Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 21/2008

Niðurfelling aðflutningsgjalda bifreiðar

22.5.2008

Í dag var hjá Tollstjóranum í Reykjavík kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 7. febrúar 2008, fer H hrl. fyrir hönd B, fram á að embættið endurskoði ákvörðun sína frá 11. september 2007 um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda af bifreiðinni C með fastanúmer X. Bifreiðin kom til landsins með sendingu nr. E DET 09 05 6 DE HAM W123. Skráður innflytjandi er B.

Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld sendingarinnar verði felld niður þar sem bifreiðin hafi verið endurseld til útlanda.

II. Málsmeðferð

Þann 9. maí 2006 flutti kærandi fyrrgreinda bifreið inn til landsins og var hún forskráð á hans nafn. Kærandi seldi síðan S, búsettri í N, bifreiðina. Þann 19. maí 2006 veitti tollstjórinn í Reykjavík S tímabundið akstursleyfi fyrir bifreiðina til 12. ágúst s.á. í samræmi við a-lið 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í kjölfarið var bifreiðin skráð hjá Umferðarstofu samkvæmt reglugerð nr. 269/1993 um sérstaka skráningu bifreiða til notkunar um stundarsakir hér á landi og var skráningarmerkið Y.

Með beiðni til sýslumannsins á Selfossi, dags. 30. júní 2006, afturkallaði tollstjórinn í Reykjavík tímabundna akstursleyfið þar sem ekki voru uppfyllt skilyrði tollalaga um notkun slíkra bifreiða. Lögreglan á Selfossi tilkynnti H, sem hafði bifreiðina í sínum umráðum, um ákvörðunina. Um leið voru skráningarmerkin tekin af bifreiðinni og hún tekin úr notkun.

Þann 9. nóvember 2006 var aðflutningsskýrsla kæranda vegna innflutnings bifreiðarinnar móttekin hjá tollstjóra og voru aðflutningsgjöld skuldfærð á kæranda. Bifreiðin var svo flutt úr landi þann 1. júní 2007 með sendingu nr. E DET 01 06 7 IS REY H027 til Lúxemborgar. Viðtakandi var samkvæmt útflutningsskýrslu S, N. Þann 14. ágúst 2007 lagði kærandi fram aðflutningsskýrslu fyrir sendingu nr. E DET 09 05 6 DE HAM W123 þar sem fram kom beiðni um endurgreiðslu aðflutningsgjalda. Meðfylgjandi var skrifleg staðfesting tollgæslu á að skoðun vöru og umbúða hafi farið fram 1. júní 2007.

Þann 11. september 2007 tók embættið ákvörðun um að hafna niðurfellingarbeiðninni. Í Tollakerfi var gerð var athugasemd við aðflutningsskýrsluna um að skv. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 760/2000 skuli leggja fram endurgreiðslubeiðni innan eins árs frá komu fars til landsins. Þann 17. desember 2007 sendi B svo skriflegt erindi til embættisins, þar sem beðið var um niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna útflutnings bifreiðarinnar. Með tölvubréfi frá embættinu sem sent var 11. janúar 2008 var kæranda bent á að forsenda þess að niðurfelling aðflutningsgjalda skv. reglugerð 760/2000 gæti farið fram væri sú að um ónotaða vöru væri að ræða. Samkvæmt upplýsingum embættisins hefði varan verið notuð hér á landi og því væri ekki grundvöllur fyrir niðurfellingu aðflutningsgjalda.

Lögmaður kæranda sendi bréf dags. 7. febrúar 2008 þar sem óskað var eftir að fyrri afstaða tollstjóra varðandi niðurfellingu aðflutningsgjalda verði endurskoðuð og aðflutningsgjöld felld niður. Litið er á erindið sem kæru og fellst tollstjóri á að taka hana til meðferðar með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þann 27. febrúar 2008 sendi kærandi að beiðni embættisins reikning vegna sölu bifreiðarinnar, dags. 1. júní 2007, þar sem fram kemur að kaupandi er P í L. Kaupsamningur var samkvæmt upplýsingum frá kæranda ekki gerður. Þann 21. apríl sl. bað embættið svo um frekari gögn um upprunalega sölu bifreiðarinnar til S. Með tölvupósti dags. 24. apríl sl. sendi kærandi afrit af reikningi sem er stílaður á S og frá 10. maí 2006 og einnig afrit af kredit-reikning, einnig á nafni S, dags. 1. nóvember 2007. Samkvæmt upplýsingum kæranda var kaupsamningur ekki gerður og engin skrifleg gögn yfir riftun kaupsamningsins.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir kröfu sína um niðurfellingu aðflutningsgjalda á ákvæðum 4. og 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga 88/2005. Kærandi telur að túlka beri ákvæðin með hliðsjón af reglugerð nr. 269/1993 um sérstaka skráningu bifreiða til notkunar um stundarsakir og reglugerð nr. 760/2000 um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, galla, tjóns, vöntunar eða endursölu til útlanda.

Kærandi bendir á að bifreiðin hafi fengið skráningu samkvæmt reglugerð nr. 269/1993 og verið afhent kaupanda á þeim forsendum, að hana ætti að flytja út til N án tollafgreiðslu hér á landi. Tollyfirvöldum hafi því frá upphafi verið kunnugt um hvaða meðferð bifreiðin sætti og vitað að senda ætti bifreiðina aftur úr landi. Hann telur að reglugerðin heimili ekki kröfu um aðflutningsgjöld við brot á henni, heldur sé eingöngu mælt fyrir um að stöðva skuli notkun bifreiðar þar til hún verður flutt úr landi.

Kærandi telur að þegar ákvæði 4. tölul. 7. gr. tollalaga og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 760/2000 séu lesin saman verði ekki annað séð en að heimilt sé að nýta bifreið með tímabundið akstursleyfi í allt að 12 mánuði áður en hún er flutt úr landi og að beiðni um niðurfellingu skuli afhent innan sex mánaða frá brottför útflutningsfars. Kærandi bendir sérstaklega á að 1. mgr. 6. gr. hafi ekki að geyma ákvæði um að vara skuli vera ónotuð við endursölu til útlanda.

Þá vísar kærandi í vinnureglur Umferðarstofu um skilgreiningu á því hvort bifreið fái skráningu sem ný eða notuð. Samkvæmt þeim séu bifreiðar, sem eknar hafa verið minna en 1.000 km, skráðar sem nýjar. Þar sem akstursmælir bifreiðarinnar hafi sýnt 697 km þegar hún var flutt úr landi þá teljist hún ný en ekki notuð.

Varðandi það atriði hvenær tollmeðferð bifreiðarinnar hefði átt að vera lokið og tollskjölum skilað inn þá byggir kærandi á því að líta eigi til þess hvernig innflutningi bifreiðarinnar hafi verið háttað í upphafi. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði öll ábyrgð á bifreiðinni hvílt hjá upphaflegum kaupanda hennar en ekki kæranda. Hér sé því um einstakt, afbrigðilegt atvik að ræða, þar sem atburðarásin hafi ekki verið í höndum kæranda.

Að lokum byggir kærandi á því að það sé óeðlileg niðurstaða að kæranda beri að greiða aðflutningsgjöld af bifreiðinni þar sem honum hefði ekki borið að gera það ef orðið hefði af kaupunum að fullu eða ef síðari kaupandinn hefði komið til Íslands og keypt bifreiðina.

IV. Niðurstaða

Tímabundinn innflutningur

Í þessu máli er deilt um hvort heimild sé fyrir því að fella niður eða e.a. endurgreiða aðflutningsgjöld af bifreiðinni X. Kærandi byggir heimild sína til undanþágu aðflutningsgjalda á ákvæðum 4. tölul. og 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga, eins og þau séu skilin með hliðsjón af reglugerðum nr. 760/2000 og 269/1993.

Samkvæmt a-lið 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga skal tollur falla niður af bifreiðum til tímabundinnar notkunar hér á landi sem skráðar eru erlendis eða keyptar nýjar og óskráðar hér á landi ef innflytjandi eða eftir atvikum kaupandi hennar hefur eða hefur haft fasta búsetu erlendis, hyggst dvelja hér á landi tímabundið og nota bifreiðina í eigin þágu. Að loknum leyfistíma skal leyfishafi flytja ökutækið aftur úr landi eða greiða af því lögboðin aðflutningsgjöld samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. reglugerðar nr. 160/1990 um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla.

Þann 19. maí 2006 veitti tollstjóri leyfi til tímabundnar notkunar bifreiðarinnar X í samræmi við ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga og reglugerð nr. 160/1990. Það ber að athuga að breyting sem gerð var á tollalögum með lögum nr. 146/2006 hafði ekki tekið gildi. Leyfið var síðan afturkallað þann 30. júní 2006, þar sem forsendur leyfisveitingarinnar voru brostnar. Í kjölfarið gengu kaup á bifreiðinni til baka og kærandi lagði fram aðflutningsskýrslu vegna bifreiðarinnar sem móttekin var 9. nóvember 2006. Við þetta færðist ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda aftur á kæranda sem innflytjanda vörunnar samkvæmt 1. mgr. 127. gr. tollalaga. Rétt kæranda til niðurfellingar eða endurgreiðslu gjalda er því ekki hægt að byggja á 4. tölul. 7. gr. tollalaga þar sem skilyrði til tímabundins innflutnings ökutækja eru ekki uppfylltur.

Kærandi heldur því fram að ef aðflutningsgjöldin verði ekki felld niður þá leiði það til óeðlilegrar niðurstöðu þar sem ef kaupandi bifreiðarinnar hefði komið hingað til lands, keypt bifreiðina og flutt hana úr landi með sér hefði hann ekki þurft að greiða aðflutningsgjöld. Þar af leiðandi skorti rök til að mismuna kæranda og kaupendum varðandi stöðu til að fá aðflutningsgjöld felld niður.

Eins og kom fram hér að ofan þá er það niðurstaða embættisins að við það að kaup bifreiðarinnar gengu til baka og með framlagningu aðflutningsskýrslu hafi ábyrgð á aðflutningsgjöldum færst aftur á kæranda. Kærandi ber því ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda óháð því hverjum bifreiðin er síðar seld.

Þar sem kærandi getur ekki byggt kröfu sína um niðurfellingu eða endurgreiðslu gjalda á 4. tölul. 7. gr. tollalaga verður að líta til annarra reglna um heimild innflytjanda til niðurfellingar og endurgreiðslu gjalda.

Endursala vöru til útlanda

Samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 skal tollur falla niður eða endurgreiðast af vörum sem tollafgreiddar hafa verið hingað til lands en eru síðan seldar ónotaðar til útlanda. Sama gildir um vörugjald af ökutækjum samkvæmt 7. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskatt samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 36. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988. Í reglugerð nr. 760/2000 er að finna nánari ákvæði um undanþáguna í 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar skal tollstjóri endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem endurseld er til útlanda. Skilyrði fyrir endurgreiðslunni er að sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að varan hafi verið seld til útlanda og að frestur til að leggja fram beiðni um tollmeðferðina og nauðsynlegt staðfestingargögn séu sex mánuðir frá brottför útflutningsfars. Auk þess er vísað til skilyrða í 2. gr. reglugerðarinnar eftir því sem við á. Þau skilyrði eru að lögð sé fram skrifleg staðfesting tollgæslu á að skoðun vöru og umbúða hafi farið fram og skrifleg staðfesting farmflytjanda á útflutningi vörunnar ásamt afriti útflutningsfarmsskírteinis. Í 7. gr. reglugerðarinnar er svo kveðið á um að ef óskað sé tollmeðferðar samkvæmt reglugerðinni skuli tollmeðferð fara fram innan eins árs frá komu flutningsfars vöru til landsins.

Það er skýlaust skilyrði þegar fella skal niður gjöld eða endurgreiða samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. tollalaga að varan sé ónotuð þrátt fyrir að skilyrðið sé ekki endurtekið í reglugerð 760/2000. Óumdeilt er að bifreiðinni var ekið hér á landi. Í kæru kemur fram að bifreiðin hafi verið ekin 697 km þegar hún var endurútflutt. Í staðfestingu tollgæslu dags. 1. júní 2006 kemur ekki fram hver staða akstursmælis var við endurútflutning.

Kærandi telur að í þessu máli skuli orðið notað í 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga túlkað með hliðsjón af verklagsreglum Umferðarstofu um nýskráningu nýrra bifreiða. Samkvæmt þeim teljist bifreið ekki notuð ef staða á akstursmæli hennar er undir 1.000 km.

Embættið hafði samband við Umferðarstofu með fyrirspurn um fyrrgreindar verklagsreglur. Með tölvubréfi frá 21. febrúar sl. bárust þau svör að við nýskráningu bifreiða hér á landi sé farið eftir skráningu erlendis. Það er hins vegar vinnuregla hjá Umferðarstofu að bifreið verði ekki skráð sem ný ef henni hefur verið ekið meira en 1.000 km heldur skráist hún þá þegar sem notuð. Hins vegar er ekki hægt að gagnálykta sem svo að bifreið sem hefur verið ekið minna en 1.000 km verði ávallt skráð sem ný. Þess utan er hér ekki ákvarðandi hvort um er að ræða nýja bifreið, en greinilegt er á skráningu hennar frá 19. maí 2006 að hún var skráð sem ný, heldur hvort um sé að ræða ónotaða bifreið. Fyrrgreindar verklagsreglur Umferðarstofu snúa að skráningu bifreiða en ekki hvort hún teljist ónotuð vara í skilningi tollalaga. Af þessu leiðir að ekki er hægt að miða við það, þegar skoðað er hvort bifreið hafi verið notuð hér á landi eða ekki, hvort henni hafi verið ekið meira en 1.000 km.

Enginn vafi er á því að bifreiðinni var ekið á landinu á meðan hún var á sérstökum leyfisnúmerum. Skilyrði 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga um að varan skuli vera ónotuð er því ekki uppfyllt og því ekki heimilt að fella niður eða e.a. endurgreiða aðflutningsgjöld á bifreið X.

Þá er tollmeðferð bifreiðarinnar ekki innan þeirra tímamarka sem sett eru í reglugerð nr. 760/2000. Í reglugerðinni er kveðið á um tvenns konar tímafresti þegar um endursölu vöru til útlanda er að ræða. Í fyrsta lagi skal tollmeðferð fara fram innan eins árs frá komu flutningsfars vöru til landsins samkvæmt 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Í öðru lagi er frestur til þess að leggja fram beiðni um tollmeðferðina sex mánuðir frá brottför útflutningsfars samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar.

Bifreiðin sem hér um ræðir var flutt inn með sendingu nr. E DET 09 05 6 DE HAM W123 sem barst til landsins 9. maí 2006. Bifreiðin var flutt út með sendingu E DET 01 06 7 IS REY H027.

Brottför útflutningsfars var því 1. júní 2007, þ.e. rúmu ári eftir að sendingin kom til landsins., og eru því frestsskilyrði 7. gr. ekki uppfyllt. Ekki var nægilegt setja bifreiðina inn á tollsvæði, eins og kærandi heldur fram að hafi verið gert þann 4. maí 2007, sbr. einnig tölvupóst frá starfsmanni Eimskips dags. 5. nóvember 2007. Tollmeðferð skal vera lokið og varan komin úr landi ári eftir komu flutningsfars skv. 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. getur tollstjóri fallist á beiðni um tollmeðferð samkvæmt reglugerðinni ef sérstakar ástæður mæli með því. Ákvæðið felur í sér heimild fyrir tollstjóra til þess að veita undanþágu frá frestsskilyrðum en ekki skyldu. Í þessu tilviki sér embættið ekki ástæðu til þess að veita undanþágu frá frestsskilyrði 7. gr.

Með vísan til alls ofangreinds er ljóst að hvorki er uppfyllt skilyrði 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga um að vara sé ónotuð við endursölu til útlanda né frestsskilyrði 7. gr. reglugerðar nr. 760/2000. Niðurfelling eða e.a. endurgreiðsla aðflutningsgjalda af bifreiðinni X er því ekki heimil.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að niðurfellingu eða e.a. endurgreiðslu aðflutningsgjalda af bifreiðinni C með fastanúmer X sem kom til landsins með sendingu nr. E DET 09 05 6 DE HAM W123 er hafnað.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum