Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 5/2020

Virðisaukaskattur á listaverki

16.6.2020

Reifun 

M kærðir til úrskurðar ákvörðun Tollstjóra um að leggja virðisaukaskatt á innflutning S á listaverki. Kærandi gerði kröfu um endurgreiðslu álagðra gjalda 

Niðurstaða: 

Til þess að listaverk geti fallið undir gjaldfrelsi við innflutning samkvæmt ákvæðum ofangreindra tollalaga og laga um virðisaukaskatt þarf verkið annarsvegar að falla undir áður tilgreind tollskrárnúmer og hins vegar að verkið sé flutt inn af listamanninum sjálfum. 

Umrætt listaverk féll undir tollskrárnúmerið 9703.0000 og uppfyllti því annað skilyrðið. Verkið var hins vegar flutt inn af S, sem skráðum innflytjanda á aðflutningsskýrslu. Verkið er því ekki flutt inn af listamanninum sjálfum og uppfyllir því ekki skilyrði 4. tl. 1. mgr. 36. gr. laga um virðisaukaskatt. Ennfremur var seljandi verksins þriðji aðili, þ.e. umboðsmaður listamannsins, en ekki listamaðurinn sjálfur.


Í dag var hjá embætti Skattsins kveðinn upp svofelldur 

 Ú R S K U R Ð U R 

Kæruefni: Virðisaukaskattur á listaverk 

I. Kæra 

Með bréfi, dags. 10. desember 2019, hefur M lögmaður, kært, f.h. S, til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 15. desember 2019 um álagningu virðisaukaskatts á innflutning kæranda á listaverki með sendingarnúmerið L. Kærandi gerir kröfu um að embættið endurgreiði álögð gjöld. 

II. Málsmeðferð 

Þann 14. október 2019 var send til Tollstjóra aðflutningsskýrsla f.h. kæranda vegna innflutnings á höggmynd frá Frakklandi. Á vörureikningi sem fylgdi skýrslunni kemur fram að kostnaður, með flutningi, nemi samtals 4.207.07 ISK. Flutningsaðili lagði á virðisaukaskatt af innflutningnum með reikningi dags. 15. desember 2019 og nam hann 1.009.699 ISK. Í framhaldi af því óskaði lögmaður kæranda, með bréfi dags. 14. október eftir því að virðisaukaskattur yrði felldur niður og hafði flutningsmiðlun samband við starfsmann Tollstjóra og óskaði eftir leiðbeiningum. Starfsmaður Tollstjóra féllst ekki á beiðnina og var krafan greidd, með fyrirvara um greiðsluskyldu. Kæra barst svo til Tollstjóra með bréfi dags. 10. desember 2019. Málið hefur því miður tafist í höndum embættisins og er beðist innilegrar velvirðingar á þeim töfum. Með lögum nr. 141/2019 var embætti Tollstjóra sameinað embætti Ríkisskattstjóra 2 undir embætti sem ber heitið Skatturinn og tók til starfa 1. janúar 2020. Í málinu var ákvörðun tekin af hálfu þágildandi embættis Tollstjóra, en úrskurður fellur af hálfu embættis Skattsins, enda færðust öll verkefni þessara stofnana undir nýtt embætti. 

III. Meginröksemdir kæranda 

Í kærunni er vísað til upplýsinga frá listmunasala að ekki skuli greiða toll af listmunum, sem fluttir eru til landsins, liggi fyrir að listmunur sé seldur í fyrsta sinn og að fyrir liggi að listamaður sé seljandi, óháð því hvort erlend listmunasala taki þóknun fyrir milligöngu um sölu. Vitað sé, skv. kæranda, að listamaðurinn í málinu hafi verið raunverulegur seljandi, enda hafi milligöngumaður aðeins verið umboðsmaður listamannsins, en annast ekki endursölu listaverka eftir listamanninn. Þessu til staðfestingar hafi verið sendur tölvupóstur til umboðsmanns listamannsins, sem annaðist sölu listmunarins og er það fylgiskjal kæru. Kærandi tekur fram að samkvæmt upplýsingum listmunasala liggi fyrir úrskurðir Tollstjóra sem staðfesta ofangreinda túlkun og verði þeir sendir Tollstjóra telji embættið slíkt nauðsynlegt. Gerð er krafa um endurgreiðslu aðflutningsgjalda. 

IV. Niðurstöður 

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Undantekningar frá meginreglunni er m.a. að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt. Í 2. tl. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1998, segir að undanþegnir skattskyldu séu listamenn, að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000 – 9703.0000, svo og uppboðshaldarar að því er varðar sölu þessarar verka á listmunauppboðum. Í 4. tl. 1. mgr. 36. gr. segir ennfremur að listaverk sem falli undir áðurgreind tollskrárnúmer skuli undanþegin virðisaukaskatti við innflutning, þegar listamaðurinn sjálfur flytur verkin til landsins. Til þess að listaverk geti fallið undir gjaldfrelsi við innflutning samkvæmt ákvæðum ofangreindra laga þarf verkið því annarsvegar að falla undir áður tilgreind tollskrárnúmer og hins vegar að verkið sé flutt inn af listamanninum sjálfum. Umrætt listaverk fellur undir tollskrárnúmerið 9703.0000 og uppfyllir því annað skilyrðið. Verkið er hins vegar flutt inn af S, sem skráðum innflytjanda á aðflutningsskýrslu. Verkið er því ekki flutt inn af listamanninum sjálfum og uppfyllir því ekki skilyrði 4. tl. 1. mgr. 36. gr. 3 laga um virðisaukaskatt. Ennfremur er seljandi verksins þriðji aðili, þ.e. umboðsmaður listamannsins, en ekki listamaðurinn sjálfur.

ÚRSKURÐARORР

Embætti Skattsins úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda á sendingu kæranda, með sendingarnúmerið L, er staðfest. 

Kæruréttur 

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar þessarar, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. 

Virðingarfyllst, 

f.h. Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum