Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 15/2010

Synjun Tollstjóra um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af vélknúnu ökutæki sem flutt hefur verið úr landi

13.8.2010

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 8. janúar sl., mótteknu hjá embætti Tollstjóra þann 9. mars 2010, hefur F, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 synjun Tollstjóra um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutæki með fastnúmer A sem flutt var úr landi þann 11. desember 2009 með sendingu nr. E REY 11 12 9 IS REY W059.

Kærandi krefst þess að ofangreind ákvörðun um synjun endurgreiðslu verði endurskoðuð og endurgreiðslan heimiluð.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti hjá embætti Tollstjóra um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bifreiðinni A á þar til gerðu eyðublaði þann 3. desember 2009. Bifreiðin, sem er af gerðinni E, árgerð 2005, var fyrst skráð á Íslandi þann 15. ágúst 2008. Bifreiðin var flutt úr landi þann 11. desember 2009 með sendingu nr. E REY 11 12 9 IS REY W059. Með bréfi Tollstjóra, dags. 11. janúar 2010 var kæranda tilkynnt um höfnun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts, byggt á því að bifreiðin hafi ekki verið afskráð fyrir 31. desember 2009 og skilyrði fyrir endurgreiðslu því ekki til staðar. Ákvörðun Tollstjóra um höfnun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bifreiðinni A var kærð með bréfi sem var móttekið hjá embætti Tollstjóra þann 9. mars 2010. Bifreiðin var afskráð hjá Umferðarstofu þann 2. febrúar 2010. Með bréfi dags. 31. maí 2010 var af hálfu embættisins beðið um frekari upplýsingar varðandi skráningu bifreiðarinnar erlendis sem og afskráningu hennar hér á landi og þá hvernig staðið var að sendingu númeraplatna til landsins. Svar barst með bréfi kæranda, dags. 21. júní 2010, sem sent var með faxi.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir kröfu sína um endurgreiðslu á því að skilyrði fyrir endurgreiðslu vörugjalda og virðisaukaskatts hafi verið uppfyllt. Hann hafi aflað sér upplýsinga hjá embætti Tollstjóra varðandi afskráningu bifreiðarinnar ef afhending til skipafélagsins hafi átt sér stað fyrir áramót, og þá hvort hægt væri að senda númeraplöturnar í pósti um leið og búið væri að skrá bifreiðina erlendis. Hann hafi fengið þær upplýsingar að það væri viðtekin venja hjá embættinu og að engin vandamál fylgdu þessari framkvæmd. Það væri nægjanlegt að hafa staðfestingu skipafélagsins fyrir afhendingu bifreiðarinnar fyrir áramót. Starfsmaður embættisins hafi sérstaklega kannað málið og beðið um að kærandi hringdi þann 4. desember, en þá hafi verið staðfest að það væri í lagi að senda númeraplötur bifreiðarinnar eftir áramót. Kærandi hafi svo flogið til B þann 6. janúar 2010, tekið við bifreiðinni og ekið henni til K, sem hafi falið í sér mikla fyrirhöfn og kostnað. Hann telur því að embætti Tollstjóra hafi brugðist stjórnsýsluskyldum sínum til leiðbeiningar og upplýsingar. Eiginkona kæranda hafi lagt númeraplötur vegna bifreiðarinnar inn hjá Aðalskoðun í Hafnarfirði þann 2. febrúar 2010, eða sama dag og bifreiðin var afskráð, eftir að númeraplöturnar hafi verið sendar með almennum pósti frá K. Á fylgiskjölum sem send voru með svari dags. 21. júní 2010 kemur fram að bifreiðin var skráð í K þann 12. janúar 2010.

IV. Niðurstöður

Með lögum nr. 140/2008 bættust ný ákvæði til bráðabirgða við lög um vörugjald af bifreiðum nr. 29/1993 og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Ákvæðin tóku gildi þann 15. desember 2008. Samkvæmt þeim er heimilt að endurgreiða vörugjald og virðisaukaskatt af vélknúnum ökutækjum sem flutt eru úr landi. Heimild til endurgreiðslu gjaldanna gilti til og með 31. desember 2009 og annaðist Tollstjórinn í Reykjavík, nú Tollstjóri, endurgreiðsluna. Í reglugerð nr. 1144/2008 um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutækjum sem flutt eru úr landi er að finna nánari útfærslu á bráðabirgðaákvæðunum.

Ágreiningur í fyrirliggjandi máli snýst í fyrsta lagi um hvort skilyrði laganna til endurgreiðslu séu uppfyllt og í öðru lagi hvort embætti Tollstjóra hafi uppfyllt skyldu sína til upplýsingar og leiðbeiningar.

Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum til bráðabirgða er skilyrði endurgreiðslu að ökutækið hafi verið afskráð og flutt úr landi, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Í 2. tl. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að skilyrði fyrir endurgreiðslu sé að skráningarnúmer ökutækis skuli hafa verið afhent Umferðarstofu, ökutækið afskráð til nota hér á landi og að fyrir liggi upplýsingar þar að lútandi við afgreiðslu umsóknar um endurgreiðslu hjá Tollstjóra. Reglan er því sú að bifreiðar skulu hafa verið afskráðar áður en þær voru sendar úr landi.

Í því máli sem hér liggur fyrir var bifreiðin flutt úr landi þann 11. desember 2009. Með bréfi, dags. 11. janúar 2010, hafnaði embætti Tollstjóra umsókn kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts og vörugjalds. Bifreiðin var skráð hjá bandarískum yfirvöldum þann 12. janúar 2010 og afskráð hjá Umferðarstofu þann 2. febrúar 2010. Skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. fyrrgreindum ákvæðum til bráðabirgða og ákvæðum reglugerðar nr. 1144/2008 voru því ekki uppfyllt.

Ekki er hægt að fallast á það með kæranda að fella beri ofangreinda ákvörðun úr gildi þar sem upplýsingagjöf embættisins hafi verið ábótavant. Kærandi heldur því fram að honum hafi verið veittar þær upplýsingar að nægjanlegt væri að bifreið hefði verið skilað til farmflytjanda fyrir áramót, án þess þó að styðja mál sitt með því að nefna þann starfsmann embættisins sem veitti þessar upplýsingar. Ofangreind skilyrði kveða skýrt á um að ökutæki skuli hafa verið afskráð til nota hér á landi áður en það er sent úr landi. Í ákveðnum tilfellum var undanþága veitt frá þessari reglu, til að gera eigendum kleift að flytja ökutæki sín erlendis, að því tilskyldu að gengið yrði frá skráningu bifreiðarinnar erlendis og afskráningu hérlendis svo fljótt sem auðið var. Aðrar upplýsingar en þessar hafa ekki verið gefnar út af starfsmönnum embættisins. Þar sem kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn eða rök, svo sem nöfn og nákvæma tímasetningu, til að styðja fullyrðingu sína um þær upplýsingar sem hann kveðst hafa fengið hjá starfsmönnum embættisins, er ekki hægt að fallast á að hann hafi fengið rangar upplýsingar varðandi framkvæmd á framkvæmd fyrrgreindrar umsóknar um endurgreiðslu. Það er því ljóst að embættið hefur ekki brotið á skyldu sinni til upplýsingar og leiðbeininga skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ofangreindri umsókn um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts var því með réttu hafnað með vísan til ákvæðis til bráðabirgða nr. XI í lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og ákvæði til bráðabirgða nr. XIII í lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar samkvæmt 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1144/2008 um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af vélknúnum ökutækjum, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 11. janúar 2010, um synjun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bifreið með fastnúmer A sem flutt var úr landi þann 11. desember 2009 með sendingu nr. E REY 11 12 9 IS REY W059, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1144/2008.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum