Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 15/2015

Álagning aðflutningsgjalda á sendingu frá Hong Kong

23.11.2015

Reifun 

Kærandi flutti inn vöru sem send var frá Hong Kong. Kærandi taldi rétt að varan nyti fríðindameðferðar með vísan í fríverslunarsamning Íslands og Kína, enda væri varan frá Hong Kong, og Hong Kong hluti af Kína.

Niðurstaða: Tollstjóri benti kæranda við meðferð málsins á að ef varan væri framleidd í Hong Kong ætti fríverslunarsamningur EFTA og Hong Kong við um slíkar sendingar, en ekki fríverslunarsamningur Íslands og Kína. Var kæranda gefinn kostur á að skila viðeigandi upprunasönnun til embættisins. Kærandi gat ekki lagt fram slík gögn og var fríðindameðferð því hafnað.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 17. október sl., hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 20. ágúst 2015, um höfnun á fríðindameðferð sendingar frá Hong Kong með sendingarnúmerið P og álagningu aðflutningsgjalda. Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun og endurgreiði kr. 1.709.

II. Málsmeðferð

Þann 21. ágúst 2015 barst embætti Tollstjóra með tölvupósti erindi kæranda vegna sendingar sem hún flutti inn 20. ágúst. Þann 24. ágúst óskaði Tollstjóri eftir upplýsingum um sendingarnúmer ásamt kvittun fyrir greiðslu aðflutningsgjaldanna og öðrum gögnum sem varpað gætu betur ljósi á málið. Umbeðin gögn kæranda bárust 3. september 2015. Þann 24. september var lagt til að kærandi legði fram upprunasönnun vegna vörunnar, væri hún sannarlega frá Hong Kong. Innti Tollstjóri eftir svari þann 5. og 13. október og þann 26. október var kæranda gefinn frestur til 9. nóvember til að leggja fram gilda upprunasönnun, ella yrði úrskurður kveðinn upp á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Kærandi lagði ekki fram frekari gögn og taldist gagnaöflun því lokið þann 10. nóvember 2015.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi krefst þess að sending hennar fái notið fríðindameðferðar. Vísar hún máli sínu til stuðnings til fríverslunarsamningsins milli Íslands og Kína. Vara kæranda beri með sér að vera frá Hong Kong og þar sem Hong Kong sé hluti af Kínverska alþýðulýðveldinu skuli varan njóta fríðindameðferðar. Kærandi tiltekur að erlenda fjárhæðin sem hún greiddi fyrir vöruna hafi verið 20,69 USD og hafi starfsmaður Tollstjóra reiknaði gjöld að upphæð kr. 1.709 vegna sendingarinnar. Kærandi kveðst ekki vera sátt við þessa ákvörðun enda hafi hún tekið fram við afhendingu reikninga vegna tollafgreiðslu að varan væri frá Hong Kong. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til ljósmyndar af límmiða utan af pakkningum vörunnar þar sem fram kemur að pakkinn sé frá Hong Kong. Vill kærandi áfrýja tollálagningunni og fá endurgreiddar kr. 1.709.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Í 1. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga segir að tollur skuli falla niður í samræmi við ákvæði fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að. Sé í gildi fríverslunarsamningur milli Íslands og þess ríkis sem sending kemur frá, getur vara því notið fríðindameðferðar við tollafgreiðslu að vissum skilyrðum uppfylltum. Fríðindameðferð vegna fríverslunarsamninga tekur einungis til þeirra tolla sem á vörur eru lagðar, en ekki á önnur gjöld, svo sem virðisaukaskatt eða tollmeðferðargjald það sem Íslandspóstur innheimtir. Ljóst er af kröfu kæranda að hún óskar eftir að fá heildargreiðslu sína endurgreidda. Þar sem fríðindameðferð vegna fríverslunarsamninga tekur einungis til tolla, er í máli þessu aðeins til skoðunar endurgreiðsla á þeim hluta aðflutningsgjalda kæranda sem teljast til tolls. Var kæranda tilkynnt um þetta með tölvupósti þann 24. september 2015. Er upphæð tollsins sem um ræðir kr. 408 en auk þess mundi niðurfelling tollsins leiða til hlutfallslegrar lækkunar virðisaukaskatts.

Fríðindameðferð kæranda með vísan til fríverslunarsamningsins á milli Íslands og Kína var við tollafgreiðslu hafnað á þeim grundvelli að varan væri upprunnin í Hong Kong en ekki Kína. Krafðist kærandi endurskoðunar á þeirri ákvörðun á þeim grundvelli að Hong Kong væri hluti af Alþýðulýðveldinu Kína. Þrátt fyrir óumdeild tengsl Hong Kong við Kína, er um sitt hvort tollsvæðið að ræða en Hong Kong hefur ákveðið sjálfstæði frá Kína og er meðal annars sjálfstæður aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Landfræðilegt gildissvið fríverslunarsamningsins á milli Íslands og Kína er skilgreint í 3. gr. samningsins en þar segir að samningurinn gildi um allt tollsvæði Kína. Þannig er Ísland aðili að tveimur ólíkum fríverslunarsamningnum, annars vegar við Kína og hinsvegar við Hong Kong. Tollstjóri benti í tölvupósti dags. 24. september kæranda á það að vara sem framleidd væri í Kína en tollafgreidd hefði verið inn í Hong Kong og seld þaðan, teldist ekki lengur uppfylla skilyrði til fríðindameðferðar samkvæmt ákvæðum 33. gr. fríverslunarsamningsins á milli Íslands og Kína. Í sama tölvupósti kom fram að í gildi væri fríverslunarsamningur milli Íslands/EFTA og Hong Kong. Var kæranda ráðlagt að fá upplýsingar frá seljanda um hvort varan gæti talist upprunnin í Hong Kong og ef svo væri, að leggja fram gilda upprunasönnun því til stuðnings. Slík gögn bárust ekki frá kæranda. Getur Tollstjóri því ekki fallist á að veita sendingu kæranda fríðindameðferð.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun fríðindameðferðar af sendingu kæranda er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 55/2008 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum