofa fjármálagreiningar lögreglu (SFL)
Ríkisskattstjóri (RSK)
Fjármálaeftirlitið (FME)
Ríkislögreglustjóri (RLS)

Hvar finn ég reglurnar?

Lög 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Reglur 33/2025 um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018 og nr. 68/2023

Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um opinbera birtingu viðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018 og nr. 68/2023

Handbók til vitundaraukningar þeirra sem sinna skatteftirliti og skattrannsóknum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Tilmæli FATF - International standards on combating money laundering and the financing of terrorism & proliferation

Skýrsla FATF - Money laundering/terrorist financing risks and vulnerabilities associated with gold

Skýrslur ríkislögreglustjóra um áhættumat vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka

 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum