Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 22/2010

Tollflokkun, Kindle DX Wireless Reading Device

1.10.2010

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, mótteknu 22. júlí 2010 hefur E kært tollflokkun á vörunni Kindle DX Wireless Reading Device í vöruflokk 8521.9029, sbr. kæruheimild 117. gr. tollalaga nr. 88/2005. Kærandi krefst þess að varan verði ákvörðuð í vörulið 8471, t.d. tollflokk 8471.5000.

II. Málsmeðferð

Þann 14. júlí 2010 flutti E inn Kindle DX Wireless Reading Device frá Bandaríkjunum og kom varan til landsins í sendingu með sendingarnúmer D 810 14 07 0 DE CGN I096. Þann 16. júlí 2010 móttók embætti Tollstjóra aðflutningsskýrslu frá tollmiðlara en þar var varan færð í tollflokk 8521.9029. Skýrslan var send frá tollmiðlara til Tollstjóra með skjalsendingu á milli tölva og hlaut þannig SMT-tollafgreiðslu samdægurs, sbr. 23. gr. tollalaga. nr. 88/2005. Tollstjóri gerði ekki athugasemd við afgreiðsluna. Varan var þannig ákvörðuð í tollflokk 8521.9029 og tilheyrandi gjöld skuldfærð á kæranda. Þann 22. júlí 2010 móttók embætti Tollstjóra bréflega kæru Egils Mássonar vegna fyrrgreindrar tollflokkunar. Af hálfu Tollstjóra var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda en þau bárust embættinu ásamt fylgigögnum með bréfi dagsettu 31. ágúst 2010.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru þess efnis að varan hafi ranglega verið færð til tollflokks með hliðsjón af gerð hennar og notkunarmöguleikum. Um sé að ræða tölvutæki með sjálfstæðar geymslueiningar, inntaks/úttakseiningar (USB), sjálfstæðan tölvuörgjörva og stýrikerfi af gerðinni Linux. Með tækinu fylgi hugbúnaður sem gerir notanda kleift að skoða texta, vefi og tölvuskjöl, framkvæma útreikninga, eiga samskipti í gegnum 3G net og framkvæma innkaup í gegnum vef. Þá sé hægt að forrita vélina sérstaklega til annarra verka með Kindle Software Development Kit sem fáanlegt sé frá fyrirtækinu Amazon. Jafnframt séu önnur forrit fáanleg til notkunar með tækinu, t.d. dagbókarforrit. Í ljósi þessara eiginleika tækisins fer kærandi fram á að varan verði flokkað undir vörulið 8471, t.d. í tollflokk 8471.5000. Til frekari rökstuðnings vísar kærandi til fylgigagna, notendahandbókar tækisins og vefsvæðanna www.amazon.com og www.blogkindle.com sem er umræðuvettvangur fyrir Kindle notendur.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í þessu máli snýr að tollflokkun vörunnar Kindle DX Wireless Reading Device. Um er að ræða raftæki en megin notkun þess er lestur bóka á rafrænu formi samkvæmt vörulýsingu á vefsvæðinu www.amazon.com. Tækið er 26,5 cm hátt, 18 cm breitt, 0,97 cm þykkt og vegur 535 grömm. Texti og myndir birtast á 16 lita gráskala 9,7“ lesskjá með 1200x824 pixla upplausn. Með tækinu fylgja rafmagnstengi, USB 2,0 kapall og endurhlaðanleg rafhlaða. Innra minni tækisins er 4 GB og er ætlað að geyma um 3.500 bækur. Tækið tengist vefsvæði Amazon í gegnum farsímanet (3G) og getur sótt þangað bækur gegn gjaldi. Auk bóka er hægt að sækja annars konar efni með aðstoð tækisins, t.d. dagblöð, tímarit og leiki en einnig er hægt að hlaða niður ákveðnum tegundum skráa á tækið með USB kapli. Tækið getur lesið texta upphátt og spilað hljóðbækur auk þess sem það hefur innbyggða hátalara og tengi fyrir heyrnartól. Þá er hægt er að heimsækja einföld vefsvæði með aðstoð tækisins, svo sem vefsvæði Wikipedia og Google. Orðabókin The New Oxford American Dictionary er innbyggð í tækið. Kindle DX býður upp á ákveðnar nýjungar umfram eldri gerðir tækisins. Hægt er að senda tilvitnanir á ýmsa samskiptavefi og fá upplýsingar um vinsælar tilvitnanir. Tækið hefur einnig nýtt skipulagskerfi fyrir lesefni, aðdrátt og skimunarkerfi fyrir PDF skjöl og bætta leturgerð og aðgangsstýringu. Samkvæmt vörulýsingu styður Kindle DX eftirfarandi skráarform: AZW, PDF, TXT, AAX, MP3, MOBI og PRC en að auki HTML, DOC, RTF, JPEG, GIF, PNG og BMP með umbreytingu.

Samkvæmt 20. gr. tollalaga nr. 88/2005 skulu innflytjendur færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar sem birtar eru í viðauka I við tollalögin. Reglurnar eru birtar fremst í tollskránni en einnig er að finna athugasemdir í byrjun hvers flokks og kafla skrárinnar sem ráða túlkun hverju sinni. Tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi flokka og kafla kafla skv. túlkunarreglu 1. Þá segir í 1. málsl. reglunnar að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða skal jafnframt byggð á orðalagi vöruliða, undirliða og sérhverri tilheyrandi athugasemd við þá í viðeigandi köflum tollskrárinnar skv. túlkunarreglu 6.

Umrædd vara hlaut SMT-tollafgreiðslu gegnum tollmiðlara sem færði vöruna í tollflokk 8521.9029 án athugasemda Tollstjóra. Við vörulið 8521 segir að þar falli undir; „myndupptökutæki eða myndflutningstæki (video)“. Aðaleiginleiki Kindle DX er aflestur rafrænna bóka og getur tækið einungis skilað kyrrmyndum en ekki hreyfimyndum. Orðalag vöruliðar 8521 leggur áherslu á hreyfimyndir en tækið er ekki ætlað til sýningar eða geymslu á skrám sem innihalda hreyfimyndir enda styður tækið ekki slíkar skrár samkvæmt vörulýsingu. Því er fallist á það með kæranda að varan falli ekki undir vörulið 8521.

Kærandi krefst þess að varan verði ákvörðuð í vörulið 8471, t.d. í tollflokk 8471.5000. Við vörulið 8471 segir að þar falli undir: „Sjálfvirkar gagnavinnsluvélar og einingar til þeirra; lesarar fyrir segulletur eða ritletur, vélar til að umskrá gögn á gagnamiðla á táknmáli og vélar til að vinna úr slíkum gögnum, ót.a.“ Í athugasemd 5. A til C við 84. kafla tollskrárinnar eru sett fram skilyrði sem vélar þurfa að uppfylla til að geta talist sjálfvirkar gagnavinnsluvélar. Samkvæmt 2. tl. athugasemdar 5. A verða sjálfvirkar gagnavinnsluvélar að vera auðveldlega forritaðar í samræmi við óskir notandans. Samkvæmt 3. tl. athugasemdar 5. A verða vélar einnig að geta framkvæmt talnaútreikning samkvæmt ákvörðun notandans. Ljóst er að Kindle DX uppfyllir ekki þessi skilyrði. Ekki er hægt að forrita tækið sérstaklega í samræmi við óskir notanda heldur hefur það ákveðna eiginleika og not sem fyrst og fremst felast í aflestri rafrænna bóka. Þá getur tækið ekki framkvæmt talnaútreikning samkvæmt ákvörðun notenda, þrátt fyrir að ráða við einfalda stærðfræðiútreikninga, enda býr tækið ekki yfir fullri reiknigetu á borð við töflureikna eins og Excel og Numbers enda styður það ekki slík forrit.

Kærandi heldur því fram að „flytja megi hvaða stafræn gögn sem er til og frá Kindle gegnum USB tengi.“ Hér vísast til vörulýsingar tækisins en þar eru tæmandi taldar þær skráargerðir sem tækið getur geymt og unnið með. Kindle DX styður aðeins þær skráargerðir sem þar eru taldar upp en aðrar ekki, t.d. styður tækið ekki skrár sem innihalda hreyfimyndir. Samkvæmt framansögðu er ekki hægt að flytja hvaða stafræn gögn sem er til og frá Kindle DX.

Kærandi fullyrðir einnig að „vafravirkni Kindle leyfi gagnvirkni við allt internetið.“ Samkvæmt vörulýsingu inniheldur Kindle DX vafra sem gerir notanda kleift að skoða einfaldar heimasíður sem innihalda aðallega texta. Á hinn bóginn styður þessi vafri ekki flóknari heimasíður sem innihalda margmiðlunarefni svo sem hreyfimyndir og grafík af ýmsu tagi enda fellur vafrinn undir þá eiginleika tækisins sem eru enn í þróun (e. Experimental Features). Samkvæmt framansögðu er ljóst að vafri sá sem er að finna í Kindle DX leyfir ekki gagnvirkni við allt internetið, heldur aðeins mjög takmarkaðan hluta þess.

Þá hefur kærandi fullyrt að Kindle DX styðji notkun samskiptaforritsins Yahoo Instant Messenger, en því til stuðnings var vísað í umfjöllun á vefsvæðinu www.blogkindle.com. Þar kemur fram að tækið getur tengst farsímaútgáfu samskiptaforritsins (e. Yahoo Mobile Service) í gegnum vafra. Um er að ræða einfaldaða útgáfu forritsins sem ætluð er farsímum og öðrum tækjum með takmarkaða vafravirkni, líkt og Kindle DX. Þessi eiginleiki leiðir því af vafravirkni tækisins.

Þá hefur kærandi fullyrt að „hægt sé að forrita vélina til að gera hvað sem er með Kindle Software Development Kit.“ Samkvæmt fylgigögnum kæranda er Kindle Development Kit enn í prófun (e. Beta) og ætlað hugbúnaðarframleiðendum en ekki almennum notendum. Fram kemur í fylgigögnum að ákveðnum hópi hugbúnaðarframleiðanda muni verða veittur aðgangur að Kindle Development Kit sem muni auðvelda þeim þróun hugbúnaðar fyrir Kindle. Í þessu samhengi er rétt að taka það fram að framtíðarþróun tækisins er óviðkomandi tollflokkun.

Með vísan til alls ofangreinds er ljóst að varan Kindle DX getur ekki fallið undir vörulið 8471. Er því ekki hægt að fallast á kröfu kæranda þess efnis. Hvarvetna í vörulýsingu framleiðanda er vísað til Kindle DX sem raftækis (e. Electronic Device) eða tækis til aflestrar (e. Reading Device). Í XVI. flokki tollskrárinnar er að finna athugasemdir sem eiga við 84. og 85. kafla hennar, nánar tiltekið vöruliði 8401-8548. XVI. flokkur tekur til vélbúnaðar og vélrænna tækja; rafbúnaðar; hluta til þessara vara og fl. Í 3. athugasemd XVI. flokks segir að leiði ekki annað af orðalagi skuli flokka vélasamstæður settar saman í eina heild úr tveimur eða fleiri vélum og aðrar vélar hannaðar til að framkvæma tvö eða fleiri verkatriði, saman eða sér, eins og eingöngu væri um að ræða þann vélarhluta eða þá vél sem gegnir höfuðhlutverkinu. Kindle DX er hannað og markaðssett sem tæki til aflestrar rafrænna bóka og hefur sá eiginleiki úrslitaáhrif við tollflokkun.

Vöruliður 8543 tekur til rafbúnaðar og raftækja. Fyrstu sex stafirnir í átta stafa tollskrárnúmerum íslensku tollskrárinnar eru í samræmi við samræmdu vörulýsinga- og vörunúmeraskrá Alþjóðatollastofnunarinnar, Harmonized System, sem Ísland er skuldbundið til að fylgja, sbr. auglýsingu nr. 25/1987. Skýringarritum og álitum Alþjóðatollastofnunarinnar um tollflokkun er jafnframt ætlað að stuðla að samræmdri túlkun á flokkunarkerfi stofnunarinnar og eru til leiðbeiningar um tollflokkun samkvæmt íslensku tollskránni, sbr. 189. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 74. gr. rg. nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru. Í skýringum við vörulið 8543.70 í samræmdu skránni segir að þar falli undir öll raftæki, til sérstakra nota, sem ekki falla undir aðra vöruliði kafla 84. og 85. eða aðra kafla skrárinnar en svo er ástatt hér. Varan verður því færð í vörulið 8543 og undirlið 7001, „Aðrar vélar og tækjabúnaður: heimilistæki“. Sambærilegar skýringar er að finna við sameiginlega tollskrá Evrópusambandsins en þar er tollskrárnúmerið 8543.70(10) t.d. talið taka til rafmagnstækja með þýðingar- eða orðabókareiginleikum. Enn fremur er sambærileg vara flokkuð í vörulið 8543 í Bandarísku tollskránni en samkvæmt úrskurði USITC (e. United States International Trade Commission) nr. HQ 964779 frá 27. febrúar 2002 var sambærileg vara, RCE ebook, felld þar undir.

Með vísan til ofangreinds verður fallist á það með kæranda að varan hafi verið færð í rangan tollflokk. Varan skal færð í vörulið 8543 og undirflokk 7001, þ.e. tollflokk 8543.7001. Þessi niðurstaða hefur engin áhrif á ákvörðun gjalda þar sem sömu gjaldaliðir fylgja hvorum vörulið um sig. Einnig er vísað í úrskurði tollstjóra í málum nr. 11/2010 og 14/2010 þar sem komist var að sömu niðurstöðu og hér er gert varðandi tollflokkun á eldri gerðum Kindle.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að varan Kindle DX Wireless Reading Device, sem flutt var til landsins í sendingu með sendingarnúmer D 810 14 07 0 DE CGN I096 falli í tollflokk 8543.7001.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. Tollalaga nr. 88/2005.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum