Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2013

Ákvörðun tollverðs og álagning aðflutningsgjalda á póstsendingu

29.4.2013

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2013, hefur L, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra frá 4. febrúar 2013 um ákvörðun tollverðs og álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingu nr. P 150 28 01 3 IS E02 7549.

Kærandi krefst leiðréttingar á tollmeðferð vörusendingarinnar og endurgreiðslu álagðra aðflutningsgjalda.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 28. janúar sl. barst hingað til lands póstsending nr. P 150 28 01 3 IS E02 7549 sem innihélt ýmsar vörur, s.s. vítamín, fæðubótaefni og olíur. Á reikningi sem fylgdi sendingunni var hluti varanna skilgreindur sem „promo“ og hafði kærandi ekki greitt fyrir þær vörur skv. reikningi. Tilskilin gjöld voru lögð á vörur póstsendingarinnar, sem og umræddar „promo“ vörur, við komu hingað til lands. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda var kærð með bréfi kæranda, dags. 8. febrúar 2013. Tollstjóri óskaði frekari gagna með tölvupósti til kæranda þann 5. mars 2013. Þann 20. mars sl. barst Tollstjóra tölvupóstur frá kæranda en þar komu fram frekari röksemdir kæranda í málinu auk upplýsinga frá kæranda þess efnis að frekari gögn yrðu ekki lögð fram.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur sig ekki eiga að greiða álögð aðflutningsgjöld af „promo“ vörum póstsendingar nr. P 150 28 01 3 IS E02 7549 þar sem um hafi verið að ræða kaupauka og verðgildi þeirra sé í raun innifalið í sendingunni og verði annarra vara sendingarinnar. Í kæru kemur fram að við tollmeðferð hafi verðmæti kaupaukanna verið metið af Tollstjóra sem leitt hafi til þess að verðgildi sendingarinnar hafi hækkað úr 261,24 evrum í 355,52 evrur og aukin gjöld lögð á samkvæmt því. Kærandi telur að greitt hafi verið heildarverð fyrir alla sendinguna og eðlilegt sé að greiða virðisaukaskatt af þeirri fjárhæð, þ.e. af 261,24 evrum.

Þá telur kærandi að ekki hafi verið heimilt af hálfu Tollstjóra að miða við að sendingin væri verðmætari en sem nemur því verði sem greitt var fyrir hana og mótmælir því að kaupaukarnir sem fylgdu sendingunni séu metnir til verðs. Því til stuðnings vísar kærandi m.a. í þann skilning sem lagður hefur verið í kaupbæti í íslenskum viðskipta- og neytendarétti. Það leiði af 20. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 160/2009 um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir að ekki má lýsa vöru með orðunum „ókeypis“, „frítt“, eða „án endurgjalds“ ef greiða þarf eitthvað annað en óhjákvæmilegan kostnað við að fá slíkan hlut afhendan. Vísar kærandi auk þess í dóm Hæstaréttar nr. 347/1990 máli sínu til stuðnings þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að auglýsa að „ókeypis“ filma fylgdi framköllun þar sem filman var ekki afhend án endurgjalds. Er það mat kæranda að sömu sjónarmið eigi við varðandi póstsendingu nr. P 150 28 01 3 IS E02 7549 því þar hafi sá kaupbætir sem afhentur var með vörum meðfylgjandi reiknings ekki verið afhentur án endurgjalds. Kveður kærandi að fyrir liggi að tilskilin gjöld hafi verið greidd af vörunum og þau gjöld hefðu verið lægri ef ekki væri fyrir kaupbætinn enda hefði heildarverð reikningsins þá verið lægra.

Að lokum kemur fram í kæru að reikningur vegna sendingarinnar sýni þær vörur sem skilgreindar eru sem kaupbætir og þó vörutegundir komi fram með verðgildi 0 kr. á reikningi sé verðgildi þeirra í raun innifalið í sendingunni og verði annarra vara í sendingunni.

Í tölvupósti frá kæranda, dags. 20. mars 2013 ýjar kærandi að því að umrædd vara sé sýnishorn en í tölvupóstinum kemur fram að samkvæmt a-lið 11. tl. 6. gr. tollalaga séu sýnishorn verslunarvöru og auglýsingaefni tollfrjálst enda sé verðmæti sendingarinnar óverulegt.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 er mælt fyrir um almenna tollskyldu á öllum varningi sem berst til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota nema annað sé tekið fram í tollskrá eða slík skylda sé sérstaklega undanþegin með lögum. Samkvæmt 5. gr. tollalaga skal greiða toll eins og mælt er fyrir um í tollskrá af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins. Innheimta ber virðisaukaskatt af öllum innflutningi með aðflutningsgjöldum, sbr. 1. og 34. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins.

Álagning virðisaukaskatts byggir á tollverði sem ákvarðast af viðskiptaverði vöru eða þjónustu samkvæmt framlögðum reikningum sem fylgja vöru við innflutning hverju sinni að viðbættum aðflutningsgjöldum og öðrum kostnaðarliðum, sbr. 14. og 15. gr. tollalaga. Sömu sjónarmið koma fram í 52. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru. Í ákvæðinu kemur þó skýrt fram að verði tollverð ekki ákvarðað á grundvelli viðskiptaverðs, skuli það ákvarðað skv. 57. – 62. gr. reglugerðarinnar. Hið sama gildi þegar ekkert er greitt fyrir vöru eða greiðsla er einungis til málamynda, sbr. 2. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar. Við ákvörðun tollverðs á þeim vörum er þetta mál lýtur að, þ.e. á hinum svokölluðu „promo“ vörum, bar Tollstjóra að ákvarða tollverð samkvæmt 57. – 62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 enda báru reikningarnir sem lágu til grundvallar það skýrt með sér að ekkert hafi verið greitt fyrir umræddar „promo“ vörur. Sú fullyrðing kæranda að tilskilin gjöld hafi verið greidd af vörunum og ef ekki hefði verið fyrir kaupaukann hefði heildarverð reikningsins verið lægra hefur hins vegar ekki verið studd neinum gögnum. Byggði Tollstjóri því ákvörðun um tollverð þeirra á viðskiptaverði sams konar vara, sbr. 57. gr. reglugerðarinnar en við þá ákvörðun var m.a. notast við UK Wholesale Price List janúar 2012 og European Distribution Wholesale Price list.

Ágreiningur í máli þessu lítur aðallega að því hvort vörur fyrrgreindrar sendingar, sem á reikningi eru merktar „promo“ vörur að verðgildi 0 kr., skuli vera undanþegnar aðflutningsgjöldum og virðisaukaskatti á þeirri forsendu að um sé að ræða kaupauka og verðgildi þeirra sé í raun innifalið í sendingunni og verði annarra vara sendingarinnar. Líkt og að ofan greinir er meginreglan sú að greiða skal aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu eru háðar þröngri túlkun og ríkar kröfur gerðar til þess að skilyrðum þeirra sé ótvírætt fullnægt. Byggir það sjónarmið á mikilvægi þess að við framkvæmd laga sé gætt að því að jafnræði sé með borgurunum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Liður í því er að láta reglur gilda með sama hætti um alla, nema ótvírætt megi telja að undanþáguákvæði eigi við. Með vísan til þess og rótgróinnar stjórnsýsluframkvæmdar er það mat embættis Tollstjóra að skilyrði fyrir undanþágu verði því tvímælalaust að vera uppfyllt. Í 6. og 7. gr. tollalaga er að finna undanþágur frá almennri tollskyldu. Þá er í 36. gr. virðisaukaskattslaga taldar upp þær vörur sem undanþegnar skulu virðisaukaskatti við innflutning. Þegar þessi ákvæði eru skoðuð er ljóst að hvorki í tollalögum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra laga né í lögum um virðisaukaskatt er að finna ákvæði sem mæla fyrir um að þær „promo“ vörur líkt og hér um ræðir skuli undanþegnar aðflutningsgjöldum og/eða virðisaukaskatti.

Að lokum má skilja á tölvupósti, dags. 20. mars. 2013, að kærandi telji að umræddar „promo“ vörur séu sýnishorn sem eigi að vera undanþegin aðflutningsgjöldum, sbr. a-lið 11. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga. Þar kemur fram að sýnishorn verslunarvara og auglýsingaefnis skuli vera tollfrjáls, enda sé verðmæti sendingar óverulegt. Jafnframt skulu vera tollfrjáls sýnishorn verslunarvara sem gerð hafa verið ónothæf sem almenn verslunarvara. Í reglugerð nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi hafa verið sett skilyrði fyrir tollfrelsi, m.a. skv. 6. gr. tollalaga, sbr. reglugerðarheimild í 2. mgr. 6. gr. laganna. Í 1. tl. 1. mgr. 41. gr. reglugerðarinnar kemur fram að sýnishorn verslunarvara, þó ekki áfengi eða tóbak, og auglýsingaefnis, að verðmæti allt að kr. 5.000 séu undanþegin aðflutningsgjöldum við innflutning enda beri sendingin með sér að um sé að ræða sýnishorn vöru. Þó skal slík vara vera undanþegin aðflutningsgjöldum þótt uppgefið verðmæti sé meira, hafi varan verið gerð ónothæf sem almenn verslunarvara. Ekki verður séð að umrædd vara geti talist sýnishorn verslunarvara eða auglýsingaefnis enda hefur kærandi engin frekari rök fært fyrir því að svo sé. Þannig er ekki annað hægt að ráða af kærunni en að viðtakandi sé endanotandi vörunnar. Þá verður ekki séð að varan beri annað yfirbragð en sú vara sem kærandi greiddi fullt verð fyrir og er t.d. magn hverrar „promo“ vöru hið sama og hverrar vöru sem greitt var fyrir. Er því ekki fallist á að um sýnishorn sé að ræða. Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði til undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt 6. og 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 og greiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 36. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 ekki uppfyllt. Ákvörðun Tollstjóra um ákvörðun tollverðs og álagningu aðflutningsgjalda, dags. 4. febrúar 2013, skal því standa óbreytt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar, skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun tollverðs og álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingu nr. P 150 28 01 3 IS E02 7549, dags. 4. febrúar 2013, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Virðingarfyllst,

f.h. Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum