Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 11/2018

Synjun á eftirgjöf vörugjalds á ökutæki

15.7.2018

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um synjun á eftirgjöf vörugjalds á ökutækið C sem sérsmíðaða keppnisbifreið í akstursíþróttum og krafðist þess ákvörðun Tollstjóra yrði felld úr gildi auk þess sem krafa var gerð um málskostnað. Ákvörðun Tollstjóra byggðist á þar sem ökutækið væri fjöldaframleitt, útbúið hefðbundnum þægindum fyrir ökumann og farþega auk þess að vera skráð almennri notkun hjá Samgöngustofu væri það ekki sérsmíðuð keppnisbifreið í skilningi laga nr. 29/1993.

Í máli þessu var litið til þess að ökutækið væri gríðarlega kraftmikið og hraðskreitt auk þess að vera útbúið ýmsum öryggis- og aukabúnaði sem ekki væri að finna í hefðbundnum fólksbílum frá sama framleiðanda. Þá lá fyrir yfirlýsing Akstursíþróttasamband Íslands þess efnis að ökutæki kæranda væri sérsmíðað til akstursíþrótta og uppfyllti þar með þau skilyrði sem sambandið gerir til keppnisbifreiða

Af þeim sökum var hin kærða ákvörðun Tollstjóra felld úr gildi og fallist á aðalkröfu kæranda en málskostnaðarkröfu kæranda var hafnað.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 9. júlí 2018, hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 15. júní 2018, um synjun á eftirgjöf vörugjalds á ökutækið C sem sérsmíðaða keppnisbifreið í akstursíþróttum.

Kærandi krefst að ákvörðun Tollstjóra, dags. 15. júní 2018, um að ökutækið C sé ekki sérsmíðuð keppnisbifreið í skilningi laga nr. 29/1993 verði felld úr gildi og að umsókn kæranda, dags. 23. maí 2018, um eftirgjöf af vörugjaldi á nefndu ökutæki verði samþykkt. Þá gerir kærandi kröfu um málskostnað úr hendi Tollstjóra vegna kostnaðar við að hafa uppi kæru til Tollstjóra.

II. Málsmeðferð

Þann 3. apríl 2018 var bifreiðin C flutt til landsins með sendingu sem bar sendingarnúmerið X. Bifreiðin var forskráð hinn 9. apríl 2018 af innflytjanda bifreiðarinnar, B, og þann 16. apríl 2018 óskaði umboðsmaður kæranda með tölvupósti eftir því að bifreiðin yrði undanþegin vörugjaldi. Eftir nokkur samskipti milli Tollstjóra og umboðsmanns kæranda óskaði Tollstjóri þann 17. maí 2018 eftir formlegri umsókn um eftirgjöf vörugjalds. Hinn 5. júní 2018 var umboðsmanni kæranda tilkynnt að umsókninni væri hafnað á þeim forsendum að ökutækið væri fjöldaframleiddur og verksmiðjuframleiddur sportbíll sem uppfyllti skilyrði þess að vera skráður sem fólksbíll í almenna notkun. Þann 19. júní 2018 fékk kærandi senda í tölvupósti formlega ákvörðun Tollstjóra, dags. 15. júní, þar sem fram kom að í ljósi þess að ökutækið væri fjöldaframleitt, útbúið hefðbundnum þægindum fyrir ökumann og farþega auk þess að vera skráð almennri notkun hjá Samgöngustofu væri það ekki sérsmíðuð keppnisbifreið í skilningi laga nr. 29/1993.

Þann 9. júlí 2018 sendi umboðsmaður kæranda í tölvupósti kæru vegnar ákvörðunar Tollstjóra en fylgigögn kærunnar bárust Tollstjóra þann 16. júlí 2018. Með tölvupósti, dags. 18. júlí 2018, óskaði Tollstjóri eftir upplýsingum frá Samgöngustofu um sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og þann 20. júlí var bifreiðin skoðuð af Tollstjóra.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að bifreiðin sé hönnuð sem keppnisbifreið og muni einungis verða notuð sem slík. Bifreiðin muni fá skráningu hjá Samgöngustofu sem sérsmíðuð keppnisbifreið við nýskráningu og bera sérstök skráningarnúmer í samræmi við skráninguna en að auki liggi fyrir rökstudd yfirlýsing Akstursíþróttasambands Íslands um að bifreiðin sé sérsmíðuð til akstursíþrótta.

Kærandi bendir á að ómögulegt sé að forskrá bifreiðina sem sérsmíðaða keppnisbifreið hjá Samgöngustofu og því er bifreiðin nú skráð til almennrar notkunar. Þá telur kærandi að þægindi fyrir ökumann og farþega bifreiðarinnar séu ekki lögmæt ástæða synjunar á eftirgjöf vörugjalda enda er ekki gerð sérstök krafa um slíkt í 16. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Þó heldur kærandi því fram að bakkmyndavél bifreiðarinnar sem og hátalarar séu öryggisbúnaður sem nýtist við keppni í akstursíþróttum. Að lokum bendir kærandi á að í gegnum tíðina hafi Tollstjóri samþykkt fjöldaframleiddar bifreiðar sem sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og af þeim sökum sé embættið að brjóta gegn stjórnsýsluframkvæmd sinni með því að synja kæranda um eftirgjöf vörugjalds. Máli sínu til stuðnings leggur kærandi m.a. fram upplýsingar um tvær bifreiðar sem séu fjöldaframleiddar en hlutu eftirgjöf vörugjalds, tölvupóstsamskipti við Tollstjóra, upplýsingar um keppnisbrautir auk nokkurra eyðublað tengdum skráningu ökutækja og eftirgjöf vörugjalds.

IV. Niðurstöður

Í máli þessu er deilt um eftirgjöf vörugjalds vegna ökutækis af gerðinni Z, með fastanúmerið C. Ökutækið er skráð sem nokkur hundruð hestöfl, með með yfir 250 km./klst. hámarkshraða og er því mjög kraftmikið. Ökutækið ber flestöll ytri einkenni hefðbundins Z fólksbíls en þó má greinilega sjá að bremsubúnaður þess, sem er úr kolefniskeramiki, er meiri en almennt gerist, vegna mikils krafts ökutækisins. Þá eru felgur ökutækisins festar með einum stórum bolta, svokölluðu Centerlock kerfi, í stað fjögurra eða fimm bolta eins og almennt er á felgum hefðbundinna fólksbíla. Inni í ökutækinu má finna ýmis þægindi sem einkenna almenna fólksbíla svo sem útvarp, hljóðkerfi, skjá og glasahaldara en innréttingin er þó heilt yfir nokkuð íburðarlítil. Til dæmis eru engin hurðarföng á bílnum en þess í stað eru bönd notuð til að opna ökutækið að innan. Sæti ökutækisins eru körfusæti (e. full bucket racing seats) sem þýða að þau eru fest kyrfilega í gólf bifreiðarinnar og eru með aukinn stuðning í kringum höfuð og líkama ökumanns og farþega til að takast á við miklar hraðabreytingar og veita aukna vernd. Áfast slökkvitæki er staðsett fyrir framan farþegasætið. Sæti ökutækisins eru einnig þannig úr garði gerð að höfuðpúðar þess, sem eru fastir við sætið, gera ráð fyrir að bæði ökumaður og farþegi séu með hálskraga og hjálm þar sem töluvert bil er á milli sætisins og höfuðpúðans. Sætisbelti í ökutækinu eru sex punkta belti sem festast í kringum ökumann og farþega en tveir efstu punktar þess eru fastir við veltibúr sem staðsett er fyrir aftan sætin.

Ágreiningur í máli þessu snýst um hvort bifreið kæranda sé sérsmíðuð keppnisbifreið sem undanskilin er greiðslu vörugjalds. Samkvæmt 1. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 skal greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987 o.fl. svo sem nánar greinir í lögunum, sbr. m.a. 87. kafla tollskrár. Almennt skal greiða vörugjald af fólksbifreiðum í samræmi við útblástur bifreiðar, sbr. meginreglu 1. mgr. 3. gr. vörugjaldslaga. Að sama skapi ber að greiða aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins, skv. meginreglu 3. og 5. gr. tollalaga nr. 88/2005. Samkvæmt l. lið 4. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993, sbr. 16. gr. reglugerðar um vörugjald af ökutækjum nr. 331/2000, skulu sérsmíðaðar keppnisbifreiðar sem skráðar eru sem slíkar og einungis notaðar í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna undanskildar frá greiðslu vörugjalds. Um er að ræða undanþágu frá fyrrnefndum meginreglum tollalaga og vörugjaldslaga og samkvæmt almennum og viðteknum lögskýringarsjónarmiðum þá ber að túlka hana þröngt og gerðar eru ríkar kröfur um að skilyrðum undanþágunnar sé fullnægt.

Samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 331/2000 skal, við mat á því hvort ökutæki sé sérsmíðað ökutæki til keppni í akstursíþróttum, m.a. líta til þess hvort ökutækið uppfylli þær kröfur sem samtök um akstursíþróttir gera til keppnisbifreiða. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing Akstursíþróttasamband Íslands þess efnis að ökutæki kæranda sé sérsmíðað til akstursíþrótta og uppfylli þar með þau skilyrði sem sambandið gerir til keppnisbifreiða. Þá liggur fyrir að ökutækið í máli þessu er töluvert kraftmeira en hefðbundnir fólksbílar en er auk þess hannað frá grunni á þann veg að það er útbúið ýmsum öryggisatriðum sem ekki er almennt að finna í fólksbílum.

Sé litið heildstætt á bifreiðina út frá eiginleikum hennar, öryggisbúnaði og þeirri staðreynd að hún uppfyllir þær kröfur sem Akstursíþróttasamband Íslands gerir til keppnisbifreiða er það mat Tollstjóra að bifreiðin sé sérsmíðuð keppnisbifreið í skilningi l. liðar 4. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993, sbr. 16. gr. reglugerðar um vörugjald af ökutækjum nr. 331/2000. Ber af þeim sökum að fallast á kröfu kæranda í málinu um að bifreiðin C skuli undanþegin vörugjaldi.

Í kæru gerir kærandi einnig kröfu um málskostnað úr hendi Tollstjóra vegna kostnaðar við að hafa uppi kæru. Tollstjóri vill benda á að það er meginregla íslensks stjórnsýsluréttar að aðilar stjórnsýslumáls beri sjálfir eigin kostnað sem til falli vegna reksturs stjórnsýslumáls. Í ákveðnum undantekningartilvikum hefur löggjafinn þó séð ástæðu til þess að gera ráð fyrir málskostnaði til handa aðila stjórnsýslumáls í einstaka sérlögum, með hliðsjón af eðli, umfangi og flækjustigi þess málaflokks, sbr. til dæmis lög nr. 30/1992 um yfirskattanefnd og þjóðlendulög nr. 58/1998. Hvergi í tollalögum nr. 88/2005 er kveðið á um heimild Tollstjóra til að ákvarða eða greiða málskostnað vegna kæru skv. 117. gr. laganna og af þeim sökum ber að hafna kröfu kæranda um málskostnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 15. júní 2018, um synjun á eftirgjöf vörugjalds á ökutækið C sem sérsmíðaða keppnisbifreið í akstursíþróttum, er felld úr gildi. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum