Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2012

Ákvörðun Endurvinnslunnar hf. um synjun á endurgreiðslu skilagjalds af drykkjarvöru í einnota umbúðum sem seld er úr landi

16.2.2012

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

ÚRSKURÐUR

I. Kæra

Þann 23. desember 2010 barst kæra E ehf. vegna ákvörðunar Endurvinnslunnar hf. um að synja endurgreiðslu skilagjalds af drykkjarvöru í einnota umbúðum sem seld var úr landi á tímabilinu frá júlí til nóvember 2010, samtals að fjárhæð 929.914 kr.

Varðandi kæruheimild vísar kærandi til 2. mgr. 1. gr. laga nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

II. Málsmeðferð

Upphaf málsins má rekja til þess að á tímabilinu frá janúar 2009 til júní 2010 endurgreiddi Endurvinnslan hf. skilagjald til E ehf. vegna sölu á drykkjarvörum í einnota umbúðum um borð í hin ýmsu skip í millilandasiglingum. Þann 30. júní 2010 var E ehf. tilkynnt með tölvupósti að Endurvinnslan hf. myndi framvegis ekki endurgreiða skilagjald af sölu til neinna íslenskra skipa þar sem af hálfu Endurvinnslunnar hf. væri talið að ekki væri um eiginlegan útflutning að ræða. Einnig kom þar fram sú afstaða Endurvinnslunnar hf. að það hefðu verið mistök að meðhöndla skipafélög eins og flugfélög þar sem íslensk skip í millilandasiglingum virtust skila umbúðum aftur hingað til lands til endurvinnslu og fengu með þeim hætti skilagjaldið endurheimt. Með endurgreiðslu til E ehf. væri Endurvinnslan hf. því í raun að tvígreiða skilagjaldið, fyrst með endurgreiðslu þess við sölu drykkjarvöru, í einnota umbúðum, úr landi og aftur við móttöku umbúðanna til endurvinnslu.

E ehf. kærði ofangreinda ákvörðun Endurvinnslunnar hf. með bréfi sem barst Tollstjóra 23. desember 2010. Málið var sett í bið hjá embættinu á meðan á kærandi og Endurvinnslan hf. áttu í viðræðum um úrlausn málsins en þær umleitanir báru ekki árangur. Embætti Tollstjóra vísaði kærunni frá þann 5. júlí 2011 á þeim grundvelli að ekki væri til að dreifa skýrri kæruheimild í þeim lögum og reglugerðum sem reyndi á í málinu. Ákvörðun um að vísa málinu frá var afturkölluð með bréfi dags. 15. júlí 2011 með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af tilvísun úr lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur nr. 52/1989, hvað varðar kærur og framkvæmd gjaldtöku, sbr. 2. mgr. 1. gr., til laga um vörugjald, nr. 97/1987, þar sem fram kemur í 1. og 2. mgr. 11. gr. að kærum skuli beint til Tollstjóra eða ríkisskattstjóra og að úrskurði Tollstjóra verði skotið til ríkistollanefndar, var sú ályktun dregin að það heyrði undir embætti Tollstjóra að úrskurða í kærumálum er lúta að álagningu og innheimtu skilagjalds af innfluttum drykkjarvörum í einnota umbúðum sem innheimta skal við tollafgreiðslu.

Í kjölfarið var Endurvinnslunni hf. veittur frestur til 9. ágúst til að kynna sér fyrirliggjandi gögn og koma að sjónarmiðum er málið kynnu að varða. Frestur Endurvinnslunnar hf. til að kynna sér málið var framlengdur til 23. ágúst 2011 vegna sumarleyfa starfsmanna og bárust sjónarmið Endurvinnslunnar hf. sama dag og frekari reifun þeirra þann 11. október 2011. Frekari reifun á sjónarmiðum og gögn bárust frá E ehf. þann 8. september 2011 og 1. nóvember 2011 og var þá gagnaöflun lokið.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi bendir á að almennt sé skylt að greiða skilagjald vegna einnota drykkjarvöruumbúða, sbr. 1. gr. laga nr. 52/1989 og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 358/2000. Það eigi hins vegar ekki við þegar drykkjarvörur eru seldar úr landi en við þær kringumstæður beri að endurgreiða skilagjaldið, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 358/2000.

Framkvæmdin hafi verið sú að Endurvinnslan hf. endurgreiddi kæranda skilagjald vegna sölu á drykkjarvörum til skipa sem voru á leið úr landi. Þeim greiðslum hefði hins vegar verið hætt af þeirri ástæðu að borið hefði á því að umbúðir frá íslenskum skipum hefðu borist aftur til endurvinnslu hér á landi.

Kærandi leggur áherslu á að skv. skýru orðalagi 2. mgr. 3 gr. reglugerðar nr. 358/2000 skuli ekki leggja skilagjald á drykkjarvörur í einnota umbúðum sem seldar eru úr landi. Öll þau skip sem félagið seldi drykkjarvörur í einnota umbúðum til hefðu verið á leið úr landi og því væri um að ræða sölu úr landi í skilningi 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Kærandi telur, samkvæmt ofangreindu, að ákvörðun Endurvinnslunnar hf. að hætta endurgreiðslu skilagjaldsins hafi verið ólögmæt.

Það sjónarmið Endurvinnslunnar hf. að drykkjarvöruumbúðir sem seldar hafa verið úr landi skili sér til endurvinnslu hér á landi telur kærandi að hafi ekki þýðingu í málinu. Það geti ekki verið á ábyrgð kæranda að óskattlögðum umbúðum sé skilað til endurvinnslu hérlendis, enda hafi kærandi hvorki lagaleg úrræði né forsendur til að hafa slíkt eftirlit með höndum.

Þá telur kærandi að Endurvinnslunni hf. sé ekki heimilt á grundvelli gildandi reglna að taka ákvörðun um eða meta við endurgreiðslu hvaðan umbúðir berast. Endurvinnslunni hf. beri einfaldlega að endurgreiða skilagjald af öllum þeim umbúðum sem henni berast.

Kærandi telur að meginreglur stjórnsýsluréttarins gildi um ákvarðanatöku Endurvinnslunnar hf. þó að félagið sé ekki stjórnvald í eiginlegum skilningi, enda hafi Endurvinnslan hf. verið sett á fót samkvæmt heimild í lögum sem kveði einnig á um einkarétt félagsins til að sinna þeirri starfsemi sem það sinnir. Kærandi telur enn fremur að Endurvinnslan hf. hefði samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar átt að tilkynna kæranda með hæfilegum fyrirvara að ætlunin væri að víkja frá fyrri framkvæmd varðandi endurgreiðslu skilagjalds af einnota drykkjarumbúðum sem seldar væru úr landi.

Kærandi telur einnig að lög standi ekki til þess að heimila Tollstjóra að taka ákvörðun um að fella niður skilagjald af skilaskyldum umbúðum, líkt og Endurvinnslan hf. hafi haldið fram, enda færi slíkt ákvæði í bága við 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Þvert á móti telur kærandi að löggjafinn hafi ákveðið að Endurvinnslan hf. sjái um umsýslan skilagjaldsins, endurgreiðslur o.fl. sbr. lög nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, þar sem tiltekin væri fjárhæð skilagjaldsins, endurgreiðsla þess o.s.frv.

Að lokum telur kærandi það sjónarmið ekki eiga sér stoð í lögum að reglur um útflutning taki einungis til skipa sem eru skráð erlendis og í eigu erlendra aðila en ekki íslenskra aðila. Kærandi bendir á að engar heimildir finnist í lögum nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur eða reglugerðinni til þess að mismuna fyrirtækjum að þessu leyti auk þess sem slík túlkun færi í bága við reglur EES samningsins um fjórfrelsið, ef þær næðu fram að ganga.

IV. Niðurstaða

Mál þetta snýr að lögmæti þeirrar ákvörðunar Endurvinnslunnar hf. að synja E ehf. um endurgreiðslu skilagjalds af drykkjarvöru í einnota umbúðum sem á að hafa verið seld úr landi á tímabilinu frá júlí til nóvember 2010, samtals að fjárhæð 929.914 kr.

Skilagjald á einnota drykkjarvöruumbúðir er lagt á samkvæmt lögum nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur en nánar er fjallað um álagningu þess í reglugerð nr. 368/2000 um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur en reglugerðin er sett skv. stoð í 4. gr. fyrrnefndra laga.

Skilagjald er lagt á drykkjarvörur í einnota umbúðum úr stáli, áli, gleri og plastefni og er það bæði lagt á innfluttar drykkjarvörur og drykkjarvörur sem framleiddar eru eða átappaðar hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 52/1989 og 1. gr. reglugerðar nr. 368/2000. Innheimta skal skilagjald af innfluttum umbúðum við tollafgreiðslu en af drykkjarvörum sem framleiddar eru eða átappaðar hér á landi skal greiða gjaldið samhliða vörugjaldi af innlendum drykkjarvörum. Til viðbótar skilagjaldi skal með sama hætti leggja umsýsluþóknun á hverja umbúðaeiningu sbr. 1. gr. laganna og 2. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar nær gjaldskylda til allra drykkjarvara í einnota umbúðum sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar eða átappaðar hérlendis og eru til sölu hér á landi og flokkast undir tiltekna vöruliði í tollskránni sem er viðauki I. við tollalög nr. 88/2005. Enn fremur, segir í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, að skilagjald leggist ekki á drykkjarvörur í einnota umbúðum sem seldar eru úr landi.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar ber öllum þeim, sem flytja inn til landsins skilagjaldsskyldar vörur hvort sem er til eigin nota eða endursölu, skylda til að greiða skilagjald ásamt umsýsluþóknun af hinum innfluttu vörum við tollafgreiðslu. Vara telst tollafgreidd þegar Tollstjóri hefur heimilað afhendingu hennar innan lands eða til útflutnings skv. 1. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Þeim sem framleiða eða tappa á skilagjaldsskyldar vörur innanlands ber skylda til að greiða skilagjald og umsýsluþóknun af framleiðslu sinni og standa skil á því við ríkissjóð sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 368/2000. Gjaldskyldum aðila, þ.e. framleiðanda eða átöppunaraðila, ber ótilkvöddum að greiða skilagjald og umsýsluþóknun til innheimtumanna ríkissjóðs í síðasta lagi á gjalddaga. Skilagjald og umsýsluþóknun af innlendum drykkjarvörum reiknast við sölu eða afhendingu þeirra frá framleiðanda, og skiptir þá ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Uppgjörstímabil vegna skilagjaldsskyldrar innlendrar framleiðslu eða átöppunar eru tveir mánuðir: janúar og febrúar; mars og apríl o.s.frv. Skilagjaldi og umsýsluþóknun af innlendri framleiðslu, ásamt skilagjaldsskýrslu, eyðublað RSK 10.48, skal skila eigi síðar en á gjalddaga. Skilagjaldsskýrslan skal fyllt út í fjórum eintökum, frumriti skal skila til Ríkisskattstjóra en samritum skal skila til innheimtumanns ríkissjóðs og Endurvinnslunnar hf. Greiðandi heldur einnig eftir eintaki. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess vegna sölu eða afhendingar á því tímabili.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 52/1989 þá eiga lög um vörugjald nr. 97/1987 við um álagningu, innheimtu, viðurlög, kærur, eftirlit og aðra framkvæmd gjaldtöku skilagjalds og umsýslugjalds að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um þessi atriði í fyrrnefndu lögunum. Í 1. mgr. 8. gr. laga um vörugjald segir að Tollstjóri skuli reikna vörugjald af gjaldskyldum vörum sem fluttar eru til landsins en ríkisskattstjóri skuli annast álagningu vörugjalds vegna innlendrar framleiðslu. Frá þessari verkaskiptingu gildir þó sú undantekning að ríkisskattstjóri annast álagningu vörugjalds vegna innflutnings þeirra aðila sem hafa fengið sérstaka skráningu sem heildsalar hjá ríkisskattstjóra, sbr. 5. gr. laga um vörugjald. Í samræmi við ofangreint annast Tollstjóri því álagningu og innheimtu skilagjalds og umsýsluþóknunar, samhliða öðrum aðflutningsgjöldum, við tollafgreiðslu á gjaldskyldum umbúðum fyrir drykkjarvörur sem eru fluttar til landsins. Þeim aðilum sem átappa eða framleiða drykkjarvörur í gjaldskyldum umbúðum innan lands ber sjálfum að leggja skilagjald og umsýslugjald á framleiðsluvörur sínar og skila gjaldinu ótilkvaddir til ríkissjóðs á gjalddaga. Álagning skilagjalds og umsýslugjalds vegna innlendrar framleiðslu er því í höndum gjaldskyldra aðila en innheimtumenn ríkissjóðs, þ.m.t. Tollstjóri, annast innheimtu gjaldsins fyrir hönd ríkissjóðs. Ríkisskattstjóri annast eftirlit með skilagjaldsskyldum aðilum og tryggir að gjaldið sé lagt á í samræmi við lög og reglur og því skilað til ríkissjóðs. Ofangreind verkaskipting leiðir af ákvæðum 2. mgr. 1. gr. laga nr. 52/1989 sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um vörugjald og 4., 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 368/2000.

Framkvæmdin er jafnan sú að skilagjald er ekki lagt á vörur sem fyrirséð er að verði fluttar aftur úr landi og er sú framkvæmd í samræmi við 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 368/2000 þar sem segir að skilagjald leggist ekki á drykkjarvörur í einnota umbúðum sem seldar eru úr landi. Vörur sem þannig er ástatt um eru í flestum tilvikum fluttar á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddan varning en fjallað er um slíkar geymslur í XIII. kafla tollalaga nr. 88/2005 og í III. kafla reglugerðar nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru. Þetta á jafnt við um innfluttar vörur sem og vörur sem eru framleiddar eða átappaðar hér á landi enda er heimilt að flytja innlenda framleiðsluvöru til útflutnings í tollvörugeymslu skv. 3. mgr. 93. gr. tollalaga en Tollstjóri getur einnig heimilað leyfishöfum tollvörugeymslna að geyma þar bæði tollafgreiddan og ótollafgreiddan varning í sama rými, sbr. 94. gr. tollalaga.

Eins og fyrr greinir ber Tollstjóra að innheimta skilagjald og umsýslugjald af skilagjaldsskyldum vörum við tollafgreiðslu en vara telst tollafgreidd þegar Tollstjóri hefur heimilað afhendingu hennar til notkunar innan lands. Ef vara er ekki tollafgreidd við komu hennar til landsins, þ.e. er færð beint í afgreiðslu- eða tollvörugeymslu eins og jafnan er gert, þá ber Tollstjóra ekki að innheimta af henni skilagjald. Slík álagning og innheimta fer ekki fram fyrr en við úttekt á vörum sem ætlaðar eru til notkunar á innanlandsmarkaði.

Ef litið er nánar á feril innfluttrar vöru sem kemur til landsins þá er annars vegar hægt að tollafgreiða vöruna við komu flutningsfars og hins vegar er heimilt að flytja hana yfir á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur. Í afgreiðslugeymslum farmflytjenda og viðurkenndra tollmiðlara er heimilt að geyma ótollafgreidda vöru í allt að sex mánuði frá komu flutningsfars til landsins og í tollvörugeymslum er heimilt að geyma ótollafgreidda vöru án tímatakmarkana, sbr. 70. gr. tollalaga. Vörur sem selja á um borð í far sem er í utanlandsferðum eru vanalega fluttar úr afgreiðslu- eða tollvörugeymslu yfir í tollfrjálsa forðageymslu þar sem heimilt er að geyma vistir, búnað og annan forða fyrir slík för, auk varnings sem ætlaður er til sölu um borð í þeim, sbr. 96. gr. tollalaga. Í tollfrjálsum forðageymslum er einnig heimilt að geyma ótollafgreiddan varning án tímatakmarkana skv. 70. gr. tollalaga. Varan er að lokum flutt úr tollfrjálsri forðageymslu beint um borð í viðkomandi far þar sem varan er innsigluð af tollgæslu sem forði. Þeir aðilar sem selja vistir um borð í för í utanlandsferðum reka að jafnaði slíka tollfrjálsa forðageymslu í samræmi við starfsleyfi sem Tollstjóri hefur veitt og á það einnig við um kæranda sem öðlast hefur leyfi til að starfrækja tollfrjálsa forðageymslu. Þegar ferill vöru er með þeim hætti sem hér hefur verið lýst hefur tollafgreiðsla aldrei farið fram og aðflutningsgjöld þar af leiðandi aldrei verið lögð á viðkomandi vöru. Í slíkum tilvikum er því ekki mögulegt að krefjast endurgreiðslu skilagjalds þar sem álagning skilagjalds hefur aldrei átt sér stað.

Gjaldskyldum aðilum, þ.e. framleiðendum og átöppunaraðilum, ber að innheimta skilagjald og umsýslugjald af skilagjaldsskyldum vörum sem eru framleiddar eða átappaðar hér á landi við sölu eða afhendingu eins og áður hefur verið minnst á. Gjaldskyldir aðilar eiga þó ekki að leggja skilagjald á vöru sem er á leið úr landi skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 368/2000. Ef litið er nánar á feril vara sem eru framleiddar eða átappaðar hér á landi og ætlunin er að selja um borð í far sem er í utanlandsferðum þá myndi vara sem svo er ástatt um að jafnaði vera flutt úr verksmiðju framleiðanda eða úr vöruhóteli, þ.e. tollvörugeymslu, yfir í tollfrjálsa forðageymslu. Varan er svo seld úr tollfrjálsri forðageymslu um borð í viðkomandi far þar sem tollgæsla innsiglar vöruna sem forða. Ef gjaldskyldur aðili hefur staðið rétt að álagningu þá hefur skilagjald aldrei verið lagt á þegar ferill vöru er með þeim hætti sem lýst er hér að ofan og því ekki mögulegt að krefjast endurgreiðslu skilagjalds í slíkum tilfellum.

Ef skilagjald hefur verið lagt á vöru sem selja á úr landi og því verið skilað til ríkissjóð þá ber að endurgreiða það skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 368/2000. Skilyrði til endurgreiðslu geta verið fyrir hendi þegar tollafgreidd vara er seld úr landi eða þegar gjaldskyldir aðilar hafa lagt skilagjald á vöru sem síðar er flutt úr landi. Þær reglur sem á reynir í máli þessu eru ekki skýrar varðandi hvert beri að beina kröfu um endurgreiðslu skilagjalds sem greitt hefur verið af vörum sem seldar eru úr landi en kærandi hefur kosið að beina kröfum sínum um endurgreiðslu til Endurvinnslunnar hf. Kærandi hefur ekki beint neinum kröfum að Tollstjóra varðandi endurgreiðslu þess skilagjalds sem deilt er um í máli þessu.

Hér er nauðsynlegt að líta nánar á það hlutverk sem Endurvinnslunni hf. er falið að lögum. Í 2. gr. laga nr. 52/1989 er kveðið á um að iðnaðarráðherra skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags sem taki að sér umsýslan skilagjaldsins svo og söfnun og endurvinnslu einnota umbúða. Í 2. mgr. 2. gr. sömu laga segir að umrætt félag skuli hafa einkarétt til framangreindrar starfsemi hér á landi. Samkvæmt 3. gr. laganna skal endurgreiða neytendum skilagjald við móttöku á notuðum skilagjaldsskyldum umbúðum. Sömuleiðis skal greiða samsvarandi til einstaklinga, fyrirtækja eða félagasamtaka sem taka að sér að safna slíkum umbúðum til eyðingar eða endurvinnslu. Í 8. gr. reglugerðar nr. 368/2000 er fjallað nánar um innheimtu og endurgreiðslu skilagjalds en skv. ákvæðinu skal greiða skilagjald og umsýsluþóknun í ríkissjóð er síðan ráðstafar umsýsluþóknuninni, skilagjaldinu og virðisaukaskatti af því jafnskjótt og við verður komið til Endurvinnslunnar hf. Endurvinnslan hf. skal síðan sjá um að skilagjaldið verði endurgreitt neytendum ásamt virðisaukaskatti af því við móttöku á notuðum skilagjaldsskyldum umbúðum.

Á grundvelli ofangreindra reglna er ljóst að Endurvinnslunni hf. er aðeins skylt að endurgreiða skilagjald við móttöku á notuðum skilagjaldsskyldum umbúðum en ekki við sölu drykkjarvöru í einnota umbúðum úr landi. Af þeim reglum sem reynir á í málinu má hins vegar draga þá ályktun að það falli undir hlutverk Tollstjóra sem innheimtuaðila og álagningaraðila, hvað varðar innflutta vöru, að endurgreiða skilagjald vegna sölu drykkjarvöru í einnota umbúðum úr landi í þeim tilvikum sem slíkt gjald hefur verið lagt á við innflutning. Í slíku tilfelli þyrftu að liggja fyrir fullnægjandi gögn sem sýnt geta fram á að gjaldið hafi verið lagt á viðkomandi vöru með sannanlegum hætti og því verið skilað til ríkissjóðs. Þessi niðurstaða er einnig í samræmi við það hlutverk Tollstjóra að hafa eftirlit með útflutningi sbr. 3. tl. 1. mgr. 40. gr. tollalaga.

Samkvæmt ofangreindu er sá möguleiki fyrir hendi að fá sannanlega álagt skilagjald endurgreitt hjá Tollstjóra vegna vöru sem á að flytja úr landi. Í slíku tilfelli þyrfti að leggja fram beiðni til Tollstjóra um skoðun vöru sem senda á úr landi, sbr. eyðublað E-14, ásamt afriti af aðflutningsskjölum. Tollgæsla myndi þá skoða viðkomandi vöru í samræmi við beiðni og staðfesta að viðkomandi vara væri á leið úr landi. Eftir að útflutningur hefði átt sér stað væri svo hægt að leggja fram beiðni um endurgreiðslu gjalda, þ.m.t. skilagjalds. Endurgreiðsla skilagjalds, vegna vöru sem flutt hefur verið úr landi, án þess að tollgæslu hafi gefist kostur á að skoða vöruna getur ekki komið til greina nema í þeim tilfellum þar sem staðfesting erlendra tollyfirvalda liggur fyrir þess efnis að viðkomandi vara hafi sannanlega verið flutt til annars lands.

Ef gjaldskyldur aðili, þ.e. framleiðandi eða átöppunaraðili, hefur ranglega lagt skilagjald á vöru sem er flutt í tollfrjálsa forðageymslu eða flutt úr landi þá er eðlilegast að draga þá ályktun að það falli í hlut viðkomandi gjaldskylds aðila að endurgreiða gjaldið. Í slíku tilfelli væri hægt að leggja fram útflutnings- eða innsetningarskýrslu í tollfrjálsa forðageymslu ásamt reikningum þar sem tilgreint er það skilagjald sem ranglega hefur verið lagt á viðkomandi vöru. Í kjölfar endurgreiðslu getur gjaldskyldur aðili leiðrétt stöðuna gagnvart ríkissjóði á skilagjaldsskýrslu sem er skilað til ríkisskattstjóra, innheimtumanns ríkissjóðs og Endurvinnslunnar hf.

Sú kæra sem hér er til meðferðar snýr að meintri ólögmætri ákvörðun Endurvinnslunnar hf. um að synja endurgreiðslu skilagjalds vegna drykkjarvöru í einnota umbúðum sem flutt hefur verið úr landi. Þau álitamál sem lögð eru fyrir Tollstjóra með kærunni snúa að lögmæti ákvörðunar Endurvinnslunnar hf. og mögulegri skyldu Endurvinnslunnar hf. til að endurgreiða það skilagjald sem félagið hefur hafnað að greiða. Eins og áður hefur komið fram þá er Endurvinnslunni hf. aðeins skylt samkvæmt lögum að endurgreiða skilagjald við móttöku á notuðum skilagjaldsskyldum umbúðum en ekki við sölu drykkjarvöru í einnota umbúðum úr landi. Kærandi hefur ekki gert neina kröfu um endurgreiðslu á hendur Tollstjóra vegna þess skilagjalds sem deilt er um í máli þessu. Það heyrir ekki undir valdsvið Tollstjóra að kveða á um skyldu Endurvinnslunnar hf. til að fara út fyrir það hlutverk sem félaginu hefur verið falið samkvæmt lögum.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, að kæru E ehf. vegna ákvörðunar ákvörðunar Endurvinnslunnar hf. um að synja endurgreiðslu skilagjalds á drykkjarvörur í einnota umbúðum sem seldar voru úr landi frá júlí til nóvember 2010, samtals að fjárhæð 929.914 kr., skuli vísað frá.

Kæruréttur

Athygli er vakin á því að heimilt er að skjóta þessum úrskurði Tollstjóra til ríkistollanefndar skv. 2. mgr. 11. gr. laga um vörugjald. Um kærufrest og málsmeðferð fer eftir ákvæðum 118. gr. tollalaga

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum