Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 19/2004

Undanþága frá reglugerð um framlagningu tryggingar vegna tímabundins innflutnings

13.9.2004

I

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur borist beiðni B f.h. umbjóðanda A, um úrskurð tollstjóra vegna beiðni um undanþágu frá reglugerð nr. 798/2000. Beiðnin er dagsett 8. júlí sl. og varðar ákvörðun um framlagningu tryggingar vegna tímabundins innflutnings. Ákvörðunin er kærð til úrskurðar tollstjóra á grundvelli 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 798/2000 um tímabundinn innflutning, sbr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að embættinu barst erindi fyrir hönd fyrirtækisins A, dagsett þann 18. júní 2004, þar sem farið var fram á undanþágu tollstjóra til handa fyrirtækinu frá því að setja tryggingu vegna tímabundins innflutnings en hennar var krafist á grundvelli reglugerðar um tímabundinn innflutning nr. 798/2000. Í erindinu er því lýst að fyrirtækið A sé að hefja borun í Skagafirði og þurfi að leigja þrjá tiltekna mótora í tvo mánuði frá Aberdeen sem og mælitæki frá Noregi. Þar sem um dýr tæki væri að ræða og fyrirtækið lítið, var farið fram á að tollstjóri félli frá kröfu um fjártryggingu eða skuldaviðurkenningu með sjálfskuldaraábyrgð banka fyrir greiðslu aðflutningsgjalda. Tækin sem um ræddi yrðu ekki lengur á landinu en í 90 daga enda væru hagsmunir fyrirtækisins að skila þeim sem fyrst. Þá yrðu aðflutningsgjöld vegna leigu tækjanna greidd eins og reglur segja til um.

Með bréfi tollstjóra þann 30. júní 2004 var ofangreindri beiðni hafnað. Var byggt á því af hálfu embættisins að í reglugerð um tímabundinn innflutning væru skýrar meginreglur um að innflytjandi skuli setja tryggingar vegna greiðslu aðflutningsgjalda. Þar sem meginreglur reglugerðarinnar væru skýrar þyrfti að skýra undantekningar frá þeim þröngri skýringu í samræmi við viðurkennd lögskýringarsjónarmið. Þannig þyrftu veigamiklar ástæður að liggja til grundvallar undanþágu frá framlagningu tryggingar. Sérstaklega var beiðninni hafnað þar sem um mjög verðmæt tæki væri að ræða og því gætu hugsanleg aðflutningsgjöld af þeim orðið mikil ef til þess kæmi að þau yrðu ekki flutt út úr landinu aftur innan tiltekins tímafrests.

Með vísan til 5. gr. reglugerðar nr. 798/2000 hafnaði tollstjóri því fyrirtækinu um undanþágu frá kröfu um tryggingu þar sem ekki þótti hafa verið sýnt fram á veigamiklar ástæður sem heimilað gætu undanþágu frá kröfu ofangreindrar reglugerðar.

Þá var innflytjanda bent á kæruleiðir skv. 8. gr. reglugerðar nr. 798/2000 um tímabundinn innflutning.

Með bréfi C, hrl., B., fyrir hönd A, dags. 8. júlí sl., var óskað eftir úrskurði tollstjóra um beiðni um undanþágu frá framangreindri reglugerð. Í bréfinu kemur m.a. fram að í bréfi tollstjóra frá 30. júní sl. hafi A verið hafnað um undanþágu frá ákvæði reglugerðarinnar á grundvelli þess að ekki hafi verið sýnt fram á veigamiklar ástæður sem heimilað geti undanþágu. Í bréfinu sé aftur á móti ekki vikið sérstaklega að þeim ástæðum sem A hafi byggt á í bréfi til embættisins 18. júní sl.

Þá eru rakin rök fyrirtækisins fyrir því að fallist verði á undanþáguna. Er þar m.a. nefnt að um sé að ræða tímabundinn innflutning á tækjabúnaði sem fyrirfinnst ekki hér á landi og verði fyrirtækið því að leigja hann erlendis frá. Búnaðurinn fáist einungis leigður en ekki keyptur auk þess sem umfang rekstrar félagsins bendi til þess að því sé ómögulegt að festa kaup á búnaðinum. Allt framangreint bendi til þess að búnaðurinn verði sendur úr landi aftur.

Vísað er til þess að beiðni A byggist fyrst og fremst á heimild í 5. lið 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, og beri því að miða útreiknuð aðflutningsgjöld við leiguverð tækjanna í stað hefðbundins tollverðs. Þá kemur það fram í bréfinu að fyrirtækið telji ákvæði reglugerðar nr. 55/1987 (?) ekki eiga sér lagastoð. (Ekki er til reglugerð með tilvísuðu númeri, en tollalögin eru númer 55/1987).

Þá er farið fram á að tollstjóri færi rök fyrir því að líklegt sé eða a.m.k. mögulegt að umrædd tæki fari ekki úr landi aftur og reikna beri því toll af öðrum gjaldstofni en leiguverði.

Að lokum er óskað eftir því að veittar verði upplýsingar um beitingu á heimild 5. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1987, einkum fjölda innflutningstilvika sem felld hafa verið undir heimildina og eðli þess innflutnings svo og hvort sett hafi verið skilyrði um tryggingar í öðrum tilvikum.

III.

Eins og fram kom í bréf tollstjóra dagsett þann 30. júní 2004 hefur ráðherra sett reglugerð um tímabundinn innflutning nr. 798/2000 á grundvelli 6. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, en í 6. gr. tollalaga er að nokkru kveðið á um tímabundinn innflutning. Nánari skilyrði koma hins vegar fram í framangreindri reglugerð.

Ljóst er að heimild til tímabundins innflutnings í því máli sem hér um ræðir grundvallast á 5. lið 1. mgr. 6. gr. tollalaga, eins og fyrirtækið hefur haldið fram, að teknu tilliti til atvikalýsingu þess. Í ákvæðinu segir að tollur skuli lækka, falla niður eða endurgreiðast af stærri tækjum, þ.m.t. ökutækjum sem send eru hingað til lands til notkunar um stuttan tíma, þó ekki lengur en í tólf mánuði, og endursend eru þegar að notkun lokinni. Tollur skal í slíkum tilvikum reiknaður af leiguverði fyrir tækin í stað hefðbundins tollverðs. Liggi leiguverð tækis ekki fyrir má reikna toll af áætlaðri leigu sem ákvörðuð skal sem 1/60 hluti eðlilegs tollverðs fyrir hvern byrjaðan mánuð sem tækið er hér á landi.

Framangreint ákvæði tollalaga er nánar útfært í reglugerð 798/2000 um tímabundinn innflutning sem sett er eins og áður hefur komið fram á grundvelli 6. og 148. gr. tollalaga. 

Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að tollstjóra beri að fara eftir ákvæðum reglugerðarinnar þegar hann heimilar tímabundinn innflutning vara, án greiðslu aðflutningsgjalda eða gegn lækkuðum aðflutningsgjöldum. Í 3. gr. reglugerðarinnar, sem á við í þessu máli, er kveðið á um tímabundinn innflutning gegn greiðslu lækkaðra aðflutningsgjalda en þar er mælt fyrir um að greiða skuli aðflutningsgjöld af reiknuðu leiguverði fyrir viðkomandi tæki eða búnað.

Í 5. gr. ofangreindrar reglugerðar er fjallað um tryggingar sem innflytjandi skal setja fyrir greiðslu aðflutningsgjalda verði vara ekki flutt úr landi innan tilskilinna tímamarka. Kemur þar fram að innflytjandi skuli leggja fram fullnægjandi tryggingu með beiðni um heimild til tímabundins innflutnings. Þá getur tollstjóri fallið frá kröfu um tryggingu, telji hann hana óþarfa.

Ljóst er með vísan til framangreinds að innflytjanda ber því að gera tvennt. Annars vegar greiða aðflutningsgjöld af reiknuðu leiguverði fyrir viðkomandi tæki og hins vegar leggja fram tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda af búnaðinum, sem miðast við innkaupsverð hans, sbr. 4. og 8.-9. gr. tollalaga, auk 25% álags, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 724/1997 um bráðabirgðatollafgreiðslur, nema tollstjóri telji það óþarft. Með kröfu um framlagningu tryggingar er verið að tryggja greiðslu aðflutningsgjalda af umræddum búnaði verði hann ekki sendur úr landi en ekki greiðslu aðflutningsgjalda af leiguverði búnaðarins. Því er rétt að miða við verðmæti búnaðarins sem slíks við ákvörðun um fjárhæð tryggingar í málum sem þeim er hér um ræðir.

Í ofangreindri reglugerð koma fram skýrar meginreglur, sérstaklega varðandi það öryggi sem trygging á að veita vegna greiðslu aðflutningsgjalda. Meginreglan um að innflytjandi skuli leggja fram fullnægjandi tryggingu er skýr og ótvíræð. Undanþágur frá meginreglum laga ber almennt að túlka þröngt samkvæmt viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum. Tollstjóra er falið mat á því hvort hann telji þörf á að trygging sé lögð fram eða ekki. Engin frekari skilyrði eru sett fyrir ákvörðun tollstjóra í þá veru.

Eins og fram kemur í bréfi fyrirtækisins, dags. 18. júní 2004, er um mjög verðmikinn búnað að ræða og yrðu aðflutningsgjöld af honum því töluverð, ef til þess kæmi að hann yrði ekki fluttur út aftur innan tilskilinna tímamarka. Jafnframt kemur fram í bréfi fyrirtækisins, dags. 8. júlí sl., að umfang rekstrar fyrirtækisins staðfesti það að fyrirtækið gæti ekki fest kaup á þeim búnaði sem hér um ræðir. Embættið telur framangreinda fullyrðingu staðfesta það að kæmi til þess að fyrirtækið gæti ekki undir einhverjum kringumstæðum sent umrædd tæki úr landi heldur væri nauðbeygt til að kaupa það af hinum erlenda seljanda, gæti það ekki staðið undir greiðslum aðflutningsgjalda sem þá kæmu til álagningar, á grundvelli kaupverðs búnaðarins. Ýmis atvik kynnu að leiða til þess að ekki yrði unnt að flytja búnaðinn úr landi aftur eða sá kostur ekki talinn álitlegur, t.d. ef sú aðstaða kæmi upp að búnaðurinn eyðilegðist eða yrði fyrir tjóni, að hluta eða öllu, við notkun hér á landi, svo eitthvað sé nefnt. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu því til staðfestingar að umræddur búnaður fáist ekki keyptur af hinum erlenda seljanda.

Hvað varðar yfirlýsingar fyrirtækisins um að ákvæði reglugerðar þeirrar sem hér um ræðir eigi sér ekki lagastoð vísar embættið þeirri fullyrðingu á bug enda engin rök færð henni til staðfestingar. Að mati embættisins er framlagning tryggingar eitt af grundvallarskilyrðum fyrir tollafgreiðslu af því tagi sem hér um ræðir, enda segir í 2. málslið, 2. mgr. 6. gr. tollalaga að gera megi að skilyrði lækkunar eða niðurfellingar tolls samkvæmt ákvæðinu að ,,lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.” Það er því ljóst að ákvæði reglugerðarinnar um kröfu til framlagningar tryggingar á sér skýra lagastoð.

Þess skal getið að komi til þess að umræddur búnaður verði ekki fluttur úr landi innan tilskilinna tímamarka skal álagning aðflutningsgjalda reiknuð út frá kaupverði búnaðarins en ekki leiguverði, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 798/2000, sbr. 4. og 8.-9. gr. tollalaga.

Með vísan til framangreinds er það mat embættisins að ekki sé unnt að fallast á umbeðna undanþágu frá þeirri skyldu innflytjanda að leggja fram umrædda tryggingu. Fyrirtækið A skal því að mati embættisins, í samræmi við ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 798/2000, leggja fram fullnægjandi tryggingu í því formi sem þar greinir.

Fyrirtækið óskaði eftir upplýsingum um beitingu á heimild 5. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1987, einkum fjölda innflutningstilvika sem felld hafa verið undir heimildina og eðli þess innflutnings svo og hvort sett hafi verið skilyrði um tryggingar í öðrum tilvikum.

Embættið telur sér ekki unnt að verða við framangreindri beiðni fyrirtækisins. Það skal þó upplýst að stefna embættisins við afgreiðslu mála af því tagi sem hér um ræðir hefur verið skýr. Embættið hefur litið svo á að meginreglan um kröfu til töku tryggingar í miklum meirihluta tilvika sé ljós, enda oft um verulega hagsmuni og fjárhæðir að ræða. Litið hefur verið svo á að unnt sé að falla frá kröfu um tryggingu í algerum undantekningartilvikum þegar um litla fjárhagslega hagsmuni er að ræða og málsatvik sérstæð enda erfitt um vik að finna þau tilfelli þar sem trygging telst vera óþörf að mati embættisins.

Beðist er velvirðingar á töfum sem orðið hafa á afgreiðslu máls þessa vegna anna embættisins.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að fyrirtækinu A beri að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda af búnaði sem fluttur verður til landsins vegna borunar í Skagafirði. Grundvöllur álagningar aðflutningsgjalda vegna búnaðarins skal vera leiguverð umrædds búnaðar auk þess sem lögð skal fram trygging sem reiknuð skal út á grundvelli innkaupsverðs búnaðarins, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 5. gr. reglugerðar 798/2000, auk 25% álags, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 724/1997 um bráðabirgðatollafgreiðslur.

Úrskurður þessi er kæranlegur til fjármálaráðuneytisins, Arnarhváli, 150 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 798/2000 um tímabundinn innflutning. Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum.

Reykjavík, 13. september 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum