Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2004

Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna búnaðarkaupa

12.1.2004

I

Með bréfi, dags. 11. desember 2003 sem barst embættinu 15. desember sl., kærði L, fyrir hönd A, til úrskurðar skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, ákvarðanir embættisins, dags. 13. október 2003 og 10. desember 2003, um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna búnaðarkaupa fyrir B. Var gerð sú krafa að endurgreiddur yrði virðisaukaskattur af þeim liðum sem hafnað var endurgreiðslu á í fyrrgreindum ákvörðunum.

II

Í kærunni var vísað til þess að K hafi gefið gjöf til tækjakaupa fyrir B að fjárhæð kr. 150.000.000,-. F, hafi fyrir hönd A og K óskað eftir því að virðisaukaskattur af búnaðarkaupum fyrir gjöfina yrði endurgreiddur en umsýsla málsins hafi nú verið flutt í hendur A. Færð eru rök fyrir kröfu A um endurgreiðslu virðisaukaskatts af þeim liðum sem hafnað er í ákvörðunum embættisins. Óskað er eftir úrskurði á grundvelli 15. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum.

Í ákvörðunum embættisins frá 13. október og 10. desember sl. felst að ákveðnir liðir í beiðni F eru samþykktir, með vísan til 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000. Eftirtöldum liðum var þó hafnað: stólar, sófar o.fl., skrifborð, vinnuborð o.fl., barnahúsgögn, foreldrasófar, gluggatjöld og brautir, hljóð- og fundarbúnaður í kennslurými, saltvatnsfiskabúr, sjúkrastokkar, innrétting og rafbúnaður í [...]herbergi, lyfjakælar og sérsmíðuð húsgögn, skápar hillur og bekkir.

III

Ákvæði 8. tölul. b-liðar 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, kveður m.a. á um tollfrelsi gjafa til mannúðar- og líknarstarfsemi, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi.

Samkvæmt 1. tölul. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum skulu gjafir sem falla undir 5. gr. tollalaga, undanþegnar virðisaukaskatti.

Ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum fjallar um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi. Þar segir m.a. að tæki og búnaður sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf skuli undanþegin aðflutningsgjöldum. Undanþága aðflutningsgjalda tekur m.a. til sjúkrahúsa skv. 2. mgr. ákvæðisins. Í 3. mgr. er greint frá því að undanþága aðflutningsgjalda skuli m.a. taka til neðangreindra tækja og búnaðar:

  1. Tækja og áhalda sem notuð eru til lækninga og sjúkdómsgreininga.
  2. Tækja sem notuð eru til endurhæfingar vegna sjúkdóma og slysa.
  3. Annarra tækja sem notuð eru á stofnunum sem taldar eru upp í 2. tölul. 2. mgr. við endurhæfingu eða í þágu sjúklinga og vistmanna.


Þá er kveðið á um skilyrði undanþágu samkvæmt ákvæðinu í 3. mgr.

IV

A vísar til 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000 í kæru sinni, því til rökstuðnings að endurgreiða beri virðisaukaskatt af eftirtöldum liðum:

A-1 Stólar, sófar o.fl.

Rök A: ,,Allur þessi búnaður er í þágu sjúklinga. Um er að ræða sérstök barnahúsgögn og húsgögn í aðstöðu foreldra, en mikilvægt er í meðferð barna að foreldrar séu sem mest hjá þeim.”

Það er mat embættisins að stólar, sófar o.fl. teljist ekki til tækja sem fyrirhugað er að ákvæði 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000, taki yfir. Um er að ræða hefðbundin húsgögn sem allir geta notið aðgangs að á B, jafnt sjúklingar, starfsmenn sem gestir. Umræddir hlutir eru að mati embættisins ekki ætlaðar beint til viðkomandi starfsemi, þ.e. lækninga, eins og áskilið er í 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

A-2 Skrifborð, vinnuborð o.fl.

Rök A: ,,Um er að ræða húsbúnað sem starfsfólk B notar við vinnu sína í þágu sjúklinga, á legudeildum og skrifstofum sínum í B.”

Það er mat embættisins að skrifborð, vinnuborð o.fl. falli ekki undir hugtakið tæki sem notuð eru í þágu vistmanna eða sjúklinga, sbr. 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000, enda fyrst og fremst notuð til hagræðis fyrir starfsfólk B. Umræddir hlutir eru að mati embættisins ekki ætlaðar beint til viðkomandi starfsemi, þ.e. lækninga, eins og áskilið er í

8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

A-3 Barnahúsgögn o.fl.

Rök A: Sömu rök og í A-1.

Það er mat embættisins að barnahúsgögn o.fl. teljist ekki til tækja sem fyrirhugað er að ákvæði 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000, taki yfir. Um er að ræða hefðbundin húsgögn sem allir geta notið aðgangs að á B, jafnt sjúklingar sem gestir. Umræddir hlutir eru að mati embættisins ekki ætlaðar beint til viðkomandi starfsemi, þ.e. lækninga, eins og áskilið er í 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

A-4 Foreldrasófar

Rök A: Sömu rök og í A-1 auk þess sem lögð er áhersla á mikilvægi nærveru foreldra við veikindi og umönnun barna.

Það er mat embættisins að foreldrasófar teljist ekki til tækja sem fyrirhugað er að ákvæði

3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000, taki yfir. Um er að ræða hefðbundin húsgögn sem allir geta notið aðgangs að á B, jafnt sjúklingar, starfsmenn sem gestir. Umræddir


hlutir eru að mati embættisins ekki ætlaðar beint til viðkomandi starfsemi, þ.e. lækninga, eins og áskilið er í 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

A-7 Gluggatjöld og brautir

Rök A: ,,Um er að ræða gluggatjöld í sjúkrastofur, meðferðarherbergi og víðar þar sem nauðsynlegt er í meðferð og umönnun að geta stýrt birtu.”

Það er mat embættisins að gluggatjöld og brautir teljist ekki til tækja sem fyrirhugað er að ákvæði 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000, taki yfir. Um er að ræða almennan húsbúnað sem ætlaður er til að birgja sýn inn/út um glugga og stjórna birtustigi. Umræddir hlutir eru að mati embættisins ekki ætlaðar beint til viðkomandi starfsemi, þ.e. lækninga, eins og áskilið er í 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

A-8 Hljóð- og fundarbúnaður í kennslurými

Rök A: ,,Fundarsalurinn er töluvert notaður til kynningar- og fræðslustarfs fyrir samtök sjúkra barna eða aðstandenda þeirra. Þessar kynningar eru í þágu sjúkra barna...”

Það er mat embættisins að hljóð- og fundarbúnaður í kennslurými teljist ekki til tækja sem falla undir ákvæði 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000. Um er að ræða útbúnað sem notaður er til kennslu og fundarhalda á B en ekki beinlínis til viðkomandi starfsemi, þ.e. lækninga, eins og áskilið er í 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

A-9 Saltvatnsfiskabúr

Rök A: ,,Fiskabúrið hefur mikilvægt gildi til þess að auðvelda veikum börnum dvölina á B. Litskrúðugir fiskar og framandi gleðja augu barnanna og auðvelda þannig meðferð.”

Það er mat embættisins að saltvatnsfiskabúr teljist ekki til tækja sem falla undir ákvæði 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000. Um er að ræða skrautmun sem ekki verður fallist á að sé til viðkomandi starfsemi, þ.e. lækninga, eins og áskilið er í 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

B-1 Sjúkrastokkar

Rök A: “Um er að ræða sérstaka veggstokka sem keyptir eru erlendis frá. Í þessum stokkum er rafmagn, gagnalagnir, monitorlagnir, og lækningagös sem er leitt að rúmi sjúklings til meðhöndlunar og eftirlits. Stokkarnir eru því um margt líkir lækningatækjum og eru notaðir beint í meðhöndlun sjúkra.”

Það er mat embættisins að sjúkrastokkar teljist vera hluti af veggföstum innréttingum sem settar eru upp á B, sem hluti af sjúkrastofum. Umræddir stokkar eru nýttir sem hylki utan um leiðslur, rétt eins og hefðbundið leiðslukerfi í veggjum húsa, t.d. utan um rafmagn. Ekki er unnt að fallast á að stokkar þessir teljist vera tæki sem falla undir ákvæði 3. tölul.

5. gr. reglugerðar nr. 797/2000.

B-5 Innrétting og rafbúnaður í [...]herbergi

Rök A: ,,[…]herbergið hefur áþekkt gildi fyrir börnin og fiskabúrið og er nauðsynlegur þáttur í meðferð og dvöl barnanna á B.”

Það er mat embættisins að innrétting og rafbúnaður í [...]herbergi teljist ekki til tækja sem falla undir ákvæði 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000. Um er að ræða leiktæki sem ekki verður fallist á að séu beinlínis til viðkomandi starfsemi, þ.e. lækninga, eins og áskilið er í 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

B-8 Lyfjakælar

Rök A: ,,Kæliskápar í lyfjabúrum eru með læsingu og öryggisbúnaði, sem nauðsynlega þarf að vera í slíkum geymslum. Þar eru kældar geymslur fyrir lyf sem notuð eru beint í meðferð sjúklinga.”

Það er mat embættisins að lyfjakælar séu eingöngu hirslur til geymslu fyrir lyf eða önnur hráefni en ekki ætlaðir sem slíkir til beinna lækninga og þ.a.l. ekki notaðir til viðkomandi starfsemi, eins og áskilið er í 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

B-9 Sérsmíðuð húsgögn, skápar, hillur og bekkir

Rök A: Sjá lið A-1.

Það er mat embættisins að sérsmíðuð húsgögn, skápar, hillur og bekkir teljist ekki til tækja sem fyrirhugað er að ákvæði 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000, taki yfir. Um er að ræða hefðbundin húsgögn sem allir geta notið aðgangs að á B, jafnt sjúklingar, starfsmenn sem gestir. Umræddir hlutir eru að mati embættisins ekki ætlaðar beint til viðkomandi starfsemi, þ.e. lækninga, eins og áskilið er í 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

Í ákvörðun embættisins, dags. 10. desember sl., var endurgreiðslu virðisaukaskatts hafnað af eftirtöldum atriðum: sjúkrakallkerfi að hluta, lömpum að hluta, IT-spennukerfi að hluta, sótthreinsitæki/-vél þ.e. veggskáp, stálborðum, sýnageymsluskáp og hitaskáp, uppsetningu loftsúlu og skinnum. Í kæru L er þess ekki getið að kærð sé sú ákvörðun embættisins, að hafna endurgreiðslu vegna framangreindra atriða. Þrátt fyrir framangreint telur embættið rétt að eftirfarandi komi fram:

Sjúkrakallkerfi

Að mati embættisins er ekki unnt að verða við beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts af forritun, hönnun og samræmingu, handbók, útvarps- og hljóðhlustun eða prófunum samkvæmt verklýsingu. Ekkert framangreindra atriða telst vera tæki til lækninga eða endurhæfingar til hagsbóta fyrir sjúklinga eins og áskilið er í 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000.

Lampar

Að mati embættisins er um að ræða lampa, t.d. leslampa, sem koma að almennum notum hjá stofnuninni, jafnt fyrir sjúklinga sem starfsfólk og verða því vart taldir falla undir tæki til lækninga, sbr. 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000 og 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

IT-spennukerfi

Að mati embættisins ber að hafna beiðni um endurgreiðslu af prófun og úttekt af IT- spennukerfi þar sem það telst ekki vera hluti tækis sem slíks, sbr. 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000.

Sótthreinsitæki

Að mati embættisins ber að hafna endurgreiðslubeiðni vegna veggskápa, stálborða, sýnageymsluskápa og hitaskápa, á þeim forsendum að um er að ræða almennar hirslur eða húsgögn, sem geta ekki talist til tækja í skilningi 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000. Framangreindir hlutir eru ekki ætlaðir sem slíkir til beinna lækninga og þ.a.l. ekki notaðir til viðkomandi starfsemi, eins og áskilið er í 8. tölul. b-lið 1. mgr. 5. gr. tollalaga.

Loftsúla Incarepor

Að mati embættisins ber að hafna beiðni um endurgreiðslu af uppsetningu loftsúlna enda telst uppsetning ekki til tækja í skilningi 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000.

Skinnur

Það er mat embættisins að ekki sé unnt að verða við beiðni um endurgreiðslu af skinnum þar sem þær teljast ekki til tækja í skilningi 3. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 797/2000.

Að lokum má geta þess að meginreglan er sú að greiða ber tolla og önnur gjöld, s.s. virðisaukaskatt, af vörum sem fluttar eru til landsins sem og af viðskiptum með vörur innanlands, sbr. 1. gr. laga um virðisaukaskatt og 1. mgr. 4. gr. tollalaga. Það er viðurkennt lögskýringarsjónarmið að skattaívilnanir skuli túlka þröngt. Að mati embættisins eru ekki heimildir til annars en að innheimta lögboðinn virðisaukaskatt af þeim hlutum sem hér um ræðir.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að hafna skuli kröfu A um endurgreiðslu virðisaukaskatts af framangreindum búnaði fyrir B.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til fjármálaráðuneytisins, Arnarhváli, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 102. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum og 2. mgr. 36. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Reykjavík, 12. janúar 2004

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum