Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 1/2006

Synjun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts

26.1.2006

I

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið erindi A, dags. 10. september 2005 sl., þar sem kærð er ákvörðun embættisins frá 12. júlí sl. um synjun á endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í fyrrgreindri ákvörðun synjaði embættið um endurgreiðslu virðisaukaskatts af baðstól og sturtustandi sem kærandi færði B að gjöf í mars sl. Í kærubréfi er þess krafist að fallist verði á endurgreiðslu virðisaukaskatts af fyrrgreindri gjöf.

II

Málavextir eru á þann veg að með umsókn dags. 2. júní sl. sótti kærandi um endurgreiðslu virðisaukaskatts á baðstól og sturtustandi sem kærandi færði B að gjöf í mars sl. Baðstóllinn og sturtustandurinn voru keypt af innlendum seljanda. Með bréfi embættisins dags. 27. júní sl. var kæranda gerð grein fyrir því að einungis væri heimild til þess að endurgreiða virðisaukaskatt af gjöfum til mannúðar- og líknarstarfsemi sem félli undir skilgreiningu reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, og að venjuleg starfsemi sundlaugar félli ekki þar undir. Í fyrrgreindu bréfi var veittur andmælafrestur til 12. júlí sl. Þann 11. júlí sl. barst embættinu bréf frá kæranda. Bréfinu fylgdi bréf frá C sjúkraþjálfara. Með ákvörðun þann 12. júlí sl. hafnaði embætti tollstjórans í Reykjavík umsókninni um endurgreiðslu virðisaukaskatts með þeim rökstuðningi að starfsemi B teldist ekki mannúðar- og líknarstarfsemi í skilningi tollalaga nr. 55/1987, ásamt síðari breytingum.

Þann 13. september sl. barst embættinu erindi A þar sem kærð var fyrrgreind ákvörðun um synjun á umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þann 28. september sendi embætti tollstjórans í Reykjavík kæranda bréf þar sem tilkynnt var að embættið teldi rétt að beðið yrði eftir niðurstöðu í máli sem var í kærumeðferð hjá fjármálaráðuneytinu þar sem sá úrskurður gæti haft fordæmisgildi í þessu máli. Þar sem fjármálaráðuneytið hefur enn ekki úrskurðað í fyrrgreindu máli telur embættið rétt að úrskurða í máli kæranda með vísan til málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum.

III

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, skal greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að greiða skal virðisaukaskatt af öllum vörum. Undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu á almennt að skýra þröngt. Því er það mat tollstjóra, með vísan til fordæma fjármálaráðuneytisins, að skilyrði undanþágu verði tvímælalaust að vera uppfyllt.

Í 7. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er kveðið á um að endurgreiða skuli virðisaukaskatt af tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi. Endurgreiðsluheimild samkvæmt þessari málsgrein er bundin sömu skilyrðum og gilda um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi og koma fram í b-lið 8. tölul. 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000.

Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000 er tekið fram að undanþága aðflutningsgjalda skuli taka neðangreindra til stofnana eða samtaka:

  1. Rauða kross Íslands og einstakra deilda hans, slysavarnarfélaga og hjálpar- og björgunarsveita
  2. Sjúkrahúsa, hæla, elliheimila, endurhæfingar- og heilsugæslustöðva, skóla og heimila fyrir fatlaða og sjúka. Jafnframt félagasamtaka sem hafa með höndum sambærilega starfsemi.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að til þess að endurgreiða beri virðisaukaskatt skv.

7. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga verður þiggjandi gjafarinnar að vera mannúðar- eða líknarstofnun í skilningi 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000.

IV

Kærandi heldur því fram í kærubréfi að endurgreiða beri virðisaukaskatt af fyrrgreindri gjöf. Í fyrsta lagi vísar kærandi til þess er stendur í bréfi C sjúkraþjálfara um að baðstóllinn og sturtustandurinn bæti aðgang fjölfatlaðra einstaklinga að sundlauginni til muna. Í öðru lagi er bent á í kærubréfi að sund sé talin einhver albesta sjúkraþjálfun sem um ræðir og að fjöldinn allur af sjúklingum nýti sér sundlaugina sér til styrks og hressingar. Í þriðja lagi vísar kærandi til þess að A hafi verið í góðri trú þegar stóllinn var keyptur að virðisaukaskatturinn yrði felldur niður enda hafi það fengist staðfest í símasamtali við starfsmann embættisins.

Í máli þessu reynir á það hvort sundlaug geti talist til endurhæfingarstöðvar eða til félagasamtaka sem hafa með höndum sambærilega starfsemi í skilningi 2. tl. 2. mgr.

5. gr. reglugerð 797/2000. Það er mat embættisins að til þess að starfsemi geti talist endurhæfingarstöð eða sambærileg starfsemi í skilningi reglugerðarinnar er ekki nægilegt að einstaklingum sé frjálst að stunda þar endurhæfingu. Stofnunin eða félagasamtökin verða sjálf að hafa endurhæfinguna með höndum. Samkvæmt gögnum málsins sér B ekki um endurhæfingu þeirra sem hana sækja, heldur er um að ræða aðstöðu sem einstaklingum er frjálst að nota til þess að stunda þar endurhæfingu.

Í ljósi framangreinds hefur embættið ekki heimild skv. virðisaukaskattslögum til þess að endurgreiða virðisaukaskatt af fyrrgreindri gjöf.

Úrskurðarorð:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun tollstjórans um synjun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af baðstól og sturtustandi, dags. 12. júlí 2005 er staðfest.

Úrskurður þessi er kæranlegur til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík, og er kærufrestur þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum.

Reykjavík 26. janúar 2006.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum