Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 11/2013

Höfnun beiðni um endurgreiðslu aðflutningsgjalda af lækningavörum

20.12.2013

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 17. október sl., hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvarðanir Tollstjóra, dags. 1. og 4. október 2013, um höfnun á beiðni um endurgreiðslu aðflutningsgjalda af lækningavörum.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun. 

II. Málsmeðferð

Þann 23. ágúst 2013 barst Tollstjóra fyrirspurn frá kæranda varðandi endurgreiðslu á aðflutningsgjöldum vegna útflutnings á tilteknum lækningavörum. Fyrirspurninni var svarað af hálfu Tollstjóra þann 26. ágúst 2013 en þar var kæranda ráðlagt að skila inn útfylltu eyðublaði E-14, sem er beiðni um skoðun á vöru sem senda á til útlanda. Í kjölfarið þyrfti tollmiðlari svo að leiðrétta fyrri afgreiðslu í gegnum afgreiðslu II og láta afrit af eyðublaði E- 14 ásamt útflutningsskýrslum fylgja. Kærandi fylgdi ofangreindum leiðbeiningum.

Þann 1. og 4. október 2013 hafnaði embætti Tollstjóra endurgreiðslu aðflutningsgjalda til kæranda af sjö sendingum sem fluttar voru inn á tímabilinu frá 1. febrúar 2011 til 28. febrúar 2012, með sendingarnúmerin F 741 09 02 2 BE LGG P446, F 741 28 02 2 BE LGG P032, F 741 01 02 1 BE LGG P026, F 741 01 02 1 BE LGG P125, F 741 18 02 1 BE LGG P477, F 741 04 03 1 BE LGG P039 og F 741 06 09 1 BE LGG P047. Beiðni um endurgreiðslu af viðkomandi sendingum var hafnað með vísan til 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi á þeim grundvelli að sækja þurfi um endurgreiðslu innan árs frá komudegi flutningsfars til landsins.

Sú ákvörðun Tollstjóra að hafna endurgreiðslunni var kærð með tölvupósti dags. 17. október 2013. Nánari upplýsingar og rökstuðningur kæranda barst embættinu með tölvupósti þann 23. október sl. Með tölvupósti þann 5. desember var kæranda tilkynnt um tafir við uppkvaðningu úrskurðar í málinu.

III. Meginröksemdir kæranda

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi flutt inn til landsins sérhæfðar vörur til bæklunarlækninga, t.d. gerviliði í hné, mjaðmir o.fl. og greitt aðflutningsgjöld af þeim vörum við innflutning. Þá kemur fram að erlendur seljandi varanna hafi átt lager hjá kæranda en hafi reikningsfært á kæranda jafnóðum eftir notkun á vörunum. Síðar hafi seljandi verið kominn með umboðsaðila hér á landi og því verulegur hluti af þessum vörum verið endursendur og kærandi því sóst eftir endurgreiðslu aðflutningsgjalda. Að sögn kæranda mun hann áfram kaupa sömu vörur af seljanda og sendar voru til baka en viðskiptin munu fara fram í gegnum umboðsaðila seljanda en ekki milliliðalaust eins og áður. Kærandi byggir á því að hann þurfi í raun að greiða aðflutningsgjöld tvisvar af sömu vörunni ef ekki verður fallist á beiðni hans um endurgreiðslu og þar með verða fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni.

Kærandi byggir jafnframt á því að honum hafi ekki verið kunnugt um ákvæði 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, og þá tímafresti sem þar eru tilgreindir. Af hans hálfu hafi verið haft samband við Tollstjóra símleiðis og spurst fyrir um það hvort einhverjar tímatakmarkanir væru í gildi varðandi beiðnir um endurgreiðslu en fengið þau svör frá embættinu að svo væri ekki.

Af þessum sökum óskar kærandi eftir því að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína um að hafna endurgreiðslu aðflutningsgjalda af viðkomandi lækningavörum enda hafi kærandi, í ljósi upplýsinga frá embætti Tollstjóra, verið í góðri trú um að ekki giltu tímatakmarkanir á endurgreiðslu í tilvikum af þessu tagi.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt.

Í 7. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005, er að finna undantekningu á ofangreindri meginreglu. Samkvæmt ákvæðinu skal tollur lækka, falla niður eða endurgreiðast af vörum sem tollafgreiddar hafa verið hingað til lands en eru síðar seldar ónotaðar til útlanda eða í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Ákvæðið er nánar útfært í reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í 53. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Tollstjóri skuli fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af innfluttri, ónotaðri vöru sem er seld til útlanda, í tollfrjálsa verslun, í tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði, innan árs frá komudegi flutningsfars til landsins. Sama gildir um ótollafgreidda vöru, sem send er ónotuð til útlanda. Beiðni um undanþágu skal látin Tollstjóra í té innan sex mánaða frá brottför flutningsfars eða eftir atvikum sölu hennar í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Þá segir enn fremur að nauðsynleg gögn skuli liggja til grundvallar beiðni, s.s. staðfesting Tollstjóra á sölureikning, staðfesting þess að tollskoðun vöru hafi farið fram, kvittun fyrir greiðslu aðflutningsgjalda af vörunni og viðeigandi gögn til staðfestingar á útflutningi vörunnar, sbr. 2. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar.

Sendingar þær sem til skoðunar eru í þessu máli voru fluttar inn til landsins á tímabilinu frá 1. febrúar 2011 til 28. febrúar 2012 en voru fluttar út þann 11. september 2013. Samkvæmt framansögðu er ljóst að lengri tími en ár leið frá því að viðkomandi sendingar bárust til landsins þar til þær voru fluttar frá landinu. Í 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008 kemur skýrt fram að ekki megi líða lengri tími en ár frá komudegi flutningsfars til landsins þar til varan er seld til útlanda ef ætlunin er að fá aðflutningsgjöld endurgreidd. Í lögum og reglugerðum er ekki að finna neina undanþágu frá þeim tímafresti sem þar er gefinn.

Í gögnum málsins er lýst tilhögun viðskipta kæranda og seljanda sem upphaflega voru milliliðalaus en fóru síðar fram í gegnum umboðsaðila seljanda hérlendis. Kærandi byggir á því að ef beiðni hans um endurgreiðslu aðflutningsgjalda af viðkomandi sendingum verði hafnað þá þurfi hann að greiða aðflutningsgjöld af þeim tvisvar. Ekki er hægt að fallast á endurgreiðslu á þeim grundvelli gegn skýru ákvæði 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Kærandi verður sjálfur að bera hallann af ákvörðunum sínum varðandi fyrirkomulag viðskipta sinna við seljanda og að hafa misst af þeim tímafrestum sem gilda varðandi endurgreiðslur á aðflutningsgjöldum vegna útflutnings.

Ekki verður byggt á þeirri röksemd kæranda að honum hafi ekki verið kunnugt um áðurgreint ákvæði reglugerðar nr. 630/2008. Gera verður þá kröfu til aðila sem sækja um endurgreiðslu sem þessa að þeir þekki þær reglur sem gilda þar um. Kærandi hefur haldið því fram að hafa fengið rangar upplýsingar frá Tollstjóra um að ekki giltu neinir tímafrestir varðandi slíkar beiðnir um endurgreiðslu. Engin gögn liggja fyrir sem styðja þessa fullyrðingu kæranda.

Með vísan til alls ofangreinds er ekki heimild til staðar til að fallast á beiðni kæranda um endurgreiðslu aðflutningsgjalda þeirra sendinga sem til skoðunar eru í máli þessu. Strangar kröfur eru gerðar varðandi undantekningar frá greiðslu aðflutningsgjalda og endurgreiðslur á slíkum gjöldum og öll skilyrði sem fram koma í lögum og reglum verða undantekningalaust að vera uppfyllt. Í 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008 kemur skýrt fram að ekki megi líða lengri tími en ár frá komudegi flutningsfars til landsins þar til varan er seld til útlanda ef ætlunin er að fá aðflutningsgjöld endurgreidd. Ljóst er að töluvert lengra var um liðið en ár frá komudegi flutningsfars til landsins þegar sendingar þær sem til skoðunar eru í máli þessu voru fluttar frá landinu. Er af þeim sökum ekki unnt að fallast á endurgreiðslu aðflutningsgjalda af umræddum sendingum.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun endurgreiðslu aðflutningsgjalda af lækningavörum í nánar tilgreindum sendingum, er staðfest.

Kæruréttur 

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Bríetartúni 7, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum