Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 5/2014

Krafa um endurgreiðslu oftekinna gjalda

24.7.2014

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 11. apríl 2014, hefur A, fyrir hönd X., kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, innheimtu úrvinnslugjalds af mótaolíu. Kærandi telur að gjaldtökuheimild 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, sé ólögmæt og krefst endurgreiðslu úrvinnslugjalda af umræddum sendingum.

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags 11. apríl 2014, sem barst Tollstjóra ásamt fylgigögnum þann 15. sama mánaðar, óskaði kærandi þess að Tollstjóri endurgreiddi oftekin gjöld. Tollstjóri sendi umboðsmanni kæranda tölvupóst þann 15. apríl þar sem tilkynnt var að litið yrði á kröfu kæranda sem kæru skv. 117. gr. tollalaga og færi málsmeðferð eftir ákvæðum tollalaga. Þann 12. maí óskaði Tollstjóri eftir innihaldslýsingu vegna olíunnar og bárust Tollstjóra svör þann 27. júní 2014. Gögnin þóttu ekki nægilega skýr og ákváðu starfsmenn Tollstjóra því að fara í vöruskoðun til fyrirtækisins þann 15. júlí 2014.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur gjaldtökuheimild Tollstjóra ólögmæta. Kærandi vísar þar til 3. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, þar sem fram kemur að tilgangur úrvinnslugjalds sé að stuðla að úrvinnslu úrgangs og að gjaldið skuli standa undir nánar tilteknum kostnaði. Þá segir í 1. mgr. 4. gr. sömu laga að úrvinnslugjald skuli taka mið af áætlun um kostnað við úrvinnslu.

Kærandi tekur fram að sú vara sem um ræðir sé mótaolía og sé henni sprautað í steypumót í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að steypa festist í mótin. Eftir það gufi hún upp og verði eftir í steypunni. Olían eyðist þannig við notkun og kemur ekki til endurvinnslu.

Í röksemdum kæranda er vísað til nefndarálits meirihluta umhverfisnefndar vegna frumvarps til laga um úrvinnslugjald þar sem fram kemur að markmiðið með úrvinnslugjaldi sé að standa undir þeim kostnaði sem fellur til við úrvinnslu þess úrgangs sem af viðkomandi vöru leiðir. Þá bendir kærandi á að í téðu nefndaráliti komi fram að um skatt sé að ræða en ekki þjónustugjald. Kærandi vísar til 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og byggir á því að svo að unnt sé að innheimta skatt verði að liggja fyrir skýr skattlagningarheimild.

Telur kærandi að skattlagningarheimild 2. tl. 1. mgr. 8. gr. laga um úrvinnslugjald taki einungis til þeirra vara sem krefjast tiltekinnar úrvinnslu úrgangs og nái því ekki til olíu sem leiðir ekki af sér úrgang, þar sem hvorki komi til meðhöndlunar á úrgangsolíu af hálfu Úrvinnslusjóðs vegna hennar, né kostnaðar af þeim sökum. Að mati kæranda skortir Tollstjóra af þessum sökum skattlagningarheimild til þess að innheimta umrædd gjöld.

Kærandi bendir á að úrvinnslugjald leggist á vörur en ekki umbúðir. Áréttar kærandi að úrvinnslugjaldi sé ætlað að standa straum af kostnaði við úrvinnslu úrgangs og að þess sé ekki þörf í tilviki kæranda.

Til vara byggir kærandi á því að þar sem olían verði eftir í steypunni teljist hún hafa blandast umræddri steypu í skilningi 2. mgr. 3. gr. laga um úrvinnslugjald, með þeim afleiðingum að þar sem úrvinnslugjald hafi þegar verið greitt af steypunni þurfi ekki að greiða það af olíunni.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýr að því hvort leggja skuli úrvinnslugjald á olíu þá sem kærandi flytur inn. Úrvinnslugjald leggst á tiltekna vöruflokka, s.s. olíuvörur, lífræn leysiefni og málningu, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um úrvinnslugjald, annað hvort við innflutning eða við framleiðslu þeirra hér á landi, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Er gjaldinu ætlað að skapa skilyrði fyrir aukinni endurnýtingu og endurnotkun úrgangs líkt og kemur fram í athugasemdum við frumvarp til laga um úrvinnslugjald. Úrvinnslugjaldinu er ætlað að standa undir úrvinnslu afganga af vörum, t.d. olíum, sem í viðaukum laganna er að finna.

Ýmsar vörur bera úrvinnslugjald í tilfellum þar sem mestur hluti vörunnar kemur ekki til úrvinnslu heldur er notaður, sbr. t.d. úrvinnslugjald á viðarvörn í tollskrárnúmeri 3208.1003, sem ber úrvinnslugjald skv. viðauka VIII við lög um úrvinnslugjald. Kemur þetta til vegna þess að tilgangurinn með úrvinnslugjaldi er að greiða fyrir úrvinnslu þess hluta af vöru, þ.e. afgangsins, sem er skilað á úrvinnslustöð.

Kærandi byggir á því að skattlagningarheimildina skorti lagastoð. Tollstjóri hafnar þeim rökum enda byggir álagning og innheimta úrvinnslugjalds á settum lögum. Álagningin er bundin við tollskrárnúmer og er í samræmi við flokkunarreglur tollalaga, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um úrvinnslugjald. Þannig segir í viðauka IV við lög um úrvinnslugjald að leggja skuli gjaldið á þau tollskrárnúmer sem síðan eru upptalin. Í þeirri upptalningu kemur tollskrárnúmerið 2710.1959 fram. Olían sem um ræðir er réttilega tollflokkuð í tollskrárnúmer 2710.1959. Skýr lagaheimild er því fyrir álagningu gjaldsins á umræddar vörur.

Kærandi tekur fram í rökstuðningi sínum að tilgangur laga um úrvinnslugjald, skv. nefndaráliti, hafi einungis verið að standa straum að kostnaði sem til fellur vegna úrvinnslu úrgangs. Lögin eru hins vegar almenn um að gjaldið skuli greitt af þeim vörum sem falla undir viðauka IV við lög um úrvinnslugjald og skuli þar ekki leggja gjaldið á miðað við endanlega notkun þeirra vara. Í eðli sínu er því úrvinnslugjald skattur, líkt og kærandi tekur fram. Skatturinn sem um ræðir er almennur á umræddar vörur sem eiga það sameiginlegt að brotna illa í náttúrunni og er það mat löggjafans að ríkið sé samfélagslega skuldbundið til að farga og endurvinna þessar vörur með réttum hætti. Allir þeir sem vinna með þessar vörur, hvort sem um er að ræða framleiðslu hér á landi eða innflutning, bera kostnaðinn óháð notkun, enda um almennan skatt að ræða en ekki þjónustugjald.

Kærandi benti í kæru á að úrvinnslugjald legðist á vörur, en ekki umbúðir. Áréttaði kærandi að úrvinnslugjaldi væri ætlað að standa straum af kostnaði við úrvinnslu úrgangs og að þess væri ekki þörf í tilfelli kæranda. Það er rétt sem kærandi bendir á og fram kemur hér að ofan, að úrvinnslugjald leggst á tiltekna vöruflokka eins og sjá má í viðaukum við lög um úrvinnslugjald og eru olíuvörur þar eitt dæmi. Úrvinnslugjald leggst þó einnig á umbúðir, t.d. pappírs- og plastumbúðir sbr. 7. gr. a. laga nr. 162/2002 um úrvinnslugjald.

Til vara byggði kærandi á því að þar sem olían yrði eftir í steypunni teldist hún hafa blandast umræddri steypu í skilningi 2. mgr. 3. gr. laga um úrvinnslugjald og því þyrfti ekki að greiða úrvinnslugjald af olíunni. Málsgreinin sem kærandi vísar til tekur til þess þegar vörur, sem almennt bera ekki úrvinnslugjald, blandast við úrvinnslugjaldsskylda vöru. Sem dæmi má nefna er þegar vatn, sem ekki ber úrvinnslugjald, hefur blandast olíu í kili skips. Með þeim hætti stendur úrvinnslugjald af olíu einnig undir kostnaði við úrvinnslu hins olíublandaða vatns. Ákvæðinu er ekki ætlað að hafa þau áhrif að hafi verið greitt úrvinnslugjald af einni vöru sem blandast við aðra sem jafnframt ber úrvinnslugjald, þá sé viðkomandi sjálfkrafa undanþeginn skyldu til greiðslu úrvinnslugjalds af þeirri síðari. Þess má svo til viðbótar geta, að steypa, eða sement, ber ekki úrvinnslugjald heldur einungis gjöld af pappírs- og plastumbúðum.

Að lokum skal árétta að það er ekki hlutverk Tollstjóra að leggja mat á réttmæti laga heldur fer álagning gjalda eftir þeim lögum sem í gildi eru hverju sinni. Tollstjóri vill benda kæranda á að mögulegt er að gera tillögu til Úrvinnslusjóðs um breytingu á álagningu úrvinnslugjalds séu haldbær rök fyrir því fyrir hendi. Fer málsmeðferð þá eftir 4. mgr. 17. gr. laga um úrvinnslugjald.

Með vísan til ofangreinds telur Tollstjóri ekki mögulegt að endurgreiða álögð úrvinnslugjöld af sendingum til kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um innheimtu úrvinnslugjalds af sendingum kæranda er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Bríetartúni 7, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum