Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 20/2004

Tollverð bifreiðar af gerðinni Ford Explorer, árgerð 2004

1.10.2004

I

Með bréfi, dags. 21. júní 2004, kærið þér til úrskurðar skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, ákvörðun embættisins um að hafna við tollafgreiðslu reikningsverði bifreiðar A, af gerðinni Ford Explorer, árgerð 2004, sem flutt var til landsins með sendingu númer E SKO 25 05 4 US EVE W205. Er gerð sú krafa að tollverð bifreiðarinnar verði ákvarðað í samræmi við raunverulegt kaupverð hennar sem hafi verið USD 22.500,- að jafnvirði IKR 1.658.475,-.

II

Þann 26. maí sl. var lögð inn til tollstjórans í Reykjavík aðflutningsskýrsla vegna sendingarinnar númer E SKO 25 05 4 US EVE W205, innflytjandi B. Með aðflutningsskýrslunni fylgdi ,,invioce”, dags. 2. maí 2004, þar sem nafn C kemur fram efst á skjalinu og B þar neðan við, auk bifreiðarinnar sem um ræðir og verðs (USD 22.500,-); skráningarskírteini bifreiðarinnar, útg. 04/12/2004 (The Commonwealth of Massachusetts Registry of Motor Vehicles); flutningsgjaldsreikningur.

Embættið sendi kæranda bréf, dags. 3. júní sl., um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna sendingarinnar. Í bréfinu var óskað frekari skýringa og gagna til staðfestingar á lágu innkaupsverði bifreiðarinnar. Þá var óskað eftir að lagður yrði fram erlendur vörureikningur frá því bifreiðin var keypt þann 12. apríl 2004.

Embættinu barst bréf kæranda, dags. 4. júní sl., þar sem fram kom að C, seljandi bifreiðarinnar í Bandaríkjunum, væri dóttir D, forsvarsmanns B, sem er kærandi í máli þessu. Jafnframt kom fram í bréfinu að meðfylgjandi væri kaupsamningur sem C gerði við seljanda, E, og að þar komi fram að kaupverð bifreiðarinnar sé USD 29.500,- með afslætti sem seljandi gaf. Þá kemur fram að bifreiðin hafi að öllu leyti verið fjármögnuð af F. Einnig kemur fram í bréfi kæranda að C hafi misst starf sitt í Boston og ákveðið að flytja heim. Af þessum sökum og þar sem bifreiðakaupin urðu að ganga hratt fyrir sig, var ákveðið að B myndu kaupa bifreiðina.

Með bréfi embættisins, dags. 7. júní sl., var kæranda tilkynnt um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna sendingarinnar. Þar kemur m.a. fram að skv. upplýsingum sem kærandi hefur lagt fram í málinu liggi fyrir að heildarsamningsupphæð vegna bifreiðakaupa C hafi verið USD 34.889,- sem sé í fullu samræmi við þau viðmiðunarverð sem embættið hafi aðgang að. Framangreint komi fram í samningi sem sé dagsettur 9. apríl sl., og sé því tveggja mánaða gamall. Þá eru raktar heimildir tollalaga og reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun málinu til stuðnings. Fram kemur að samkvæmt þeim gögnum sem embættið hafi aflað sér sé verð á sambærilegum ökutækjum talsvert hærra en tilgreint sé á framlögðum gögnum. Tekið er dæmi frá heimasíðu E þar sem fram kemur að verð á sömu bifreið sé USD 35.175,-.

Embættinu barst bréf kæranda, dags. 21. júní sl., þar sem fram kemur að bifreiðin hafi upphaflega verið keypt á USD 29.500,- en seld kæranda, eftir ca. tveggja mánaða notkun á USD 22.500,-. Mótmælt er þeirri ákvörðun embættisins að gera kæranda að greiða aðflutningsgjöld miðað við fob-verð bifreiðar að fjárhæð USD 29.522,32-. Einnig mótmælir kærandi því að vörugjald sé lagt á bifreiðainnflutning hans, sem og því að tengsl framkvæmdastjóra B, og seljanda bifreiðarinnar, C, hafi ráðið nokkru um söluverð bifreiðarinnar til kæranda. Þá er greint frá því að misskilnings gæti í forsendum embættisins til útreiknings aðflutningsgjalda, að því leyti að rangt sé sem fram kom í bréfi embættisins, dags. 7. júní sl., að heildarkaupverð C á bifreiðinni hafi verið USD 34.889,-. Hið rétta sé að heildarkaupverð bifreiðarinnar hafi verið USD 29.500,- fyrir utan söluskatt USD 1.475 og USD 414,- vegna skráningar. Að lokum telur kærandi rétt að reikna aðflutningsgjöld út frá USD 29.500,- að frádregnum USD 5.000,- sem kærandi telur eðlilega lækkun þ.s. um notaða bifreið sé að ræða. Meðfylgjandi bréfi kæranda var ódagsett yfirlýsing frá D.J. E.

Með bréfi embættisins, dags. 23. júlí sl., var óskað eftir frekari gögnum í málinu sem bárust embættinu með bréfi kæranda, dags. 30. ágúst 2004. Meðfylgjandi bréfinu var afrit kvittunar vegna símgreiðslu G, dags. 13. apríl 2004, þar sem fram kemur að B, hafi greitt C, með símgreiðslu, fjárhæð USD 22.500,- á genginu 72,52.

Kærandi greiddi aðflutningsgjöld vegna umræddrar sendingar 8. júní sl.

III.

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur skoðað þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu og getið er hér að ofan.

Samkvæmt 8. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, sbr. og 2. mgr., 2. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, er tollverð innfluttrar vöru hið svokallaða viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt fyrir vöruna, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Í d-lið, 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er sett fram það skilyrði að kaupandi og seljandi séu óháðir hvor öðrum eða séu þeir hvor öðrum háðir þá sé viðskiptaverðið nothæft í tollalegu tilliti skv. nánari reglum settum skv. 3. gr. reglugerðarinnar.

Ljóst er því að taka verður afstöðu til tveggja atriða við ákvörðun í því máli sem hér er til umfjöllunar. Annars vegar þess hvort aðilar séu óháðir í skilningi 6. gr. reglugerðarinnar og hins vegar séu þeir hvor öðrum háðir, hvort viðskiptaverðið sé nothæft í skilningi 4. gr. reglugerðarinnar.

Í h-lið, 1. mgr., 6. gr. reglugerðarinnar segir að við ákvörðun tollverðs skv. 2. gr. skuli því aðeins telja aðila háða hvor öðrum að þeir séu í sömu fjölskyldu. Ljóst er í máli þessu að um er að ræða fjölskyldusamband kaupanda og seljanda, þ.s. kærandi er kaupandi í máli þessu og faðir seljanda. Kaupandi og seljandi eru því hvor öðrum háðir í skilningi 6. gr. reglugerðarinnar.

Ber því að taka afstöðu til þess hvort viðskiptaverðið sé nothæft í tollalegu tilliti í ljósi þess að um háða aðila er að ræða. Skv. 4. gr. sömu reglugerðar kemur fram að þegar ákvarða skuli hvort viðskiptaverð sé nothæft skv. framangreindu skuli það ekki í sjálfu sér valda því að viðskiptaverðið sé talið ónothæft að kaupandi og seljandi eru hvor öðrum háðir í skilningi 6. gr. reglugerðarinnar. Kanna skal kringumstæður við söluna og samþykkja viðskiptaverðið ef tengslin hafa ekki haft áhrif á verðið. Hafi tollstjóri ástæðu til að ætla, vegna upplýsinga frá innflytjanda eða af öðrum ástæðum, að tengslin hafi haft áhrif á verðið skal hann koma athugasemdum sínum á framfæri við innflytjanda og skal honum gefið nægilegt færi til andsvara. Þetta var gert með bréfi embættisins, dags. 3. júní sl., eins og áður hefur komið fram.

Samkvæmt bréfi kæranda, dags. 4. júní sl., eru ástæður sölunnar þær að dóttir kæranda, seljandi bifreiðarinnar, missti starf sitt í Boston og ákvað að flytja heim til Íslands eftir 10 ára dvöl erlendis. Kærandi hafi haft reynslu af samskonar bíl og því ákveðið að kaupa hann af dóttur sinni, á mun hærra verði en samkvæmt tilboði sem hún hafði fengið, fyrst og fremst til að lágmarka tap hennar í þessum viðskiptum. Viðskipti þessi hafi orðið að ganga hratt fyrir sig þar sem seljandi varð að greiða upp bifreiðalán sem notað var til að fjármagna bifreiðakaupin upphaflega og var að auki atvinnulaus.

Að mati embættisins eru framangreindar skýringar ekki fullnægjandi til rökstuðnings á því að viðskiptaverðið hafi verið nothæft í tollalegu tilliti. Embættið telur ólíklegt að tengsl kaupanda og seljanda hafi ekki haft áhrif á verðið í því máli sem hér um ræðir, ekki síst með hliðsjón af því að umrædd bifreið hafði einungis verið notuð í tæplega mánuð þegar salan fór fram auk þess sem verulegur munur er á gangverði sambærilegra bifreiða frá sama svæði skv. upplýsingum úr Red Book, sem er útgefið rit eftirlitsaðila bifreiðariðnaðarins í Bandaríkjunum. Það skal hér ítrekað að viðmiðunarverð skv. Red Book miðast við gangverð notaðra ökutækja en í máli þessu er um að ræða bifreið sem seld er aðeins eins mánaðar gömul. Þá gerir embættið jafnframt fyrirvara við það að seljandi taki á sig jafn mikið tap og haldið er fram í máli þessu við sölu á ökutæki til annars aðila undir þeim kringumstæðum sem lýst er í málinu. Það er því mat embættisins að náin tengsl kaupanda og seljanda hafi haft veruleg áhrif á söluverð umræddrar bifreiðar.

Ljóst er að fyrir liggur í málinu handskrifuð yfirlýsing frá E, sem er ódagsett og óstimpluð. Yfirlýsing þessi er að líkindum ætluð til nánari skýringa á ,,invioce” sem gefin var út 2. maí sl., sem og kaupsamningi sem undirritaður var 9. apríl 2004. Að mati embættisins er hér um að ræða reikning (,,invioce”) sem er að nokkru ábótavant, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 228/1993 um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra, með síðari breytingum. Ekki er t.d. ljóst af umræddu skjali hvor sé kaupandi og hvor seljandi. Ekki er getið um neinn afslátt eða annan frádrátt, með frekari skýringum, á umræddu skjali, sbr. áskilnað í 8. tölul. ákvæðisins. Eingöngu er á skjalinu sett fram nafn C, kennitala og heimilisfang auk nafns kæranda og heimilisfangs. Einnig kemur fram textinn ,,1 x FORD EXPLOR; MFRS MODEL YEAR – 2004; COLOR – BLACK; CYLINDERS – 6; VEHICLE IDENTIFICATION NUMBER – 1FMZU75E14UB62092; USA REGISTER NUMBER (...)” Að lokum er ritað: ,,PRICE USD 22.500,-.” Engin undirritun er á framangreindu skjali sem dagsett er 2. maí sl., eða tæpum mánuði eftir að gerður er kaupsamningur milli C og E. Þá er það mat embættisins að yfirlýsing E, sé ómarktæk þar sem hún er mjög óljós og ruglingsleg á köflum, handskrifuð, ódagsett og enginn stimpill með þeirri undirritun sem sett er neðst á yfirlýsinguna. Að mati embættisins er því um ótrúverðugt skjal að ræða sem ekki verður lagt til grundvallar breyttri niðurstöðu í málinu.

Embættið vekur jafnframt athygli á því að lagt var fram afrit af símgreiðslu í málinu sem átti sér stað milli kaupanda og seljanda þann 13. apríl sl. eða einungis fjórum dögum eftir að Aldís gerði kaupsamning við seljanda, E. Viðskiptin milli C og B virðast hins vegar ekki hafa átt sér stað fyrr en 2. maí 2004, sbr. ,,invioce” dags. 2. maí sl. Að mati embættisins veikir framangreind staðreynd enn frekar málflutning kæranda í máli þessu.

Hvað varðar kaupsamning dags. 9. apríl sl., sem fyrir liggur í málinu, skal eftirfarandi tekið fram. Umræddur kaupsamningur er gerður við kaup C á umræddri bifreið, af E, sem seldi hana ónotaða. Í reitum 1-16 á umræddum kaupsamningi er unnt að sjá sundurliðun þeirra greiðslna sem áttu sér stað við kaupin. Þar kemur fram í reit 5 ,,Mass Sales Tax $ 1.475,-“; í reit 6 ,,State inspection $29,-; í reit 7 ,,Documentary Preparation $ 86,-“ og $ 299,-. Í reit 9 kemur fram ,,Total Contract Price (total of lines 4,5,6,7 and 8) $ 34.889,-. Í reit 11 eru teknar saman fjárhæðir úr reit 9 og 10 sem gera $ 34.889,-. Að lokum er svo útfylltur reitur 16 þar sem fram kemur ,,Total payment (total of lines 12,13,14, and 15) (line 16 must equal line 11) $34.889.” Lína 12 varðar innborgun, lína 13 afslátt, lína 14 fjárhæð þá sem fjármagna þarf og lína 15 fjárhæð þá sem greiða ber við afhendingu. Það er mat embættisins að ljóst sé af framangreindu að hafi verið um raunverulegan afslátt að ræða, hefði hann átt að koma fram í lokatölu samningsins, þ.e. þeirri tölu sem gefin var upp í reit 16, sem virðist taka tillit til þeirra reita á samningnum þar sem gert er ráð fyrir afslætti, eins og að framan er greint, með orðunum ,,total of lines 12,13,14 and 15.” Það er því mat embættisins að rétt sé að miða heildarsamningsupphæð reikningsins við umrædd bifreiðakaup við USD 34.889,-, eins og fram kemur á umræddum samningi, og er í fullu samræmi við viðmiðunarverð bifreiða af sömu tegund í Bandaríkjunum á þessum tíma.

IV.

Í IV. kafla reglugerðarinnar er mælt fyrir um hvernig tollverð vöru skuli ákveðið þegar viðskiptaverð verður af einhverjum ástæðum ekki lagt til grundvallar, sbr. 10. – 15. gr. reglugerðarinnar. Í V. kafla reglugerðarinnar er að finna sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. Í 17. gr. kemur fram að við tollafgreiðslu ökutækis skuli tollstjóri bera viðskiptaverð þess eins og það kemur fram í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum saman við viðmiðunarverð ökutækis af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt. Við verðsamanburð embættisins skv. 17. gr. reglugerðarinnar var stuðst við upplýsingar sem fram koma í ritinu Red Book, sem gefið er út af eftirlitsaðilum bifreiðariðnaðarins í Bandaríkjunum, eins og áður hefur komið fram. Þar kemur fram, að viðmiðunarverð á notaðri bifreið af sömu árgerð, tegund og undirtegund og hér um ræðir er USD 33.200,-. Sú bifreið sem hér um ræðir er hins vegar ný. Kærandi heldur því fram í málinu að hann hafi greitt USD 22.500,-, sem fullnaðargreiðslu fyrir bifreiðina. Er því hér um að ræða mismun upp á a.m.k. USD 10.700,-, eða sem nemur 32,23%.

Embættið kannaði verð sambærilegra bifreiða og hér um ræðir og komst að þeirri niðurstöðu að það verð sem fram kemur á reikningi kæranda er mun lægra en verð sömu bifreiða sem keyptar eru í Bandaríkjunum. Sem dæmi mætti nefna upplýsingar sem fram koma á heimasíðu F um verð sömu bifreiðar að fjárhæð USD 35.175,-, sbr. upplýsingar sem fram komu í bréfi embættisins, dags. 7. júní sl.

Embættið lét fara fram skoðun á ástandi bifreiðarinnar. Sú skoðun leiddi ekki í ljós nein merki tjóns eða annarra annmarka og er sérstaklega tekið fram á verkbeiðni um vöruskoðun að umrædd bifreið sé ekin 547 mílur og útlit mjög gott, bifreiðin sé leðurklædd með enga lausa aukahluti og að tollflokkun sé rétt.

Í 18. gr. reglugerðar nr. 374/1995 er kveðið á um, að gefi eftirlit tollstjóra skv. 17. gr. réttmæta ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi aðflutningsskýrslu eða fylgiskjala skuli tollstjóri krefja innflytjanda um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint í gögnum þessum. Var það gert með bréfi embættisins, dags. 3. júní 2004.

Með hliðsjón af ástandi bifreiðarinnar, verulegu fráviki á reikningsverði og markaðsverði bifreiðarinnar samkvæmt upplýsingum sem embættið hefur aflað sér, telur embættið, að fram komnar skýringar innflytjanda á lágu verði hennar réttlæti ekki umræddan mun á viðmiðunarverði og verði samkvæmt reikningi seljanda. Verður því framlagður vörureikningur ekki lagður til grundvallar tollverðsákvörðun, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 374/1995 sem og ákvæða IV. og V. kafla sömu reglugerðar, þar sem embættið dregur í efa sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð umræddrar bifreiðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og á grundvelli reiknireglu 21. gr. reglugerðar nr. 374/1995 og upplýsinga sem fram hafa komið um markaðsverð sambærilegra bifreiða í Bandaríkjunum, úrskurðar embættið skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að tollverð bifreiðarinnar A, Ford Explorer, árgerð 2004, skuli vera kr. 2.327.973,00-.

Það skal tekið fram að þessu tilefni að embættið lagði til grundvallar útreikningi tollverðs bifreiðarinnar, útsöluverð ökutækis frá bílaumboði, kr. 4.845.000,-, en hið rétta er skv. upplýsingum úr bifreiðaskrá fyrir árið 2004, að miða við kr. 5.040.000,-. Embættið hefur tekið ákvörðun um að láta fyrra viðmið standa þar sem það er til hagsbóta fyrir kæranda í máli þessu. Tekið var tillit til eðlilegrar fyrningar bifreiðarinnar.

V.

Kærandi hefur mótmælt álagningu vörugjalds við innflutning á umræddri bifreið. Um álagningu vörugjalds við innflutning gilda ákvæði vörugjaldslaga nr. 13/1993, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. gr. laganna er skylt að greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, o.fl., svo sem nánar greinir í lögunum, sbr. 87. kafla viðauka I við tollalög, nr. 55/1987. Gjaldskyldan nær skv. 1. mgr., 2. gr. laganna til allra vara, sbr. 1. gr., nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar, unnið er að eða settar eru saman hér á landi. Skv. 2. mgr., 2. gr. skal fylgt flokkunarreglum tollalaga, nr. 55/1987, við flokkun til gjaldskyldu samkvæmt lögunum. Umrætt ökutæki telst til fólksbifreiða, sbr. 3. gr. sömu laga, með sprengirými aflvélar yfir 2.000 rúmsentimetrum og flokkast því í II flokk skv. 3. gr. vörugjaldslaga, með 45% vörugjald. Ökutækið tollflokkast í tollskrárnúmer 8703.2499 og ber því auk 24,5% virðisaukaskatts, úrvinnslugjald skv. lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum og 45% vörugjald skv. lögum nr. 13/1993, um vörugjald af ökutækjum, eins og áður hefur komið fram.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að tollverð bifreiðarinnar A, Ford Explorer, árgerð 2004, sem flutt var til landsins með sendingu nr. E SKO 26 05 4 US EVE W205, skuli vera kr. 2.327.973,00-.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101.gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 1. október 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum