Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 5/2019

Höfnun leiðréttingar þriggja aðflutningsskýrslna

6.6.2019

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um höfnun leiðréttingar aðflutningsskýrslna vegna innflutnings þriggja bifreiða í júlí 2018. 

Heimildarnúmer bílaleigunnar B var notað við tollafgreiðslu bifreiðanna þann 28. desember 2018 en þann 5. mars. 2019 óskaði kærandi A eftir að heimildarnúmer bílaleigunnar C yrði skráð á skýrslunnar í stað heimildarnúmers B. 

Hinn 7. mars. 2019 hafnaði Tollstjóri beiðni kæranda um leiðréttingu aðflutningsskýrslna þar sem ekki væri lengur heimilt að færa niðurfellingu yfir á annað heimildarnúmer. 

Niðurstaða 

Með vísan til þess að XVI. bráðabirgðaákvæði laga nr. 29/1993 var fallið úr gildi þegar sótt var um eftirgjöf vörugjalds til handa C þá á kærandi ekki rétt á að fá niðurfellingu vörugjalds vegna þeirra þriggja ökutækja sem til umfjöllunar eru í málinu. 

Staðfest var ákvörðun embættisins um að hafna leiðréttingu þriggja aðflutningsskýrslna. 

Ökutæki málsins hlutu þann 28. desember 2018 niðurfellingu vörugjalds á grundvelli XVI bráðabirgðaákvæðis vegna upplýsinga um að B yrði kaupandi ökutækjanna. Síðar kom í ljós að B keypti ekki ökutækin og því skilyrði vörugjalds ekki lengur til staðar. Af þeim sökum hyggist Tollstjóri endurákvarða vörugjald af ökutækjunum þremur í málinu. 


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R 

I. Kæra 

Með bréfi, dags. 22. mars, hefur Z í umboði A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra, dags. 7. mars 2019, um höfnun leiðréttingar aðflutningsskýrslna vegna innflutnings þriggja bifreiða í júlí 2018. Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun. 

II. Málsmeðferð Kærandi flutti inn þrjár bifreiðar með fastanúmerin W, E og R í júlí árið 2018 á sendingarnúmerunum T, Y og U. Sending með sendingarnúmerið T var tollafgreidd þann 26. júlí 2018 en móttekin til leiðréttingar þann 28. desember sama ár. Hinar tvær sendingarnar voru tollafgreiddar 28. desember 2018 og var heimildarnúmer bílaleigunnar B skráð á tollskýrslurnar. Vörugjald var þar af leiðandi fellt niður um 250.000 kr. á hverja bifreið fyrir sig eða samtals 750.000 kr. skv. þágildandi heimild í ákvæði XVI. til bráðabirgða í lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Allar aðflutningsskýrslurnar þrjár voru svo mótteknar til leiðréttingar hjá embættinu þann 5. mars 2019 þar sem óskað var eftir að heimildarnúmer C yrði skráð á skýrslurnar í stað heimildarnúmers B. 

Athugasemdir voru gerðar í tollakerfinu við hinar leiðréttu skýrslur þann 7. mars 2019 af tollsérfræðingi embættis Tollstjóra, þar sem fram kom að ekki væri lengur heimilt að færa niðurfellingu yfir á annað BL-númer. Í kjölfarið hafði fulltrúi kæranda samband við embættið símleiðis vegna málsins. Óskaði starfsmaður Tollstjóra eftir reikningum sem staðfestu að B hefði verið eigandi bifreiðanna þegar tollafgreiðsla þeirra fór fram og heimildarnúmer bílaleigunnar var notað. Fulltrúi kæranda sagði reikninga ekki hafa verið gefna út við söluna til bílaleigunnar en jafnframt að það væri oft gert eftir á. Síðar sagði fulltrúi kæranda að önnur bílaleiga, C., væri að kaupa bifreiðarnar og því hefði kærandi óskað eftir að fá heimildarnúmerinu breyttu. Með bréfi dags. 26. apríl 2019 var kæranda send tilkynning um tafir á afgreiðslu málsins. 

Þann 29. október 2019 sendi Tollstjóri tölvupóst á umboðsmann kæranda þar sem óskað var eftir að fá sendan kaupsamning milli kæranda A og C á umræddum þremur bifreiðum. Tollstjóri óskaði einnig eftir upplýsingum er vörðuðu ástæður þess að heimildarnúmer B hafi verið notað við tollafgreiðslu þann 28. desember 2018. Engin svör bárust frá umboðsmanni kæranda og þann 11. nóvember sl. ítrekaði embætti Tollstjóra beiðni um frekari upplýsingar í málinu og veitti embættið frest til 20. nóvember til að leggja fram frekari upplýsingar í málinu. Hinn 20. nóvember 2019 sendi umboðsmaður kæranda tölvupóst á embætti Tollstjóra þar sem fram kom að ökutækin hefðu upphaflega verið skráð á lögaðilann B af þeirri ástæðu að hann hafi ætlað að kaupa ökutækin en samningar hafi ekki náðst og úr hafi verið að C hafi keypt ökutækin. Í viðhengi við tölvupóstinn var reikningur vegna kaupa C á ökutækjunum þremur og kom jafnframt fram í tölvupóstinum að reikningur sá standi fyrir kaupsamningi á ökutækjunum. 

III. Meginröksemdir kæranda 

Kærandi telur að ekki standi lagarök gegn þeirri leiðréttingu sem hann óskaði eftir þann 5. mars 2019 og þá hafi enginn rökstuðningur fylgt ákvörðun Tollstjóra frá 7. mars. Ekki hafi verið farið fram á nýja tollafgreiðslu heldur aðeins leiðréttingu á röngum númerum í aðflutningsskýrslum. Ökutækin hefðu ekki verið skráð á eldri númerum og því væri ekki um efnislega breytingu að ræða að öðru leyti en því að rétt heimildarnúmer skyldi skráð. Samkvæmt 6. gr. laga um ökutækjaleigur verður ökutækjaleiga að vera skráður eigandi skráningarskylds ökutæki 

IV. Niðurstöður 

Ágreiningur í máli þessu snýr að ákvörðun Tollstjóra um að hafna ósk um leiðréttingu skv. 116. gr. tollalaga á aðflutningsskýrslum með sendingarnúmerin T, Y og U. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að ef innflytjandi verður þess var innan sex ára talið frá tollafgreiðsludegi vöru að upplýsingar, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru, hafi verið rangar eða ófullnægjandi skuli hann leggja fram beiðni hjá Tollstjóra um viðeigandi leiðréttingar. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar ber innflytjandi sönnunarbyrði fyrir því að rangar og ófullnægjandi upplýsingar hafi verið lagðar til grundvallar tollafgreiðslu vöru ef breyttar forsendur geta leitt til lækkunar álagðra aðflutningsgjalda.

Framkvæmd lækkunar vörugjalds af bílaleigubifreiðum er á þá leið að aðili sækir um slíkt til Tollstjóra sem tekur ákvörðun um veitingu lækkunar. Umsækjandi undirritar yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann skuldbindi sig til að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru með lögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum vegna lækkaðs vörugjalds. Umsækjandi staðfestir einnig vitneskju þess efnis að lögveð sé á viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi. 

Ákvæði um lækkun vörugjalds af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum var sett til bráðabirgða í lög nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með breytingarlögum nr. 125/2015. Í XVI. bráðabirgðaákvæði er fjallað um lækkun vörugjalds af bílaleigubílum og þar kemur fram að lækkun vörugjalds er háð ákveðnum skilyrðum í 15 mánuði eftir nýskráningu bifreiðar og að nýting bifreiðarinnar og starfsemi ökutækjaleigu verði að vera hagað eftir þeim skilyrðum. Í 4. mgr. ákvæðisins er svo heimild til handa ráðherra að setja í reglugerð nánari reglur og skilyrði um þær bifreiðar sem njóta undanþágunnar, svo sem um notkun og búnað ökutækis, svo og ákvæði um endurgreiðslu á mismun vörugjalds skv. 3. gr. laganna annars vegar og 1. mgr. ákvæðisins hins vegar, ef skilyrði eru ekki uppfyllt. Bráðabirgðaákvæðið tók upphaflega einungis til vörugjalds af bifreiðum sem ætlaðar voru til útleigu hjá ökutækjaleigum sem lagt var á árin 2016 og 2017. Með breytingarlögum nr. 96/2017 var bráðabirgðaákvæðinu breytt þannig að ákvæðið tók einnig til ársins 2018 en hámarks niðurfelling vörugjalds að öllum skilyrðum uppfylltum gat þó ekki numið meira en 250 þúsund kr. fyrir árið 2018 en var 500 þúsund krónur fyrir árin 2016 og 2017. 

Í 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum er fjallað um lækkun eða niðurfellingu vörugjalds af bílaleigubifreiðum. Í greininni kemur fram að lækkun vörugjalds til bílaleigu er háð því skilyrði nýting bifreiðarinnar og starfsemi bílaleigu verði hagað á þann hátt sem tilgreint er í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Meðal skilyrða sem þar eru talin upp er að bifreið skal skráð á bílaleigu sem hefur leyfi til reksturs bílaleigu eða á eignaleigu vegna eignaleigusamningsins við bílaleigu sem hefur slíkt leyfi, sbr. 1. tl. ákvæðisins. Í 4. tl. kemur fram að bifreiðin skal eingöngu nýtt til útleigu á viðkomandi bílaleigu. Um brot gegn skilyrðum fyrir lækkun eða niðurfellingu vörugjalds skv. 14. gr. fer eftir 20. gr. reglugerðarinnar. Þar kemur fram að brjóti aðili, sem nýtur lækkunar eða niðurfellingar vörugjalds gegn skilyrðum sem sett eru í ákvæðinu um nýtingu ökutækis o.fl. skal hann greiða ógreitt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar eða niðurfellingar. 

Kærandi A flutti inn umræddar þrjár bifreiðar í júlí 2018 en þann 28. desember 2018 sótti hann um niðurfellingu á vörugjaldi. Tollstjóri lækkaði vörugjald bifreiðanna um 250.000 á hverja bifreið á grundvelli heimildar í XVI. bráðabirgðaákvæði í laga nr. 29/1993 en á umsókn um niðurfellingu vörugjalds var skráð á skýrslurnar heimildarnúmer fyrirtækisins B. 

Rúmlega tveimur mánuðum síðar eða þann 5. mars 2019 barst embættinu beiðni um leiðréttingu á þessum þremur aðflutningsskýrslum þar sem óskað var eftir að heimildarnúmer C yrði skráð á skýrslurnar í stað heimildarnúmers B. 

Eins og að framan greinir átti XVI. bráðabirgðaákvæði upphaflega einungis að ná til vörugjalds sem lagt var á bifreiðar á árin 2016 og 2017 sem ætlaðar voru til útleigu hjá ökutækjaleigum en ákvæði var síðar breytt á þá leið að undanþágan var einnig látin ná til álagningar vörugjalds á slíkar bifreiðar á árinu 2018. Í ákvæðinu er fjölmörg skilyrði talin upp sem uppfylla þarf til að aðili eigi rétt á umræddri niðurfellingu og kemur þar fram að ráðherra geti sett nánari reglur og skilyrði um þær bifreiðar sem njóta umræddrar undanþágu. 

Í máli þessu hefur kærandi kært ákvörðun Tollstjóra um að hafna því að heimildarnúmer C yrði skráð á tollskýrslur umræddra þriggja bifreiða í stað heimildarnúmers B. Í tölvupósti frá umboðsmanni kæranda til embættis Tollstjóra dags. 20. nóvember 2019 kemur fram að ökutækin hafi upphaflega verið skráð á lögaðilann B vegna þess að lögaðili fyrirhugaði að kaupa ökutækin en samningar hafi ekki náðst og úr hafi verið að C, hafi keypt ökutækin. Í viðhengi við tölvupóstinn var reikningur dagsettur 8. mars. 2019 en reikningurinn var vegna kaupa C á ökutækjunum þremur og kom jafnframt fram í svari umboðsmann kæranda að reikningurinn standi fyrir kaupsamningi á ökutækjunum þremur. Eignaskráning umræddra bifreiðar er þannig háttað að X er skráður eigandi og C er aðal umráðamaður. Við nánari skoðun á ökutækjunum þremur kemur í ljós að þau eru öll nýskráð þann 11. mars. 2019. 

Með vísan til umfjöllunar hér að ofan er ljóst að ökutækin voru keypt og nýskráð í mars 2019 eða rúmum tveimur mánuðum eftir að XVI. bráðabirgðaákvæði laga nr. 29/1993 féll úr gildi. Með vísan til þess að XVI. bráðabirgðaákvæði var fallið úr gildi þegar sótt var um eftirgjöf vörugjalds til handa C þá á kærandi ekki rétt á að fá niðurfellingu vörugjalds vegna þeirra þriggja ökutækja sem til umfjöllunar eru í málinu. Tollstjóri staðfestir ákvörðun embættisins dags. 7. mars. 2019 um að hafna leiðréttingu um að færa niðurfellingu B yfir á heimildarnúmer C. 

Tollstjóri hefur í hyggju að endurákvarða vörugjald af ökutækjunum þremur í málinu þar sem ökutækin hlutu niðurfellingu vörugjalds á grundvelli XVI. bráðabirgðaákvæðis vegna upplýsinga um að B yrði kaupandi ökutækjanna. Síðar kom í ljós að B keypti ekki ökutækin og eru því skilyrði fyrir niðurfellingu vörugjalds ekki lengur til staðar. 

ÚRSKURÐARORР

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun leiðréttingar þriggja aðflutningsskýrslna er staðfest. Kæruréttur Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar þessarar, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. 

Virðingarfyllst, 

f.h. Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum