Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2010

Álögð aðflutningsgjöld vegna innflutnings á listaverki.

12.5.2010

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 18. febrúar 2010, hefur B hdl., fyrir hönd A, kt. C, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, þá ákvörðun Tollstjóra frá 26. janúar 2010 að vara sem flutt var inn með sendingu nr. E BRU 18 01 0 DE HAM W018 sé tollflokkuð í tollskrárnúmer 7419.9904.

Kærandi krefst þess að varan verði tollflokkuð í tollskrárnúmer (tnr.) 9703.0000 og krefst endurgreiðslu aðflutningsgjalda að fjárhæð 7.471.900,- kr. auk dráttarvaxta með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. janúar 2010 til greiðsludags.

II. Málsmeðferð

Þann 18. janúar sl. flutti kærandi inn hurð sem ætluð er fyrir D með sendingu nr. E BRU 18 01 0 DE HAM W018. Þann 22. janúar 2010 lagði kærandi inn aðflutningsskýrslu þar sem varan var tollflokkuð í tnr. 9703.0000. Samdægurs og með tölvupósti dags. 25. janúar sl. sendi embætti Tollstjóra athugasemd til kæranda þar sem honum var bent á að vöruna ætti að tollflokka í tnr. 7419.9904. Þann 26. janúar sl. var varan bráðabirgðatollafgreidd í samræmi við 36. gr. tollalaga nr. 88/2005. Þann 19. febrúar sl. barst embætti Tollstjóra kæra málsins, dags. 18. febrúar 2010.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að hurðin falli undir þær vörur sem taldar eru upp í 4. tl. 1. mgr. 36. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og sé því undanþegin virðisaukaskatti. Kærandi bendir á að hvorki fjöldaframleidd verk né handiðnarvörur með einkennum verslunarvöru falli undir tnr. 9703.0000 en hins vegar falli frumverk af höggmyndum og myndastyttum undir tnr. 9703.0000.

Í kæru málsins kemur fram rökstuðningur þess efnis að umrædd vara sé listaverk sem hafi verið búið til sérstaklega fyrir D. Verkinu er lýst ítarlega og lagðar fram ljósmyndir máli kæranda til stuðnings. Kærandi lagði einnig fram umsögn safnstjóra F og G þar sem fram kemur meðal annars rökstuðningur fyrir því að umrædd vara sé listaverk. Einnig lagði kærandi fram yfirlýsingu þýska fyrirtækisins S þar sem fram kemur að kærandi gerði hurðina í Þýskalandi og að verkið sé hans eigið verk.

Kærandi vísar til þess að tvö fordæmi séu fyrir því að listamenn hafi flutt inn hurðar sem hafi verið tollafgreiddar sem listaverk. Í framlögðu bréfi X dags. 16. febrúar 2010, greinir frá því að ekki hafi verið greidd aðflutningsgjöld af útihurð W við innflutning hennar, hurðin hafi verið steypt í brons (kopar) og flutt til landsins af listamanninum. Lögð voru fram með kæru málsins gögn frá 23. janúar 1990 um viðskipti útihurðarinnar milli myndhöggvarans P og O. Einnig er vísað til innflutnings á verki I myndhöggvara, sem gerði bronshurðir í aðalinngangi U árið X, án greiðslu aðflutningsgjalda. Kærandi vísar til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og bendir á skyldu embættisins til að gæta jafnræðis og samræmis í lagalegu tilliti. Það beri að leysa úr sambærilegum málum á grundvelli sömu sjónarmiða og áherslna og gert var við úrlausn hinna eldri mála.

Kærandi telur að málið hafi ekki verið nægilega vel upplýst þegar Tollstjóri benti kæranda á að umrædd vara væri tollflokkuð í rangt tollskrárnúmer við innflutning hennar, þar sem ekki var leitað eftir áliti kæranda á ákvörðun Tollstjóra. Kærandi telur að Tollstjóri hefði átt að óska eftir frekari gögnum áður en ákvörðun væri tekin í málinu á grundvelli rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu og bendir kærandi á 10. gr. laga nr. 37/1993 máli sínu til stuðnings. Kærandi vísaði einnig til 2. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 í því samhengi að vara kæranda sé myndlist.

Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld verði endurgreidd með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. janúar 2010 til greiðsludags.

IV. Niðurstöður

Óumdeilt er í málinu að um er að ræða hurð sem hönnuð er af listamanni, að hún sé hluti af listaverki á D og er sérhönnuð til að nota sem útihurð í aðalinngangi D. Hins vegar fer tollflokkun vara ekki eftir fagurfræðilegum forsendum heldur eftir notagildi hlutarins. Hlutverk hurðar er að loka af rými og hefur umrædd vara það notagildi og hlutverk, þrátt fyrir að vera einnig listaverk. Tollflokkun byggist á ákveðnum, formbundnum reglum. Lögbundið er að færa skal vöru til tollflokks samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar. Tollskráin er birt sem viðauki I við tollalög nr. 88/2005 og er gerð í samræmi við vörunúmeraskrá Alþjóðatollastofnunarinnar. Reglur um túlkun skrárinnar eru birtar fremst í skránni. Meginreglan er sú að tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi kafla og flokka. Einnig skal flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliða og sérhverri tilheyrandi athugasemd við undirliði skv. túlkunarreglu 6. fremst í skránni.

Koparhurðir eru ekki nefndar sérstaklega í 74. kafla tollskrárinnar en smíðavörur til bygginga eru nefndir í undirliðnum í tnr. 7419.9904. Ef litið er til 73. kafla, vörur úr járni eða stáli, eru hurðir sérstaklega nefndar þar í vörulið 7308 sem er meðal annars fyrir hluta til mannvirkja. Sama gildir um 76. kafla tollskrárinnar, vörur úr áli, þar eru hurðir sérstaklega nefndar í vöruliðnum 7610. Ekki eru hurðir nefndar í fleiri málmköflum en járn, stál og ál eru alla jafna algengustu hráefnin í hurðar fyrir utan tré. Með vísan til ofangreinds álítur embætti Tollstjóra að umrædd vara skuli tollflokkast í tnr. 7419.9904.

Í 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er kveðið á um þá meginreglu að greiða skuli í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar er ákveðið í lögunum. Í 4. tl. 1. mgr. 36. gr. virðisaukaskattslaga er hins vegar kveðið á um þá undanþágu að listaverk sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000 og listamaðurinn sjálfur flytur inn skulu undanþegin virðisaukaskatti við innflutning. Það er því ljóst að skilyrði fyrir undanþágu á greiðslu virðisaukaskatts við innflutning hafa ekki verið uppfyllt, þar sem ekki er um að ræða verk sem fellur undir þau tollskrárnúmer sem talin eru upp í 4. tl. 36. gr. laga um virðisaukaskatt.

Kærandi vísar í kæru til tveggja fordæma frá árunum 1987 og 1990 þar sem listamenn hafi flutt inn hurðar án greiðslu aðflutningsgjalda. Í framlögðu bréfi O dags. 16. febrúar 2010, segir að engin aðflutningsgjöld hafi verið greidd af útihurð R við innflutning hennar. Lögð voru fram gögn með kæru málsins, dags. 23. janúar 1990, um viðskipti útihurðarinnar milli myndhöggvarans I og R. Í kæru málsins segir að hurðin hafi verið steypt í brons (kopar) og flutt til landsins af listamanninum. Einnig er vísað til innflutnings á verki K myndhöggvara sem gerði bronshurðir í G og flutti inn án greiðslu aðflutningsgjalda. Kærandi vísar til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og bendir á skyldu embættisins til að gæta jafnræðis og samræmis í lagalegu tilliti. Það beri að leysa úr sambærilegum málum á grundvelli sömu sjónarmiða og áherslna og gert var við úrlausn hinna eldri mála.

Í fyrsta lagi leggur kærandi ekki fram fullnægjandi gögn þess efnis að ofangreindar vörur hafi verið tollafgreiddar án greiðslu aðflutningsgjalda en ekki voru lagðar fram aðflutningsskýrslur sem staðfestu þá fullyrðingu.

Í öðru lagi þá er því ekki svo farið að allar þær vörur sem gerðar eru af listamönnum flokkist í

97. kafla tollskrárinnar. Í úrskurði nr. 11/2009 þá úrskurðaði embætti Tollstjóra að steindur gluggi til notkunar í kirkju, sem hannaður var og fluttur inn af listamanni, skyldi ekki flokkaður í 97. kafla sem listaverk heldur í 70. kafla sem gluggi. Úrskurðurinn var staðfestur af ríkistollanefnd með úrskurði nr. 4/2009. Í úrskurði ríkistollanefndar segir meðal annars:

Ekki er gerður greinamunur á, hvort um sé að ræða eitt sérsmíðað og úthugsað verk, eða hvort að um sé að ræða verksmiðjuframleiddan blýgreyptan glugga. Tollskráin er lög eins og réttilega er bent á í úrskurði tollstjóra og ber að flokka vöru samkvæmt áðurnefndum túlkunarreglum hennar.“ Eins og kærandi bendir á þá ber embættinu að leysa úr sambærilegum málum á grundvelli sömu sjónarmiða og áherslna og gert var við úrlausn hinna eldri mála. Embættinu ber að líta til fyrrnefnds fordæmis, sem jafnframt er nýjasta fordæmið í sambærilegu máli, við úrlausn málsins.

Í þriðja lagi þá eru þau fordæmi sem kærandi bendir á 20 og 23 ára gömul. Á þeim tíma sem málin voru til afgreiðslu og til dagsins í dag hefur bæði tollskránni, lögum um virðisaukaskatt og tollalögum verið margsinnis breytt. 36. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 hefur fjórum sinnum verið breytt með lagabreytingu, nú síðast með 21. gr. laga nr. 104/2000, um breyting á lögum um álagningu gjalda á vörur. Núgildandi tollalög nr. 88/2005 tóku gildi 1. janúar 2006 og er tollskráin birt sem viðauki I við tollalögin.

Kærandi lagði fram gögn þess efnis að hann hefði flutt inn ýmiskonar listaverk, þ.e. glerskúlptúr, bronsskúlptúr, glerskúlptúr og glermálverk án greiðslu aðflutningsgjalda. Í þeim tilvikum áleit embættið að um væri að ræða listaverk sem tollflokkuðust í tnr. 9703.0000.

Kærandi gerir einnig athugasemdir við málsmeðferð Tollstjóra við töku kærðrar ákvörðunar. Kærandi telur að Tollstjóri hefði átt að óska eftir frekari gögnum áður en ákvörðun væri tekin í málinu. Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um andmælarétt, segir að aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í þessu tilfelli lá fyrir afstaða kæranda til tollflokkun vörunnar. Þar að auki lék enginn vafi á því að um hurð væri að ræða og því ekki þörf á því að óska frekari gagna í málinu. Eins og áður segir fer tollflokkun vara eftir notagildi hluta ekki fagurfræðilegum forsendum. Embættinu ber skylda til að tollflokka vörur í samræmi við texta tollskrár, túlkunarreglur tollskrár og önnur viðurkennd lögskýringargögn eins og gert var í þessu tilviki.

Niðurstaða embættis Tollstjóra er, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun Tollstjóra um að tollflokka vöru sem flutt var inn með sendingu nr. E BRU 18 01 0 DE HAM W018 í tnr. 7419.9904 er staðfest.

Beiðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa við afgreiðslu málsins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um að tollflokka vöru sem flutt var inn með sendingu E BRU 18 01 0 DE HAM W018 í tnr. 7419.9904 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum