Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2018

Tollflokkun á gufukyntum sjóðara

16.6.2020

Reifun 

M kærði til úrskurðar skv. 117. gr. tolllaga ákvörðun Tollstjóra um að hafna leiðréttingu á tollskrárnúmeri vegna innflutnings á gufusjóðara. Mótmælti M að tollflokkun Tollstjóra sem m.a. leiddi til álagningu úrvinnslugjalds á raf- og rafeindartæki.

Niðurstaða: Um er að ræða sjóðara af gerðinni Myre BIK-230H. Tækið sýður fiskiafurðir með gufu sem er framleidd í öðru tæki. Suðan fer fram í tromlu sem er snúið með rafmagnsmótor. Tækið fær gufu frá gufukatli til að sjóða afurðirnar sem í tromlunni eru og því er gufuketillinn að þjóna tækinu. Suðutæki á borði við umrætt tæki flokkast í vörulið 8419, sem er vöruliður fyrir vélbúnað, til vinnslu á efnum með aðferðum sem fela í sér hitabreytingu, svo sem suðu. Nánar til tekið flokkast tækið í tollskrárnúmer 8419.8909 með hliðsjón af túlkunarreglum 1 og 6. Á þessu tollskrárnúmeri hvíla gjöld í samræmi við lög nr. 162/2002,um úrvinnslugjald. Engar undantekningar er að finna í lögunum til að fella niður þetta gjald þó aðeins lítill hluti heildarþyngdar tækisins fari undir rafmagnsvélbúnaðinn.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R 

I. Kæra 

Með bréfi dags. 3. Janúar sl. hafa M. kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 66/2005, ákvörðun Tollstjóra, dags. 13. Desember 2017, um að hafna leiðréttingu á tollskrárnúmeri vegna innflutnings á gufusjóðara. 

II. Málsmeðferð 

Umrætt ræki var flutt inn til landsins þann 21. Nóvember 2017. Þann 4. Desember var send inn umsókn um afgreiðslu tvö af hálfu innflytjanda. Var þá óskað eftir því að umrædd vara færi í tollskrárnúmer 8404.1009, í stað 8419.8909. Erindinu var svarað með athugasemd frá Tollstjóra dags. 13. Desember 2017. Ákvörðun er kærð með bréfi dags. 3. Janúar 2018. 

III. Meginröksemdir kæranda 

Í kærunni kemur fram að um sé að ræða gufukyntan sjóðara með einum 11 kw drif gírmótor og er það það eina sem tengist rafmagni í tækinu. Mótmælt er eindregið tollflokkun sem leiðir til úrvinnslugjalds á raf- og rafeindatæki þar sem slík gjaldtaka geti ekki átt við. Tollskráin virðist ekki hafa fullnægjandi skilgreiningu á gufukyntum sjóðara. 

Fer kærandi fram á að gerð verði undanþága vegna eðli vörunnar frá tollskrárnúmerinu 8419.8909 sem notað var við tollskýrslugerðina, og þess í stað flokkist tækið í 8404-1009. Samkvæmt kærunni er það tollskrárnúmer sem V ehf. hefur notað með sambærileg tæki í marga áratugi, bæði innanlands og erlendis. Fram kemur einnig að sjóðarinn verði að öllum líkindum seldur úr landi aftur og því sé raf- og rafeinda úrvinnslugjald enn frekar óviðeigandi. 

IV. Niðurstöður 

Um er að ræða sjóðara af gerðinni Myre BIK-230H. Tækið sýður fiskiafurðir með gufu sem er framleidd í öðru tæki. Suðan fer fram í tromlu sem er snúið með rafmagnsmótor. Innflytjandi vill að tækið verði flokkað í vörulið 8404.1009 en það númer er fyrir aukavélakost við vatnsgufukatla. Að öðru leyti telur innflytjandi það ekki réttlætanlegt að tækið skuli bera úrvinnslugjald á raftæki vegna þess að í því er einungis mótorinn sem er rafmagnstæki. Tollstjóri getur ekki fallist á tollflokkun innflytjanda. 

Varðandi tollflokkunina þá er tækið ekki aukatæki fyrir gufukatla eins og þau sem falla í vörulið 8404. Með slíkum tækjum er átt við tæki sem þjónusta gufuketilinn með einum eða öðrum hætti, t.d. forhitarar fyrir gufukatla. Þetta tæki fær gufu frá gufukatli til að sjóða afurðirnar sem í tromlunni eru og því er gufuketillinn að þjóna tækinu. Suðutæki á borði við umrætt tæki flokkast í vörulið 8419, sem er vöruliður fyrir vélbúnað, til vinnslu á efnum með aðferðum sem fela í sér hitabreytingu, svo sem suðu. Nánar til tekið flokkast tækið í tollskrárnúmer 8419.8909 með hliðsjón af túlkunarreglum 1 og 6. Á þessu tollskrárnúmeri hvíla gjöld í samræmi við lög nr. 162/2002,um úrvinnslugjald. Engar undantekningar er að finna í lögunum til að fella niður þetta gjald þó aðeins lítill hluti heilarþyngdar tækisins fari undir rafmagnsvélbúnaðinn. Tollstjóri er ennfremur bundinn af jafnræðisreglunni við úrlausn mála. Í því felst að sambærileg mál skuli fá sambærilega úrlausn. 

Með vísan til tollflokkunar á tækjum V ehf. réttlætir röng framkvæmd ekki áframhaldandi ranga framkvæmd. Ávallt skal tollflokka vörur í það númer sem þá á best heima, óháð því hvernig samsetning tækisins er og í samræmi við túlkunarreglur tollskrárinnar. Tollstjóri hefur þó í lögum heimild til að endurskoða innflutning 6 ár aftur í tímann og er sú heimild m.a. tilkomin til að Tollstjóri geti leiðrétt rangar tollflokkanir við innflutning. 

ÚRSKURÐARORР

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum að ákvörðun Tollstjóra, dags. 13. Desember 2017, um að hafna leiðréttingu á tollskrárnúmeri vegna innflutnings á gufusjóðara, er staðfest.

Kæruréttur 

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga. Virðingarfyllst, f.h. Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum