Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 10/2013

Höfnun beiðni um niðurfellingu virðisaukaskatts af seglbáti

5.12.2013

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 17. september 2013, sem móttekið var þann 7. október sl., hefur K kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 18. apríl 2013, um höfnun á beiðni um niðurfellingu virðisaukaskatts af seglbátnum R.

Kærandi telur að höfnun Tollstjóra sé óréttmæt og krefst niðurfellingar virðisaukaskatts af umræddum bát.

II. Málsmeðferð

Umræddur seglbátur var fluttur hingað til lands með Goðafossi þann 13. desember 2011. Kærandi fékk bátinn afhentan á tímabundnu innflutningsleyfi, en Tollstjóra er heimilt að veita leyfi til tímabundins innflutning í allt að 12 mánuði, sbr. 30. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Ljóst er að báturinn hefur ekki farið úr landi og voru því aðflutningsgjöldin gjaldfelld. Tollstjóri sendi kæranda bréf þess efnis dags. 15. febrúar 2012.

Með aðflutningsskýrslu fyrir sendingu með sendingarnúmerið E GOD 13 12 1 SE HEL W024 óskaði kærandi eftir undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts af seglbátnum R. Embætti Tollstjóra svaraði kæranda með bréfi dags. 21. mars 2013, þar sem óskað var eftir frekari rökstuðningi vegna undanþágubeiðninnar. Kærandi svaraði Tollstjóra með bréfi dags. 6. apríl sama ár, þar sem fram kom að hann hefði verið í góðri trú þegar hann ákvað að flytja skútuna til landsins, um að tollafgreiðsla yrði með sama hætti og þegar skútur komi siglandi til landsins og séu staðsettar hér í ýmsum höfnum, oft í lengri tíma. Með bréfi dags. 18. apríl 2013 tilkynnti Tollstjóri kæranda að ekki hefðu komið fram ástæður þess efnis að heimila bæri undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts af umræddum seglbáti. Var því beiðni um undanþágu hafnað.

Með bréfi, dags. 10. júní sl., ítrekaði kærandi beiðni sína um undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts. Kærandi taldi að ekki væri um að ræða innflutning þar sem báturinn væri skráður í Danmörku. Kærandi sendi Tollstjóra afrit af leiðbeiningum varðandi virðisaukaskattsskyldu seglbáta innan Evrópusambandsins (E. EU VAT Regulations for Yachts). Þann 13. júní 2013 svaraði Tollstjóri fyrrgreindu erindi kæranda þar sem fram kom að íslenskar réttarheimildir gildi um álagningu gjalda hérlendis og hafi erlendar leiðbeiningar um virðisaukaskattsskyldu þar af leiðandi ekki áhrif á ákvörðun embættisins. Kærandi ítrekaði enn beiðni sína með bréfi dags. 8. ágúst 2013, þar sem áðurnefnd rök voru ítrekuð. Embætti Tollstjóra svaraði bréfi kæranda þann 5. september sama ár þar sem fyrri ákvörðun embættisins var ítrekuð.

Kærandi kærði ákvörðun Tollstjóra dags. 18. apríl 2013 og 5. september 2013, með bréfi dags. 17. september sama ár.

Embætti Tollstjóra óskaði eftir frekari gögnum þann 17. október sl., þar sem gögn skorti sem sýndu fram á að umræddur seglbátur félli undir undanþáguákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Kærandi svaraði bréfi Tollstjóra þann 29. október þar sem sömu málsástæður voru ítrekaðar sem áður höfðu komið fram.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir kröfu sína um undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts á því að umræddur bátur sé skráður í Danmörku og virðisaukaskattur hafi verið greiddur þar við byggingu bátsins. Kærandi vísar til leiðbeininga varðandi virðisaukaskattsskyldu seglbáta innan Evrópusambandsins (E. EU VAT Regulations for Yachts).

Kærandi fer fram á að umræddur seglbátur verði undanþeginn greiðslu virðisaukaskatts.

IV. Niðurstöður

Meginregla tollalaga nr. 88/2005 er sú að almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. laganna.

Innheimta ber virðisaukaskatt af öllum innflutningi með aðflutningsgjöldum, sbr. 1. mgr. 37. gr. virðisaukaskattslaga. Samkvæmt 1. gr. sömu laga skal virðisaukaskattur greiddur af viðskiptum innanlands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að greiða skal virðisaukaskatt af öllum vörum. Undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu ber almennt að skýra þröngt og þurfa skilyrði fyrir undanþágu tvímælalaust að vera uppfyllt.

Ísland er þriðja land gagnvart Evrópusambandinu þegar kemur að inn- og útflutningi, auk skattamála. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, var hvorki tekin upp samræmd innheimta tolla né skatta milli ESB- og EFTA- ríkjanna. Því verður ekki fallist á rök kæranda að leiðbeiningar varðandi virðisaukaskattsskyldu seglbáta innan Evrópusambandsins (E. EU VAT Regulations for Yachts) eigi við í málinu. Kærandi ber fyrir sig að virðisaukaskattur hafi þegar verið greiddur í Danmörku, en vert er að geta þess að þeir tvísköttunarsamningar sem Ísland á aðild að taka einungis til tekju- og eignarskatts en ekki til álagningar virðisaukaskatts. Greiðsla virðisaukaskatts í Danmörku breytir því engu um álagningu virðisaukaskatts hér á landi.

Skattskyldan nær til allrar þjónustu, vara og verðmæta, nýrra og notaðra nema sérstakar undanþágur í lögum leiði til annarrar niðurstöðu, sbr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Niðurfelling virðisaukaskatts við innflutning báta er heimiluð í vissum tilfellum. Samkvæmt 6. tl. 12. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. 3. tl. 1. mgr. 36. gr. sömu laga, skulu loftför og skip undanþegin virðisaukaskatti við innflutning. Undanþágan nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd eða skemmtibáta. Um er að ræða undanþágu frá greiðslu lögbundinna gjalda og er því ákvæðið háð þröngri túlkun. Bátar til einkanota falla ekki undir þessa undanþáguheimild virðisaukaskattslaga en kærandi hefur engin gögn lagt fram um að báturinn verði nýttur til annars en einkanota. Kærandi ber sjálfur sönnunarbyrði fyrir því að undanþáguákvæði eigi við. Engin gögn liggja fyrir í máli sem sýna fram á að umræddur seglbátur falli undir áðurgreinda undanþágu og verður því ekki fallist á niðurfellingu virðisaukaskatts.

Kærandi byggir á því að seglbáturinn sé skráður í Danmörku og sé því ekki um innflutning að ræða. Samkvæmt 22. gr. tollalaga skal innflytjandi láta Tollstjóra í té aðflutningsskýrslu og önnur tollskjöl vegna innfluttrar vöru, áður en vara er afhent til notkunar innanlands eða sett í tollfrjálsa verslun eða tollfrjálsa forðageymslu. Tollskjöl skulu þó látin Tollstjóra í té eigi síðar en sex mánuðum frá komudegi flutningsfars vöru til landsins nema vöru hafi verið ráðstafað í tollvörugeymslu eða á frísvæði. Umræddur seglbátur kom hingað til lands þann

13. desember 2011. Tollstjóri veitti kæranda leyfi til tímabundins innflutnings við komu bátsins til landsins sem rann út þann 13. desember 2012. Ljóst er að umræddur bátur hefur ekki farið úr landi þrátt fyrir að tímafrestur á tímabundnu innflutningsleyfi sé útrunninn, voru því aðflutningsgjöld gjaldfelld enda um innflutning í skilningi tollalaga að ræða. Breytir engu í þessu sambandi þó báturinn sé skráður í Danmörku.

Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði til niðurfellingar virðisaukaskatts af seglbátnum R ekki vera fyrir hendi. Kröfu kæranda er því hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á niðurfellingu virðisaukaskatts af seglbátnum R, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Bríetartúni 7, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum