Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2005.

Áætlun aðflutningsgjalda óafgreiddra vara sem ekki var heimiluð afhending á

25.1.2005

I.

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið tölvupóst yðar, dags. 7. desember sl., varðandi áætlun aðflutningsgjalda sendinga E BRU 27 06 0 SE HEL W025, E MAN 05 06 0 NL RTM C901 og E MAN 05 06 0 NL RTM W671, innflytjandi A hf. Lítur embættið svo á að með tölvupósti yðar sé ákvörðun embættisins, um áætlun aðflutningsgjalda framangreindrar sendingar sem tilkynnt var fyrirtækinu með bréfi, dags. 3. desember sl., kærð til úrskurðar hjá tollstjóranum í Reykjavík.

Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um áætlun aðflutningsgjalda byggði á því að vörur í framangreindum sendingum væru ótollafgreiddar og þær fyndust ekki í vörugeymslum. Að mati embættisins lá ekkert fyrir um að afhending varanna hefði verið heimiluð af hálfu embættisins og því voru aðflutningsgjöld sendinganna áætluð.

II.

Í tölvupósti kæranda, frá 7. desember sl., er vikið að því að A hf. hafi afhent öll tilskilin gögn vegna framangreindra sendinga á sínum tíma, en sendingarnar hafi ekki verið afgreiddar af viðkomandi tollyfirvöldum. Hvað meðferð sendinganna varðaði var vísað til bréfs A, dags. 27. október sl., og tilgreint að það sem fram kæmi í því bréfi ætti einnig við um sendingarnar. Í bréfi kæranda, dags. 27. október sl., er málavöxtum lýst þannig að sending E BRU 03 10 0 SE GOT W053 (sem mál þetta varðar ekki) hafi borist A hf. í október árið 2000. Sendingin hafi verið skráð til afgreiðslu hjá tollstjóranum í Reykjavík og óskað hafi verið eftir því við B ehf. að sendingin yrði umskráð til sýslumannsins í Borgarnesi. Í desember árið 2000 hafi síðan orðið ljóst að sendingin hefði ekki verið umskráð til sýslumannsins í Borgarnesi og í framhaldi af því voru tollskjöl send til tollstjórans í Reykjavík svo ljúka mætti afgreiðslu sendingarinnar. Sendingin var skráð hjá embætti tollstjórans í Reykjavík og afgreiðslu hennar lokið að öllu leyti nema því að álögð gjöld voru ekki skuldfærð á reikning A hf. en tekið var fram í bréfinu að slíkt væri gert með allar vörusendingar til fyrirtækisins. Þá kom fram í bréfinu að vegna þessarar afgreiðslu hefði sendingin ekki komið fram á lista yfir ótollafgreiddar sendingar sem fyrirtækið fengi á þriggja mánaða fresti, en sendingin taldist samt vera óafgreidd hjá embættinu en fulltrúar fyrirtækisins voru hins vegar í góðri trú um að þessi sending hefði verið afgreidd eins og allar aðrar. Í tölvupósti kæranda frá 7. desember sl. var síðan farið fram á að virðisaukaskattur af sendingunum yrði gjaldfærður á reikning A og hafnað var álagningu dráttarvaxta. Þá var farið fram á að ef tollstjórinn hefði fleiri sambærileg mál í vinnslu varðandi A að upplýsingar yrðu veittar um slíkt sem fyrst svo unnt yrði að ljúka þeim málum. Þá kom fram í tölvupóstinum að A hf. hefði ítrekað fengið yfirlit yfir ótollafgreiddar sendingar á undanförnum árum þar sem þessar sendingar hefðu ekki komið fram.

III.

Samkvæmt gögnum embættisins er ljóst að sending E BRU 27 06 0 SE HEL W025 var skráð í farmskrá þann 27. júní 2000, sendingar E MAN 05 06 0 NL RTM W671 og E MAN 05 06 0 NL RTM C901 voru skráðar í farmskrá þann 5. júní 2000. Aðflutningsskýrslum vegna sendinganna var skilað til tollstjórans í Reykjavík þann 3. janúar 2001 og var sending E MAN 05 06 0 NL RTM C901 tilbúin til afgreiðslu þann

3. janúar 2001 og sending E BRU 27 06 0 SE HEL W025 var tilbúin til afgreiðslu þann 5. janúar 2001. Þann 4. janúar 2001 var gerð athugasemd við sendingu E MAN 05 06 0 NL RTM W671, leiðrétting var móttekin hjá embættinu þann 28. maí 2001 og var sendingin tilbúin til afgreiðslu þann 29. maí 2001. Aðflutningsgjöld sendinganna voru ekki greidd og óskaði innflytjandi ekki eftir því að aðflutningsgjöld sendingarinnar yrðu skuldfærð. Þegar skýrslur eru afhentar á pappír þá skuldfærast aðflutningsgjöld vegna þeirra aldrei sjálfkrafa heldur er nauðsynlegt að innflytjandi leysi sendinguna út og óski eftir því að aðflutningsgjöld hennar verði skuldfærð með því að lýsa því yfir við gjaldkera embættisins að skuldfærslu sé óskað. Sendingarnar E BRU 27 06 0 SE HEL W025, E MAN 05 06 0 NL RTM C901 og E MAN 05 06 0 NL RTM W671 voru ekki leystar út hjá embættinu og ekki var óskað eftir skuldfærslu vegna þeirra. Embættið telur þá staðhæfingu kæranda, um að aðflutningsgjöld allra vörusendinga til fyrirtækisins séu skuldfærð, sé ekki rétt en fram kemur í tölvukerfi embættisins, þar sem öll atriði varðandi innflutning eru skráð, að misjafnt er hvort að aðflutningsgjöld séu skuldfærð á fyrirtækið eða ekki. Skuldfærsla felur í sér að krafa myndast á innflytjanda. Það er og hefur ekki verið talið á valdsviði tollstjóra að ákveða fyrir innflytjanda hvenær eða hvort skuldfærsla aðflutningsgjalda skuli eiga sér stað enda er engin lagaheimild til fyrir tollstjóra til að ákveða slíkt fyrir hönd innflytjanda.

Á fundi fyrirsvarsmanna A hf. og tollstjórans í Reykjavík þann 13. janúar 2005, tilgreindu fyrirsvarsmenn A að í framkvæmd hefði sýslumaðurinn í Borgarnesi heimilað skuldfærslu aðflutningsgjalda án atbeina fyrirtækisins. Veitti tollstjórinn í Reykjavík forsvarsmönnum fyrirtækisins frest til 18. janúar 2005 til að leggja fram gögn er staðfestu framangreinda staðhæfingu. Engin slík gögn hafa borist tollstjóranum í Reykjavík og því er embættinu ekki unnt að taka afstöðu til framangreinds.

Að mati embættisins er rétt að fram komi að umræddar sendingar hafa verið tilbúnar til afgreiðslu síðan í janúar og maí árið 2001 en í málavaxtalýsingu kæranda, sbr. bréf

27. október sl., kemur fram að umræddar sendingar hafi ekki komið fram á lista yfir ótollafgreiddar sendingar sem kærandi segist fá á þriggja mánaða fresti. Embættið telur að í ljósi þess að sendingar E BRU 27 06 0 SE HEL W025, E MAN 05 06 0 NL RTM C901 og E MAN 05 06 0 NL RTM W671 hafa verið í stöðunni “tilbúin til afgreiðslu” síðan í janúar og maí árið 2001 þá hefðu þær átt að koma fram á lista frá tollstjóranum í Reykjavík yfir ótollafgreiddar sendingar. Óljóst er hvort að sá listi sem vísað er til í tölvupósti fyrirtækisins frá 7. desember sl. og bréfi fyrirtækisins, dags. 27. október sl., sé sendur frá tollstjóranum í Reykjavík eða hvort hann sé til kominn á annan hátt. Embættið telur að innflytjanda, sem er vel kunnugur innflutningi, hafi mátt vera kunnugt um að þegar aðflutningsskýrslum er skilað inn á pappír eru aðflutningsgjöld ekki skuldfærð án atbeina hans. Embættið telur því að fulltrúum kæranda mætti vera ljóst að umræddar sendingar væru ótollafgreiddar.

Í bréfi fyrirtækisins, dags. 27. október sl., er vikið að því að ekki sé rétt að B ehf. hafi afhent A hf. umrædda sendingu án heimildar, og í því sambandi vísar fyrirtækið til bréfs Fjármálaráðuneytisins til sýslumannsins í Borgarnesi, dags. 26. apríl 1999, tilvísun 9902055/100-10, og einnig er vísað til bréfs sýslumannsins í Borgarnesi til A hf., dags. 27. apríl 1999 þar sem flutningsaðilum er veitt heimild til að afgreiða ótollafgreiddar sendingar til A. Kærandi telur því á engan hátt við flutningsmiðlara að sakast í máli þessu.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 26. apríl 1999, kemur fram að eðlilegt sé að A hf. fái heimild til að flytja ótollafgreiddar vörusendingar inn á athafnasvæði félagsins og fól ráðuneytið sýslumanninum í Borgarnesi að annast afgreiðslu málsins. Í bréfi sýslumannsins í Borgarnesi, dags. 27. apríl 1999, heimilar sýslumaðurinn í Borgarnesi A hf. að geyma ótollafgreiddar vörur á athafnasvæði sínu á C. Leyfið sem var veitt samkvæmt 65. gr. tollalaga nr. 55/1987, er bundið þeim skilyrðum að vörurnar verði geymdar á afgirtu svæði fyrirtækisins og tollafgreiddar ekki síðar en 14 dögum frá komu þeirra til landsins. Ljóst er því að sýslumaðurinn í Borgarnesi hefur heimilað A hf. að geyma ótollafgreiddar vörusendingar á athafnasvæði sínu á C en í bréfi sýslumannsins í Borgarnesi er hvergi vikið að því að A hf. hafi heimild til að nýta ótollafgreiddar vörur áður en sýslumaður/tollstjóri hefur heimilað afhendingu vörunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá tollgæslu tollstjórans í Reykjavík, B hf. og A hf. virðast vörur í sendingum E BRU 27 06 0 SE HEL W025, E MAN 05 06 0 NL RTM C901

og E MAN 05 06 0 NL RTM W671 hafa verið afhentar á athafnasvæði A á C. Embættið fellst því á að B hf. hafi ekki afhent umræddar vörur án heimildar og því fellur embætti tollstjórans í Reykjavík frá innheimtu aðflutningsgjalda af sendingum E BRU 27 06 0 SE HEL W025, E MAN 05 06 0 NL RTM C901 og E MAN 05 06 0 NL RTM W671 hjá B.

Skýrt er kveðið á um það í bréfi sýslumannsins í Borgarnesi, dags. 27. apríl 1999, að leyfi til handa A hf., sem veitt var á grundvelli 65. gr. tollalaga, til að geyma ótollafgreiddar vörur á athafnasvæði sínu á C, er bundið því skilyrði að vörunar verði geymdar á afgirtu svæði fyrirtækisins og tollafgreiddar ekki síðar en 14 dögum frá komu þeirra til landsins. Í tölvupósti frá fyrirsvarsmanni A hf. þann 11. janúar sl., kom fram að vörur í sendingum E BRU 27 06 0 SE HEL W025, E MAN 05 06 0 NL RTM C901 og E MAN 05 06 0 NL RTM W671 hafi verið notaðar og því telur embætti tollstjórans í Reykjavík að brotið hafi verið gegn skilyrðum leyfis sýslumannsins í Borgarnesi og 105. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Vörunar hafi verið notaðar án þess tollstjóri hefði veitt heimild til slíks og án þess að tollafgreiðsla þeirra hafi farið fram. Í 105. gr. tollalaga segir að sé vara tekin úr vörslu farmflytjanda, úr tollvörugeymslu, tekin til notkunar eða flutt brott af frísvæði án þess að leyfi tollstjóra liggi fyrir eru aðflutningsgjöld þegar fallin í eindaga. Þegar þannig háttar skulu aðflutningsgjöld af viðkomandi vöru reiknuð út samkvæmt þeim að- flutningsgjöldum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var á komudegi flutningsfars til landsins hafi vara verið í vörslu farmflytjanda eða innflytjanda, en hafi hún verið sett í tollvörugeymslu eða flutt á frísvæði skulu aðflutningsgjöld reiknuð út samkvæmt þeim aðflutningsgjöldum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var þegar tollstjóri veitti leyfi til flutnings vöru þangað, nema sannað sé á fullnægjandi hátt að mati tollstjóra að nefnd atvik séu síðar til komin. Reikna skal frá sama tíma dráttarvexti af að- flutningsgjöldum þannig útreiknuðum.

Þá telur embættið rétt að geta þess að sýslumaðurinn í Borgarnesi heimilaði A hf., með bréfi dags. 27. apríl 1999, að geyma ótollafgreiddar vörur á athafnasvæði sínu á C. Hvergi er í bréfinu vikið að því að A hf. hafi heimild til að nýta ótollafgreiddar vörur áður en sýslumaður eða tollstjóri hefur heimilað afhendingu vörunnar. Ljóst er að vörur í umræddum sendingum hafa verið nýttar án heimildar tollstjórans í Reykjavík og því telur tollstjóraembættið að A hafi brotið gegn 105. gr. tollalaga og beri því að greiða vangreidd aðflutningsgjöld ásamt dráttarvöxtum, sbr. 1. mgr. 111. gr. tollalaga.

Þá bendir embættið á að í 66. gr. tollalaga segir að stjórnendum farartækja, skipaafgreiðslum og öðrum, sem hafa ótollafgreiddar vörur í sínum vörslum til flutnings eða geymslu, er óheimilt að afhenda þær viðtakanda eða láta þær á annan hátt af hendi úr vörugeymslu eða farartæki án leyfis tollstjóra. Í 67. gr. tollalaga segir síðan að eigandi eða umráðamaður farartækis eða vörugeymslu ábyrgist greiðslu á aðflutningsgjöldum af vörum sem hafa verið afhentar eða teknar í notkun án þess að gætt hafi verið ákvæða laga þessara og má gera lögtak í eignum þeirra fyrir aðflutningsgjöldum ásamt kostnaði. Með hliðsjón af 66. gr. og 67. gr. tollalaga telur embættið að A hf. beri ábyrgð á aðflutningsgjöldum framangreindra sendinga.

Í kæru innflytjanda og bréfi hans dags. 27. október sl., er hafnað álagningu dráttarvaxta á aðflutningsgjöld framangreindra sendinga og farið fram á að þeir verði felldir niður. Þá er farið fram á að virðisaukaskattur verði skuldfærður á reikning A hf.

Þegar vara er tekin úr vörslu farmflytjanda, úr tollvörugeymslu, tekin til notkunar eða flutt brott af frísvæði án þess að leyfi tollstjóra liggi fyrir, skal reikna dráttarvexti af aðflutningsgjöldum vörunnar sbr. 2. mgr. 105. gr. tollalaga. Um er að ræða skylduákvæði og er embættinu því ekki heimilt að fella niður dráttarvexti af framangreindum sendingum. Hvað varðar kröfu kæranda um að virðisaukaskattur og rafmagnseftirlitsgjald verði skuldfært á reikning A hf. þá telur embættið að ekki sé unnt að verða við því þar sem aðflutningsgjöld sendinga E BRU 27 06 0 SE HEL W025, E MAN 05 06 0 NL RTM C901 og E MAN 05 06 0 NL RTM W671 eru fallin í eindaga og ekki sé því unnt að veita kæranda frekari greiðslufrest.

Í bréfi embættisins, dags. 3. desember sl., misritaðist að ekki hefði verið stuðst við framlögð gögn frá fyrirtækinu að öðru leyti en að stuðst væri við sömu tollskrárflokkum og einnig kom fram að engin gögn hefðu borist varðandi sendingu E MAN 05 06 0 NL RTM W671. Í raun byggðist áætlun aðflutningsgjalda sendinga E BRU 27 06 0 SE HEL W025, E MAN 05 06 0 NL RTM C901 og E MAN 05 06 0 NL

RTM W671 á þeim upplýsingum sem fram komu í aðflutningsskýrslum og fylgigögnum þeirra sem innflytjandi lagði fram þann 3. janúar 2001 og 28. maí 2001. Biðst embættið afsökunar á framangreindri misritun.

Í ljósi alls framangreinds telur embættið að áætlun þess um aðflutningsgjöld sendinga E BRU 27 06 0 SE HEL W025, E MAN 05 06 0 NL RTM C901 og E MAN 05 06 0 NL RTM W671, dags. 3. desember 2004, beri að standa óbreytt. Frestur til greiðslu aðflutningsgjalda er veittur til 9. febrúar n.k.

IV.

ÚRSKURÐUR:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun embættisins frá 3. desember 2004, um áætlun aðflutningsgjalda sendingar E BRU 27 06 0 SE HEL W025, E MAN 05 06 0 NL RTM C901 og E MAN 05 06 0 NL RTM

W671, að upphæð kr. 1.223.504,00 ásamt dráttarvöxtum að fjárhæð kr. 1.421.428,00 til 24. janúar 2005, standi óbreytt.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Sá hluti úrskurðarins er lýtur að dráttarvöxtum er kæranlegur til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 102. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík 25. janúar 2005.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum