Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 10/2008

Ákvörðun tollverðs bifreiðar af gerðinni Mercedes Benz CL 500, árg. 2002

22.2.2008

Í dag var hjá Tollstjóranum í Reykjavík kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 22. nóvember 2007, hefur B, fyrir hönd F, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 þá ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 2. nóvember 2007 að tollverð bifreiðar, fast númer X, verði ekki byggt á reikningi. Bifreiðin, sem er af gerðinni Mercedes Benz CL 500, árg. 2002, var flutt til landsins í sendingu nr. E DET 01 10 7 DE HAM W038.

Kærandi krefst þess að tollverð bifreiðarinnar verði ákvarðað á grundvelli kaupverðs skv. reikningi.

II. Málsmeðferð

Embættið krafði kæranda, um frekari staðfestingu á reikningsverðinu með bréfi, dags. 16. október 2007, enda væri reikningsverðið, skv. upplýsingum embættisins, mun lægra en markaðsverð sambærilegra ökutækja í Þýskalandi. Þar var sérstaklega beðið um frumrit vörureiknings. Að öðrum kosti gæti komið til þess að reikningnum yrði hafnað sem grundvelli tollverðs, sbr. 56. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru.

Aðflutningsskýrslu vegna bifreiðarinnar, dags. 2. október 2007, fylgdi ljósrit af reikningi frá 17. september 2007. Þar kemur fram að innflytjandi keypti bifreiðina af W, forsvarsmaður R, Þýskalandi á EUR 15.126,05 (ISK 1.331.697,00).

Kærandi lagði fram afrit af reikningi fyrir bifreiðina og hélt því fram að frumrit lægi hjá seljanda bifreiðarinnar. Hann lagði einnig fram bankayfirlit fyrir gjaldeyrismillifærslu að upphæð EUR 15.150,00 á reikning hjá Hypo-Vereinsbank í Hamborg, en sá reikningur er skráður á M. Auk þess lagði hann fram upplýsingar um viðgerð á bifreiðinni sem var gerð árið 2005, svo og upplýsingar um ásett verð sambærilegra bifreiða í Þýskalandi, sem fengnar voru í gegnum internetið.

Með bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 2. nóvember 2007, var innflytjanda tilkynnt um að reikningnum hefði verið hafnað sem grundvelli tollverðs og að tollverð bifreiðarinnar hefði verið ákveðið ISK 3.438.680,00, en það verð var reiknað út frá upplýsingum í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra skv. 65.-66. gr. reglugerðar nr. 1100/2006.

Eftir að kæra var lögð inn með bréfi, dags. 22. nóvember 2007, voru gerðar frekari rannsóknir af hálfu embættisins samkvæmt 10. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 56. gr. reglugerðar 1100/2006, m.a. vegna þess að kærandi hélt því fram að frumrit reikningsins væri í höndum seljanda. Því var haft samband við forsvarsmann seljanda bifreiðarinnar, R, og hann beðinn um að senda frumrit reikningsins til embættisins. Hann sagðist ekki hafa frumritið með höndum, en lét senda afrit af reikningi sem lá fyrir hjá endurskoðunarskrifstofunni P í Þýskalandi. Þessum reikningi bar þó ekki í öllum atriðum saman við þann reikning sem kærandi lagði fram. Verðið er það sama, en mikill munur er á kílómetrastöðu sem er 110000 km á þeim reikningi þeim er kærandi leggur fram, en 227000 km á reikningi seljanda. Þá er einnig á þeim reikningi heildarsumma, EUR 18.000,00, sem ekki kemur fram á reikningi kæranda, en á honum er aftur skráð „Netto-export, Lieferort Hamburg“, sem ekki er á reikningi seljanda.

Því var kæranda sent bréf af hálfu embættisins, dags. 7. janúar 2008, og honum tilkynnt að fyrir lægju 2 mismunandi reikningar og eins að misræmi væri í framburði hans, þar sem millifærslan næmi EUR 15.150,00, sem samsvaraði nokkuð nettóverði bifreiðarinnar, en hann lagði síðar fram bankamillifærslu, dags. 14. desember.2007, sem sýndi að virðisaukaskatturinn hafði verið greiddur til baka af seljanda í Þýskalandi. Var honum veittur frestur til skriflegra útskýringa á þessu misræmi til 30. janúar 2008. Bréf lögmanns kæranda, dags. 29. janúar 2008, barst embættinu þann 30. janúar 2008.

III. Meginröksemdir kæranda

Í kæru er því haldið fram að ákvörðun embættisins hafi ekki verið rétt, þar sem nægar sönnur hafi verið lagðar fram til að skýra innkaupsverð bifreiðarinnar. Því er haldið fram að ásett verð bifreiðarinnar hafi verið EUR 21.900,00 en af því hafi dregist 19% virðisaukaskattur vegna útflutnings bifreiðarinnar. Þá hafi verið veittur afsláttur að upphæð tæpra EUR 2.600,00, þar sem bifreiðar af þessari tegund væru mjög dýrar nýjar, en illa seljanlegar notaðar vegna mikils viðhaldskostnaðar og mengunar. Bifreiðin hafi lent í tjóni og verið viðgerð. Fyrir því var lagður fram viðgerðarreikningur. Þar að auki hafi ekki fylgt þjónustubók, og því engin gögn sem sönnuðu akstur bifreiðarinnar skv. kílómetramæli. Þar fyrir utan væru felgur bifreiðarinnar rispaðar, dekk slitin og pústkerfi ekki frá Mercedes Benz.

Kærandi telur að ákvörðun tollstjóra sé órökstudd og að með henni sé farið gegn reglum tollalaga og reglugerðar 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru. Hann heldur því fram að það séu ekki málefnaleg sjónarmið í skilningi stjórnsýsluréttar að tollverði sé hafnað vegna þess eins að innkaupsverð bifreiðar sé lægra en almennt viðmiðunarverð. Kærandi bendir á úrskurði sem ríkistollanefnd hefur kveðið upp á undanförnum árum, og að þar komi fram að ástand og útlit bifreiðar vegi þungt. Hann vísar á úrskurð ríkistollanefndar nr. 2/2006 og telur að í ljósi hans og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé ótækt að reikna aðflutningsgjöld á grundvelli 66. gr. reglugerðar 1100/2006, þar sem ný Mercedes Benz CL 500 bifreið hafi aldrei verið seld hér á landi. Vinnubrögð embættisins séu ámælisverð, þar sem unnt hefði verið að ná lögmætu markmiði með vægara móti, t.d. með því að ákvarða tollverð á grundvelli viðskiptaverðs sams konar bifreiðar sem flutt hefur verið til landsins skv. 57. gr. reglugerðar 1100/2006. Hann bendir í því sambandi á bifreiðarnar D og R. Þær bifreiðar séu algerlega sambærilegar þeirri, sem hér um ræðir og ætti því að nota þær til viðmiðunar, þar sem að sambærilegri bifreið væri ekki að finna hér á landi. Einungis skeiki um vélarstærð eða viðmiðunartímamark innflutnings ekki uppfyllt. Það sé ekki sambærilegt að meta þessa tilteknu bifreið frá nývirði umboðs og reikna stöðluð afföll af því.

Í ofangreindu bréfi ber lögmaður því við að sá munur sem sé á framlögðum reikningum frá kæranda annars vegar og seljanda hinsvegar sé smávægilegur og að um sé að ræða ritvillu eða önnur mistök. Deilt sé um kaupverð bifreiðarinnar og það sé það sama á báðum reikningum. Þess utan er því haldið fram að bifreiðin hafi verið stödd mjög langt frá þeirri bílasölu sem seldi hana í umboðssölu og því hafi verið skrifað undir kaupsamning áður en bifreiðin var greidd og sótt. Þá segir í bréfinu að sá sem sótti bifreiðina hafi flutt inn notaðar bifreiðar frá Þýskalandi í áraraðir og þekki því vel til bílasala sem selja bifreiðar til útflutnings og njóti trausts þeirra. Kaupsamningur hafi þess vegna verið undirritaður í trausti um greiðslu, sem hafi gengið eftir.

IV. Niðurstöður

Í 1. mgr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005 er að finna meginreglu þess efnis að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð, sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu hennar til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiða má af ákvæðum 15. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. tollalaga er jafnframt kveðið á um skilyrði fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar. Í reglugerð 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru, með síðari breytingum, er nánar fjallað um tollverð vöru.

Í 52. gr. reglugerðarinnar er ofangreind meginregla 1. mgr. 14. gr. tollalaga nánar útfærð, þ.e.a.s. að tollverð vöru sé viðskiptaverð hennar. Í eftirfylgjandi greinum reglugerðarinnar koma fram skilyrði fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar. Í 56. gr. reglugerðarinnar kemur fram að telji tollstjóri ástæðu til að draga í efa eða staðreyna sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð geti hann krafið þann sem ber ábyrgð á viðkomandi upplýsingum um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint. Dragi tollstjóri sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverðið í efa, þrátt fyrir framkomnar skýringar eða gögn eða ef frekari skýringar eða gögn eru ekki látin tollstjóra í té innan hæfilegs frests, verður viðskiptaverð vöru ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs. Tollverð er þá ákvarðað skv. 57.-62. gr. reglugerðarinnar. Í 63. – 70. grein reglugerðarinnar eru svo sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. Samkvæmt 64. gr. reglugerðarinnar segir skal tollstjóri safna upplýsingum frá hlutlausum aðilum erlendis um viðmiðunarverð ökutækja og bera saman viðskiptaverð og viðmiðunarverð. Kanna skal hvort viðskiptaverð sé óeðlilega lágt. Ákvæði 3. mgr. 64. greinar vísar svo til 56. gr. þegar réttmæt ástæða er til að draga í efa sannleiksgildi tollskýrslu eða fylgiskjala, og þar með greinar 57.- 62.

Hið umdeilda reikningsverð, EUR 15.126,05, liggur 37,39% undir viðmiðunarverði DAT (Deutsche Automobil Treuhand), sbr. 64. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, sem gefur ástæðu til að efa að um rétt verð sé að ræða. Sú viðgerð sem gerð hefur verið á bifreiðinni nægir ekki til þess að útskýra svo mikinn mun í verði þar sem bifreiðin var viðgerð að fullu. Við meðferð málsins hjá embættinu kom voru lagðir fram tveir mismunandi reikningar, eins og ofan er getið. Reikningarnir eru báðir með sama reikningsnúmer og eru undirritaðir af seljanda bifreiðarinnar, R fyrir hönd W, Á sjónarmið kæranda um að sá munur sem er á reikningunum sé smávægilegur er ekki hægt að fallast. Ríflega helmings mismunur á uppgefnum kílómetrafjölda, svo og mismunandi atriði sem upp eru gefin við útreikning á heildartölu geta í fyrsta lagi ekki talist smáatriði og í öðru lagi er enginn grundvöllur fyrir því að telja að um ritvillu sé að ræða. Þrátt fyrir að endasumman sé sú sama á báðum þeim reikningum er auðsjáanlega mikill munur á innihaldi þeirra. Í ljósi ofangreinds er framlagður reikningur ekki trúverðugur.

Kærandi hefur lagt fram gjaldeyrismillifærslu sem var gerð þann 20. september 2007 til stuðnings þeirri fullyrðingu að leggja eigi verð skv. framlögðum reikningi til grundvallar við tollafgreiðslu. Millifærslan nemur EUR 15.150,00, sem er rétt ríflega sú upphæð sem greiða átti nettó fyrir bifreiðina. Kærandi lagði svo einnig fram millifærslu upp á EUR 2.873,95 sem honum var send frá seljanda bifreiðarinnar þann 14. desember 2007, og var hún skýrð sem endurgreiðsla virðisaukaskatts. Þrátt fyrir formlega beiðni embættisins komu engar skýringar á því hvers vegna þessi mismunur er til, þ.e.a.s. hvers vegna greiddur hafi verið til baka virðisaukaskattur sem miðað við þá millifærslu sem fram er lögð var aldrei greiddur. Þar fyrir utan var bifreiðin skv. reikningi staðgreidd og afhent þann 17. september 2007, gjaldeyrismillifærslan fyrir nettóverðinu var hins vegar ekki gerð fyrr en 20. september 2007, og þá á annan reikning en bifreiðasölunnar, sem þýðir að peningurinn gat í fyrsta lagi hafa verið bókaður í banka í Þýskalandi þann 21. september 2007. Styður það ennfremur það mat embættisins að framlagður reikningur sé ekki trúverðugur.

Á grundvelli þess sem að ofan er talið er það niðurstaða embættisins að framlagður reikningur sé ekki trúverðugur og verður því ekki lagður til grundvallar við ákvörðun á tollverði fyrir bifreiðina X skv. 1.mgr. 14. gr. tollalaga 88/2005 og 1. mgr. 52. gr. reglugerðar nr. 1100/2006.

Ekki verður talið að úrskurður ríkistollanefndar nr. 2/2006 sé sambærilegur við þetta mál eins og málsatvikum er háttað og hefur ekki áhrif á þá niðurstöðu embættisins. Hér liggja fyrir tveir mismunandi reikningar, svo að sá reikningur sem kærandi leggur fyrir getur ekki talist trúverðugur.

Þegar tollverð verður ekki ákvarðað á grundvelli viðskiptaverðs, skal það ákvarðað skv. 57.-62. gr. reglugerðarinnar sbr. 2. mgr. 52.gr.. Auk þess koma til greina 63.-70. gr., þar sem mælt fyrir um hvernig tollverð vöru skuli ákveðið þegar viðskiptaverð vöru verður af einhverjum ástæðum ekki lagt til grundvallar. Meginreglan er sú að leggja skuli til grundvallar viðskiptaverð sams konar vöru á sams konar viðskiptastigi, sem seld er eða flutt inn á sama eða svipuðum tíma og varan sem verið er að virða, sbr. 57. grein reglugerðarinnar.

Við ákvörðun fob-verðs bifreiðarinnar var innflutningur sambærilegra bifreiða, þ.e. bifreiða af sömu tegund, undirtegund og árgerð, sem fluttar eru inn á svipuðum tíma og frá sambærilegu markaðssvæði kannaður í samræmi við 2. mgr. 57. gr. reglugerðarinnar. Við það fundust tvær sambærilegar bifreiðar þegar miðað er við árgerð, tegund og undirtegund. Hins vegar voru þær fluttar inn árið 2006, svo ekki var hægt að nota þær til viðmiðunar. Í kæru sinni, dags. 22. nóvember 2007, benti kærandi á tvær bifreiðar sem hann vildi að yrðu notaðar til viðmiðunar og ákvörðunar fob-verðs. Annarsvegar var þar um að ræða bifreið með fastanúmer D, sem var flutt til landsins 2. maí 2007. Sú bifreið er af gerðinni Mercedes Benz CL 600 en ekki Mercedes Benz CL 500 eins og BP B67, svo ekki er um sambærilega bifreið að ræða, og er þess vegna ekki hægt að notast við þessar upplýsingar við ákvörðun tollverðs. Hins vegar er um að ræða bifreið með fastanúmer R. Þar er um að ræða bifreið af gerðinni Mercedes Benz CL 500, árgerð 2002. Hún var flutt inn þann 30. mars 2007. Í 57.gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að bifreið skuli hafa verið flutt inn á sama eða svipuðum tíma. Með „svipuðum tíma“ er í framkvæmd miðað við u.þ.b. 3 mánuði fyrir og eftir að sú bifreið sem ákvarða skal tollverð á er flutt inn. Bifreiðin var flutt inn frá Bandaríkjunum 6 mánuðum fyrr en sú bifreið sem hér um ræðir. Samkvæmt því eru bifreiðarnar ekki fluttar inn á svipuðum tíma og ekki frá sama markaði, en bandaríkjamarkaður er að mörgu leyti ólíkur þýska markaðnum. Í ljósi ofangreinds hafnar embættið því að um sé að ræða sambærilegar bifreiðar í skilningi 57. gr. reglugerðarinnar. Þar sem við rannsókn finnast ekki sambærilegar bifreiðar sem fluttar voru inn á sama eða svipuðum tíma, sbr. 57. gr. reglugerðarinnar er það niðurstaða embættis tollstjórans í Reykjavík að í þessu tilviki sé ekki unnt að beita ákvæðum 57. – 62. greinar reglugerðarinnar.

Ákvæði 65. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 segir til um að þegar ekki reynist unnt að ákvarða tollverð ökutækis á grundvelli 14. gr. tollalaga eða 57.-61. gr. reglugerðarinnar, skuli tollverð vera viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og það er tilgreint í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra, reiknað út skv. ákvæðum 66. gr. reglugerðarinnar. Eftir þessu ákvæði var farið, þegar tollverð bifreiðarinnar var reiknað út af embætti tollstjórans í ákvörðun dags 2. nóvember 2007.

Með hliðsjón af framansögðu ákvarðast tollverð bifreiðarinnar X eftir ákvæðum 65. og 66. gr. reglugerðarinnar og reiknast tollverð hennar ISK 3.438.680,00.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík, dags. 2. nóvember 2007, um tollverð bifreiðar með fastanúmer X er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum