Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2012

Ákvörðun um tollverð póstsendingar og gjafafríðindi einstaklinga

22.3.2012

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 4. janúar 2012, hefur S, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra um áætluð verðmæti póstsendingar með sendingarnúmerinu PISO 30121 IS R38 0587.

Kærandi krefst þess að uppgefið verðmæti á aðflutningsskjölum verði metið sem tollverð og að þar sem um gjöf sé að ræða eigi gjafafríðindi tollalaga og reglugerðar nr. 630/2008 að koma til frádráttar álögðum gjöldum.

II. Málsmeðferð

Þann 30. desember 2011 kom hingað til lands póstsending með sendingarnúmerinu PISO 30121 IS R38 0587, sem innihélt 8 pakka af FocusUP (12 stk. í hverjum pakka, alls 96 bréfapakkningar). Um er að ræða íþrótta eða orkudrykk í duftformi sem blandaður er í vatn fyrir notkun. Þann 3. janúar 2012 vitjaði kærandi sendingarinnar hjá afgreiðslu Íslandspóst að Stórhöfða 32, Reykjavík. Verðmæti sendingarinnar samkvæmt meðfylgjandi reikningi var að fjárhæð 20 USD, en Tollstjóri mat að raunvirði sendingarinnar væri að fjárhæð 232 USD, sbr.

14. gr. tollalaga. Kærandi greiddi álögð gjöld samkvæmt áætluðu tollverði Tollstjóra, að fjárhæð 8.879 ISK. Ákvörðun Tollstjóra um áætlun tollverðs ofangreindrar sendingar var kærð með bréfi kæranda dags. 4. janúar 2012. Tollstjóri óskaði þá eftir frekari skýringum og upplýsingum um framlagðan reikning með bréfi dags. 26. janúar sl. og var upphaflega frestur veittur til að verða við því til 9. febrúar sl. Var sá frestur tvívegis framlengdur en gögn bárust frá kæranda þann 4. mars sl. með tölvupósti.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að umræddur pakki hafi verið jólagjöf frá aðstandendum í Bandaríkjunum. Uppgefið verðmæti pakkans hafi verið 20 USD og hann verið merktur sem gjöf á fylgimiða sem límdur var á pakkann. Hins vegar nam áætlað tollverð á innihald pakkans 232 USD. Þannig hafi tollverð pakkans verið í íslenskum krónum að fjárhæð 28.626,48 kr. og af þeirri fjárhæð reiknast aðflutningsgjöld kr. 8.879.- Kærandi greiddi þá fjárhæð hjá Íslandspósti til að fá pakkann afhentan.

Kærandi fer fram á að tollverð pakkans verði uppgefið verðmæti, eða 20 USD.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Undantekningar frá meginreglunni er m.a. að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt.

Tollverð er viðskiptaverð vara, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 15. gr., sbr. 14. gr. tollalaga.

Telji Tollstjóri ástæðu til að draga í efa eða staðreyna sannleiksgildi upplýsinga er fram koma á tollskýrslu eða fylgiskjölum um viðskiptaverð vöru og önnur þau atriði sem um ræðir í 14. gr. tollalaga og þess sem bæta skal við tollverði samkvæmt ákvæðum 15. gr. tollalaganna, getur hann krafið þann sem ábyrgð ber á viðkomandi upplýsingum, sbr. VIII. kafla laganna, um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því, að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint, sbr. 1. máls. 56. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru. Þá segir ennfremur í ákvæðinu að dragi Tollstjóri sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverðið í efa, þrátt fyrir framkomnar skýringar eða gögn eða ef frekari skýringa eða gögn eru ekki látin Tollstjóra í té innan hæfilegs frests, verður viðskiptaverð vöru ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs. Ákvörðun um tollverð fer þá eftir ákvæðum 57. - 62. gr. reglugerðarinnar, sbr. og 115. gr. tollalaga.

Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 skal tollverð vera viðskiptaverð sams konar vara sem seldar hafa verið og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma sé ekki hægt að ákvarða tollverð vöru skv. 14. gr. tollalaga. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að þegar ákvæðum þessarar greinar sé beitt, skuli við ákvörðun tollverðs nota viðskiptaverð sams konar vara við sölu á sama viðskiptastigi og í sem næst sama magni og varan sem verið er að virða.

Sendingin innihélt orkudrykki í duftformi en um var að ræða 96 bréfapakkningar. Á meðfylgjandi reikningi kom fram að viðskiptaverð innihalds varanna væri að samtölu fjárhæð 21.25 USD. Embætti Tollstjóra telur að fyrrgreindur reikningur þyki ekki fullnægjandi þar sem upplýsingar skorti um m.a. hvaðan varan er komin eða hver sé seljandi vörunnar. Þá er það verð sem fram kemur mun lægra en það viðskiptaverð sem almennt gengur á innkaupsstað fyrir sömu vöru og Tollstjóri hefur kynnt sér. Tollstjóri gaf kæranda tækifæri á að veita frekari skýringar á ofangreindum ágöllum vörureikningsins með bréfi dags. 26. janúar sl. Upphaflega var kæranda veittur frestur til að verða við þessu til 9. febrúar sl. Sá frestur var tvívegis framlengdur, en Tollstjóra barst gögn frá kæranda með tölvupósti dags. 4. mars sl. Embætti Tollstjóra telur að framlögð gögn séu ekki til þess fallinn að hnekkja skuli fyrra mati um ákvörðun tollverðs dags. 30. desember 2011.

Kærandi fullyrðir einnig að umrædd sending hafi innihaldið jólagjöf frá aðstandendum í Bandaríkjunum. Um tollívilnun vegna tækifærisgjafa er fjallað í a- lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Þar kemur fram að tækifærisgjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa meðferðis frá útlöndum vegna tilefna sem tengjast einkalífi, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar, séu undanþegnar aðflutningsgjöldum, enda sé verðmæti þeirra að hámarki kr. 10.000.- miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Sé verðmæti meira skal reikna aðflutningsgjöld af því verðmæti sem er umfram þá fjárhæð. Um er að ræða undantekningu á almennri tollskyldu og í samræmi við viðurkennda lögskýringarreglu skulu allar undanþágur frá almennum reglum skatta- og tollalaga túlkaðar þröng og hefur þeirri reglu verið fylgt í tollframkvæmd.

Hugtakið tækifærisgjöf er ekki sérstaklega skilgreint í tollalögum eða reglugerð nr. 630/2008. Tollstjóra er því falið að leggja mat á það hvaða tegundir vara geta talist til tækifærisgjafa sem veitir einstaklingum undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda með hliðsjón af öðrum skilyrðum gjafafríðinda til handa einstaklingum. Tollstjóri byggir mat sitt á þeirri rótgrónu og viðurkenndri venju að undanþágur tolla- og skattalaga séu háðar þröngri túlkun og að ríkar kröfur séu gerðar til þess að öllum skilyrðum fyrir undanþágu greiðslu aðflutningsgjalda séu uppfyllt. Gert er ráð fyrir því að um sé að ræða gjöf frá einum einstaklingi til annars sem gefin er vegna sérstaks tilefnis í einkalífi viðkomandi, s.s. vegna jóla, afmælis eða fermingar, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Vara sem fellur utan þess sem almennt getur talist til gjafar vegna sérstaks tilefnis í einkalífi fellur þannig fyrir utan ramma gjafaákvæða tollalaga og reglugerðar nr. 630/2008, enda byggir slíkt mat Tollstjóra á málefnalegum sjónarmiðum.

Embætti Tollstjóra metur það svo eftir skoðun á vörunni og með vísan í staðreyndir málsins, að orkudrykkur í duftformi líkt og hér um ræðir geti ekki talist til tækifærisgjafa í skilningi a- liðar 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Verður því ekki fallist á kröfur kæranda um fríðindameðferð á grundvelli áðurnefndra ákvæða.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um áætlun tollverðs póstsendingar með sendingarnúmerinu PISO 30121 IS R38 0587, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum