Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 14/2009

Aðflutningsgjöld bifreiðar að gerðinni Fort Mustang Shelby GT500, árgerð 2008

29.10.2009

Í dag var hjá embætti tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 17. júlí 2009, sem barst embætti Tollstjóra þann 23. júlí sl., hefur A, f.h. B, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun tollstjóra um fob-verð bifreiðarinnar C sem barst til landsins með sendingu nr. F 782 27 05 9 US JFK 4499.

Kærandi krefst þess að framlögð greiðslukvittun verði lögð til grundvallar ákvörðunar fob- verðs.

II. Málsmeðferð

Þann 27. maí 2009 kom til landsins bifreið með fastanúmeri C af gerðinni Fort Mustang Shelby GT500, árgerð 2008, VIN númer 1ZVH T88 S285160813, með sendingu nr. F 782 27 05 9 US JFK 4499. Skráður innflytjandi er B. Kærandi hafði áður verið í símasambandi við starfsmann Tollstjóra vegna fyrirhugaðs innflutnings á bifreið. Tollmiðlari lagði inn fyrir kæranda aðflutningsskýrslu þar sem fob-verð var tilgreint 25.200,00 USD. Einnig fylgdu greiðslukvittun („receipt of sale“), erlent skráningarskírteini („certificate of title“) og flutningsgjaldsreikningur. Tollmiðlari tjáði kæranda að skýrslan hafi ekki gengið í gegn. Í framhaldi af því var haldinn fundur milli kæranda og tollvarða á Keflavíkurflugvelli, þar sem þess var óskað að kærandi legði inn skrifleg rök ásamt frekari gögnum. Kærandi lagði inn aðflutningsskýrslu að nýju, en þá í Reykjavík, þann 3. júní 2009 sem og frekari gögn vegna málsins, ásamt bréfi, dags. 29. maí sl., þar sem fram komu rök hans fyrir málinu. Meðal framlagðra gagna var umboð innflytjanda, B, dags. 28. maí 2009, til handa kæranda til að sjá um alla tilfallandi vinnslu við tollafgreiðslu bifreiðarinnar. Þann 8. júní sendi tollvörður verkbeiðni um skoðun á bifreiðinni til Keflavíkur. Þann 12. júní 2009 var fob-verð bifreiðarinnar formlega ákvarðað 66.995,00 USD. Ákvörðunin var m.a. byggð á því að í bifreiðina hefur verið bætt „Super Snake kit“.

Þann 23. júlí sl. barst embættinu kæra dagsett 17. júlí sl. Í kjölfar kæru var bifreiðin skoðuð að nýju. Skoðunarskýrsla tollvarða var gerð þann 19. ágúst 2009. Þar kemur m.a. fram að mælir bifreiðarinnar sýnir fram á 49,0 eknar mílur en samkvæmt upplýsingum á erlendu skráningarskírteini („title“) á bifreiðinni að hafa verið ekið 125,0 mílur. Þá kemur einnig fram að bifreiðin er merkt sérstöku serial númeri frá Shelby Autos í Bandaríkjunum, sem er 08SSX. Númerið er sett upp þannig að 08 er árgerðin, SS er Super Snake og X er raðnúmer bifreiðarinnar. Raðnúmerið er grafið á málmplötur sem festar eru á fjórum stöðum í bifreiðinni, þ.e. í vél, á mælaborði og í hurðum.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að lágt kaupverð bifreiðarinnar komi til vegna þess að slíkar bifreiðar sé sem stendur erfitt að selja. Seljandi hafi lengi reynt að selja bifreiðina á margs konar verði og tilboðum í marga mánuði. Sá mismunur sem fram komi varðandi akstur bifreiðarinnar, sem skv. mæli er u.þ.b. 40 mílur en skv. „title“ 125 mílur þann 5. febrúar 2008, komi til þar sem bifreiðin hafi fyrir stuttu gengist undir viðgerð á mælaborði, en við það hafi talning mílna þurrkast út. Seljandi hafi týnt pappírum sem sýni fram á að um ósvikna Super Snake bifreið sé að ræða, og því sé verðmæti bifreiðarinnar minna. Kærandi heldur því fram að hann hafi verið í góðri trú varðandi framkvæmd og nauðsynlegar upplýsingar fyrir tollafgreiðslu bifreiðarinnar, þar sem hann hafi aflað sér upplýsinga varðandi innflutning bifreiða hjá upplýsingafulltrúa embættisins og hafi haldið sig við þær leiðbeiningar sem hann hafi fengið. Kærandi er ósáttur við það sem hann telur geðþóttaákvörðun tollvarða varðandi sanngjarnt verð bifreiða og bendir sem dæmi um niðursveiflu á Íslandi á að tiltekið bifreiðaumboð á Íslandi bjóði nýjar eftirársbifreiðar með 50-65% afslætti.

IV. Niðurstöður

Í 1. mgr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005 er að finna meginreglu þess efnis að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð, sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu hennar til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiða má af ákvæðum 15. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. tollalaga er jafnframt kveðið á um skilyrði fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar. Í reglugerð 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru, með síðari breytingum, er nánar fjallað um tollverð vöru. 

Í 52. gr. reglugerðarinnar er ofangreind meginregla 1. mgr. 14. gr. tollalaga nánar útfærð, þ.e.a.s. að tollverð vöru sé viðskiptaverð hennar. Í eftirfylgjandi greinum reglugerðarinnar koma fram skilyrði þess að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar tollverði. Tollstjóri getur krafið þann sem ber ábyrgð á viðkomandi upplýsingum um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint, telji hann ástæðu til að draga í efa eða staðreyna sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð samkvæmt 56. gr. reglugerðarinnar. Dragi Tollstjóri sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverðið í efa, þrátt fyrir framkomnar skýringar eða gögn eða ef frekari skýringar eða gögn eru ekki látin tollstjóra í té innan hæfilegs frests, verður viðskiptaverð vöru ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs. Tollverð er þá ákvarðað skv. 57.-62. gr. reglugerðarinnar.

Líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun bárust embættinu skýringar með bréfi frá kæranda, dags. 29. maí sl. Í ákvörðun embættisins, dags. 12. júní sl., kom fram að skýringar og framlögð gögn nægja ekki til þess að rökstyðja kaupverð bifreiðarinnar.

Í 63. – 70. grein reglugerðarinnar eru sérákvæði vegna innflutnings ökutækja.Tollstjóri skal safna upplýsingum frá hlutlausum aðilum erlendis um viðmiðunarverð ökutækja og bera saman viðskiptaverð og viðmiðunarverð, sbr. 64. gr. Í 2. mgr. er kveðið á um að þessar upplýsingar skuli notaðar við tollafgreiðslu og þá borin saman viðskiptaverð bifreiðarinnar og viðmiðunarverð ökutækja af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt. Kanna skal hvort viðskiptaverð sé óeðlilega lágt. Embætti Tollstjóra styðst við skoðun tollverðs bifreiða, sem fluttar eru inn frá Bandaríkjunum við upplýsingar sem fram koma í The Automobile Red Book til viðmiðunar, en rit þetta er gefið út af eftirlitsaðilum bifreiðaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Innflutta bifreiðin sem um ræðir í þessu máli er Ford Mustang Shelby GT 500, árgerð 2008. Samkvæmt framlagðri kvittun var kaupverð bifreiðarinnar 25.200,00 USD. Viðmiðunarverð á Ford Mustang Shelby GT 500 árg. 2008 er samkvæmt The Automobile Red Book júlí 2009 41.930,00 USD. Þar að auki er um að ræða bifreið sem svokallað „Super Snake System“ hefur verið sett í, en það kostar eitt og sér 33.495,00 USD, skv. upplýsingum sem fengust frá starfsmanni Shelby Automobiles í Bandaríkjunum, http://www.shelbyautos.com, en fyrirtækið framleiðir og setur þessi kerfi í bifreiðarnar.

Samkvæmt framansögðu er viðmiðunarverð í The Automobile Red Book verulega hærra en það kaupverð sem tilgreint er í framlögðum gögnum, en það víkur um u.þ.b. 40% frá því viðmiðunarverði sem fram kemur í The Automobile Red Book. Þar fyrir utan er um bifreið með dýrum sérbúnaði að ræða, sem hækkar verðmæti hennar um u.þ.b. 33.495,00 USD, svo að ætla má að um þó nokkuð hærra frávik, eða u.þ.b. 74%, sé að ræða. Þar sem frávik eru umtalsverð miðað við meðalverð í The Automobile Red Book þá verða skýringar að vera traustar og haldgóðar ef þær á að leggja til grundvallar, sbr. úrskurð ríkistollanefndar nr. 9/2005. Hvorki liggur fyrir kaupsamningur um bifreiðina né önnur gögn sem myndu staðfesta kaupverð hennar. Sú útskýring kæranda að hinn mikli verðmunur, sem fyrir liggur, hafi komið til vegna þess að erfitt hafi reynst að selja bifreiðina getur ekki talist nægjanleg til að útskýra það að bifreið sem er því sem næst ný frá verksmiðjunni og hefur þar fyrir utan þá sérstæðu að hafa innbyggt sérstakt „Super Snake“ kerfi, sem gerir bifreiðina þeim mun verðmætari, sé seld á u.þ.b. 25% þess verðs sem eðlilegt má telja fyrir slíka bifreið. Varðandi þá fullyrðingu kæranda að hann hafi verið í góðri trú þegar hann hafi lagt inn aðflutningsskýrslu og fylgiskjöl vegna hennar, þar sem hann hafi aflað sér upplýsinga hjá upplýsingafulltrúa embættisins á meðan hann var enn erlendis vegna kaupa á bifreiðinni, er rétt að benda á að fulltrúi embættisins getur einvörðungu veitt upplýsingar og komið með tillögur í síma, byggðar á þeim upplýsingum sem honum eru gefnar. Hann getur hins vegar aldrei sagt nákvæmlega til um hvernig tollafgreiðsla verður gerð. Slíkar upplýsingar eru þar fyrir utan ávallt veittar með þeim fyrirvara að þær séu gefnar byggðar á upplýsingum frá fyrirspyrjanda og því geti aðstæður breyst ef í ljós kemur að upplýsingar vantaði eða eru af öðrum toga en þær sem upplýsingafulltrúa voru veittar. Þá er ekki hægt að fallast á þá skýringu kæranda að bifreiðin sé verðminni, þrátt fyrir að hafa „Super Snake System“ innbyggt. Spurst var fyrir hjá Shelby Automobiles, http://www.shelbyautos.com. Hjá starfsmanni fyrirtækisins fengust þær upplýsingar að raðnúmerið 08SSX, sem grafið er í málmplötur og fest í bifreiðina sé út af fyrir sig næg sönnun þess að um Ford Mustang Shelby Super Snake sé um að ræða. Hann staðfesti einnig að bifreið með fyrrgreindu VIN númeri hefði verið breytt í super snake bifreið með raðnúmerinu 08SSX og um væri að ræða Super Snake kerfi sem breytti vélinni þannig að hún hafi 725 hestöfl. Ekki er hægt að bera saman bifreiðina sem hér um ræðir, og þær bifreiðar sem kærandi ber fyrir sig sem rök og seldar eru ódýrt hjá bifreiðaumboði hér á landi, þar sem horfa ber til markaðar fyrir bifreiðar í Bandaríkjunum en ekki á Íslandi. Þar fyrir utan er um að ræða „venjulegar“ fólksbifreiðar, sem til eru á lager og boðnar á mjög lágu verði, þar sem markaður fyrir bifreiðar hér á landi er sem stendur mjög lítill og flestar bifreiðasölur með of fulla lagera. Ford Mustang Shelby GT 500 Super Snake er hins vegar mjög sérhæfð og dýr bifreið, sem gera má ráð fyrir að haldi verðmæti sínu, burtséð frá efnahagsástandi.

Með hliðsjón af ofangreindum ákvæðum og með vísan til fyrirliggjandi gagna er það mat embættisins að ekki skuli leggja framlagða greiðslukvittun til grundvallar við ákvörðun tollverðs, þar sem skýringar innflytjanda og þau gögn sem hann leggur fram nægja ekki til að skýra hið lága kaupverð bifreiðarinnar.

Í 56. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru með síðari breytingum er vísað í 57.-62. gr.; sbr. 64. gr. reglugerðarinnar. Þar er mælt fyrir um hvernig tollverð vöru skuli ákveðið þegar viðskiptaverð vöru verður af einhverjum ástæðum ekki lagt til grundvallar. Meginreglan er sú að leggja skuli til grundvallar viðskiptaverð sams konar vöru á sams konar viðskiptastigi, sem seld er eða flutt inn á sama eða svipuðum tíma og varan sem verið er að virða, sbr. 57. grein reglugerðarinnar.

Í samræmi við 2. mgr. 57. gr. reglugerðarinnar hefur embættið, við innflutning notaðra bifreiða, gert könnun á því hvort sambærilegar bifreiðar (bifreiðar sömu tegundar, undirtegundar og árgerðar) hafi verið fluttar inn á sama eða svipuðum tíma, þ.e.a.s. í þeim tilvikum sem embættið telur að ekki sé hægt að styðjast við framlagða reikninga. Með „svipuðum tíma“ er í framkvæmd miðað við u.þ.b. 3 mánuði fyrir og eftir að sú bifreið sem ákvarða skal tollverð á er flutt inn.

Við ákvörðun fob-verðs bifreiðarinnar var innflutningur bifreiða af sömu tegund, undirtegund og árgerð kannaður og fannst ein sambærileg bifreið þegar miðað er við árgerð, tegund og undirtegund. Um er að ræða bifreið sem tollafgreidd var þann 1. september 2008 og var fob- verð hennar 38.995,00 USD. Sá munur er þó á bifreiðunum að bifreiðin, sem höfð er til hliðsjónar er í fyrsta lagi ekki búin „Super Snake System“ pakkanum og er því ekki sambærileg í samræmi við fyrrgreind ákvæði. Í öðru lagi var bifreiðin flutt inn ríflega níu mánuðum fyrr en bifreiðin sem hér um ræðir. Það er því ekki hægt að telja hana sambærilega bifreið þeirri, sem hér um ræðir. Ákvæðum 2. mgr. 57 gr. reglugerðarinnar er því ekki hægt að beita, ákvörðun tollvarðar dagsett 12. júní sl. er því að þessu leyti röng.

Samkvæmt 65. grein reglugerðarinnar skal, við ákvörðun tollverðs skv. 62. gr. reglugerðarinnar, tollverð vera viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og það er tilgreint í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra þegar ekki reynist unnt að ákvarða tollverð ökutækis á grundvelli 14. gr. tollalaga eða 57.-61. gr. reglugerðarinnar. Undirtegundin Ford Mustang Shelby GT 500 er þó ekki til í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra svo ekki er unnt að ákvarða eftir 65. gr. reglugerðarinnar.

Í slíkum tilfellum kveður 68. gr. reglugerðarinnar á um að ákvarða skuli líklegt útsöluverð nýs ökutækis af þeirri tegund sem flutt er inn, og tollverð reiknað út skv. 66. gr. reglugerðarinnar.

Þar sem um er að ræða mjög sérstæða bifreið, sem er einstök sinnar tegundar hér á landi er mjög erfitt að meta útsöluverð slíkrar bifreiðar. Leitað var til fyrirtækisins Brimborg ehf., sem er eina fyrirtækið sem hefur selt bifreið svipaðri þeirri sem hér um ræðir hér á landi, eftir mati á líklegu útsöluverði. Þær upplýsingar fengust að líklegt útsöluverð á Ford Mustang Shelby GT 500, þó án „Super Snake System“, væri u.þ.b. 10.250.000,00 kr. að öllum gjöldum inniföldum. Við verðmat var meðal annars stuðst við reikning Ford-verksmiðjunnar í Bandaríkjunum fyrir bifreiðinni eins og hún var seld frá verksmiðjunni og miðað við gengi dollarans í 124,5 kr. Í ljósi ofangreinds er það mat embættisins að líklegt útsöluverð fyrir bifreið af gerðinni Ford Mustang Shelby GT 500 sé 10.250.000,00 kr.

Áætlað útsöluverð er reiknað niður í fob-verð skv. 66. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 með því að reikna af því verði áætlaða 12 % álagningu seljanda, virðisaukaskatt, vörugjald, vátryggingu fyrir sendingu bifreiðarinnar, flutningsgjald og fyrningu, sem reiknast þannig að miðað er við þá dagsetningu sem ökutækið var fyrst skráð til þess mánaðar sem flutningsfar kom til landsins, og verð svo lækkað um 1,5 % fyrir hvern byrjaðan mánuð fyrstu 12 mánuðina og svo 1 % fyrir hvern byrjaðan mánuð næstu 24 mánuði. Samkvæmt „certificate of title“ sem liggur fyrir var bifreiðin fyrst skráð þann 5. febrúar 2008. Flutningsfar kom til landsins í maí 2009. Því reiknast 14 mánuðir til fyrningar verðs, eða alls 22%. Eftir að þessir kostnaðarliðir hafa verið dregnir frá reiknast fob-verð bifreiðarinnar 3.765.141,00 kr. Við þessa upphæð bætast 33.495,00 USD fyrir „Super Snake Kit“ í samræmi við upplýsingar frá Shelby Autos í Bandaríkjunum, eða 4.171.132,00 kr., reiknað út frá dagsgengi dollara skv. skráningu Seðlabanka Íslands þann 7. október 2009. Fob-verð bifreiðarinnar reiknast því alls 7.936.273,00 kr. eða 63.730,00 USD.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun Tollstjóra um fob-verð bifreiðarinnar C er felld úr gildi. Fob-verð bifreiðarinnar C, sem kom til landsins með sendingu nr. F 782 27 05 9 US JFK 4499 er 63.730,00 USD.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum