Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 12/2005

Synjun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af píanói og fylgihlutum ásamt hljóðfærasetti

24.11.2005

I

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið kæru A, dags. 10. október 2005, þar sem kærð er ákvörðun embættisins frá 12. ágúst sl. um synjun á umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í kærubréfi er þess krafist að fallist verði á endurgreiðslu virðisaukaskatts af píanói og fylgihlutum ásamt hljóðfærasetti sem synjað var um endurgreiðslu á.

II

Málavextir eru á þann veg að með umsókn, sem barst embættinu í júní sl., sótti kærandi um endurgreiðslu virðisaukaskatts á píanói og fylgihlutum ásamt hljóðfærasetti sem kærandi færði B að gjöf þann 25. apríl sl.

Með bréfi embættisins dags. 27. júní sl. var umsækjanda gefið færi á að senda inn gögn sem varpað gætu frekara ljósi á fyrirhuguð not gjafarinnar og hvort og þá hvernig hún yrði notuð beint til viðkomandi starfsemi. Fyrrgreint bréf barst ekki til umsækjanda og sendi embættið því annað bréf, sama efnis, þann 26. júlí sl. Svar barst embættinu, dags. 28. júlí frá deildarstjóra B. Í svarinu kemur fram að hljóðfærin séu notuð til endurhæfingar og meðferðar fyrir þau börn sem dvelja í B og að tónlist sé notuð sem meðferðarform, til að bæta líðan þeirra og ná framförum við bata.

Með ákvörðun þann 12. ágúst sl. hafnaði embætti tollstjórans í Reykjavík endurgreiðslu virðisaukaskatts á fyrrgreindum gjöfum með þeim rökstuðningi að ekki væri um að ræða tæki sem væru sérhæfð til lækninga, sjúkdómsgreininga eða endurhæfingar og uppfyllti því ekki skilyrði 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000.

III

Í 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, er kveðið á um að greiða skuli virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum. Samkvæmt þessu má sjá að meginreglan er sú að greiða skal virðisaukaskatt af öllum vörum. Undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu á almennt að skýra þröngt. Því er það mat embættis tollstjórans í Reykjavík, með vísan til fordæma fjármálaráðuneytisins, að skilyrði undanþágu virðisaukaskatts verði tvímælalaust að vera uppfyllt.

Í 7. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga er kveðið á um að endurgreiða skuli virðisaukaskatt af tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi. Ekki skal fella niður virðisaukaskatt af gjöf ef hún er einungis nýtt á óbeinan hátt eða ef hún er ætlað til almennra nota. Endurgreiðsluheimild samkvæmt þessari málsgrein er bundin sömu skilyrðum og gilda um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi og koma fram í b-lið 8. tölul. 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum.

Í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000 er tekið fram að undanþága aðflutningsgjalda skuli taka til tækja og áhalda sem notuð eru til lækninga og sjúkdómsgreininga, tækja sem notuð eru til endurhæfingar vegna sjúkdóma og slysa og annarra tækja sem notuð eru á stofnunum sem taldar eru upp í 2. tölul. 2. mgr. við endurhæfingu eða í þágu sjúklinga og vistmanna. Í ljósi þess að undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu ber að túlka þröngt er það mat embættisins að til þess að tæki eða búnaður geti verið undanþegin virðisaukaskatti þurfi að vera um að ræða tæki eða búnað sem eru að einhverju leyti sérhæfð til fyrrgreindra nota.

IV

Kærandi heldur því fram í kærubréfi að ótvírætt sé að hljóðfærin uppfylli skilyrði 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000. Kærandi vísar í bréf deildarstjóra B þar sem kemur fram að hljóðfærin séu notuð til endurhæfingar og sem meðferðarform. Tónlistin bæti líðan barnanna og sé einn áfangi í að þau nái framförum. Kærandi bendir einnig á að slík tæki hljóti að vera nokkuð almenns eðlis í sjálfu sér og við venjulegar kringumstæður falli hljóðfæri eins og hér um ræðir ekki undir 3. mgr. 5. gr. reglugerðar 797/2000 en í þessu tilfelli sé um að ræða þjálfunartæki til endurhæfingar og framfara í þágu sjúklinga og eigi tækin því undir ákvæðið.

Samkvæmt lýsingu á vörureikningi seljanda og upplýsingum frá kæranda eru fyrrgreind hljóðfæri ekki sérhæfð eða sérhönnuð sem tæki til endurhæfingar, heldur er um að ræða hefðbundin hljóðfæri. Að mati embættisins eru fyrrgreind hljóðfæri svo almenns eðlis að þau falla ekki undir þau tæki og áhöld sem talin eru upp í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000 og því ekki heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af þeim á grundvelli framangreindra reglna.

Beðist er velvirðingar á því að afgreiðsla máls þessa hefur dregist vegna anna hjá embættinu.

Úrskurðarorð:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun tollstjórans um synjun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af píanói og fylgihlutum ásamt hljóðfærasetti, dags. 12. ágúst 2005, er staðfest.

Úrskurður þessi er kæranlegur til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík, og er kærufrestur þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum.

Reykjavík 24. nóvember 2005

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum