Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 21/2012

Höfnun á beiðni um endurgreiðslu aðflutningsgjalda af myndavél

19.2.2013

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2012, hefur G, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra dags. 27. september 2012, um höfnun beiðni um endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna póstsendingar með sendingarnúmerið P 150 21 09 2 IS B23 9889.

Kærandi fer fram á endurgreiðslu aðflutningsgjalda.

II. Málsmeðferð

Þann 21. september 2012 barst hingað til lands póstsending með sendingarnúmerinu P 150 21 09 2 IS B23 9889 sem innihélt myndavél. Viðtakanda var send komutilkynning samdægurs. Þann 24. september sama ár hafði kærandi samband við tollmiðlun Íslandspósts og kvað að um væri að ræða einkapakka, sem innihéldi myndavél sem væri stúdentsgjöf. Fallist var á með kæranda að um væri að ræða gjöf og gjafaafsláttur að fjárhæð 10.000 kr. veittur. Þann 26. september var sendingin afhent.

Með bréfi dags. 28. nóvember 2012 var ofangreind álagning gjalda kærð og farið fram á endurgreiðslu.

Kærandi fór af landinu þann 19. desember sl. og bauð embætti Tollstjóra upp á það úrræði að kærandi myndi fylla út eyðublað, E-14, og skila því til tollyfirvalda við brottför í Keflavík ásamt því að framvísa myndavélinni og í kjölfarið fá endurgreidd þau gjöld sem höfðu verið greidd af vélinni. Þann 20. desember sl. sendi Tollstjóri kæranda tölvupóst og innti kæranda eftir því hvort afgreiðslan hefði gengið eftir. Tollstjóra barst svar þann 31.desember frá kæranda þar sem fram kom að kærandi hefði ekki sinnt þessu við brottför sína og vildi vita hvað hægt væri að gera. Í kjölfarið tók Embætti Tollstjóra málið til úrskurðar. 

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að um persónulegan pakka hafi verið að ræða frá móður hennar og er mjög ósátt við að þurfa að greiða 42.901 kr. til að fá pakkann afhentan. Um er að ræða myndavél sem kærandi fékk í stúdentsgjöf þann 25. júní 2012, minniskort og myndir frá stúdentshátíð ásamt persónulegu bréfi frá móður kæranda sem sendi pakkann. Kærandi kveðst hafa þurft að nota myndavélina meðan á dvöl hennar stóð á Íslandi, en hún var að vinna á Gistiheimilinu Gerði.

Kærandi vísar til fylgiskjala með kæru og heldur því fram að mistök hafi verið gerð og fer fram á að málið verið leiðrétt og gjöldin endurgreidd.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Undantekningar frá meginreglunni er m.a. að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt.

Í 8. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að gjafir, sem sendar eru til landsins eru tollfrjálsar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til að tollfrelsi gjafar liggi fyrir þarf að vera um að ræða gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 10.000 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 10.000 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti.

Í 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, sbr. reglugerðarheimild í 2. mgr. 6. gr. tollalaga, segir að með gjöfum af sérstöku tilefni skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sem undanþegnar eru aðflutningsgjöldum, sé átt við tækifærisgjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa meðferðis frá útlöndum vegna tilefna sem tengjast einkalífinu, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar, enda sé verðmæti þeirra að hámarki kr. 10.000 miðað við smásöluverð á innkaupsstað.

Ágreiningur stendur um hvort álagning aðflutningsgjalda á umræddri sendingu hafi verið réttmæt. Ljóst er að kærandi kom hingað til lands á vegum Nordjobb þann 27. ágúst sl. til að vinna á gistiheimili á Höfn. Dvöl kæranda stóð yfir í tæpa fjóra mánuði, eða til 19. desember 2012 þegar hún sneri aftur til Danmerkur. Kærandi fékk myndavélina senda í pósti sem var, skv. meðfylgjandi skjölum, að verðmæti 7.500 DKR. Óumdeilt er í málinu að um er að ræða myndavél sem kærandi fékk að stúdentsgjöf og naut tollfríðinda í samræmi við það, sbr. 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi, sbr. 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga. Gjafafríðindi voru dregin frá kaupverði myndavélarinnar svo tollverð myndavélarinnar var að fjárhæð 7.034 DKR. Kærandi greiddi aðflutningsgjöld af þeirri fjárhæð, ISK 42.901.

Embætti Tollstjóra var tilbúið að fallast á endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna myndavélarinnar ef vélin hefði sannanlega farið af landi brott. Sú leið var farin að bjóða kæranda upp á að fylla út eyðublað E-14 og framvísa því og myndavélinni við tollyfirvöld við brottför í Keflavík. Kærandi hins vegar sinnti ekki þessum tilmælum Tollstjóra og fór úr landi án þess að framvísa myndavélinni og eyðublaðinu. Af þessu leiðir að ekki er sannað að vélin hafi farið úr landi með kæranda. Verður kærandi að bera hallann af því að hafa látið hjá líða að sinna tilmælum Tollstjóra og tryggja sér sönnun á ofangreindu atriði.

Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði fyrir endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna póstsendingar með sendingarnúmerið P150 21 09 2 IS B23 9889 ekki fyrir hendi. Ákvörðun um innheimtu aðflutningsgjalda er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á beiðni um endurgreiðslu aðflutningsgjalda á póstsendingu með sendingarnúmerið P150 21 09 2 IS B23 9889, dags. 27. september 2012, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum