Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 22/2012

Synjun á niðurfellingu virðisaukaskatts af skútu

20.2.2013

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi sem móttekið var af Tollstjóra þann 24. september 2012 hefur D, hdl., fyrir hönd H, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra frá 3. júlí 2012 um að hafna beiðni um niðurfellingu virðisaukaskatts vegna innflutnings skútunnar B, sendingarnúmer X BRT 30 08 9 GL KUS 0001 U, hingað til lands.

Kærandi heldur því fram að umrædd skúta sé annars vegar undanþegin greiðslu virðisaukaskatts og hins vegar greiðslu tolla. Með hliðsjón af því fer kærandi fram á að skútan verði tollafgreidd án þess að lagður verði á hana tollur og fallist verði á það með kæranda að hún sé undanþegin virðisaukaskatti auk þess sem krafist er að fallið verði frá öllum dráttarvöxtum.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi flutti þann 8. september 2009 hingað til lands skútuna B. Umrædd skúta hafði fyrst komið hingað til lands 20. ágúst 2008. Skútunni var síðar siglt til Grænlands en kom endanlega til Íslands aftur þann 8. september 2009. Við komuna til landsins í fyrra skiptið hafði verið útfyllt komuskýrsla en hvorki við komu í ágúst 2008 né við komu í september 2009 skilaði kærandi inn aðflutningsskýrslu eða gögnum til Tollstjóra varðandi innflutning skútunnar.

Í lok árs 2011 varð embætti Tollstjóra ljóst að málinu væri ólokið og að skútan væri enn ótollafgreidd þrátt fyrir að hafa verið hér á landi samfleytt frá því í september 2009. Kæranda var því sent bréf, dags. 1. febrúar 2012, þar sem farið var fram á að hann skilaði inn aðflutningsskýrslu og öðrum tollskjölum vegna innflutnings skútunnar í samræmi við 22. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 23. og 25. gr. sömu laga. Var kæranda veittur frestur til 20. febrúar 2012 til að verða við kröfum embættisins. Með bréfi frá kæranda, dags. 20. febrúar 2012, var óskað eftir tveggja vikna fresti til að skila inn umbeðnum gögnum. Var sá frestur veittur en með bréfi, dags. 8. mars 2012, veitti Tollstjóri kæranda svo lokafrest til 16. mars 2012 til að skila inn gögnum og í kjölfarið yrði skútan tollafgreidd til bráðabirgða. Tollstjóra barst bréf frá lögmanni kæranda, dags. 16. mars 2012, þar sem kom fram að kærandi hefði óskað eftir útgáfu á EUR1 upprunavottorði fyrir skútuna og því væri óskað eftir ráðrúmi til að móttaka slíkt vottorð áður en bráðabirgðatollafgreiðsla færi fram. Auk þess komu fram þau sjónarmið að taka bæri tillit til þess við tollafgreiðslu að um væri að ræða innflutning á vöru sem undanþegin væri virðisaukaskatti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 36. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. 6. tl. 1. mgr. 12. gr. sömu laga. Tollstjóra barst annað bréf frá lögmanni kæranda, dags. 23. mars 2012, vegna bráðabirgðatollafgreiðslu á skútunni B. Bréfinu fylgdi aðflutningsskýrsla, dags. 23. mars 2012, og beiðni um kennitölubreytingu í tolli, dags. 23. mars. 2012. Í umræddu bréfi kemur fram að í byrjun september 2009 hafi verið hafist handa við innflutning á skútunni vegna fyrirhugaðrar notkunar í atvinnurekstri og strax í kjölfarið hafi verið leitast eftir samþykki og staðfestingu Siglingastofnunar, sbr. 3. gr. verklagsreglna Siglingastofnunar nr. 25.03.01.05.02. Í 3. gr. segir;

Notað skip, sem keypt er eða leigt frá útlöndum til skráningar hér á landi, skal hafa verið smíðað í samræmi við reglur viðurkennds flokkunarfélags eða sambærilegar reglur. Einnig skal slíkt skip fullnægja íslenskum lögum og reglum sem um íslensk skip gilda. Skal upphafsskoðun fara fram og að henni lokinni ákveður Siglingastofnun hvort innflutningur og skráning er samþykkt.

Í bréfinu kom fram það mat kæranda að ómögulegt hafi verið að tollafgreiða skútuna með réttum hætti nema fyrir lægi samþykki Siglingastofnunar fyrir skráningu og innflutningi en nauðsynleg úttekt Siglingastofnunar hafi ekki farið fram þrátt fyrir að tilkynning og beiðni um slíkt hafi legið fyrir frá árinu 2009. Segir í bréfinu að það hafi verið skilningur kæranda að innflutningur og tollafgreiðsla færi ekki fram fyrr en slíkt samþykki lægi fyrir og því hafi skútan verið á hollensku flaggi þar sem R, var skráður umboðsmaður. Þá var í bréfinu ítrekuð sú skoðun kæranda að tekið skyldi tillit til þess að varan teldist ekki til skattskyldrar veltu, sbr. 6. tl. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og því væri innflutningur vörunnar undanþeginn virðisaukaskatti, sbr. 3. tl. 1. mgr. 36. gr. sömu laga. Að lokum var gerður sá fyrirvari við bráðabirgðatollafgreiðsluna að fyrir endanlega tollafgreiðslu yrði kæranda heimilt að leggja fram tilskilið samþykki Siglingastofnunar fyrir innflutningi og skráningu auk EUR1 upprunavottorðs þar sem þau gögn myndu hafa töluverð áhrif á endanlega tollafgreiðslu skútunnar.

Þann 26. apríl 2012 sendi Tollstjóri lögmanni kæranda tölvupóst þar sem honum var tilkynnt að eftir að farið hefði verið yfir innsenda aðflutningsskýrslu og þær upplýsingar sem fram hafi komið í bréfum lögmanns kæranda, dags. 16. og 23. mars 2012, hafi Tollstjóri ákveðið að verða við beiðni hans um kennitölubreytingu á innflytjanda sendingarinnar auk þess sem sendingarnúmeri hafi verið breytt úr X BRT 20 08 8 NL RTM 0001 í X BRT 30 08 9 GL KUS 0001 U til samræmis við þá dagsetningu sem skútan kom endanlega til landsins. Var lögmanni kæranda jafnframt tilkynnt að unnið væri að tollafgreiðslu vegna skútunnar en til að hægt væri ganga frá henni þyrfti leyfi Siglingastofnunar og EUR1 upprunavottorð að liggja fyrir, ef vilji væri fyrir því að leggja slíkt vottorð fram. Liðin væru þrjú ár frá komu skútunnar og því hafi gefist nægur tími til að útvega umrætt leyfi og vottorð. Því væri nú óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins enda hafi komið fram í bréfi lögmannsins frá 23. mars 2012 að gögnin myndu berast innan fárra daga. Þann 7. maí 2012 sendi Tollstjóri lögmann kæranda tölvupóst á ný þar sem fyrri tölvupóstur var ítrekaður og farið fram á að umbeðnar upplýsingar yrðu veittar eigi síðar en 11. maí 2012.

Þann 11. maí 2012 barst Tollstjóra tölvupóstur frá lögmanni kæranda sem innihélt skannað eintak af EUR1 upprunavottorði fyrir skútuna BRITT og staðfestingu á leyfi frá Siglingamálastofnun auk aðflutningsskýrslu, sem tók ekki mið af því að sendingarnúmeri og kennitölu innflytjanda hafði verið breytt. Með tölvupóstum sama dag gerði Tollstjóri lögmanni kæranda grein fyrir því að nauðsynlegt væri að skila inn nýrri aðflutningsskýrslu sem tæki mið af því að sendingarnúmeri og kennitölu innflytjanda hafi verið breytt. Þá þyrfti ekki að fara fram á bráðabirgðatollafgreiðslu líkt og gert hafi verið áður þar sem hægt væri að ganga endanlega frá tollafgreiðslunni þar sem fyrir lægi staðfesting Siglingamálastofnunar. Þá var lögmanni kæranda auk þess gert ljóst að löggildingu frá hollenskum tollayfirvöldum vantaði á EUR1 upprunavottorðið, en þar til bærum yfirvöldum bæri að stimpla vottorðið í þar til gerðan reit og því væri um að ræða ófullnægjandi EUR1 upprunavottorð. Lögmaður kæranda kvaðst með tölvupósti sama dag ætla að láta útbúa nýja aðflutningsskýrslu í snatri. Óskaði hann jafnframt eftir viku fresti til að afhenda fullklárað EUR1 upprunavottorð og nýja aðflutningsskýrslu. Var umbeðinn frestur veittur af Tollstjóra með tölvupósti sama dag og bárust gögnin loks þann 18. maí 2012.

Eftir að hafa farið yfir aðflutningsskýrslu og önnur gögn í málinu ákvað tollafgreiðsludeild Tollstjóra að leggja gjöld á sendinguna. Var kæranda birt sú ákvörðun í formi athugasemda við tollskýrslu þann 3. júlí 2012 þar sem kom fram að ekki væri fallist á ósk um niðurfellingu virðisaukaskatts þar sem viðkomandi far hafi verið skemmtibátur við innflutning árið 2009. Að beiðni kæranda var ákvörðun Tollstjóra rökstudd ítarlega með bréfi, dags. 25. júlí 2012. Kæra barst embætti Tollstjóra þann 24. september 2012. Í kjölfarið var staðfesting á móttöku kærunnar send kæranda og hún tekin til efnislegrar meðferðar hjá embættinu. Með tölvupósti þann 11. október 2012 óskaði Tollstjóri eftir upplýsingum frá Siglingastofnun varðandi samskipti stofnunarinnar og kæranda auk almennra upplýsinga er varðar innflutning á skipi. Svar Siglingastofnunar barst með tölvupósti þann 17. október þar sem m.a. gaf að líta tölvupóstsamskipti Siglingastofnunar við innflytjanda skútunnar auk tölvupósts milli starfsmanna Siglingastofnunar þar sem m.a. kom fram að kærandi hafði haft samband við stofnunina í febrúar 2010 með það fyrir augum að fá skipið skráð á Íslandi sem farþegaskip. Í kjölfarið sendi Tollstjóri fyrirspurn á Siglingastofnun, með tölvupósti dags. 22. október, þess efnis hvort umrædd skúta væri skráð á Íslandi og þá hvert skipaskráningarnúmer hennar væri. Sama dag barst tölvupóstur frá Siglingastofnun þar sem kom fram að skútan hafi ekki verið skráð í íslenska skipaskrá. Eigandinn hafi hins vegar fengið þær upplýsingar frá eftirlitsdeild Siglingastofnunar að hún fengist skráð sem farþegaskip fyrir allt að 12 farþega en ekki hafi verið beðið um formlega skráningu. Með tölvupósti strax í kjölfarið óskaði Tollstjóri eftir upplýsingum frá Siglingastofnun um hvort eigandinn hafi verið upplýstur um að honum bæri að óska formlega eftir slíkri skráningu auk upplýsinga um hvort kærandi hafi fengið heimild Siglingastofnunar til að flytja skipið inn til Íslands, sbr. 8. gr. laga nr. 47/2003 og 3. gr. verklagsreglna Siglingastofnunar nr. nr. 25.03.01.05.02. Ekkert svar barst frá Siglingastofnun við þessum tölvupósti.

Tollstjóri óskaði eftir frekari gögnum frá kæranda með bréfi, dags. 17. október 2012, en þar var m.a. óskað eftir gögnum frá kæranda um samskipti hans við Siglingastofnun og önnur gögn sem sýnt gætu fram á hvort staðið hafi til að flytja skútuna inn sem atvinnutæki til farþegaflutninga auk gagna um skútuna sjálfa og notkun hennar frá komu hingað til lands í september 2009. Í sama bréfi var kæranda gerð grein fyrir því að við vinnslu aðflutningsskýrslu hafi 10% tollur af skútunni verið felldur niður á grundvelli EUR1 upprunavottorðsins og því væri litið svo á að þegar hafi verið orðið við kröfu kæranda um niðurfellingu tolla á grundvelli EUR-1 upprunavottorðs nr. 3434121, sem gefið var út af tollyfirvöldum í Hollandi. Var kæranda hins vegar bent á að tollar séu felldir niður í samræmi við ákvæði fríverslunarsamninga en hins vegar taka þau ákvæði ekki til annarra aðflutningsgjalda sem lögð eru jafnt á innlenda sem erlenda framleiðslu, s.s. virðisaukaskatt, vörugjöld, úrvinnslugjöld o.fl.

Með tölvupósti, dags. 6. nóvember 2012, óskaði Tollstjóri eftir upplýsingum frá lögmanni kæranda hvort von væri á umbeðnum gögnum. Svar barst frá lögmanni kæranda sama dag þar sem hann kvaðst vera að vinna í því að afla gagnanna. Þann 21. nóvember 2012 sendi Tollstjóri kæranda tölvupóst þar sem ósk um gögn var ítrekuð svo hægt yrði að klára málið. Með tölvupósti sama dag óskaði lögmaður kæranda eftir 14 daga fresti til að senda inn umbeðin gögn. Var sá frestur veittur. Þar sem umbeðin gögn bárust hins vegar ekki innan gefins frests ítrekaði Tollstjóri enn á ný beiðni sína um viðbótargögn með tölvupósti til lögmanns kæranda þann 13. desember 2012. Var kæranda veittur fimm daga lokafrestur til að skila umbeðnum gögnum ella yrði úrskurðað í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Umbeðin gögn bárust loks með tölvupósti þann 20. desember 2012 en þar gaf m.a. að líta greinargerð og samantekt kæranda um málið auk tölvupóstsamskipta milli kæranda og nokkurra aðila í aðdraganda þess að skútan var flutt inn til landsins. Tollstjóri fór í kjölfarið fram á að umræddir tölvupóstar yrðu framsendir beint frá tölvupósti kæranda auk þess að óskað var eftir upplýsingum um raunverulega notkun skútunnar frá komu hennar til Íslands. Með tölvupósti frá lögmanni kæranda, dags. 20. janúar 2013, bárust Tollstjóra umbeðin gögn.

Með tölvupósti, dags. 15. janúar 2013, til Siglingastofnunar ítrekaði Tollstjóri fyrirspurn embættisins frá 22. október sem ekki hafði verið svarað auk þess sem óskað var upplýsinga þess efnis hvort finna mætti í lögum, reglugerðum eða verklagsreglum Siglingastofnunar einhverskonar leiðbeiningar eða viðmiðunarreglur sem gæfi til kynna hvað teldist eðlileg stærð á skemmtibáti. Ástæðan var sú að kærandi hafði í greinargerð sinni, dags. 20. desember 2012, haldið því fram að skútan BRITT væri í raun of stór til að geta talist skemmtibátur. Með tölvupóstum, dags. 23. janúar og 31. janúar 2013, var fyrirspurn Tollstjóra til Siglingastofnunar ítrekuð. Svar Siglingastofnunar hefur enn ekki borist þrátt fyrir ítrekanir.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að miða skuli tímamark innflutnings skútunnar B við 14. maí 2012, þ.e. útgáfudag innflutningsskýrslu Eimskipafélags Íslands ehf., en ekki 8. september 2009 líkt og miðað er við í ákvörðun Tollstjóra og er sá dagur sem skútan kom til landsins. Vill kærandi meina að honum hafi verið ómögulegt að flytja inn skútuna fyrir það tímamark þar sem Siglingastofnun hafi ekki veitt áskilið samþykki og staðfestingu á heimild til innflutnings. Kærandi lítur þó svo á að tímamark tollafgreiðslu séu málinu óviðkomandi. Ástæðan sé í fyrsta lagi sú að skútan sem um ræðir sé annars vegar undanþegin virðisaukaskatti við tollafgreiðslu, sbr. 6. tl. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. 3. tl. 1. mgr. 36. gr. sömu laga enda sé um að ræða atvinnutæki en ekki „skemmtibát“ líkt og ákvörðun Tollstjóra, dags. 3. júlí 2012, kveður á um. Í öðru lagi skuli fella niður toll af skútunni á grundvelli uppruna vöru, sbr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Hvað varðar undanþágu frá virðisaukaskatti kveður kærandi að fyrir liggi skýr yfirlýsing frá honum sjálfum um að skútan sé atvinnutæki og að alla tíð hafi verið fyrirhugað að nota skútuna í þeim tilgangi ef fyrir lægi samþykki og staðfesting Siglingastofnunar líkt og áskilnaður er gerður um í 3. gr. verklagsreglna Siglingastofnunar nr. 25.03.01.05.02. Byggir kærandi kröfu sína m.a. á því að Tollstjóra sé ekki falið ákvörðunarvald um það hvort bátur sé fluttur inn sem skemmtibátur eða atvinnutæki og að ekki sé heimilt að tollafgreiða skútu án framlagðrar staðfestingar Siglingastofnunar. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í útgefið álit Ríkisskattstjóra nr. 660/94 frá 22. desember 1994 þar sem álit er gefið á hugtakinu „skemmtibátur“ en þar segir m.a.:

Í greinargerð með frumvarpi til virðisaukaskattslaga segir um 6. tölul. 12. gr.: „Samkvæmt 6. tölul. er sala og útleiga loftfara og skipa, annarra en einkaloftfara og skemmtibáta, undanþegin skattskyldri veltu. Þó að sérreglu þessari væri ekki fyrir að fara yrði engin uppsöfnun virðisaukaskatts í fjárfestingu af þessu tagi þar eð draga mætti hann frá sem innskatt. Ákvæðið kemur hins vegar í veg fyrir fjárbindingu um langan eða skamman tíma vegna skattsins sem getur verið mjög kostnaðarsöm þar sem hér er oft á tíðum um verulega fjárfestingu að ræða.

Sambærilegar reglur gilda um sölu á þessum vörum í nágrannalöndunum. Hliðstætt undanþáguákvæði er í gildandi söluskattslöggjöf og hefur upptaka virðisaukaskattsins því enga breytingu í för með sér að þessu leyti.“

Í 1. gr. reglugerðar nr. 432/1986, um söluskatt af bátum segir að bátar sem eru 6 metrar að lengd eða stærri skulu undanþegnir söluskatti enda beri bygging þeirra, fyrirkomulag, og útbúnaður með sér að þeir séu byggðir til nota í atvinnuskyni og uppfylli skilyrði Siglingastofnunar ríkisins um slíka skráningu. Jafnframt segir að af skemmtibátum skuli ætíð greiða söluskatt. Í 5. mgr. 2. gr. sömu reglugerðar segir að leiki vafi á því hvort bátur sé ætlaður til nota í atvinnuskyni beri að innheimta söluskatt af honum en hann verði þó endurgreiddur ef sannað þykir að báturinn sé notaður sem atvinnutæki.

Með vísan til framanritaðs og meðfylgjandi bréfs fjármálaráðuneytisins dags. 17. mars 1980 þykir ljóst að orðið skemmtibátur á við þá báta sem eru ekki notaðir sem atvinnutæki.

Ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 er svohljóðandi: „Sala og útleiga loftfara og skipa. Undanþága þessi nær þó ekki til skipa sem eru undir 6. metrum að lengd, skemmtibáta eða einkaloftfara.“

Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laganna skal ekki greiða virðisaukaskatt við innflutning vöru sem er undanþegin skattskyldri veltu skv. 6. tölul. 12. gr.

Ef einhver vafi leikur á því til hverra nota bátur er keyptur skal seljandi krefjast þess af kaupanda að hann staðfesti með yfirlýsingu sinni og áritun á afrit reiknings um að báturinn sé ekki keyptur til einkanota. Telja verður að sala báta/skipa til björgunarsveita og hliðstæðra aðila falli einnig undir ákvæðið enda eru slíkir bátar/skip ekki keyptir til einkanota þrátt fyrir að ekki sé um að ræða atvinnutæki í þrengstu merkingu þess orðs.

Við tollafgreiðslu á innfluttum bátum skal leggja fram staðfestingu frá Siglingamálastofnun ríkisins um stærð og gerð bátanna. Leiki vafi á því hvort bátur sé ætlaður til nota í atvinnuskyni eða það liggur fyrir að ekki er um að ræða fiskiskip, farþegaferju, björgunarbát, varðskip o.s.frv., þá ber jafnframt að fá staðfestingu innflytjanda á tollskýrslu að bátur/skip sé ekki fluttur inn til einkanota. Áréttað skal að undanþága 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 nær ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd.

Síðasta röksemd kæranda lítur að því að fella skuli niður tolla af skútunni á grundvelli uppruna vöru, sbr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005, enda liggi fyrir EUR1 upprunavottorð skútunnar. Ekki sé tekið tillit til þess í ákvörðun Tollstjóra, dags. 3. júlí 2012, að fyrir liggi umrætt upprunavottorð og því sé gerð sú krafa að Tollstjóri falli frá ákvörðun sinni um að leggja tolla á skútuna.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í málinu snýr fyrst og fremst að því hvort Tollstjóra hafi verið heimilt að innheimta virðisaukaskatt vegna innflutnings skútunnar B. Enginn ágreiningur liggur hins vegar fyrir um hvort fella skuli niður tolla af skútunni á grundvelli uppruna vöru, sbr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005, enda ljóst að við vinnslu aðflutningsskýrslu var 10% tollur af skútunni felldur niður á grundvelli EUR1 upprunavottorðs nr. 3434121, sem gefið var út af tollyfirvöldum í Hollandi. Var kæranda gerð grein fyrir þessu í bréfi dags. 17. október 2012.

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 er mælt fyrir um almenna tollskyldu á öllum varningi sem berst til landsins nema slík skylda sé sérstaklega undanþegin með lögum. Samkvæmt 5. gr. tollalaga skal greiða toll eins og mælt er fyrir í tollskrá af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins. Þá skal greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af innflutningi vöru og þjónustu, sbr. 1. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Virðisaukaskattur skal innheimtur af tollverði skattskyldrar vöru að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð.

Kærandi heldur því fram að umrædd skúta sé undanþegin greiðslu virðisaukaskatts á grundvelli 6. tl. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. 3. tl. 1. mgr. 36. gr. sömu laga þar sem um sé að ræða atvinnutæki. Samkvæmt ákvæðunum skulu loftför og skip undanþegin virðisaukaskatti við innflutning. Undanþágan nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd eða skemmtibáta. Þar sem um er að ræða undanþágu frá greiðslu lögbundinna gjalda er ákvæðið háð þröngri túlkun. Litið hefur verið svo á að einungis för sem flutt eru hingað til lands til nota í ákveðinni starfsemi eða iðnaði falli undir áðurnefnda undanþágu. Því vaknar sú spurning hvort umrædd skúta sé ætluð til nota í ákveðinni atvinnustarfsemi eða hvort um sé að ræða skemmtibát. Í áliti Ríkisskattstjóra nr. 660/94 frá 22. desember 1994 þar sem álit er gefið á hugtakinu „skemmtibátur“, og vikið hefur verið að, kemur m.a. fram að við tollafgreiðslu á innfluttum bátum skuli leggja fram staðfestingu frá Siglingamálastofnun ríkisins um stærð og gerð bátanna. Leiki vafi á því hvort bátur sé ætlaður til nota í atvinnuskyni ber að fá staðfestingu innflytjanda á tollskýrslu að bátur/skip sé ekki fluttur inn til einkanota. Umrætt álit er enn í gildi, þar sem engar lagabreytingar hafa orðið, en auk þess liggja fyrir a.m.k. tveir úrskurðir frá yfirskattanefnd þess efnis að við mat á því hvort um sé að ræða skemmtibát skuli taka mið af raunverulegri notkun viðkomandi báts, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 463/2000 og 568/2001.

Við endanlega komu hingað til lands í september 2009 skilaði kærandi ekki inn aðflutningsskýrslu eða gögnum til Tollstjóra varðandi innflutning skútunnar. Gögn málsins bera það þó með sér að það hafi ekki verið fyrr en 1. febrúar 2012 að Tollstjóri fór þess formlega á leit við kæranda að hann skilaði inn aðflutningsskýrslu og öðrum tollskjölum vegna innflutnings skútunnar í samræmi við 22. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 23. og 25. gr. sömu laga. Líkt og ítarlega er rakið í málavaxtalýsingu hér að ofan barst endanleg aðflutningsskýrsla, EUR1 upprunavottorð og samþykki Siglingastofnunar loks 18. maí 2012, eftir að nokkrir tölvupóstar og bréf höfðu gengið milli Tollstjóra og kæranda. Í þeim samskiptum var m.a. var orðið við kennitölubreytingu á innflytjanda sendingarinnar, sendingarnúmeri breytt og frestir veittir til að afla EUR1 upprunavottorðs og samþykkis Siglingastofnunar, líkt og farið hafði verið fram á af hálfu Tollstjóra, sbr. tölvupóstur til lögmanns kæranda frá 26. apríl 2012. Á umræddri aðflutningsskýrslu, sem er dags. 14. maí 2012, er tekið fram í athugasemdum að beðið sé um niðurfellingu á virðisaukaskatti þar sem nota eigi skútuna í ferðamannaiðnað og því sé hún ekki virðisaukaskattskyld. Þá liggur fyrir að Siglingastofnun hefur samþykkt skipið sem skip í siglingum fyrir allt að 12 farþega á hafsvæði „C“ samkvæmt reglugerð 666/2001, sbr. tölvupóstur þess efnis til kæranda dags. 17. apríl 2012. Frá því að ákvörðun Tollstjóra, dags. 3. júlí 2012, lá fyrir hefur umtalsvert af gögnum bæst við málið. Hér er bæði átt við gögn frá Siglingastofnun og gögn frá kæranda sjálfum, s.s. tölvupóstar milli hans og ýmissa aðila, greinargerð og samantekt um málið og aðdraganda þess að skútan var flutt inn til landsins auk samantektar úr skipsbók B þar sem lauslega er farið yfir raunveruleg not skútunnar frá endanlegri komu til Íslands í september 2009. Af þessum gögnum má ráða að ætlun kæranda hafi frá upphafi verið sú að flytja umrædda skútu inn sem atvinnutæki til notkunar í ferðamannaiðnaði. Séu öll gögn málsins skoðuð og með tilliti til álits Ríkisskattstjóra nr. 660/94 frá 2. desember 1994 og þess að Siglingastofnun hefur þegar samþykkt skútuna B sem farþegaskip verður ekki annað séð en umrædd skúta falli undir undanþágu 6. tl. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. 3. tl. 1. mgr. 36. gr. sömu laga. Er það þó áfram háð því skilyrði að skútan verði nýtt í atvinnuskyni til farþegaflutninga en að því tilefni þykir rétt að benda á skyldu Tollstjóra samkvæmt 111. gr. tollalaga til að endurákvarða aðflutningsgjöld ef í ljós kemur að þau voru ekki rétt ákvörðuð við tollafgreiðslu.

Með vísan til alls ofangreinds er niðurstaða embættis Tollstjóra sú að fallast skuli á kröfu kæranda um að skútan verði tollafgreidd án þess að á hana verði lagður virðisaukaskattur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar, skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um að hafna beiðni um niðurfellingu virðisaukaskatts vegna innflutnings á skútunni B dags. 3. júlí 2012 er felld úr gildi.

Fella ber niður virðisaukaskatt vegna innflutnings skútunnar B.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum