Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 21/2004

Tollafgreiðslu á vélknúnum ökutækjum, framleiddum af Skooda í Kína

4.10.2004

I.

Þann 10. ágúst sl., barst embættinu bréf, dags. 9. júlí sl., vegna innflutnings A, á vélknúnum ökutækjum í tollskrárnúmerum 8711.1000, sem Bifhjól (þar með talin stigin bifhjól) og reiðhjól með hjálparvél, með eða án hliðarvagns: - Með stimpilbrunahreyfli með sprengirými 50 cm3 eða minna og 8711.9091 sem Bifhjól (þar með talin stigin bifhjól) og reiðhjól með hjálparvél, með eða án hliðarvagns: - Annað: --Annars: ---Rafknúin vélhjól. Embættið telur rétt að líta á fyrrgreint bréf innflytjanda sem kæru á ákvörðun embættisins, sem tekin var með bréfi þess, dags. 15. júlí sl., sbr. 2. ml. 1. mgr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

II.

Ökutæki þau sem hér um ræðir voru flutt inn með sendingu númer E DET 07 06 4 NL RTM S040, sem lögð var inn á frísvæði Vöruhótelsins ehf. Sendingin var tollafgreidd þann 22. júní sl. með úttekt af frísvæði B VOR 22 06 4 IS FRS 0020. Ökutækin voru afhent kæranda með þeim fyrirvara að Umferðarstofa samþykkti að þau væru ekki skráningarskyld og mættu því tollafgreiðast sem slík. Kærandi ábyrgðist endursendingu ökutækjanna strax, hafnaði Umferðarstofa því að umrædd ökutæki teldust til reiðhjóla og væru því ekki skráningarskyld, sbr. yfirlýsingu hans, dags. 22. júní sl., sjá nánar úttekt af frísvæði með sendingu B VOR 22 06 4 IS FRS 0020. Kærandi lagði fram myndir af ökutækjunum við tollafgreiðslu þeirra.

Kærandi fékk heimild tollstjóra til að tollafgreiða átta ökutæki úr framangreindri sendingu gegn því skilyrði að hann afhenti þau Umferðarstofu til skoðunar. Kærandi fór einungis með tvö umræddra ökutækja til skoðunar hjá Umferðarstofu þrátt fyrir að forsenda úttektar af sendingunni hefði verið að öll ökutækin yrðu færð Umferðarstofu til skoðunar. Það skal tekið fram að framangreint var samþykkt að beiðni innflytjanda sjálfs. Embætti tollstjóra óskaði í framhaldinu eftir því að Umferðarstofa skoðaði hin sex ökutækin í húsakynnum Vöruhótelsins. Skoðun Umferðarstofu leiddi í ljós að annað ökutækjanna sem kærandi hafði sjálfur komið með til stofnunarinnar hafði undirgengist breytingar til takmörkunar á hámarkshraða, sbr. bréf Umferðarstofu, dags. 5. júlí sl. Auðvelt reyndist vera að fjarlægja hraðatakmörkun og náði ökutækið þá meiri hraða en 15 km á klukkustund, skv. upplýsingum úr framangreindu bréfi. Þá vísar Umferðarstofa í bæklinga sem lagðir voru fram og sýna að ökutækin eru öll hönnuð fyrir meiri hámarkshraða en 15 km á klukkustund og allt að 45 km á klukkustund. Að lokum framangreindum lýsingum segir í bréfi Umferðarstofu að samkvæmt bæklingum sé vélarstærð bensínknúnu ökutækjanna slagrými 40cc. og afköst 1 hp. en rafknúnu ökutækjanna 500w. Það er því mat Umferðarstofu að umrædd ökutæki falli undir skilgreiningu umferðarlaga á léttu bifhjóli og séu samkvæmt því skráningarskyld í ökutækjaskrá. Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu hafði þeim hjólum sem staðsett voru í Vöruhótelinu ekki verið breytt en framlögð gögn bentu til þess að þau væru ætluð til hraðari aksturs en 15 km á klukkustund.

Embætti tollstjórans í Reykjavík sendi innflytjanda bréf, dags. 15. júlí sl., varðandi innflutning á raf- eða vélknúnum ökutækjum, þar sem fram kom að ekkert liggi fyrir í málinu sem bendi til þess að umrædd ökutæki fáist samþykkt sem létt bifhjól / reiðhjól hjá Umferðarstofu og séu því skráningarskyld. Farið var fram á að ökutækin yrðu endursend innan 15 daga sem eru nú liðnir eða skráð í ökutækjaskrá sem skráningarskyld vélknúin ökutæki. Hvorugri beiðninni hefur enn verið framfylgt.

Embættinu barst bréf kæranda, dags. 9. ágúst sl., þar sem kærð er framangreind ákvörðun, eins og áður hefur komið fram. Í bréfinu er því m.a. haldið fram að umrædd ökutæki falli undir skilgreiningu umferðarlaga á hugtakinu reiðhjól eftir breytingu sem átti sér stað með lögum nr. 84/2004 og séu þ.a.l. ekki skráningarskyld. Þá segir að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hafi heimilað innflutning á sambærilegum hjólum sem reiðhjólum og hafi tollafgreitt tugi hjóla með léttum mótor sem reiðhjól. Að lokum óskar kærandi eftir því að Umferðarstofa upplýsi um feril og vinnubrögð sem viðhöfð voru við mælingu þá er stofnunin lét fram fara að beiðni tollstjóra.

III.

Með lögum númer 84/2004 var gerð breyting á 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, að því er varðar skilgreiningu á liðnum reiðhjól. Eftir breytinguna orðast liðurinn þannig að til reiðhjóla teljast:

  1. Ökutæki, sem knúið er áfram með stig- eða sveifarbúnaði og eigi er eingöngu ætlað til leiks.
  2. Vélknúinn hjólastóll, sem eigi er hannaður til hraðari aksturs en 15 km á klst. og verður einungis ekið hraðar með verulegri breytingu.
  3. Lítil vél- eða rafknúin ökutæki, sem hönnuð eru til aksturs á hraða frá 8 km og upp í 15 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur m.a. vélknúið hlaupahjól sem búið er stigbretti, er á hjólum og með stöng að framan sem á er stýri. Slíkum farartækjum má ekki aka á akbraut.

Því er haldið fram í málinu að umrædd ökutæki falli undir c-lið, 2. gr. laganna, sbr. framangreint.

Umferðarstofa fer með stjórnsýslu á sviði umferðarmála, einkum varðandi umferðarreglur, ökutæki og fleira, sbr. 111. og 112. gr. umferðarlaga. Umferðarstofa ber ábyrgð á umsjón með skráningu ökutækja og fjallar um tæknileg atriði sem tengjast þeim, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar númer 751/2003 um skráningu ökutækja. Umferðarstofa setur verklagsreglur um skráningu í ökutækjaskrá og útgáfu skráningarskírteinis, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Umferðarstofa hefur mat á því hvaða ökutæki séu skráningarskyld í ökutækjaskrá. Embætti tollstjórans í Reykjavík fer ekki með slíkt mat og ber því að taka mið af sérfræðimati Umferðarstofu sem hliðsetts stjórnvalds við meðferð mála sem þarfnast aðkomu beggja.

Embættið vekur athygli kæranda á því að rísi ágreiningur um það til hvaða flokks skv. 2. gr. umferðarlaga ökutæki skuli teljast þá sker samgönguráðherra úr um það.

Ráðherra getur ef sérstakar ástæður mæla með því, ákveðið, að ökutæki af tiltekinni gerð skuli falla undir annan flokk ökutækja en leiðir af skilgreiningu 2. gr. laganna, sbr. 61. gr. umferðarlaga.

Embætti tollstjórans í Reykjavík taldi með vísan til framangreinds rétt að leita frekari upplýsinga frá Umferðarstofu eftir að kæra á ákvörðun tollstjóra barst embættinu, m.a. varðandi það hvort kæranda hefði verið leiðbeint um kæruheimild til samgönguráðherra að því er þann þátt málsins varðaði, enda ljóst að ágreiningur virtist enn vera uppi um það í málinu hvort um skráningarskylt vélknúið ökutæki væri að ræða. Bréf barst frá Umferðarstofu, dags. 21. september sl., sem svar við bréfi embættisins, dags. 18. ágúst sl., þar sem kemur m.a. fram að kæranda hafi ekki formlega verið tilkynnt um kæruleiðir en í samskiptum hans við Umferðarstofu hafi komið skýrt fram hvaða leiðir kærandi gæti farið ef hann vildi ekki una niðurstöðu stofnunarinnar. Ekkert liggur fyrir í málinu sem bendir til þess að kæra hafi verið lögð fram til samgönguráðuneytisins varðandi ágreining um skráningarskyldu í máli þessu. Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur því ekki heimild til annars en leggja álit Umferðarstofu, sbr. bréf dags. 5. júlí sl. og 21. september sl., til grundvallar í máli þessu, að öllu óbreyttu.

Það er mat Umferðarstofu eins og áður hefur komið fram, að umrædd ökutæki falli ekki undir skilgreiningu umferðarlaga á reiðhjóli, sbr. c-lið 2. gr. laganna. Embætti tollstjórans í Reykjavík rengir ekki framangreint mat stofnunarinnar enda hafa engin gögn verið lögð fram í málinu sem benda til þess að mat stofnunarinnar hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum. Vísar Umferðarstofa m.a. til gagna frá framleiðanda sem hafi bent til þess að umrædd ökutæki væru gerð fyrir hraðari akstur en 15 km á klukkustund. Að auki var það niðurstaða tæknimanna Umferðarstofu að átt hefði verið við eitt ökutækjanna, enda kom í ljós að lítið þurfti að gera til að koma ökutækjunum í talsvert meiri hraða en 15 km á klukkustund.

Embættið telur því með vísan til framangreinds að ökutækin séu rétt tollflokkuð í tollskrárnúmer 8711.1000 eða 8711.9091 eftir atvikum og séu skráningarskyld. Þar sem umrædd ökutæki hafa ekki hlotið forskráningu getur embættið ekki heimilað tollafgreiðslu þeirra þar sem um skráningarskyld vélknúin ökutæki er að ræða skv. framangreindu. Rétt er að benda á yfirlýsingu innflytjanda á tollskýrslu við innflutning og tollafgreiðslu á umræddum ökutækjum þar sem fram kemur að tollafgreiðsla sé heimiluð með fyrirvara um að Umferðarstofa samþykki að ökutækin teljist ekki til skráningarskyldra vélknúinna ökutækja. Þá kemur fram orðrétt í yfirlýsingunni: ,,Innflytjandi ábyrgist endursendingu hjólanna strax hafni Umferðarstofa því að hjólin falli undir reiðhjól.” Að lokum er yfirlýsingin dagsett og undirrituð af kæranda.

Ljóst er, að með niðurstöðu Umferðarstofu um skráningarskyldu ökutækjanna, eru forsendur fyrir tollafgreiðslunni brostnar. Heimild embættisins til tollafgreiðslu með fyrirvara er því afturkölluð hér með, enda skilyrðum fyrir tollafgreiðslu ekki fullnægt, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum.

Vakin er athygli á því að brot gegn umferðarlögum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim, varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Er innflytjandi því hvattur til að ganga frá skráningu umræddra ökutækja eða senda þau úr landi hið fyrsta, með staðfestingu tollgæslu á endursendingu úr landi, eins og farið hefur verið fram á, sbr. bréf embættisins, dags. 15. júlí sl.

IV.

Í bréfi kæranda, dags. 9. ágúst sl., kemur fram að Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hafi heimilað innflutning á sömu tegund af hjólum sem reiðhjólum og hafi tollafgreitt tugi hjóla með léttum mótor sem reiðhjól.

Embætti tollstjórans í Reykjavík telur rétt að það komi fram að þessu tilefni að ljóst er að beita ber sömu aðferðum við tollafgreiðslu í öllum tollumdæmum landsins. Komi í ljós haldbærara sannanir fyrir því að svo hafi verið sem lýst er í kæru kæranda mun embættið grípa til viðeigandi aðgerða í kjölfarið. Rétt er að benda á í þessu sambandi að yfirstjórn tollamála á Keflavíkurflugvelli er í höndum Utanríkisráðuneytis.

V.

Kærandi fer fram á það í bréfi sínu, dags. 9. ágúst sl., að Umferðarstofa upplýsi allan feril og vinnubrögð við mælingu þá er stofnunin viðhafði fyrir hönd tollstjórans í Reykjavík.

Embætti tollstjórans í Reykjavík getur ekki upplýst um vinnubrögð eða starfshætti annarra hliðsettra stofnana í stjórnsýslu íslenska ríkisins, þ.m.t. Umferðarstofu. Er kæranda bent á í þessu sambandi að óska frekari upplýsinga hjá Umferðarstofu eða beina kæru til samgönguráðuneytis í samræmi við fyrrnefnd ákvæði umferðarlaga. Niðurstaða málsins er skýr að hálfu Umferðarstofu, óháð því hvaða aðferðum var beitt við að komast að niðurstöðu í málinu. Að mati tollstjórans í Reykjavík er embættinu skylt að fylgja niðurstöðu stofnunarinnar og leggja hana til grundvallar við þann þátt málsins er lýtur að ákvörðun á því hvaða kröfur beri m.a. að gera við tollafgreiðslu umræddra ökutækja fyrir íslenskum tollyfirvöldum.

VI.

Embætti tollstjórans í Reykjavík telur rétt að benda enn og aftur á heimild kæranda til að leita réttar síns varðandi ákvörðun um skráningarskyldu umræddra ökutækja til samgönguráðuneytis, sbr. framangreint. Það skal jafnframt tekið fram að komi til þess að samgönguráðuneytið hnekki ákvörðun Umferðarstofu um skráningarskyldu ökutækjanna mun tollstjórinn í Reykjavík endurupptaka mál þetta, að beiðni kæranda.

Beðist er velvirðingar á töfum sem orðið hafa á afgreiðslu þessa máls, m.a. vegna anna hjá embættinu, en ekki síst drætti sem varð á afgreiðslu málsins af hálfu Umferðarstofu.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að afturkalla skuli heimild til tollafgreiðslu sendingar E DET 07 06 4 NL RTM S040, sem lögð var inn á frísvæði Vöruhótelsins ehf., tollafgreidd þann 22. júní sl. með úttekt af frísvæði B VOR 22 06 4 IS FRS 0020. Innflytjandi var A. Óheimilt er að tollafgreiða umrædda sendingu fyrr en að fenginni forskráningu ökutækja þeirra sem í sendingunni voru, framleidd af Skooda í Kína af gerðinni SK ES2027, SK ES 2033, SK GS010, SK GS024, SK GS026, SK GS026E, SK GS032, SK GS032E, þar sem um skráningarskyld ökutæki er að ræða. Hljóti umrædd ökutæki ekki forskráningu skulu þau send úr landi, með staðfestingu tollgæslu, innan þriggja mánaða frá dagsetningu úrskurðar.

Úrskurður þessi er kæranlegur til Fjármálaráðuneytis, Arnarhváli, 150 Reykjavík og er kærufrestur þrír mánuðir talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga, með síðari breytingum.

Reykjavík, 4. október 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum