Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður 2/2019

Greiðsla aðflutningsgjalda af jólagjöf

11.3.2019

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um synjun á niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna sendingar sem innihélt jólagjöf en sendandi gjafarinnar hafði skráð lögheimili á Íslandi.

Kærandi hélt því fram að sendandi hefði fasta búsetu á Spáni þar sem hann stundaði nám og því félli sendingin undir skilyrði undanþáguákvæða varðandi gjafasendingar, þrátt fyrir að sendandinn hafi haft skráð lögheimili á Íslandi.

Niðurstaða: Í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu varðandi gjafir sem sendar eru til frá einstaklingum búsettum erlendis. Undanþágur eru almennt túlkaðar þröngt og eru gerðar ríkar kröfur um að skilyrðum fyrir undantekningum á almennri tollskyldu séu fyrir hendi. Tollstjóri miðar búsetu almennt við skráningu lögheimilis en í áður tilgreindum ákvæðum er ekki gerð krafa um fasta búsetu erlendis, eins og gert er t.d. í 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga varðandi tímabundinn innflutning á bifreiðum. Þar að auki voru í máli þessu lögð fram gögn sem sýndu með óyggjandi hætti fram á búsetu sendanda á Spáni til nokkurra ára. Tollstjóri taldi því rétt, eins og máli þessu var háttað og með hliðsjón af framlögðum gögnum, að veita kæranda undanþágu skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi. Því var ákvörðun Tollstjóra um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda af umræddri sendingu felld úr gildi.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 21. janúar 2019, hefur A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 22. desember 2018 um greiðslu aðflutningsgjalda að upphæð 800 kr., af sendingu með sendingarnúmerið X og álagningu Íslandspósts á umsýslugjaldi að upphæð 595 kr., af sömu sendingu. Kærandi óskar eftir því að ákvörðun Tollstjóra verði hnekkt og að álögð gjöld verði að fullu felld niður.

II. Málsmeðferð

Þann 21. desember 2018 hafði kærandi samband við embætti Tollstjóra með tölvupósti og óskaði eftir skýringu á þeim gjöldum sem lögð höfðu verið á sendingu sem hann fékk senda frá Spáni, þar sem um væri að ræða jólagjöf frá dóttur og tengdasyni. Sendingin kom til landsins með Íslandspósti og á hana höfðu verið lagðar 800 kr., í aðflutningsgjöld og 595 kr., í umsýslugjald. Starfsmaður Tollstjóra benti kæranda á að hafa samband við tollmiðlun Íslandspósts vegna þessa. Kærandi kvaðst þegar hafa haft samband við Íslandspóst og að honum hafi verið bent á að hafa samband við Tollstjóra.

Þann 22. desember 2018 sótti kærandi sendinguna til Íslandspósts á Dalvegi 18, 200 Kópavogi og greiddi áður tiltekin álögð gjöld.

Í tölvupósti til kæranda þann 27. desember 2018 innti starfsmaður Tollstjóra kæranda eftir því hvort sendandi hefði skráð lögheimili á Spáni. Í tölvupóstinum sagði jafnframt að ef sendandi gjafar hefur lögheimili á Íslandi sé litið svo á að um hefðbundna póstsendingu sé að ræða. Kærandi sagði sendanda vera í námi á Spáni og því væri hann búsettur þar.

Aftur var kærandi í tölvupóstsamskiptum við Tollstjóra dagana 8. og 9. janúar 2019. Var þá ítrekað fyrir kæranda að ekki væri mögulegt að njóta tollfrelsis skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008 nema sendandi gjafar hefði skráð lögheimili erlendis. Kærandi ítrekaði þá að sendandinn væri í námi á Spáni og teldist því búsettur þar.

Þann 18. janúar 2019 var kæranda kynnt ákvörðun Tollstjóra í málinu með tölvupósti. Skilyrði undanþágunnar væru ekki uppfyllt þar sem sendandi væri með skráð lögheimili á Íslandi og þar af leiðandi nyti sendingin ekki tollfrelsis.

Ákvörðun Tollstjóra um greiðslu aðflutningsgjalda af sendingu með sendingarnúmerið X var kærð með tölvupósti þann 21. janúar 2019.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að honum sé ekki skylt að greiða gjöld af sendingunni sem um ræðir þar sem um jólagjöf sem undanþegin sé tollskyldu sé að ræða, en ekki almenna sendingu. Sendandi gjafar hafi fasta búsetu á Spáni þar sem hann stundar nám og því falli sendingin undir skilyrði undanþáguákvæðis a-liðar 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi þrátt fyrir að sendandi hafi skráð lögheimili á Íslandi. Námsmönnum sé enda ekki skylt að færa lögheimili sitt við þessar aðstæður samkvæmt lögheimilislögum nr. 21/1990. Þá væri því ekki að jafna að vera búsettur erlendis og að hafa lögheimili erlendis og að hvergi væri tekið fram í tollalögum að sendandi þyrfti að hafa lögheimili skráð erlendis til að sendingar gætu notið tollfrelsis.

IV. Niðurstöður

Deilt er um hvort sending með sendingarnúmerið X geti talist tollfrjáls skv. a-lið 8. tl. 1. mgr.

6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi, eða beri almenna tollskyldu, sbr. 3. gr. tollalaga. Meginregla tollalaga er sú að almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt tollalögum, sbr. 3. gr. laganna. Undantekningu frá þessari meginreglu er m.a. að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi. Allar undantekningar ber að túlka þröngt og verður því að gera ríkar kröfur um að skilyrðum fyrir undantekningu á almennri tollskyldu séu fyrir hendi.

Gjafir sem sendar eru til landsins eru tollfrjálsar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þ.e. að um sé að ræða gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 13.500 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 13.500 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti, sbr. 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga.

Tollstjóri miðar búsetu almennt við skráningu lögheimilis í Þjóðskrá, enda er það sú opinbera skráning sem gefur til kynna búsetu einstaklinga. Sú staðreynd að Þjóðskrá heimili námsmönnum sem dveljast erlendis að hafa lögheimili hér á landi ekki áhrif á skattskyldu einstaklinga við innflutning. Hins vegar er í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi kveðið á um að sendandi gjafar skuli vera búsettur erlendis en ekki gerð krafa um fasta búsetu erlendis eins og gert er t.d. í 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga varðandi tímabundinn innflutning á bifreiðum. Þar að auki hafa í máli þessu verið lögð fram gögn sem sýna með óyggjandi hætti fram á búsetu sendanda á Spáni til nokkurra ára. Tollstjóri telur því rétt, eins og máli þessu er háttað og með hliðsjón af framlögðum gögnum, að veita kæranda undanþágu skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi.

Varðandi umsýslugjald sem lagt var á sendinguna við tollafgreiðslu er ljóst að um er að ræða gjald sem Íslandspóstur innheimtir af viðskiptavinum vegna tollskyldra sendinga. Í umsýslu felst m.a. skráning sendingar, geymsla og önnur umsýsla með sendinguna og er gjaldið því alls óviðkomandi embætti Tollstjóra.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða Tollstjóra að skilyrði a-liðs 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi fyrir því að tækifærisgjöf geti talist tollfrjáls, séu uppfyllt.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda af póstsendingu nr. X, er felld úr gildi.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar þessarar, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Virðingarfyllst,

f.h. Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum