Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2005

Innheimtu eftirgefins vörugjalds af leigubifreið

13.1.2005

I.

Embættinu barst þann 16. ágúst 2004 kæra fyrir yðar hönd, þar sem kærð var ákvörðun tollstjóra um að innheimt yrði eftirgefið vörugjald af leigubifreið með fastanúmerið x. Er kæran byggð á 1. mgr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, sem og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í ofangreindri kæru kemur m.a. fram að kærandi hafi óskað eftir því við skattyfirvöld að skattframtal kæranda vegna ársins 2002 yrði leiðrétt og að úrskurðar skattyfirvalda væri að vænta vegna þessa. Með bréfi embættis tollstjórans í Reykjavík þann 29. september sl., til kæranda, kom fram að enn hefði ekki verið tekin afstaða til erindis hans hjá skattyfirvöldum. Var kæranda tilkynnt að í ljósi þess að mál vegna skattskýrslu hans væri til efnismeðferðar hjá skattyfirvöldum og þar sem það væri til hagsbóta fyrir kæranda að tollstjóri úrskurðaði ekki um endurgreiðslu vörugjalds fyrr en niðurstaða um skattskýrslu vegna ársins 2002 lægi fyrir hjá skattyfirvöldum, yrði uppkvaðningu úrskurðar tollstjóra um innheimtu eftirgefins vörugjald frestað í þrjá mánuði. Ef niðurstaða skattayfirvalda hefði ekki borist tollstjóra innan þriggja mánaða myndi embættið úrskurða í málinu. Þar sem nú hafa liðið þrír mánuðir frá því ofangreint bréf var sent kæranda mun embættið nú úrskurða í málinu, enda ber tollstjóra að gæta að málshraða, sbr. 3. mgr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, sbr. og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum.

II.

Embættið hefur í gögnum sínum umboð undirritað af kæranda, A, til handa B hf. þar sem B hf. er veitt fullt umboð til undirritunar allra nauðsynlegra gagna er varða kaup hans á bifreiðinni með fastanúmerið X, af gerðinni VW Caravelle. Er umboðið undirritað af kæranda þann 24. febrúar 2000, ásamt undirritunum tveggja votta að réttri dagsetningu og fjárræði aðila.

Þann 28. febrúar 2000 undirritaði C, f.h. B hf, yfirlýsingu fyrir hönd kæranda vegna eftirgjafar vörugjalds af leigubifreiðinni X. Er yfirlýsingin ennfremur staðfest af tveimur vottum. Í yfirlýsingunni fólst skuldbinding þess efnis að endurgreiða bæri eftirgefið vörugjald að fullu, með verðbótum, í samræmi við 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 254/1993 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, sbr. nú reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, hafi sá sem eftirgjafar nýtur ekki að lágmarki kr. 1.164.000,00 í reiknað endurgjald af leiguakstri, annað af tveimur almanaksárum eftir að eftirgjöf var veitt, sbr. 2. mgr. 1. tl. a-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum. Sama gildir sé ökutækið selt eða tekið til annarrar notkunar en leiguaksturs.

Í bréfi embættisins þann 10. mars 2003 kom fram að komið hefði í ljós að kvaðabinding ökutækisins X vegna eftirgefins vörugjalds af leigubifreið væri runnin út. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að leggja fram staðfest endurrit af skattskýrslum næstu tveggja heilu almanaksára eftir að eftirgjöfin var framkvæmd. Þá kom fram að yrðu umræddar upplýsingar ekki veittar eða uppfylltu ekki skilyrði um lágmarkstekjur myndi eftirgefið vörugjald verða innheimt að fullu.

Var skattskýrslum vegna gjaldaáranna 2000 og 2001 skilað inn en reiknað endurgjald af leiguakstri reyndist undir kr. 1.164.000. Að mati embættisins voru því skilyrði 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 254/1993, um eftirgjöf vörugjalds, ekki uppfyllt.

Með bréfi embættisins þann 9. janúar 2004 var þess krafist að kærandi greiddi eftirgefið vörugjald af bifreiðinni innan 15 daga, skv. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 254/1993. Ella yrði gengið að lögveði tollstjóra í ökutækinu fyrir ógreiddu vörugjaldi, dráttarvöxtum og kostnaði, skv. 3. mgr. 111. gr. tollalaga, sbr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Andmæli f.h. kæranda vegna bréfs embættisins þann 9. janúar 2004 bárust embættinu þann 22. janúar 2004 í tölvupósti frá D. Kom þar fram að dregið væri í efa að ofangreint umboð, dagsett þann 24.2.2000, hafi verið þess efnis að kærandi hefði veitt B hf. umboð til ritunar yfirlýsingarinnar þann 28.2.2000 sem og til þeirrar skuldbindingar sem fólst í yfirlýsingunni. Í andmælum var ennfremur staðhæft að við gerð rekstrarskýrslu RSK 4.11 vegna aksturs leigubifreiðarinnar komi fram að reiknuð laun væru kr. 600.000 og hagnaður kr. 726.990. Þá var tekið fram að kærandi væri launamaður og væri því ekki skyldugur að reikna sér hærra reiknað endurgjald samkvæmt skattalögum en sem nam tilfærðri fjárhæð. Það breyti hins vegar ekki þeirri staðreynd að hagnaður hans af starfsemi umfram reiknuð laun væru kr. 726.990. Kæranda hefði verið í lófa lagið að tilgreina hagnaðinn 0 kr. á rekstrarskýrslu sinni og færa alla fjárhæðina sem reiknuð laun kr. 1.326.990 og uppfylla þannig þetta skilyrði yfirlýsingarinnar. Taldi kærandi að hann hefði uppfyllt öll skilyrði samkvæmt yfirlýsingunni enda hefðu samanlagðar tekjur hans af leigubifreiðakstri á rekstrarárinu 2002 verið umfram kr. 1.326.990 og ekki geti skipt þar höfuðmáli hvað tekjurnar eru nefndar þar sem hvort tveggja séu tekjur af akstri leigubifreiðar.

Í andmælunum kom ennfremur fram að með bréfi sínu þann 9.1.2004 hafi tollstjóri úrskurðað að samkvæmt framlögðum gögnum hafi skilyrði fyrir eftirgjöf vörugjalds ekki verið uppfyllt og varað við aðför að lögum ef ekki yrði greitt innan 15 daga frests. Er þá gerð sú athugasemd að ákvörðun tollstjóra hafi ekki verið boðuð og einnig að þar væri kæranda ekki leiðbeint um kæruleiðir.

Í ákvörðun embættisins þann 18. júní 2004 er vísað til andmæla er bárust embættinu þann 22. janúar 2004. Gerði embættið þá athugasemd við rekstrarskýrsluna að ekki væri tekið fram fyrir hvaða ár hún væri gerð, en eins og fram kemur í yfirlýsingunni frá 28. febrúar 2000 er miðað við að eftirgefið vörugjald verði endurgreitt að fullu hafi sá sem eftirgjafar nýtur ekki að lágmarki kr. 1.164.000 í reiknað endurgjald af leiguakstri annað af tveimur heilum almanaksárum eftir að eftirgjöf var veitt. Var í bréfi embættisins tekið fram að í þessu tilviki teldi embættið að ákvæðið ætti við árin 2000 og 2001. Samkvæmt skattframtali fyrir gjaldaárið 2000 var ljóst að kærandi hafði, kr. 455.608 í reiknað endurgjald og kr. 0 í hagnað. Samkvæmt skattframtali fyrir tekjur ársins 2001, hafði kærandi kr. 604.800 í reiknað endurgjald og kr. 370.706 í hagnað af rekstri sbr. rekstrarskýrslu 4.11. Embættið hafnaði því að hagnaður skv. framtalinu gæti komið í stað reiknaðs endurgjalds. Ákvæði 24. gr. reglugerðar nr. 254/1993 væru skýr um að reiknað endurgjald þurfi að vera að lágmarki kr. 1.164.000, og enda væri mun lægri skattur greiddur af hagnaði en af reiknuðu endurgjaldi. Þá var því hafnað að hægt væri að rengja gildi umboðs til handa B hf. enda væri það undirritað af kæranda sjálfum.

Með ákvörðun embættisins þann 18. júní var þess því krafist af kæranda að hann greiddi eftirgefið vörugjald kr. 498.137 ásamt verðbótum., sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 254/1993, eða alls kr. 517.567,00. Baðst embættið velvirðingar á þeim töfum sem orðið höfðu á afgreiðslu málsins. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að koma að andmælum við ákvörðunina. Þá kom fram að dráttarvextir myndu byrja að reiknast 30 dögum eftir að embættið hefði sannanlega fyrst krafist um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá kom fram að yrði vörugjaldið ekki greitt yrði gengið að lögveði tollstjóra í bifreiðinni, sbr. ofangreind lagaákvæði.

Var kæranda ennfremur leiðbeint um kærurétt sinn skv. 1. mgr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, sbr. og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum. Embættið taldi rétt, með vísan til framkominna andmæla kæranda, að úrskurða ekki í málinu þann 18. júní 2004 heldur svara andmælunum og leiðbeina kæranda um kæruleiðir.

Með bréfi embættisins þann 10. ágúst 2004 kom fram að eftirgefið vörugjald af ofangreindri bifreið hefði enn ekki verið greitt. Var þess krafist að eftirgefið vörugjald, ásamt verðbótum og dráttarvöxtum, að kr. 577.679,00, yrðu greidd hið fyrsta eða eigi síðar en 18. ágúst 2004. Yrði áskorun um greiðslu ekki sinnt fyrir 19. ágúst 2004 myndi embættið hefja frekari innheimtuaðgerðir sem kærandi yrði látinn bera allan kostnað af.

Með tölvupósti þann 16. ágúst 2004 var það ítrekað við D að ákvörðun embættisins væri kæranleg til úrskurðar tollstjórans í Reykjavík, innan þriggja mánaða frá 18. júní 2004, sbr. 1. mgr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi fyrir hönd kæranda, undirritað af D, sem barst embættinu þann 17.8.2004, var ákvörðun tollstjóra, varðandi greiðslu eftirgefins vörugjalds af leigubifreiðinni X, kærð. Í kærunni var rakið að krafa embættisins um greiðslu eftirgefins vörugjalds af bifreiðinni X væri reist á þeim rökum að kærandi hafi ekki haft reiknað endurgjald umfram kr. 1.164.000 annað af tveimur almanaksárum eftir að eftirgjöf var veitt og að litið væri til rekstraráranna 2001-2002. Tollstjóra hafi áður verið gerð grein fyrir RSK

4.11 vegna rekstrar 2002 (einnig auðkennt fylgiskjal með skattframtali 2003) og að þar væri reiknað endurgjald kr. 600.000 og hagnaður af rekstri kr. 726.990. Var þá tekið fram að tollstjóri hafi kosið að líta svo á að framangreint skilyrði væri ekki uppfyllt, enda væri óljóst til hvaða árs sé vísað, og ennfremur væri mun lægri skattur af hagnaði en reiknuðu endurgjaldi svo dæmi séu tekin. Taldi kærandi þessa röksemdafærslu dæma sig sjálfa.

Því næst kemur fram í kærunni að litið sé svo á að gerð hafi verið mistök við gerð skattframtals 2003 vegna ársins 2002 sem verði að leiðrétta, sé litið til málsmeðferðar tollstjóra, og var tekið fram að óskað hafi verið eftir því við skattyfirvöld að hagnaður rekstrarársins 2002 kr. 726.990 yrði færður til hækkunar reiknaðra launa. Úrskurðar skattyfirvalda þar að lútandi væri því að vænta. Þá var þess krafist að ákvörðun tollstjóra um greiðslu eftirgefins vörugjalds yrði felld úr gildi og að kæranda yrði tilkynnt um það með formlegum hætti, þar sem skilyrði fyrir niðurfellingu væru fyrir hendi.

Þann 14. september 2004 greiddi kærandi eftirgefið vörugjald af leigubifreiðinni X.

Eins og að framan er rakið ákvað tollstjóraembættið, með bréfi þann 29. september 2004, að fresta uppkvaðningu úrskurðar vegna vörugjaldsins í þrjá mánuði, frá dagsetningu bréfsins, enda kynni niðurstaða skattyfirvalda að leiða til þess að lögð yrðu fram ný gögn sem sýnt gætu fram á að reiknað endurgjald væri að lágmarki 1.164.000, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 254/1993.

Embættið óskaði eftir því að framvísað væri til embættisins staðfestingu á því að D hefði umboð til að koma fram fyrir hönd kæranda í málinu og ennfremur að framvísað væri til þess afriti af skattframtali 2003 fyrir árið 2002 en það hafði þá ekki borist embættinu.

Þá kemur fram í bréfinu að embættið telji að yrði úrskurðað í málinu án þess að ný gögn lægju fyrir myndi niðurstaðan verða efnislega sú sama og í ákvörðun þess þann

18. júní 2004. Þar sem nú hafa ekki enn borist svör frá embætti skattstjórans í Norðurlandsumdæmi vestra og liðnir eru 3 mánuðir frá því að embættið tilkynnti um frestun uppkvaðningar úrskurðar í málinu, þá telur embættið nauðsynlegt að úrskurða í málinu, sbr. framangreind ákvæði um málshraða.

III.

Í 3. tl. 1. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 254/1993 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, kemur fram að lækkun vörugjalds sé m.a. háð því skilyrði að umsækjandi undirriti yfirlýsingu þess efnis að hann skuldbindi sig til þess að endurgreiða eftirgefið vörugjald að fullu, með verðbótum í samræmi við 2. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar, hafi hann ekki að lágmarki 1.164.000 kr. í reiknað endurgjald af leiguakstri, sbr. 2. mgr. 1. tl. a-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, annað af næstu tveimur heilu almanaksárum eftir að eftirgjöf er veitt.

Yfirlýsing um eftirgjöf vörugjalds var undirrituð þann 28. febrúar 2000 eins og áður hefur komið fram. Skattframtölum fyrir gjaldaárin 2000 og 2001 hefur verið skilað til embættisins en ef miðað er við orðalag 24. gr. reglugerðar nr. 254/1993 þá ber að líta til gjaldaáranna 2001 og 2002. Embættið telur rétt að fram komi að þar sem yfirlýsing um eftirgjöf vörugjalds er undirrituð þann 28. febrúar 2000 þá hefði embættið, með tilliti til meðalhófs, tekið skattframtal gjaldaársins 2000 gilt ef skilyrði um lágmarkstekjur hefðu verið uppfyllt á því gjaldaári og kærandi þar með notið vafans.

Eins og að framan er rakið þá er skýrt kveðið á um það í 3. tl. 1. mgr. 24. gr. reglugerðar um vörugjald af ökutækjum að til þess að njóta eftirgjafar vörugjalds þurfi umsækjandi að hafa að lágmarki 1.164.000 kr. í reiknað endurgjald af leiguakstri annað af næstu tveimur heilu almanaksárum eftir að eftirgjöf er veitt. Ljóst er af skattframtölum fyrir árin 2000 og 2001 að reiknað endurgjald nær ekki þeirri lágmarksfjárhæð sem kveðið er á um í reglugerð nr. 254/1993. Óskaði embættið eftir því með bréfi sínu, dags. 29. september sl. að skattframtali fyrir gjaldaárið 2002 yrði sent embættinu en það hefur ekki borist. Einnig hefur úrskurður skattyfirvalda um leiðréttingu á skattframtali 2003 vegna gjaldaársins 2002 ekki verið skilað til embættisins. Embættið telur því að reiknað endurgjald af leigubílaakstri fyrir gjaldaárið 2002 nái ekki þeirri lágmarksfjárhæð sem kveðið er á um í reglugerð nr. 254/1993 og því beri að innheimta eftirgefið vörugjald.

Í kæru yðar til tollstjóra kemur fram að tollstjóra hafi áður verið gerð grein fyrir RSK 4.11 vegna rekstrar 2002 (auðkennt fylgiskjal með skattframtali 2003) þar sem reiknað endurgjald sé kr. 600.000 og hagnaður af rekstri 726.990. Eins og að áður er rakið hefur skattaskýrslu fyrir gjaldaárið 2002 ekki verið lögð fram hjá embættinu og engin gögn liggja fyrir hjá embættinu sem sýna fram á ofangreindar upplýsingar sem raktar eru í kæru yðar. Embætti tollstjórans í Reykjavík telur að hagnaður samkvæmt framtali geti ekki komið í stað reiknaðs endurgjalds þar sem skýrt er kveðið á um það í 24. gr. reglugerðar nr. 254/1993 að reiknað endurgjald þurfi að vera að lágmarki kr. 1.164.000 og hvergi er í reglugerðinni vikið að því að heimilt sé að líta til hagnaðar samkvæmt skattframtali í þessu samhengi. Enga heimild er að finna í framangreindri reglugerð til að gera undanþágu frá lágmarksfjárhæð hennar og er reglugerðin skýr um það að lágmarksfjárhæðin miðist við reiknað endurgjald. Þá telur embættið önnur rök yðar sem fram koma í kæru yðar ekki færa stoð fyrir því að litið skuli fram hjá skýru orðalagi 24. gr. reglugerðar nr. 254/1993. Telur embættið því ekki unnt að líta til annars en reiknaðs endurgjalds af leigubifreiðarakstri þegar metið er hvort umsækjandi um eftirgjöf vörugjalds hafi uppfyllt lágmarkstekjur, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 254/1993.

IV.

Úrskurður

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að A beri að greiða eftirgefið vörugjald af bifreiðinni með fastanúmerið X, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 254/1993 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr.

1. mgr. 101. gr. tollalaga nr 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 13. janúar 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum