Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 6/2003.

Niðurfellingu á tollum og vörugjaldi vegna búnaðar til sjónvarps-, hljóðvarps- og gagnaflutnings­ starfssemi

27.9.2003

Vísað er til bréfs innflytjanda dags. 16. maí 2003, þar sem að fram kemur að tilefni kæru hans sé ákvörðun tollstjóra dags. 25. mars 2003 um að hafna niðurfellingu aðflutningsgjalda skv. bréfi kæranda frá 24. febrúar 2003, sbr. 100.gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Ákvörðun tollstjóra byggir á því að fyrirtækið sé ekki með hljóðver eða myndver skv. 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi.

Í bréfi frá Í., dags. 24. febrúar 2003, var sótt um niðurfellingu á tollum og vörugjaldi á öllum móttöku-, efnismeðhöndlunar-, útsendingar- og fjarskiptabúnaði vegna fyrirhugaðra stafrænna gagnvirkra útsendinga á sjónvarpsefni og þráðlausu interneti til móttöku gegnum hefðbundin sjónvarpsviðtæki og tölvur. Í bréfinu kom fram að fyrirtækið er fjarskiptafyrirtæki með rekstrar- og tíðnileyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun til reksturs margmiðlunarþjónustu og almenns þráðlauss fjarskiptanets, útgefnu þann 14. ágúst 2001.

Í bréfi kæranda dags. 16. maí 2003, kom fram að Í. hefði þá aflað sér búnaðar og væri að setja upp myndver til framleiðslu á grafísku myndefni og til upptöku og framleiðslu á myndefni. Í myndverinu færi fram framleiðsla á kynningarefni og upplýsingarefni frá Íslandsmiðli sem dreift yrði:

  1. á formi myndbanda og geisladiska til áskrifenda og kaupenda
  2. frá myndefnismiðlara (videoserver). Í gengum stafrænt þráðlaust dreifikerfi til áskrifenda niður á tölvur eða set-top-box móttakenda og sem hluta af þjónustu í grafísku notendaviðmóta í útsendingarkerfi félagsins.

Frekari gögn bárust embættinu þann 10. júlí 2003 frá Í. og þann 15. júlí 2003 frá lögmönnum innflytjanda sem höfðu að geyma frekari skýringar á umsókn hans.

Í 11. tl. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 kemur fram að tollur skuli falla niður af tækjabúnaði og miðlum sem kvikmynda- og myndbandavinnustofur og hljóðver nýta til starfsemi sinnar. Samkvæmt 3. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 719/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi, skal tollstjóri fella niður eða endurgreiða toll og vörugjald, eftir því sem kveðið er á um í reglugerðinni, af aðföngum sem notuð eru við atvinnustarfsemi við kvikmyndagerð, framleiðslu myndbanda og starfsemi hljóðvera. Ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar kveður á um að tollur og vörugjald skuli falla niður eða endurgreidd af tækjabúnaði og miðlum til kvikmyndagerðar myndbandaframleiðslu og annarrar mynd- og hljóðvinnslu.

Í bréfi kæranda dags. 16. maí 2003 var vísað til úrskurðar fjármálaráðuneytisins frá 23. janúar 2003. Í úrskurðinum kom fram að með lögum nr. 104/2000, um álagningu gjalda á vörur, hafi tollalögum verið breytt þannig að sérstaklega var mælt fyrir um niðurfellingu, lækkun eða endurgreiðslu tolls af tækjabúnaði og miðlum sem kvikmynda- og myndbandavinnustofur og hljóðver nýta til starfsemi sinnar, sbr. 10. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 sbr. núgildandi 11. tl. 6. gr. laganna. Í athugasemdum greinargerðar með breytingarlögum kom fram að slík niðurfelling hafi tíðkast um árabil með vísan til ákvæðis 13. tölul. 1. mgr. 6. gr. þágildandi tollalaga. Æskilegt þótti að renna tryggari stoðum undir niðurfellinguna og vegna þess var breytingin lögð til. Auglýsing nr. 617/1989 var felld úr gildi með reglugerð nr. 719/2000. Í nýju reglugerðinni er ekki gerður samsvarandi fyrirvari um að hinar innfluttu vörur skuli ætlaðar til framleiðslu á iðnaðarvörum. Þá eru ákvæði reglugerðarinnar heldur ekki bundin við samkeppnisiðnað samkvæmt sérstakri skilgreiningu. Í ljósi þessa taldi lögmaður Í. að fella bæri niður aðflutningsgjöld af aðföngum Í. skv. áðurgreindri umsókn félagsins frá 24. febrúar 2003.

Í úrskurði fjármálaráðuneytisins frá 23. janúar 2003, er vísað til þess að tilgangur hinnar nýju lagagreinar hafi verið sá að renna stoðum undir þá framkvæmd sem var viðhöfð, sbr. ofangreinda athugasemd í greinargerð. Þess vegna er mat ráðuneytisins að orðið “hljóðvinnsla” í 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar beri að skýra á þann veg með hliðsjón af athugasemdum í greinargerð með lögum nr. 104/2000, að með orðinu sé átt við þá hljóðvinnslu sem fer fram við framleiðslu á áþreifanlegri vöru til endursölu, s.s. myndböndum og geisladiskum.

Embættið telur með vísan til þessa beri að skýra orðið “myndvinnsla” á sambærilegan hátt og orðið “hljóðvinnsla”, þ.e. á þann veg að með orðinu sé átt við þá myndvinnslu sem fer fram við framleiðslu á áþreifanlegri vöru til endursölu s.s. myndböndum og geisladiskum.

Það er mat embættisins, með vísan til framangreinds og upplýsinga sem fram koma um starfsemi, aðvinnslu og aðföng Í. í umsóknargögnum, að um sé að ræða tiltekið form dreifikerfis en ekki eiginlega framleiðslu á áþreifanlegri vöru. Einnig hefur embættið litið til þess við matið, að samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið í samtölum við forsvarsmenn fyrirtækisins, muni framtíðar stefnumótun fyrirtækisins aðallega byggjast á framangreindum b-lið bréfs kæranda dags. 16. maí 2003. Ákvörðun tollstjóra byggir á því að með umsókn kæranda um niðurfellingu aðflutningsgjalda, sé ekki óskað niðurfellingar á neinum búnaði til vinnslu mynda, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi. Því verður ekki fallist á að vörur þær sem tilgreindar eru í umsókn Í. teljist til tækjabúnaðar eða miðils til kvikmyndagerðar, myndbandaframleiðslu og annarrar mynd- og hljóðvinnslu og falla því ekki undir aðföng sem njóta undanþágu gjalda skv. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 719/2000.

Beðist er velvirðingar á því að afgreiðsla erindisins hefur tafist nokkuð.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 16. gr. reglugerðar nr. 719/2000, með síðari breytingum, að ákvörðun tollstjóra um að hafna umsókn kæranda um niðurfellingu aðflutningsgjalda af aðföngum til atvinnustarfsemi frá 25. mars 2003, skuli standa óbreytt.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 719/2000, með síðari breytingum.

Reykjavík 27. september 2003.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum