Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 14/2004

Aðflutningsgjöld af bifreið af gerðinni Ford F150, árgerð 2000

8.7.2004

I.

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf yðar frá 4. maí sl. þar sem kærð er sú ákvörðun embættisins að hafna við tollafgreiðslu skýringum fyrirtækisins B á viðskiptaverði bifreiðarinnar A á þeim grundvelli að það hafi verið langt frá öllum viðmiðunarverðum sem embættið hefur aðgang að. Var tollverð bifreiðarinnar því reiknað skv. 21. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, með síðari breytingum.

Bifreiðin A er af gerðinni Ford F150, árgerð 2000 og var flutt inn frá Bandaríkjunum með sendingu X. Innflytjandi sendingarinnar er B.

II.

Málavextir eru á þann veg að embættið móttók aðflutningsskýrslu innflytjandans B vegna sendingar nr. X, þann 1. mars 2004. Innflutningsvara sendingarinnar er bifreið af gerðinni Ford F 150, árgerð 2000. Innkaupsverð samkvæmt framlögðum vörureikningi er USD 9.400,00. Tollverð var því skv. upplýsingum á framangreindri skýrslu ISK 768.856 kr. að meðtöldum vátryggingakostnaði og flutningsgjaldi, sbr. 8. gr. og 9. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Innflytjandi fékk bifreiðina afhenta 19. mars 2004. Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá (EKJU) var bifreiðin forskráð þann 25. febrúar 2004 og nýskráð 26. apríl 2004, en síðasta skoðun fór fram 29. apríl 2004. Ökutækið hefur nú verið skráð í skattflokk 70 hjá Umferðarstofu.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun, með síðari breytingum, sem sett er á grundvelli heimildar í 10. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, kemur fram sama grunnregla og byggt er á í 8. gr. tollalaga eða sú meginregla að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð, sbr. þó ennfremur 9. gr. sömu laga.

Í sömu reglugerð eru einnig sérreglur um heimild tollstjóra að hafna því að leggja framlagðan vörureikning til grundvallar og ákvarða tollverð vöru þegar viðskiptaverð hennar verður ekki lagt til grundvallar af einhverjum ástæðum.

Sérreglur um innflutning á ökutækjum eru í V. kafla reglugerðarinnar. Í 17. gr. reglugerðarinnar kemur fram að tollstjóri eigi við mat sitt á tollverði vöru að líta til viðmiðunarverðs ökutækja af stömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutæki er keypt.

Embættið hefur í þessu sambandi lagt til grundvallar ritið Red Book, en það er gefið út af eftirlitsaðilum bifreiðaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Er það rit eingöngu notað til grundvallar mati á verði ökutækja sem koma frá Bandaríkjunum.

Þá skal tollstjóri skv. 17. gr. reglugerðarinnar athuga hvort viðskiptaverð ökutækis sé óeðlilega lágt miðað við ástand þess, innflutningsverð sams konar ökutækis sem flutt er eða hefur verið flutt til landsins á sama tíma eða markaðsverð sambærilegra ökutækja erlendis.

Vöruskoðun á bifreiðinni fór fram samkvæmt verkbeiðni sem gefin var út 5. mars 2004. Í niðurstöðu skoðunarinnar kemur fram að útlit bifreiðar sé gott og hún vel með farin.

Með bréfi 9. mars 2004 óskaði embættið eftir frekari skýringum og gögnum um innkaupsverð ökutækisins, sbr. 8. gr. ofangreindrar reglugerðar sem kveður á um að dragi tollstjóri í efa sannleiksgildi upplýsinga sem fram koma í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum um viðskiptaverð vöru skuli hann krefja innflytjanda um nánari skýringar eða gögn um viðskiptaverð.

Í svari B 10. mars 2004 var viðskiptaverð bifreiðarinnar staðfest og ennfremur lögð fram afrit af sölureikningi og símgreiðslu í tengslum við kaupin.

Í skýringum B í bréfi þann 4. maí 2004 þar sem ákvörðun tollstjóra um tollverð bifreiðarinnar er kærð, sbr. 100. gr. tollalaga, kemur fram að þegar bíllinn kom til landsins hafi komið í ljós við skoðun að hann var meira tjónaður en byggt var á við kaupin og að um gamalt tjón, grindarskekkju, hafi verið að ræða. Fór fram viðgerð á bílnum samkvæmt úrskurði Umferðarráðs og var bíllinn skráður sem tjónabifreið í ökutækjaskrá þann 26. febrúar sl. Með bréfi B fylgdu reikningar fyrir umræddri viðgerð.

Með bréfi embættisins 12. mars 2004 var þeim skýringum sem fram komu í bréfi B 10. mars 2004 hafnað enda voru þær ekki taldar skýra þann mun sem var fyrir hendi á kaupverði bifreiðarinnar og almennu markaðsverði sbr. 19. gr. ofangreindrar reglugerðar. Var í matinu stuðst við upplýsingar úr Red Book.

Þá kom fram að ekki hefði reynst unnt að ákvarða tollverð á grundvelli 10.-14. gr. reglugerðarinnar og var vörureikningi hafnað sem grundvelli tollverðs. Í samræmi við 20. gr. reglugerðarinnar, sbr. og 15. gr. hennar, var tollverð því reiknað út á grundvelli 21. gr. reglugerðarinnar sem ISK 1.301.430,00 kr.

Var innflytjandi upplýstur um kærurétt sinn til tollstjórans í Reykjavík sbr. 100. gr. tollalaga og hefur hann nú nýtt sér þann rétt sbr. bréf hans 4. maí 2004.

Í bréfi embættisins þann 14. júní 2004 var kæranda leiðbeint um að í 21. gr. A reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun kæmi fram að tollstjóra væri heimilt að lækka tollverð ef ákvörðun hans á grundvelli 20.-21. gr. hennar væri ekki talin hafa gefið rétta mynd af verðmæti ökutækis þar sem ástand þess væri mun verra en leiddi af eðlilegri fyrningu. Hins vegar kemur það skýrt fram í ákvæðinu að það hvíli á innflytjanda sú skylda að sýna fram á að verðmæti ökutækisins sé minna en venjulegra ökutækja sömu tegundar og af sömu árgerð, svo sem vegna tjóns. Óskaði embættið því sérstaklega eftir afstöðu kæranda, B, til tilkynningar Umferðarstofu þann 26. febrúar 2004 þar sem fram kom að bifreiðin A hefði verið skráð sem tjónabifreið í samræmi við beiðni þar um dagsetta þann 25. febrúar 2004. 

Hins vegar hefði kærandi ekki upplýst embætti tollstjórans í Reykjavík um umrædda skráningu hjá Umferðarstofu í bréfum þeim sem hann sendi embættinu til skýringar á lágu verði bifreiðarinnar, m.a. í bréfi hans 10. mars 2004 en þar kemur ekki fram að bílinn sé tjónaður.

Í svari B þann 21. júní 2004 kemur fram sú skýring að í bréfi 10. mars hafi ekki komið fram að bíllinn væri tjónaður þar sem B hafi ekki verið kunnugt um það á þeim tíma. Tjónið hafi ekki komið í ljós fyrr en nokkrum dögum síðar við nánari skoðun. Hins vegar kemur fram í sama bréfi að við komu bílsins til landsins hafi komið í ljós við skoðun að hann var meira tjónaður en búist var við og að um gamalt tjón væri að ræða, eða grindarskekkju. Samkvæmt úrskurði frá Umferðarstofu hefði svo þurft að fara fram viðgerð á bílnum sem framkvæmd var. Ennfremur kemur fram af hálfu B að ef bifreiðin hafi aðeins verið með tjónagögn vegna þjófnaðar, eins og B áttu von á, hefði hún ekki verið skráð sem tjónabifreið og þar sem hún sé sannarlega viðgerð tjónabifreið sé bæði endursöluverð mikið lægra og bifreiðaumboð taki bifreiðina ekki sem greiðslu upp í nýjan bíl. Fór B fram á að tollstjórinn í Reykjavík tæki til greina framlagða tollskýrslu.

Í bréfi embættisins þann 25. júní 2004 var enn bent á heimild 21. gr. A tollverðsreglugerðar nr. 374/1995 og kom það fram af hálfu embættisins að skýringa væri ítrekað óskað á því af hverju það kom ekki fram í bréfum B að bifreiðin var skráð tjónabifreið þann 26. febrúar 2004, sem hvergi kom fram í bréfum B eftir þann tíma. Það hlyti B þó að hafa verið ljóst, m.a. í bréfi þess þann 10. mars 2004.

Í skýringum B í bréfi þann 29. júní 2004 kemur fram að B hafði áður keypt eins bifreið af sama söluaðila þann 4. nóvember 2003 sem var einnig þjófnaðarbíll og kom til landsins sem tjónabíll. Hins vegar var ekkert annað að honum en að honum hafði verið stolið. Stóðu þeir því í þeirri trú að það sama gilti um bifreiðina A. Við skoðun hafi hins vegar komið í ljós að grindarskekkja var á bílnum þannig að hann var sendur í viðgerð til að geta fengið fulla skoðun. Þá var verðmunur á kaupverði bifreiðanna skýrður þannig að fyrri bíllinn var aðeins ekinn 25 þúsund mílur á móti 66 þúsund mílum í seinni bifreiðinni og stærri vél hafi verið í þeim fyrri auk betri innréttinga og búnaðar. Enn var óskað eftir því að tollstjórinn tæki til greina framlagða tollskýrslu frá B.

III.

Með vísan til framangreinds hefur embættið nú ákveðið að fallast á innkaupsverð samkvæmt framlögðum vörureikningi sem er USD 9.400,00. Hins vegar þarf að gefa út vörugjaldsskýrslu vegna aðvinnslu eða framleiðslu ökutækisins og greiða vörugjald skv. aðvinnsluskýrslunni af þeim viðgerðum sem fóru fram á bílnum, sbr. 8. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum. Er skýrslan send hjálögð með bréfinu. Fær fyrirtækið nú 15 daga frest, frá póstlagningardegi bréfs þessa, eða til 23.07.2004 til að skila inn skýrslunni til embættis tollstjórans í Reykjavík, en að öðrum kosti mun embættið áætla vörugjald vegna viðgerðar bílsins á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Reykjavík, 8. júlí 2004

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum