Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 14/2018

Aðflutningsgjöld af skútu

29.11.2018

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda að upphæð X kr. á skútuna C.

Embætti Tollstjóra áætlaði aðflutningsgjöld á umrædda skútu með ákvörðun dags. 3. janúar 2017 eftir árangurslausar tilraunir við að fá kæranda til að skila inn aðflutningaskýrslu til embættisins svo hægt væri að ljúka tollafgreiðslu skútunnar.

Kærandi mótmælti áætlaðri álagningu aðflutningsgjalda og krafðist þess að þau yrðu felld niður eða endurskoðuð.

Tollstjóri taldi ljóst að umrædd skúta félli ekki undir undanþágu 6. tl. 12. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. 3. tl. 1. mgr. 36. gr. sömu laga. Ákvæðið hefur að geyma undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts við innflutning en undanþágan nær ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd eða skemmtibáta og var því kröfu kæranda um niðurfellingu virðisaukaskatts af skútunni C hafnað.

Kærandi óskaði einnig eftir að endurskoðun færi fram á áætluðum aðflutningsgjöldum og framvísaði reikningi þar sem fram kemur að kaupendur hafi átt að greiða samtals X evrur vegna kaupa á skútunni.

56. gr. reglugerðarinnar segir að telji Tollstjóri ástæðu til að draga sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð í efa, þrátt fyrir framkomnar skýringar eða gögn eða ef frekari skýringar eða gögn eru ekki látin tollstjóra í té innan hæfilegs frests, verður viðskiptaverð vöru ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs.

Embætti Tollstjóra óskaði eftir við umboðsmann innflytjanda staðfestingu á greiðslu kaupverðs skútunnar en engin slík staðfesting hefur borist í málinu. Tollstjóri hafnaði að reikningur sá er umboðsmaður innflytjanda skilaði inn til Tollstjóra með tölvupósti dags. 9. júlí 2018 hafi eitthvað vægi í málinu þar sem engin staðfesting barst embættinu um að greiðsla hafi sannarlega átt sér stað skv. reikningnum.

Niðurstaða: Staðfest var ákvörðun embættisins um áætlaða álagningu aðflutningsgjalda vegna skútunnar C.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 25. apríl 2018, hefur B f.h. A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 3. janúar 2017, um álagningu aðflutningsgjalda að upphæð X kr. á skútuna C.

Kærandi mótmælir áætlaðri álagningu aðflutningsgjalda og krefst þess að þau verði felld niður eða endurskoðuð.

II. Málsmeðferð

Þann 25. júní 2013 var skútan C siglt frá Írlandi inn til hafnar í Vestmanneyjum. Með bréfi dags. 7. apríl 2014 tilkynnti Tollstjóri A innflytjanda skútunnar, að við athugun embættisins hafi komið í ljós að ekki höfðu verið lögð fram aðflutningsskýrsla vegna sendingar, með sendingarnúmer Z. Í bréfinu var jafnframt óskað eftir að lögð yrði fram fullnægjandi aðflutningsskýrsla vegna ofangreindrar sendingar og tollafgreiðslu lokið eigi síðar en 30 dögum frá dagsetningu bréfsins. Tollstjóri sendi ítrekunarbréf til kæranda dags. 2. mars 2015 og dags. 20. apríl 2015. Í bréfinu dags. 20. apríl 2015, sem sent var með ábyrgðarpósti, kom einnig fram að ef kærandi lyki ekki tollafgreiðslu skútunnar innan 15 daga frá dagsetningu bréfsins yrði tollafgreiðsla á öllum vörum til kæranda stöðvuð án frekari viðvörunar í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 131. gr. tollalaga. Í sama bréfi kom að auki fram að lyki kærandi ekki tollafgreiðslu skútunnar innan uppgefins frest kæmi til áætlunar tollverðs skútunnar í samræmi við 115. gr. tollalaga. Í bréfinu kemur jafnframt fram að Tollstjóri geti krafist nauðungarsölu á uppboði á ótollafgreiddri vöru án undangengis dóms, sáttar eða fjárnáms til lúkningar gjaldföllnum aðflutningsgjöldum í samræmi við 128. gr. tollalaga.

Þar sem innflytjandi varð ekki við ítrekuðum boðunum um að ljúka tollafgreiðslu skútunnar ákvað embætti Tollstjóra að áætla gjöld vegna skútunnar þann 3. janúar 2017, að fjárhæð kr. X. Verðmatið byggðist á 2. mgr. 109. gr. tollalaga, sbr. 22. gr. tollalaga og 115. gr. sömu laga. Við áætlun gjalda vegna skútunnar tók embættið saman innflutning fyrir árið 2009 til 2016 á svipaðri vöru og reiknaði út meðaltalsverð þeirra vara sem var síðan viðmiðunarverð áætlaðs gjalds fyrir skútu kæranda.

Þann 25. apríl 2016 kærði umboðsmaður kæranda ákvörðun Tollstjóra dags. 3. janúar 2017 um álagningu aðflutningsgjalda að upphæð X kr. á skútuna C og óskaði Tollstjóri eftir skriflegu umboði frá kæranda. Umboð barst þann 9. maí 2018, þar sem kærandi veitti B umboð til að sjá um samskipti við Tollstjóra vegna kærunnar.

Hinn 14. júní 2018 sendi Tollstjóri kæranda bréf þess efnis að engin gögn væru í máli kæranda sem sýndu fram á að umrædd skúta félli undir undanþáguákvæði 6. tl. 12. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988, sbr. 3. tl. 1. mgr. 36. gr. sömu laga. Kæranda var gefinn kostur á að skila inn frekari gögnum sem gætu stutt kröfu hans um niðurfellingu virðisaukaskatts vegna innflutnings á umræddri skútu. Hinn 29. júní 2018 sendi umboðsmaður kæranda tölvupóst til Tollstjóra þar sem fram kom að kærandi væri að afla reiknings að utan og óskað væri eftir lengri fresti til að skila inn þeim gögnum. Tollstjóri veitti aukinn frest til og með 17. júlí 2018 til að skila inn frekari gögnum í málið. Hinn 9. júlí 2018 sendi umboðsmaður kæranda inn reikning vegna kaupa á skútunni C dags. 9. janúar 2013.

Þann 16. júlí 2018 sendi Tollstjóri tölvupóst til umboðsmanns kæranda þar sem óskaði var eftir staðfestingu á greiðslu á samtals X evrum vegna kaupa á skútunni C, sbr. reikning þann sem embættinu barst þann 9. júlí 2018. Óskaði embættið annars vegar eftir staðfestingu á fyrirframgreiðslu dags. 20. október 2012 að upphæð X evrur og svo lokagreiðslu að upphæð X evrur. Embætti Tollstjóra bárust engin svör við þeirri fyrirspurn og með tölvupósti dags.

20. ágúst 2018 var kæranda veittur lokafrestur til og með 27. ágúst til að skila inn umbeðinni staðfestingu á greiðslu kaupverðs fyrir skútuna. Í tölvupósti embættisins dags. 20. ágúst sl. kom fram að bærust embættinu engin frekari gögn yrði úrskurðað í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna, eða eftir atvikum, málinu vísað frá, sbr. 2. mgr. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Engin frekari gögn bárust í málinu og mun embættið því úrskurða á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru þær að aldrei hafi staðið til að skútan myndi ílengjast á Íslandi. Í kæru kemur fram að vorið 2013 hafi skútunni verið siglt til Íslands til að taka þátt í Classic Yacht Regatta sem átti að eiga sér stað það sama sumar frá Íslandi til Frakklands. Keppni þessari var síðan aflýst og báturinn bundinn við bryggju í Reykjavík. Ennfremur segir í kæru að síðar hafi komið í ljós að miklar skemmdir voru bæði á skrokk og sjálfstýringu eftir að báturinn hafði verið bundin við Brokey um sumarið og ljóst að skrokkurinn, sem er úr stáli, þurfti að fara í þykktarmælingu og reyndist erfitt að finna atvinnufólk í það verkefni í Reykjavík. Úr varð að sigla bátnum norður til Húsavíkur og segir í kæru að báturinn sé á leiðinni í þykktarmælingu á næstu vikum í samstarfi við Norðursiglingu. Um leið og viðgerð er lokið verði skútunni siglt út til hafnar í Evrópu.

Kærandi telur bátinn vera í mesta lagi tveggja milljóna króna virði í því ástandi sem hann er í og mótmælir mati Tollstjóra og telur það algjörlega úr lausu lofti gripið.

Af þessum sökum óskar kærandi að Tollstjóri sýni aðstæðum sínum skilning og endurskoði ákvörðun sína um álagningu aðflutningsgjalda á þann hátt að þau verði felld niður eða þau endurskoðuð.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um álagningu aðflutningsgjalda.

Kærandi fer fram á að álagning aðflutningsgjalda, dags. 3. janúar 2017, verði felld niður eða endurskoðuð. Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur að því að aðflutningsgjöld voru ákvörðuð af embættinu þar sem innflytjandi skilaði ekki inn aðflutningsskýrslu í málinu þrátt fyrir ítrekaðar boðanir þess efnis.

Í kæru hefur kærandi óskað eftir niðurfellingu virðisaukaskatts af umræddri skútu. Í kæru kemur þó ekki fram á hvaða röksemdum krafan um niðurfellingu byggist.

Þann 9. júlí 2018 sendi kærandi tölvupóst sem innihélt reikning vegna kaupa á skútunni C en reikningurinn var dagsettur 9. janúar 2013. Þar kom fram að kaupendur skútunnar væru fjórir og skyldi A eignast 25% hlut í skútunni. Á reikningnum mátti einnig sjá að samkomulag hafði náðst um kaup og sölu á skútunni þann 20. október 2012, en þar kom fram að staðfestingargreiðslu skyldi framkvæma við undirritun samningsins, að upphæð X evrur. Að því loknu skyldu kaupendur inna af hendi lokagreiðslu að upphæð X evrur en þá greiðslu átti að framkvæma fyrir 1. febrúar 2013. Kaupverð skútunnar var samkvæmt framlögðum reikningi samtals X evrur.

Hinn 16 júlí sl. sendi Tollstjóri tölvupóst á umboðsmann innflytjanda þar sem embættið óskaði eftir gögnum um að umræddar greiðslur hafi farið fram vegna kaupa á skútunni. Tollstjóri ítrekaði fyrirspurn þessa með tölvupósti dags. 20. ágúst 2018 en engin svör né frekari gögn bárust fyrir lok veitts frests þann 27. ágúst 2018.

Samkvæmt 22. gr. tollalaga skal innflytjandi láta Tollstjóra í té aðflutningsskýrslu og önnur tollskjöl vegna innfluttrar vöru, áður en vara er afhent til notkunar innanlands eða sett í tollfrjálsa verslun eða tollfrjálsa forðageymslu. Tollskjöl skulu þó látin Tollstjóra í té eigi síðar en sex mánuðum frá komudegi flutningsfars vöru til landsins nema vöru hafi verið ráðstafað í tollvörugeymslu eða á frísvæði. Umrædd skúta kom hingað til lands frá Írlandi þann 25. júní 2013. Ljóst er að umrædd skúta hefur verið hér á landi ótollafgreidd frá því að hún kom hingað til lands. Embætti Tollstjóra áætlaði aðflutningsgjöld á umrædda skútu með ákvörðun dags. 3. janúar 2017 eftir árangurslausar tilraunir við að fá kæranda til að skila inn aðflutningaskýrslu til embættisins svo hægt væri að ljúka tollafgreiðslu skútunnar.

Meginregla tollalaga nr. 88/2005 er sú að almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. laganna.

Virðisaukaskattur skal innheimtur með aðflutningsgjöldum af öllum innflutningi, sbr. 1. mgr. 37. gr. virðisaukaskattslaga. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að greiða skal virðisaukaskatt af öllum vörum. Undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu ber almennt að skýra þröngt og þurfa skilyrði fyrir undanþágu tvímælalaust að vera uppfyllt.

Skattskylda nær til allrar þjónustu, vara og verðmæta, nýrra og notaðra nema sérstakar undanþágur í lögum leiði til annarrar niðurstöðu, sbr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Heimildir til niðurfellingar virðisaukaskatts við innflutning báta er heimiluð í vissum tilfellum. Samkvæmt 6. tl. 12. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. 3. tl. 1. mgr. 36. gr. sömu laga, skulu loftför og skip undanþegin virðisaukaskatti við innflutning. Í 1. tl. 39. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008 kemur fram að loftför og skip skulu undanþegin virðisaukaskatti við innflutning. Tollstjóri telur ljóst að umrædd skúta falli ekki undir umrædda undanþágu er varðar greiðslu virðisaukaskatts við innflutning. Undanþágan nær ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd eða skemmtibáta. Um er að ræða undanþágu frá greiðslu lögbundinna gjalda og er því ákvæðið háð þröngri túlkun. Litið hefur verið svo á að einungis för sem flutt eru hingað til lands til nota í ákveðinni starfsemi eða iðnaði heyri undir áðurnefnda undanþágu. Þannig geta bátar til einkanota ekki fallið undir þessa undanþáguheimild. Kærandi ber sjálfur sönnunarbyrði fyrir því að undanþáguákvæði eigi við. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem sýna fram á að umrædd skúta falli undir áðurgreinda undanþágu og verður því ekki fallist á niðurfellingu virðisaukaskatts.

Með vísun til alls ofangreinds teljast skilyrði til niðurfellingar virðisaukaskatts af skútunni C ekki vera fyrir hendi og er kröfu kæranda hafnað hvað það varðar.

Í kæru kemur fram að kærandi telji skútuna vera í mesta lagi tveggja milljóna króna virði í því ástandi sem hún er í og mótmælir mati Tollstjóra og telur það algjörlega úr lausu lofti gripið. Tollstjóri áréttar hér að við tollverðsákvörðun skal ekki miða við ástand skútunnar eins og hún er í dag heldur áætla hvert viðskiptaverð hennar hafi verið við innflutning, þ.e. það verð sem raunverulega var greitt fyrir skútuna.

Kærandi óskaði einnig eftir að endurskoðun færi fram á áætluðu aðflutningsgjöldum og framvísaði reikningi þar sem fram kemur að kaupendur hafi átt að greiða samtals X evrur vegna kaupa á skútunni.

Lagagrundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar byggist á 2. mgr. 109. gr. tollalaga en samkvæmt þeirri lagagrein skal Tollstjóri áætla tollverð skv. 115. gr. laganna hafi aðflutningsskýrslu ekki verið skilað innan tilskilins frest skv. 22. gr. tollalaga. Samkvæmt 115. gr. tollalaga skal Tollstjóri í þeim tilvikum þegar honum ber að áætla fjárhæð aðflutningsgjalda, áætla tollverð vöru svo ríflega að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en raunverulegt verðmæti vörunnar.

Um tollverð vöru er fjallað í V. kafla tollalaga nr. 88/2005 og VII. kafla reglugerðar um vörslu og tollmeðferð vöru nr. 1100/2006. Tollverð innfluttra vara er viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins sbr. 14. gr. tollalaga. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. tollalaga skal í reglugerð fjalla um bæði reglur um mat á vörum til tollverðs sem og málsmeðferðarreglur þegar ástæða þykir til að draga í efa sannleiksgildi vörureiknings en þær reglur er að finna í VII kafla reglugerðar nr. 1100/2006. Í 56. gr. reglugerðarinnar segir að telji Tollstjóri ástæðu til að draga sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð í efa, þrátt fyrir framkomnar skýringar eða gögn eða ef frekari skýringar eða gögn eru ekki látin tollstjóra í té innan hæfilegs frests, verður viðskiptaverð vöru ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs.

Embætti Tollstjóra óskaði eftir við umboðsmann innflytjanda staðfestingu á greiðslu kaupverðs skútunnar en engin slík staðfesting hefur borist í málinu. Tollstjóri hafnar því að reikningur sá er umboðsmaður innflytjanda skilaði inn til Tollstjóra með tölvupósti þann 9. júlí 2018 hafi eitthvað vægi í málinu þar sem engin staðfesting hefur borist um að greiðsla hafi sannarlega átt sér stað skv. reikningnum. Af þeim sökum bar að ákvarða tollverð vörunnar í samræmi við reglur 57. – 62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 en reglurnar eru í ákveðinni rétthæð og fyrst ber að beita 57. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 57. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 skal tollverð vöru, þegar ekki er unnt að notast við tollverð skv. 14. gr. tollalaga, vera viðskiptaverð sams konar vara sem seldar hafa verið og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma. Í 58. gr. segir að ef ekki er unnt að notast við 57. gr. þá skuli tollverð vöru vera viðskiptaverð svipaðra vara sem seldar hafa verið og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma. Í 62. gr. reglugerðarinnar kemur fram að verði tollverð innfluttrar vöru ekki ákvarðað skv. 14. gr. tollalaga eða 57-61. gr. reglugerðarinnar skal ákvarða það með rökréttum hætti samkvæmt meginreglum og almennum ákvæðum samnings um framkvæmd VII. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti 1994 og á grundvelli fáanlegra upplýsinga hér á landi. Tollstjóri studdist við reglu 62 gr. reglugerðarinnar þegar embættið tók saman innflutning fyrir árið 2009 til 2016 á svipaðri vöru og reiknaði út meðatalsverð þeirra vara sem var síðan viðmiðunarverð áætlaðs gjalds fyrir skútu kæranda.

Að þeim útreikningum virtum og með hliðsjón af þeim reglum sem gilda við verðmat á vöru þegar vörureikningur er ekki nothæfur við ákvörðun tollverðs, sbr. 57. – 62. reglugerðar nr. 1100/2006, er það mat Tollstjóra að ákvörðun embættisins dags. 3. janúar 2017 um að áætla aðflutningsgjöld að fjárhæð X fyrir umrædda skútu sé rétt.

Ákvörðun Tollstjóra um áætluð aðflutningsgjöld er því staðfest með vísun til umfjöllunar hér að ofan.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra dags. 3. janúar 2017 um áætluð aðflutningsgjöld vegna skútunnar C er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum