Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 12/2018

Verðmat bifreiðar

28.8.2018

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um verðmat bifreiðar og krafðist þess að tollverð yrði ákvarðað á grundvelli framlagðs vörureiknings, til vara að tollverð yrði ákvarðað á grundvelli sams konar bifreiða en til þrautavara að tollverði tæki mið af DAT gagnagrunninum. Þá krafðist kæranda dráttarvaxta. Ákvörðun Tollstjóra grundvallaðist á því að verð samkvæmt framlögðum reikningi væri ónothæft og óeðlilega lágt og því var tollverðið ákvarðað á grundvelli 115. gr. tollalaga.

Litið var til þess að verð samkvæmt framlögðum vörureikningi var óeðlilega lágt, samanborið við markaðsverð í bæði Evrópu og viðskiptalandinu, og framkomnar skýringar kæranda á lágu verði þóttu ótrúverðugar. Af þeim sökum var talið rétt að vefengja viðskiptaverðið og leggja það ekki til grundvallar tollafgreiðslu. Aftur á móti var í hinni kærðu ákvörðun ekki fylgt reglum VII. kafla reglugerðar nr. 1100/2006 en beita ber þeim reglum við verðmat þegar framlagður reikningur telst ónothæfur. Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og bifreið kæranda endurmetin í samræmi við reglur um slíkt. Niðurstaða verðmatsins varð sú að FOB verð bifreiðar kæranda skyldi vera 2.200.902., eða nokkru lægra en þrautavarakrafa kæranda, og var kæranda endurgreidd ofgreidd aðflutningsgjöld ásamt almennum vöxtum en dráttarvaxtakröfu var hafnað.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 22. júní 2018, hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 24. apríl 2018, um verðmat bifreiðar með fastanúmerið B.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra verði felld úr gildi og að tollverð bifreiðarinnar verði ákvarðað á grundvelli framlagðs vörureiknings.

Til vara krefst kærandi þess að tollverð bifreiðarinnar verði ákvarðað í samræmi við viðskiptaverð á sams konar vörum sem fluttar eru til landsins en til þrautavara krefst kærandi þess að tollverð bifreiðarinnar verði ákvarðað í samræmi við þýska ökutækjagagnagrunninn DAT. Með tölvupósti, dags. 17. ágúst 2018, fór kærandi fram á að sér yrðu greiddir dráttarvextir frá tollafgreiðsludegi til og með úrskurðardegi.

II. Málsmeðferð

Í mars 2018 flutti kærandi til landsins ökutæki af gerðinni C, árgerð 2014, með sendingu sem bar sendingarnúmerið X og fékk ökutækið fastanúmerið B eftir forskráningu hjá Samgöngustofu. Aðflutningsskýrslu vegna bifreiðarinnar var skilað til Tollstjóra þann 13. mars og á skýrslunni var FOB verð bifreiðarinnar, þ.e. viðskiptaverð við afhendingu í útflutningshöfn, tiltekið sem 15.000 EUR. Sama dag óskaði Tollstjóri eftir skjölum vegna sendingarinnar frá tollmiðlara, sem bárust samdægurs. Fimmtudaginn 15. mars 2018 óskaði Tollstjóri eftir skýringum á verði bifreiðarinnar og fékk samdægurs þau svör frá kæranda að mjög mikið framboð væri af ökutækjum sömu gerðar í D. Starfsmaður tollafgreiðsludeildar Tollstjóra skoðaði ökutæki kæranda þann 16. mars 2018 og mat það vera í góðu ásigkomulagi enda ekið einungis tæplega 50.000 km. en auk þess var ökutækið útbúið ýmsum aukabúnaði, m.a. bluetooth, bakkmyndavél, leiðsögubúnaði og leðursætum. Við skoðunina kom einnig í ljós að fjögur dekk voru í ökutækinu, án þess að þau væru tiltekin á aðflutningsskýrslu eða meðfylgjandi vörureikningi, og voru dekkin því haldlögð af tollgæslunni. Þann 19. mars 2018 kom kærandi með þær skýringar á lágu kaupverði að ökutækið B væri án ýmiss aukabúnaðar, t.d. topplúgu, lyklalauss aðgengis og ræsingarhnapps. Þann 21. mars hringdi kærandi til Tollstjóra og spurðist fyrir um tollafgreiðslu ökutækisins. Var kæranda tilkynnt að Tollstjóra þætti verðið óeðlilega lágt miðað við markaðsverð sambærilega bifreiða í D og öðrum Evrópulöndum og var kærandi beðinn um að koma með frekari skýringar. Kærandi sendi Tollstjóra samdægurs skjámyndir af sambærilegum bifreiðum af vefsíðunni mobile.de þar sem verð var á bilinu 18.000 – 22.000 EUR. Með skýrslu dags. 28. mars 2018 tilkynnti starfsmaður tollafgreiðsludeildar Tollstjóra mál kæranda til rannsóknardeildar embættisins í ljósi bæði þess umframvarnings sem fannst í ökutækinu og þess að viðskiptaverð ökutækisins var talið óeðlilega lágt.

Rannsóknardeild Tollstjóra tók framburðarskýrslu af kæranda þann 11. apríl 2018 þar sem fram kom að ökutækið hafi verið keypt af eiginkonu vinnuveitanda hans og innifalið í 15.000 EUR verðinu hafi verið bæði dekkin fjögur og virðisaukaskattur. Við rannsókn málsins staðhæfðu bæði kærandi og seljandi að ökutækið hefði kostað 15.000 evrur og að millifærsla að fjárhæð 5.000 evrur, sem millifærð var frá kæranda til eiginmanns seljanda, í kringum viðskiptin væri ótengd bifreiðakaupunum. Kæranda var sýnd útprentun úr ökutækjagagnagrunninum DAT þar sem sambærilegt ökutæki, m.t.t. árgerðar, aksturs o.fl., var metið á rúmlega 20.000 evrur. Kærandi útskýrði mismun á því verði sem hann greiddi og þess verðs sem erlendar vefsíður og DAT gagnabankinn tiltóku fyrir sambærileg ökutæki á þann veg að hann hefði verið heppinn en auk þess vantaði ýmsan aukabúnað í ökutækið sem rýrði verðgildi þess. Rannsóknardeild Tollstjóra ákvað í kjölfar skýrslutöku af kæranda að leggja málið niður þar sem ekki þótti nægjanlega sannað, m.a. með hliðsjón af framburði kæranda og seljanda, að kærandi hefði gerst brotlegur við 170. og 172. gr. tollalaga. Meðferð meints brots kæranda lauk þann 20. apríl 2018 hjá rannsóknardeild Tollstjóra og var kæranda tilkynnt um það en um leið var hann upplýstur um að mál hans væri nú aftur í höndum tollafgreiðsludeildar Tollstjóra sem ætti eftir að taka ákvörðun um verðmat bifreiðarinnar.

Með tölvupósti, dags. 24. apríl 2018, var tollmiðlara kæranda tilkynnt um að framlögðum vörureikningi hefði verið hafnað og að verðmæti bílsins væri metið 27.500 evrur, í samræmi við sambærileg ökutæki í viðskiptalandinu. Verðmatið byggðist á 110. gr. tollalaga, sbr. 115. gr. tollalaga. Bifreiðin var tollafgreidd samdægurs í samræmi við verðmat Tollstjóra en með bréfi, dags. 22. júní 2018, kærði kærandi ákvörðun Tollstjóra um verðmat á bifreiðinni B.

Þann 25. júní 2018 spurðist Tollstjóri fyrir um ákveðin atriði í kæru og fékk svör frá kæranda hinn 26. júní sl. Þann 18. júlí 2018 óskaði Tollstjóri eftir afriti af gögnum frá kæranda af heimasíðunni mobile.de. og fékk svör samdægurs. Daginn eftir óskaði Tollstjóri eftir gögnum frá Samgöngustofu yfir nýskráðar C bifreiðar á árinu 2018 og fékk svör þann 20. júlí 2018. Með tölvupósti, dags. 26. júlí, tilkynnti Tollstjóri kæranda um fyrirhugaða niðurstöðu úrskurðar í málinu og var kæranda gefinn 15 daga frestur til að koma sínum sjónarmiðum og andmælum að varðandi hina fyrirhuguðu niðurstöðu.

Með tölvupósti, dags. 17. ágúst 2018, kom kærandi því á framfæri við Tollstjóra að hann hefði engin andmæli gegn hinni fyrirhuguðu niðurstöðu en vildi þó taka fram að verðmati bifreiðarinnar hefði verið mótmælt frá upphafi og bifreiðin var tollafgreidd með fyrirvara um réttmæti ákvörðunar Tollstjóra. Af þeim sökum fór kærandi fram á að sér yrðu greiddir dráttarvextir frá tollafgreiðsludegi til og með greiðsludags.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur Tollstjóra ekki hafa fært nein rök fyrir verðmati á ökutækinu og telur sig hvorki hafa verið upplýstan um ástæður verðmatsins né grundvöll þess. Kærandi telur sig auk þess ekki hafa notið andmælaréttar og að ekki hafi verið gætt meðalhófs við ákvörðun Tollstjóra. Þá gerir kærandi athugasemdir við þann tíma sem meðferð málsins tók eða í rúman mánuð áður en hann var boðaður formlega í skýrslutöku hjá rannsóknardeild Tollstjóra.

Kærandi kveður sig sannanlega hafa greitt 15.000 EUR fyrir bifreiðina og því beri að nota það verð við tollafgreiðslu. Kærandi telur að óbein tengsl sín við seljanda eigi ekki að hafa áhrif enda hefði algjörlega ótengdur aðili haft möguleikann á því að kaupa bifreiðina á sömu kjörum og kærandi. Af þeim sökum beri að leggja kaupverð til grundvallar tollafgreiðslu en til vara og þrautavara beri að miða við lægri viðmiðunarverð en þar verðmat sem Tollstjóri gerði á bifreiðinni.

IV. Niðurstöður

Í máli þessu er deilt um hvaða innkaupsverð skuli leggja til grundvallar tollafgreiðslu ökutækis með fastanúmerið B. Kærandi telur að notast eigi við verðið 15.000 EUR skv. framlögðum reikningi á meðan hin kærða ákvörðun kveður á um að innkaupsverð bifreiðarinnar skyldi vera 27.500 EUR í samræmi við sambærileg ökutæki í viðskiptalandinu. 

Tollstjóri taldi rétt að vefengja viðskiptaverð ökutækisins í ljósi þess að framlagður vörureikningur kvað á um að ökutækið, ásamt bæði virðisaukaskatti og fjórum dekkjum, kostaði 15.000 evrur á meðan þau gögn sem Tollstjóri hafði undir höndum sýndu fram á að eðlilegt verð í Evrópu, sbr. þýska ökutækjagagnagrunninn DAT og vefsíðuna mobile.de, fyrir sambærilegt ökutæki, án virðisaukaskatts og dekkja, væri a.m.k. 20.000 evrur. Það lágmarksverð er yfir 60% hærra en uppgefið viðskiptaverð, séu verðmæti dekkja og fjárhæð virðisaukaskatts dregin frá og þegar litið var til viðskiptalandsins kom í ljós að almennt verð þar var nokkuð hærra en í Evrópu eða á bilinu 24.000 – 30.000 evrur. Taka ber fram að kæranda var óformlega kynnt þessi afstaða Tollstjóra, bæði hjá tollafgreiðslu- og rannsóknardeild embættisins, auk þess sem kærandi fékk tækifæri til að koma með skýringar og andmæli varðandi nefnda afstöðu Tollstjóra. Þrátt fyrir skýringar kæranda dró Tollstjóri sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð í efa, einkum vegna tengsla kæranda við seljanda og markaðsverðs í viðskiptalandinu. Þá þóttu ábendingar kæranda um verð á nokkrum bifreiðum í Evrópu ekki sambærilegar við hina innfluttu bifreið þar sem ábendingarnar tóku til töluvert meira ekinna bifreiða sem í sumum tilvikum voru bæði eldri og kraftminni en bifreið kæranda. Í ljósi efasemda Tollstjóra var viðskiptaverð bifreiðarinnar ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs. Var því ákveðið að meta ökutækið í samræmi við markaðsverð í viðskiptalandinu og var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun þann 24. apríl 2018.

Þrátt fyrir að kærandi hafi verið upplýstur um afstöðu Tollstjóra varðandi vefengingu á viðskiptaverði og gefinn möguleiki á að koma með skýringar ber að ákveðnu leyti að fallast á það með kæranda að betur hefði mátt standa að málsmeðferð Tollstjóra, t.d. með því að tilkynna honum formlega og á rökstuddan hátt um bæði afstöðu embættisins varðandi viðskiptaverðið og á hvaða lagagrundvelli hin kærða ákvörðun byggðist. Lagagrundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar byggðist á 110. gr. tollalaga en samkvæmt þeirri lagagrein skal Tollstjóri áætla aðflutningsgjöld af sendingu í samræmi við 115. gr. tollalaga ef atriði í aðflutningsskýrslu er m.a. tortryggileg og framkomnar skýringar innflytjanda bæta ekki úr þeim annmarka. Samkvæmt 115. gr. tollalaga skal í þeim tilvikum þegar Tollstjóri áætlar aðflutningsgjöld að áætla tollverð vöru svo ríflega að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en raunverulegt verðmæti vörunnar.

Um tollverð vöru er fjallað í V. kafla tollalaga nr. 88/2005 og VII. kafla reglugerðar um vörslu og tollmeðferð vöru nr. 1100/2006 en beita ber þeim reglum fyrst, í þeim tilvikum þegar einungis framlagður vörureikningur er tortryggilegur, í stað 110. og 115. gr. tollalaga, líkt og gert var í hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt 14. gr. tollalaga er tollverð innfluttra vara viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. tollalaga skal í reglugerð 1100/2006 fjalla um bæði reglur um mat á vörum til tollverðs sem og málsmeðferðarreglur þegar ástæða þykir til að draga í efa sannleiksgildi vörureiknings.

Þær reglur má finna í VII. kafla reglugerðar nr. 1100/2006 en þar segir í 56. gr. að dragi Tollstjóri sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð í efa, þrátt fyrir framkomnar skýringar eða gögn eða ef frekari skýringar eða gögn eru ekki látin tollstjóra í té innan hæfilegs frests, verður viðskiptaverð vöru ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs. Að mati Tollstjóra var það rétt ákvörðun í máli kæranda að vefengja viðskiptaverð ökutækisins B í ljósi bæði óbeinna tengsla kæranda við seljanda og mjög lágs viðskiptaverðs ökutækisins, samanborið við almennt viðskiptaverð í bæði Evrópu og viðskiptalandinu sem og upplýsinga úr DAT gagnagrunninum. Einnig voru skýringar kæranda varðandi vöntun á aukabúnaði ótrúverðugar í ljósi þess að þau ökutæki sem Tollstjóri bar ökutæki kæranda saman við voru eins útbúin og bifreið kæranda. Af þeim sökum bar að ákvarða tollverð vörunnar í samræmi við reglur 57. – 68. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 en reglurnar eru í ákveðinni rétthæð og fyrst ber að beita 57. gr. reglugerðarinnar. Við verðmat á ökutækjum er í framkvæmd stuðst við 57., 58. og 62. – 68. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 57. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 skal tollverð vöru, þegar ekki er unnt að notast við tollverð skv. 14. gr. tollalaga, vera viðskiptaverð sams konar vara sem seldar hafa verið og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma. Regla 58. gr. kveður á um að sé ekki unnt að notast við 57. gr. þá skuli tollverð vöru vera viðskiptaverð svipaðra vara sem seldar hafa verið og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er ökutæki kæranda eina C ökutækið, árgerð 2014, sem flutt hefur verið til landsins á árinu 2018 og því er hvorki hægt að beita 57. né 58. gr. reglugerðarinnar í máli þessu. Af þeim sökum ber að ákvarða tollverð ökutækisins með rökréttum hætti í samræmi við 62. gr., sbr. 65. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt nefndri 65. gr. reglugerðarinnar skal, við ákvörðun tollverðs ökutækja með rökréttum hætti, notast við viðmiðunarverð nýs ökutækis hér á landi skv. bifreiðaskrá Ríkisskattstjóra og afreikna virði þess í samræmi við 66. gr. reglugerðarinnar, þ.e. með því að taka virðisaukaskatt, vörugjald, flutningskostnað og álagningu af útsöluverðinu og fyrna það síðan eftir aldri ökutækisins. Samkvæmt nýjustu bifreiðaskrá RSK kostar C kr. 7.590.000. Sé sú upphæð afreiknuð í samræmi við 66. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 og síðan fyrnd frá innflutningsdegi til fyrsta skráningardags bifreiðarinnar, þ.e. apríl 2014, verður innkaupsverð bifreiðarinnar ákvarðað kr. 2.200.902. Sú upphæð er lægri en þrautavarakrafa kæranda.

Að þeim útreikningum virtum og með hliðsjón af þeim reglum sem gilda við verðmat á bifreiðum þegar vörureikningur er ekki nothæfur við ákvörðun tollverðs, sbr. 57. – 68. reglugerðar nr. 1100/2006, er það mat Tollstjóra að FOB verð bifreiðarinnar skuli vera kr. 2.200.902.

Varðandi dráttarvaxtakröfu kæranda þá gilda lög nr. 29/1995 almennt um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda en skv. 2. mgr. 2. gr. laganna skal greiða dráttarvexti frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda. Í 2. mgr. 125. gr. tollalaga er aftur á móti sérákvæði um vexti í þeim tilvikum þegar innflytjandi hefur ofgreitt aðflutningsgjöld en samkvæmt ákvæðinu skal í slíkum tilfellum endurgreiða innflytjanda ofgreidd gjöld ásamt almennum vöxtum, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995 gengur 2. mgr. 125. gr. tollalaga framar vaxtaákvæði 2. gr. laga nr. 29/1995. Af þeim sökum er dráttarvaxtakröfu kæranda hafnað en endurgreiða ber kæranda ofgreidd aðflutningsgjöld ásamt almennum vöxtum, í samræmi við 2. mgr. 125. gr. tollalaga.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 24. apríl 2018 um verðmat á bifreiðinni B er felld úr gildi og skal FOB verð bifreiðarinnar vera kr. 2.200.902. Endurgreiða skal kæranda ofgreidd aðflutningsgjöld ásamt vöxtum skv. 2. mgr. 125. gr. tollalaga, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum